1343 - Unglingsárin í Hveragerði

ingvarGamla myndin
Hér er Ingvar Christiansen með haka og skólflu. Minnir að við höfum rætt um að þarna ætti hann að þykjast vera gullgrafari.

Hvernig var að vera unglingur í upphafi kaldastríðsáranna?

Eiginlega var það bæði vont og gott. Eða hvorki vont né gott. Það er að renna upp fyrir mér núna að ekki er víst að það séu ákaflega margir sem áttu sín unglingsár á þeim tíma.

Aðstæður allar voru gjörólíkar þeim sem nú þykja sjálfsagðar. Engir farsímar voru, ekkert sjónvarp og engar tölvur.

Vitanlega ólst ég upp í Hveragerði en ekki í Reykjavíkinni. Kannski hefur margt verið öðru vísi þar. Margt er mér minnisstætt úr bíódögum Friðriks Þórs (horfði nefnilega á hana nýlega) en finnst hann þó ýkja sumt. Reyndum auðvitað að svindla okkur í bíó en það gekk illa. Best var bara að kaupa sinn miða og vera ekki með neitt vesen. Man ekki eftir að hasarblöð hafi verið neitt í tísku. Strákar söfnuðu frímerkjum en stelpur servíettum.

Bíó var tvisvar í viku eða svo niðri á hóteli. Það sóttum við vitanlega og reyndum líka eftir því sem við gátum að fá útrás fyrir kynhvatirnar. Vildum gjarnan ríða og þessháttar en um slíkt töluðum við ekki.

Man samt að sem strákur (kannski áður en ég varð unglingur) heyrði ég heilmikið af svæsnum klámsögum. Best var að myrkur væri þegar frá slíku var sagt. Man að fyrstu sögurnar af því tagi heyrði ég eftir að við skriðum inní gömlu súgþurrkunartækin uppi á Reykjum.  

En satt að segja framkvæmdum við aldrei neitt kynferðislegt. Bæði var stjórnunin á okkur mikil og svo vorum við auðvitað dauðfeimin.

En vitanlega létum við okkur dreyma um píkur og þessháttar. Stelpurnar þó frekar um stíf typpi geri ég ráð fyrir.

Auðvitað veit ég ekkert með vissu um þessi mál, en eftir kynnum mínum af unglingum þessa tíma að dæma voru þeir flestir komnir langleiðina að árunum átján eða jafnvel lengra þegar sá áfangi náðist sem fólginn var í nánum kynnum við hitt kynið.

Oftast fylgdi víndrykkja svo drastískum atburðum og trúlega hafa flest okkar verið undir slíkum áhrifum þegar okkur tókst að gera hitt í fyrsta skipti.

Það breytir því þó ekki að þessi mál voru ofarlega í huga okkar flestra að ég hygg.

Þetta er samt niðurstaða sem ég komst að seinna meir því meðan á þessu stóð hélt ég vitanlega að ég væri svona skrýtinn og aðrir hugsuðu ekki nærri svona mikið um þetta.

Í bókum var samlífi kynjanna alls ekki lýst. Í mesta lagi gefið í skyn.

Man vel eftir að það var í blaði sem hét „Sannar sögur" eða eitthvað þess háttar, sem ég sá í fyrsta skipti sagt frá svona löguðu þannig að ekkert fór á milli mála við hvað var átt. Þar var það „að ríða" kallað að njótast en um hvers konar atburð var að ræða fór ekki á milli mála.

Verið var að segja frá einhverju afbroti um borð í skipi ef ég man rétt og þetta ríðirí var nánast aukaatriði í sögunni þó mér þætti það langmerkilegast. Er ekki viss um að ég hafi verið farinn að skilja þessi mál almennilega þegar þetta var.

Heimsmálin þvældust ekkert fyrir okkur krökkunum. Þau voru bara staðreynd  sem við höfðum engan áhuga á. Man að okkur þótti samt merkilegt að Ungverjar væru að koma til Íslands. Útlendingar voru sjaldséðir á þessum tíma og sögur frá stríðinu snerust mest um tungumálaerfiðleika og allskonar misskilning.

Á kvöldin var sjálfsagt að fara út að leika sér. Ekki var sjónvarpið eða tölvuleikirnir að glepja mann. Einstöku sinnum þóttist maður þurfa að læra eitthvað. Mest var það auðvitað til að friða foreldrana. Úti hitti maður marga aðra krakka. Þeir yngri fóru í allskyns leiki en þeir eldri héngu niðri á Hóteli. Mest í litla salnum, forstofunni eða úti á stétt. Stóri salurinn var bara notaður fyrir bíósýningar og þess háttar.

Flest var afar spennandi, nema skólinn. Hann var hundleiðinlegur. Enginn þorði samt að skrópa þar. Bárum mikla virðingur fyrir kennurunum. Það var helst að við leyfðum okkur eitthvað hjá Séra Helga. Hann var svo meinlaus.

Hundleiddist þegar kennararnir voru hálfgrátandi að tala alvarlega við okkur. Man að Þórgunnur hélt að hún kæmist nær okkur með því. Trúðum því auðvitað ekki þegar sagt var að bekkurinn okkar væri sá alversti sem til væri.

Einn af kostunum við að gera það að nokkurs konar lífsstíl að blogga svolítið á hverjum einasta degi er að maður getur sagt frá því sama hvað eftir annað. Held til dæmis að ég hafi áður fjallað um unglingsárin í Hveragerði. Áreiðanlega samt ekki á sama hátt og núna. Kannski er óralangt síðan.

Það er motto hjá mér að skrifa helst ekki neitt um það sem ég er á móti. Það er nefnilega svo margt. Þetta blogg yrði neikvæðara en góðu hófi gegnir ef ég einbeitti mér að því sem ég er andsnúinn. Það er líka svo margt annað sem hægt er að skrifa um.

Til dæmis fór ég í gönguferð í morgun. Tók með mér blað og blýant af einhverjum einkennilegum ástæðum. Þessvegna fannst mér ég þurfa að gera vísur í ferðinni. Það tókst. Hér eru tvær:

Til álits mér er ætíð virt
að engan vil ég rota.
Orðalagið ekki stirt
er mér tamt að nota.

Þetta gæti líklega gengið sem einskonar inngangur að rímnamansöng. Að öðru leyti er vísan of sjálfbirgingsleg og ekki góð.

Þetta á líklega líka að vera einhverskonar speki:

Kynslóðirnar koma og fara.
Kannski er það best
að lífið allt sé leikur bara
og lánið valt sem mest.

Nýlega varð sú breyting á starfsemi Borgarbókasafns Reykjavíkur að lánstími bóka var styttur úr einum mánuði í þrjár vikur. Þessi gjörð stjórnar safnsins er einkum gerð til að styrkja olíufélögin í þrengingum sínum. Þannig lítur það a.m.k. út í mínum augum.

Þetta þarfnast e.t.v. nánari skýringa.

Í allmörg ár hef ég stundað það að fara mánaðarlega bæði í Bókasafn Kópavogs og útibú Borgarbókasafnsins í Gerðubergi. Gerðuberg er allsekki í göngufæri við heimili mitt svo ég verð að keyra þangað alllanga leið. Nú á tímum hækkandi bensinverðs veldur sú ákvörðun safnstjórnarinnar að stytta útlánatímann mjög auknum bensínkostnaði hjá mér svo ég neyðist til að hætta a.m.k. um stundarsakir viðskiptum við fyrirtækið.

IMG 5207Svolítið dapur ísbjörn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæmi minn, notaði gegnir.is með bókasafnið.  Þar geturðu framlengt og framlengt lánið nánast endalaust og pantað bækur af öðrum söfnum.  Eyddu ekki bensíni í að æða á milli bókasafna, farðu bara þar sem styst er.

Já, og takk fyrir síðast.  Alltaf jafn notalegt að koma til Ingibjargar og Harðar.  Bið að heilsa frúnni.

Guðrún Jóhannsdóttir 27.4.2011 kl. 00:16

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er ekki hægt að framlengja endalaust a.m.k. hér um slóðir og mér finnst betra að skoða bækur og handleika áður en ég tek þær að láni. Veit heldur ekki fyrirfram hvað bækurnar heita sem ég hef áhuga á.

Sæmundur Bjarnason, 27.4.2011 kl. 01:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband