1330 - Gömul mynd

tilraun 1Nú er ég kominn með dellu fyrir gömlum myndum og get bara ekkert að því gert. Á myndinni hér fyrir ofan held ég að séu eftirfarandi: Fremri röð frá vinstri, Óskar Bjarnason, Reynir Pálsson, Sæmundur Bjarnason, Benedikt ??son (Bensi á Aðalbóli),  Örn Jóhannsson. Aftari röð frá vinstri: Guðmundur Stefánsson (Muggur), Reynir Gíslason, Kristinn Antonsson, Guðmundur Bjarnason og Guðjón Ingvi Stefánsson.

Þessi mynd er tekin í júní árið 1957. A.m.k. stendur svo í albúminu mínu. Þetta er úrvalslið Hveragerðis á þeim tíma og ég hef enga hugmynd um af hverju við erum bara tíu á myndinni. Á þessum tíma tíðkaðist ekki síður en nú að hafa ellefu menn í knattspyrnuliði. Ég er ekki alveg viss um öll nöfnin en flest þeirra eru áreiðanlega rétt.

Það er svolítil saga á bak við birtingu þessarar myndar. Um daginn var ég staddur í Hveragerði á sýningu sem þar var haldin. Þar voru m.a. sýndar gamlar myndir frá Hveragerði og þar á meðal ein af knattspyrnuliði sem sagt var að væri tekin árið 1962. Líklega er það ekki rétt því Óskar Bjarnason sem er á myndinni (í hlutverki markvarðar) dó að ég held árið 1961.

Lengst til hægri í efri röð á þeirri mynd er maður sem haldið hefur verið fram að sé ég. Mynd þessi er einnig birt í ritinu „HSK 100 ára" og þar er sá maður sagður vera Árni Helgason. Það held ég að geti alveg staðist. Hinsvegar er enginn vafi á því að ég er í hlutverki markvarðarins á meðfylgjandi mynd.

Þessi mynd er líka örugglega tekin á túninu fyrir neðan barnaskólann í Hveragerði og það eru Reykjafjall og Ingólfsfjall sem eru í baksýn.

Svei mér ef bloggin mín eru ekki að lengjast aftur. En þegar maður er búinn að skrifa eitthvað sem maður ætlar að setja í blogg er reginfirra að geyma sér hluta af þeim skrifum. Um að gera að setja allt sem maður á. Alltaf leggst manni eitthvað til. En af hverju er betra að eiga smálager af myndum til að setja með blogginu sínu en að eiga lager af skrifum? Það veit ég ekki. Kannski úreldast myndirnar síður.

Hef birt dálítið af gömlum myndum undanfarið. Kannski ég haldi því áfram.

Hvað hefði Bubbi gert spyr DV. Hann var víst í sínu bloggi að vorkenna Baldri Guðlaugssyni. Sem betur fer spyr enginn mig hvað ég hefði gert í Baldurs sporum. Eitt get ég samt ráðlagt Bubba. Hann þurfti ekkert að blogga um þetta. Nóg annað er til.

IMG 5120Verslun eða Leikskóli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

sá 11-efti tók myndina.. enginn varamaður :)

Óskar Þorkelsson, 14.4.2011 kl. 17:37

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, kannski. Annars er sennilega of langt um liðið til að hægt sé að komast að því.

Sæmundur Bjarnason, 14.4.2011 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband