1336 - Hugleiðingar um hitt og þetta

bjossiGamla myndin
er af Bjössa bróðir að taka eitt heljarmikið trommusóló. Sem betur fer er myndin hjóðlaus með öllu. 

Nú er ég farinn að muna eftir því æ oftar að linka bloggin mín við fésbókina þegar ég set þau upp. Viðbrögð fæ ég líka stundum þar.

Merkilegt annars hvað mörg blogg eru einkum einskonar fréttaskýringar þar sem sagt er frá skoðunum bloggarans á fréttum dagsins. Sama er að segja um fésbókarræfilinn. Þar hamast menn við að segja álit sitt á því sem efst er á baugi í fréttum. Þrætubókarlistin í öndvegi. Svo hamast aðrir, eins og ég, við gamaldags blogg. Stundum líka við að vera frumlegir og sérkennilegir. Margir eru farnir frá Moggablogginu því það er ekki nógu fínt að vera þar. Fínast er að  hafa eigið lén. En ég nenni því ómögulega.

Óvinsældir moggabloggsins aukast stöðugt. Nú þarf ekki nema svona 60 - 70 vikuinnlit til að komast á 400 listann. Ætli ég sé ekki að verða með þeim elstu og reyndustu hérna. Finnst ég þó vera nýbyrjaður. Hef ekki bloggað annarsstaðar að neinu ráði. Er oft að flækjast á fésbókinni þó ég skilji hana hálfilla. Skoða alltof sjaldan tölvupóstinn minn. Aðallega þá til að eyða allskyns rusli, Nígeríubréfum og þessháttar. Margt er á rússnesku eða spænsku og því er ég fljótur að eyða. Er líka alltaf að fá einhverjar orðsendingar frá fésbókinni. Alvörupóstur flýtur samt stundum með.

Les ekki mörg blogg reglulega. Miðað við það eru heilmargir sem lesa bloggið mitt. Svo ég græði. Ég er samt svo illa gerður að ég kíki fremur á moggablogg en mörg önnur enda er það þægilegt þegar ég er að stússast í mínu.

Á netlendum nútímans sinnir fólk yfirleitt einungis því sem rekið er upp í andlitið á því. Tíminn sem eytt er í allskyns nettengda vitleysu eykst sífellt hjá flestum. Takist að sigrast á netfíkninni taka sjónvarpsfíknin og ræktarfíknin við. Tala nú ekki um matarfíknina. Ræktarfíkn er sennilega nýyrði hjá mér. Getur þýtt að þurfa að fara í ræktina daglega (jafnvel oft á dag) eða vera með óeðlilegan áhuga á ættfræði. Hvorttveggja er hættulegt.

Opinberar geimferðir hófust fyrir fimmtíu árum. Nú er þeim að ljúka. Það er vel. Það getur orðið spennandi að fylgjast með einkaframtakinu á þessu sviði. Einhverjir munu drepast.

Peningar ráða öllu. Elvira einhver var um daginn að boða „Untergang des Abendlandes" í Silfrinu. Hef ekki mikla trú á að mannskepnan breytist stórlega þó sumir hafi hátt. Peningaöflin hafa ögn hægara um sig núna útaf  kreppunni í heiminum. En þau munu ná vopnum sínum aftur og ESB aðstoðar þau við það. Sömuleiðis Bretar og Bandaríkjamenn og aðrir þegar þeir átta sig. Framfarir eru nefnilega háðar peningum og allir vilja framfarir.

Nú er sumardagurinn fyrsti að skella á og ekki verður lengur undan vorinu vikist hvað sem veðurguðirnir segja. Snjórinn sem á okkur dynur þessa dagana er þó oftast fljótur að hverfa en það mætti alveg hlýna svolítið og þorna. Kannski ég sendi kvörtun til veðurstofunnar.

IMG 4045Neðanjarðarlist í Kópavogi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hugleiðingar hitta mig,

hafðu þessa stöku.

Sumardagur dýrkar þig,

djásn, í svefni og vöku.

Hugleiðingar hitta mig,

hafðu þessa vísu.

Netlendurnar nálgast þig,

náunga í krísu.

Hugleiðingar hitta mig,

hafðu þetta kvæði.

Ef ég bara yrki um þig,

eflaust blogg ég græði.

Hilmar Þór Hafsteinsson 20.4.2011 kl. 01:09

2 identicon

Sæmundur, eru það ekki fimmtíu ár í vor hjá þínum árgangi?

Ellismellur 20.4.2011 kl. 05:21

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Hilmar.
Fyrir mér er þetta einn fyrripartur með þremur mismunandi botnum. Þú getur fært línurnar saman ef þú vilt með því að slá á shift og enter samtímis. Shift þó fyrst.

Sæmundur Bjarnason, 20.4.2011 kl. 06:51

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, Ellismellur. Það er rétt. Og mér er minnisstætt hve gamlir og hrumir 50 ára nemendurnir voru þegar þeir komu í heimsókn á mínum Bifrastarárum.

Sæmundur Bjarnason, 20.4.2011 kl. 06:54

5 identicon

Þú ert ekki að ná þessu frekar en öðru í þjóðlífinu þessa dagana - á 50 ára útskriftarafmælinu. Staka verður að vísu og vísa að kvæði.

Í GaGa-friði.

Hilmar Þór Hafsteinsson 20.4.2011 kl. 08:22

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hvaða GaGa friður er þetta?

Sennilega er þetta rétt hjá þér að ég fylgist illa með.

Sæmundur Bjarnason, 20.4.2011 kl. 09:17

7 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þú hefur þá komið inn um haustið þegar ég fór út um vorið. Sennilega er Ellismellur af sama árgangi og þú.

-- Er þetta skætingur eða fyndni hjá HÞH?

Sigurður Hreiðar, 20.4.2011 kl. 13:12

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei, Sigurður. Ári á eftir. HÞH er svolítið undarlega pólitískt þenkjandi en ég legg enga dýpri merkingu í þetta.

Sæmundur Bjarnason, 20.4.2011 kl. 15:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband