12.4.2011 | 00:08
1328 - Laugavegurinn
Í tiltektarorgíu niðri í kjallara um daginn rakst ég á eftirfarandi ferðasögu. Þeir sem lesa þessi næstum 20 ára gömlu skrif gera það á eigin ábyrgð, því þetta er óralangt. Einar níu word-blaðsíður með þeim fonti og línubili sem ég er vanastur að nota. Það sem mér finnst hvað einkennilegast þegar ég les þessa gömlu frásögn yfir er að ekki skuli minnst einu orði á saxbautann fræga sem þau Lára og Beggi höfðu með sér. Hann er þó að mörgu leyti eitt það eftirminnilegasta úr ferðinni. Sömuleiðis húskveðjan við Emstruskála og steinninn sem þar fannst. Kannski skrifa ég um þessi efni einhverntíma seinna. Hér hefst semsagt frásögnin:
LAUGAVEGSFERÐ 23. - 26. JÚLÍ 1993.
ÞÁTTTAKENDUR:
Sæmundur Bjarnason
Áslaug Benediktsdóttir
Benedikt Sæmundsson
Kristjana Benediktsdóttir
Þór Benediktsson
Sigurbergur Baldursson
Lára Leósdóttir
Ingibjörg Bjarnadóttir
Kristín Þóra Harðardóttir
Harpa Hreinsdóttir
Guðjón á Tjörn safnaði Reykvíkingunum í ferðinni saman snemma morguns föstudaginn 23. júlí að öðru leyti en því að Kristín Þóra mætti að Tunguseli 9. Nokkur angist greip hópinn þegar í ljós kom að Benni beið ekki fyrir utan Hraunbæ 80 eins og einhverjir gerðu ráð fyrir. En auðvitað kom hann von bráðar og hætt var í snatri við fyrirhugaðar björgunaraðgerðir.
Við öndvegissjoppuna Öndvegi á Skeiðavegamótum svokölluðum var staðnæmst og beðið litla stund eftir Ingibjörgu og Hörpu, en síðan haldið áfram upp Land framhjá Skarði og inná Landmannleið, norðan við Heklu um Dómadal og sem leið lá fram hjá Löðmundi og Frostastaðavatni til Landmannlauga.
Árskömm ein hafði vaxið þar nokkuð svo rútan fór ekki yfir hana og allir fengu tækifæri til að bera pokana sína nokkra tugi metra, en við borðin utan við Ferðafélagsskálann var sest að snæðingi áður en lagt yrði á hraunið.
Að lokum var ekki annað eftir en að taka nokkrar myndir og klára fáeina tómata og svo var lagt á brattann. Síðan var gengið sem leið lá í átt til Hrafntinnuskers. Ég var sá eini sem farið hafði þessa leið áður og framan af var það nokkuð stundað að spyrja mig hvar leiðin mundi ligga. Hvoru megin er farið við þetta fjall?" eða eitthvað í þá átt var kannski spurt en slíkar spurningar hættu fljótt því við þeim fengust engin svör.
Eftir því sem nær dró Hraftinnuskeri jókst snjórinn og síðustu 5 - 6 kílómetrana eða svo var nær alfarið gengið á hjarni. Rétt aðeins stóðu einstaka grjóthólar upp úr með löngu millibili. Þegar stutt var orðið til skersins voru grjóthólarnir eingöngu úr hrafntinnu og á síðasta hólnum voru nokkri steinar brotnir og sumir settu hæfilega stór brot í pokana.
Seinni hluta leiðarinnar tóku Harpa, Kristín, Þór og Benni nokkra forystu og einnhverjir hægðu ferðina nokkuð eftir því sem tíminn leið.
Á þessu bili var það sem Sigurbergur tók að tuldra fyrir munni sér vísupart sem að lokum varð að limru:
Ég fór í ferð frá Laugunum,
frá mér og þreyttur á taugunum.
En kæmist ég leiðina
yfir holtið og heiðina,
þá lenti ég eflaust á haugunum.
En í skálann við Hrafntinnusker komust allir. Lítið var þó um ferðir um nágrennið. Ég fullyrti að ekki tæki að leita að íshellunum vestan við Hrafntinnusker enda hefðu þeir engin verið í fyrra. Einnig var orðið áliðið dags og þreyta nokkur í fólki og var ekki einu sinni gengi á Söðul. Matarlyst var þó í góðu lagi og fyrr en varði var farið að bollaleggja um hvað ætti að skrifa í gestabókina að morgni. Ingibjörg fullyrti að ég ætti að geta gert skammlausa vísu til að setja í bókina og viti menn, fyrr en varði hafði mér dottið í hug eftirfarandi fyrripartur:
Hrafntinnu fá skeri skökku
skundum við nú okkar leið.
Eitthvað þótti sumum einkennilegt að kalla Hrafntinnuskerið skakkt en ég fullyrti að svo yrði að vera rímsins vegna og ekki þyrfti að hafa neinar áhyggjur af sannleiksgildi nafngiftarinnar.
Um þetta leyti eða aðeins seinna vogaði Sigurbergur sér að fara með limruna sem fyrr er getið og var nú tekið til við að botna fyrripartinn um skerið. Fyrr en varði hafði Áslaug komið með botn en Benna þótti nauðsynlegt að bæta við hann og var þetta því ekki lengur ferskeytla þegar yfir lauk heldur ein og hálf slík í einu lagi:
Hrafntinnu frá skeri skökku
skundum við nú okkar leið.
Kuldalegar kindur flökku
komu hér um óttuskeið
klyfjaðar af kóki dökku
kyrjandi sinn galdraseið.
Og var nú greinilega farið að fara lítið fyrir sannleiksgildinu, en samkomulag varð um að ekki bæri að fordæma vísuna alfarið vegna þess, því svo gæti farið að hún reyndist vera spásögn. Svo fór nú ekki en samt var hún látin flakka í gestabókina með þeim orðum að þeir sem læsu hana hefðu gott af að velta fyrir sér merkingu hennar.
Á leiðinni í Hrafntinnusker hafði hópur fólks farið fram úr þeim okkar sem öftust vorum og þegar við ræddum við þau voru þau og einkum þó fyrirliði hópsins drýgindaleg mjög yfir því að þau ætluðu sér alla leið til Álftavatns þá um kvöldið. Börn voru í hópnum og voru þau úrvinda af þreytu og þegar nær dró Hrafntinnuskeri dógst eitt þeirra ásamt konu einn verulega aftur úr og höfðum við nokkrar áhyggjur af þessu ráðslagi.
Eins og fyrr segir voru fjórir úr okkar hóp nokkuð á undan hinum að skálanum og þar á meðal Þór. Þegar fyrirliðið hópsins sem ætlaði til Álftavatns í einum áfanga kom að skálanum sagði Þór við hann í mesta sakleysi: Hæ" en fyrirliðinn frækni lét ergelsi sitt, sem líklega hefur stafað af þreytu barnanna bitna á Þór og sagði hryssingslega: Við tölum nú íslensku hérna." Ég líka", sagði Þór og lét málið niður falla.
Í umræðum um kvöldið lét íslenskukennarinn Harpa þess getið að ágæt rök væru fyrir því að telja ávarpið hæ" góða og gilda íslensku og mætti í því sambandi nefna að í ýmsum þjóðsögum kæmu fyrir setningar eins og Hó,hó og hæ, hæ.
Í viðræðum einhverra úr okkar hóp við Álftavatnshópinn kom fram að þau töldu einhverja í okkar hópi vera full aldraða í svona ferð og þegar nokkrir höfðu farið í fótabað í hvernum í gilinu um kvöldið þótti mér við hæfi að gera þessa vísu:
Fótabað var farið í
frækilegt í hvernum.
Glæsilega gengið í,
af gamalmennum ernum.
Nokkrir þátttakendur og þar á meðal Kiddý höfðu keypt sér svokallaðan energidrykk" í Útilífi í Glæsibæ fyrir ferðina og var nokkuð bollalagt um það að hve miklu gagni slíkur elexsír kæmi.
Morguninn eftir er lagt var af stað frá skálanum við Hrafntinnusker héldu engin bönd Kristjönu og þó hún hefði verið með síðustu mönnum allan fyrsta daginn tók hún nú forystu og var ekki á henni að sjá að þreyta væri henni til trafala. Um þetta þótti mér vert að gera vísu:
Kiddý að sér kveða lætur
komin er á ofsa skrið.
Enda fór hún fyrst á fætur
og fór að drekka energið".
Þetta með að hún hafi verið fyrst á fætur var bara skáldaleyfi og engar rannsóknir eða athuganir liggja þeirri fullyrðingu til grundvallar. En úr því að svo vel hafði gengið með þessa vísu ákveð ég strax að gera aðra um hugsanlega framvindu mála:
Kiddýar er kraftur þrotinn.
Kemst nú ekki lengur hratt.
Hennar er nú hugur brotinn.
Helvíti er þetta bratt."
Öfugt við spásagnarvísuna sem gerð var kvöldið áður í skálanum við Hrafntinnusker rættist þessi að nokkru leyti því Kiddý hélt ekki forystunni til lengdar og tók fjórmenningaklíkan frá deginum áður forystuna aftur. Í þeim hópi voru sem fyrr Þór og Benni og nú ákvað ég að reyna mig enn frekar við gerð spásagnarvísna með því að gera eftirfarandi vísu með hliðsjón af því að þeir höfðu ekki lykil að skálanum við Álftavatn:
Þór og Benni þramma af stað
þykjast engum háðir.
En er þeir koma á endastað
öðru kynnast báðir.
Þessi vísa rættist alls ekki og segir ekki meira af spávísum.
Á þessum kafla leiðarinnar gerði ég eitthvað meira af vísum en þær varðveittust ekki og hafa vafalaust ekki verið merkilegar. Sömuleiðis setti Sigurbergur eitthvað saman og vorum við á tímabili allfljótir að vaða elginn og það svo mjög að þær Áslaug og Ingibjörg gátu ekki orða bundist og gerðu þessa vísu í sameiningu:
Andagiftin alveg hreint
er þá báða að sprengja.
Þeir yrkja bæði ljóst og leynt.
Ljóðum saman dengja.
Við Kjúkling var áð og ég sagði söguna um hvernig hann fékk nafn sitt en sú saga er úr annarri ferð og verður ekki sögð hér.
Þegar að því kom að fara niður fjallshlíðina ofan við Álftavatn var sexmannahópurinn óratíma að komast niður og ekkert var ort á þeirri leið. Kristjana var þó fyrst og hvíldi sig vel og lengi neðan við aðalbrekkuna. Nokkru áður en við komum til Álftavatns kom á móti okkur helmingur fjórmenningaklíkunnar eða þau Þór og Harpa og voru þau okkur til trausts og halds það sem eftir var leiðarinnar til Álftavatns.
Skammt frá Álftavatni minntist Þór þess skyndilega þar sem hann gekk við hlið mér að framundan var mýri. Áslaug og Kiddý voru nokkuð á undan okkur og rétt á undan þeim útlendingar nokkrir. Sem þetta rifjast upp fyrir Þór hleypur hann af stað og hrópar til þeirra Áslaugar og Kiddýar að þær skuli snúa við því það sé mýri framundan og betra sé að krækja fyrir hana. Útlendingarnir heyra þetta einnig og snarhætta við að fara þá leið sem þeir voru á og fylgja Þór.
Skömmu síðar var komið að læk einum sem Þór stökk léttilega yfir og hjálpaði síðan öllum þeim sem að komu yfir með skíðastaf sínum og þar á meðal áðurnefndum útlendingum. Við Kristjana héldum áfram meðan Þór hjálpaði liðinu yfir lækinn og fórum að ræða um það að útlendingarnir héldu áreiðanlega að Þór væri landvörður þarna og kannski væri réttar a að kalla hann landvætt en landvörð svo vasklega sem hann gengi fram. Þá datt mér í hug þessi vísa:
Landvætturinn Lipri-Þór
lagði sig í hættu.
Yfir lækinn fimur fór
og frelsaði þá sem mættu.
Talsverð þreyta var í mannskapnum er til Álftavatns var komið. Endurbætur frá fyrra ári voru þar talsverðar. M.a. hafði verið settur vaskur einn forkunnarfagur úr stáli við skálagaflinn. Galli var að vísu á að ekki kom vatn úr þeim eina krana sem þar var nema öðru hvoru og vegna hvassviðris var oft erfitt að handsama vatnið þegar það gaf sig, en endurbót var þetta engu að síður, tvímælalaust.
Þegar við komum var verið að ljúka við uppsetningu alvöru vatnssalerna sem hugsanlega eru þau fyrstu á miðhálendinu utan Hveravalla og Landmannalauga. Munu þau að líkindum hafa verið vígð af okkur og svo glöggt stóð það að uppsetningu þeirra lyki í tæka tíð til þess að svo yrði að einhverjir þurftu að ganga rösklega í hringi áður en þeir komumst á klósettið. Nöfn þeirra sem vígðu þessi nútímaþægindi á þessum eyðilega stað verða vafalaust skráð í sögubækur framtíðarinnar.
Þór, Sæmundur, Lára og Benni fóru í kvöldgöngu og fundu leitarmannahelli sem sagt er frá í bókinni um Laugaveginn en ekki hafði tekist að finna árið áður. Skötuormarnir umtöluðu sem áttu að vera í vatninu fundust hinsvegar ekki.
Morguninn eftir á leiðinni í Hvanngil var fyrsta vaðæfing ferðarinnar þegar farið var yfir Bratthálskvísl.
Áð var í Hvanngili í góðu veðri og síðan farið sem leið lá að Kaldaklofskvísl sem er brúuð. Örstutt er síðan þaðan að Bláfjallakvísl en hana þarf að vaða. Hún reyndist vera ísköld en að öðru leyti ekki sem verst yfirferðar.
Þá tóku sandarnir við og var það heldur tíðindalítil ganga. Helsta tilbreytingin var við Innri-Emstruá en þar rann hluti árinnar framhjá brúnni og óðu þær Harpa og Kristín þar yfir en þær komu þangað fyrstar ásamt Benna. Hann stökk aftur á móti yfir ána á milli steina og beið síðan í grenndinn og aðstoðaði alla við að stökkva þar yfir en það var nokkurt erfiði og var ekki laust við að búist væri við að þar kynni að fara illa og voru ljósmyndavélar mundaðar óspart.
Vel tókst samt að komast þarna yfir þó einhverjir dýfðu fæti lítillega í vatnið.
Benni lét þess getið er björgunaraðgerðum var lokið að þessi staður skyldi nefndur Bennahlaup í höfuðið á Torfahlaupi sem enginn nennti að skoða kvöldið áður og að ekki mundi þessi atburður síður verðskulda vísnagerð en lækjarsull Lipra Þórs.
Mér tókst að koma saman vísu um þetta efni:
Bennahlaup í Emstruá
í elstu sögnum lifir.
Því Benni sjálfur beið þar hjá
og bjargaði öllum yfir.
Bar nú fátt til tíðinda fyrr en komið var að Emstruskála og þótti mörgum leiðin yfir sandana löng og tilbreytingarlaus. Við Emstruskála tókst mér loks að sýna vald mitt og virðingu því nú var í fyrsta skipti í ferðinni komið að læstum skála og mátti það ekki seinna vera. Opnaði ég nú skálann með lyklinum góða sem ég fékk hjá Ferðafélagi Íslands.
Um kvöldið var Markarfljótsgljúfur skoðað af flestum og þótti tilkomumikið sem vonlegt var.
Morguninn eftir var lagt af stað fremur snemma og bráðlega var farið að ræða um næsta farartálma sem er Fremri-Emstruá. Áslaug mismælti sig svolítið þegar hún ætlaði að spyrja hvort sú á væri ekki örugglega brúuð og spurði eitthvað á þá leið hvort við þyrftum" að fara yfir hana á brú. Þetta varð mér tilefni til eftirfarandi vísu:
Margar hræðir Emstru á
aðra sjáum glaða.
Mælti Áslaug mjög hress þá:
Má ég ekki vaða?"
En þessi á er líklega sú sem allra erfiðast mundi vera að vaða á leiðinni. Áður en brúin kom var venjan að fara upp á jökulinn til að forðasta ána en þó var hún stundum vaðin og þótti það mjög slarksamt.
Aðkoman að brúnni er hrikaleg og gljúfrið djúpt.
Nú fór leiðin í Mörkina að styttast og sást lítið til Hörpu, Kristínar og Benna fyrr en þangað var komið. Þröngá reyndist lítil hindrun en var þó líklega dýpsta áin sem vaðin var á leiðinni. Þór fór á undan þegar yfir Þröngá var komið en hélt í Húsadal í stað Langadals og kom síðastur í áfangastað. Benni lenti líka í ógöngum nokkrum og kom á endanum beint niður klettana fyrir ofan göngubrúna yfir Fossá. (Hér á væntanlega að standa Krossá - athugasemd bloggeiganda.)
Meðan beðið var eftir að lambalærin grilluðust gekk ég á Valahnúk en engir aðrir treystu sér í þá ferð. Úsýni þaðan er mikið og fagurt.
Lauk svo þessari ferð með því að Guðjón á Tjörn keyrði alla heim aftur.
Allnokkrar vísur til viðbótar þeim sem tilgreindar hafa verið urðu til í ferðinni, en mér er yfirleitt ekki mikið kunnugt um tilurð þeirra og tilefni og þess vegna eru þær ekki tilgreindar í textanum.
Hafragrautur hreysti lætur
heilmikið ranka við.
Á honum hef ég miklar mætur,
miklu betri en energið.
Benni.
Á þriðja degi árnar óðum
ofsalega vorum kaldar.
Með Sæma hjálp og ráðum góðum
komust yfir konur valdar.
Lára.
Á söndunum þreytt með sára fætur
siluðumst niður að Emstruskála.
Bílstjórum mörgum gáfum gætur
gjarnan vildum sumum kála.
Lára
Nú skælist ég áfram skítug og lúin.
skálinn að Emstrum hann sést ekki enn.
Þrekið er ekkert og þrótturinn búinn
það vildi ég óska hann birtist nú senn.
Lára.
Yfir stríða ána fór
sem ekki var þó mér að þakka
það var hann stóri og sterki Þór
sem studdi mig upp á réttan bakka.
Lára.
Þessi var gerð eftir á og þótti passa vel við mynd af Áslaugu þar sem engu var líkara en hún væri að biðjast fyrir:
Almáttugur góði guð
gætirðu nokkuð soldið.
Þverra látið þetta puð,
það mun verða goldið.
Benni og Áslaug.
Sæmundur Bjarnason
Hér eru nokkrar myndir úr þessari frægu ferð.
Athugasemdir
Þetta athugasemdakerfi getur gert mann brjálaðan! Ein tilraun enn:
Þetta var ógleymanleg ferð! Ekki hvað síst vegna þess að við vorum tiltölulega laus við aðra túrista - nema málfarslögguna, sem var einhver sjónvarpsþulur ef mig misminnir ekki og hefur líklega haldið að hann væri átórítet í íslenskri tungu fyrir vikið.
Seinni tvö skiptin sem ég tölti Laugaveginn voru ekki nærri eins skemmtileg.
Svo mæli ég með ferðasögu af krókótóttum og kræklóttum stígum Ara Trausta (hluta Reykjavegarins) sem lauk þegar allir voru næstum drukknaðir í hroðalegu slagveðri, nálægt því fjalli sem Stóra-Fíflavalla-fjall heitir. Minnir að við höfum gefist upp í lok þriðja dags enda dagleiðir stuttar en gífurlega seinfarnar því stígurinn var lagður í króka og lykkjur og sennilega einnig í hringi. Mig minnir að eina þurra daginn hafi verið nokkuð ort ... Strengdi þess heit að ganga aldrei þá götu sem Ari Trausti hefði komið nálægt að stika og hef staðið við það síðan!
Harpa Hreinsdóttir 12.4.2011 kl. 01:09
Takk Harpa. Mér fannst líka mjög gaman í þessari ferð og hún lifir í minningunni. Man líka eftir rigningarferðinni á Reykjanesi en veit ekki hvort ég á samskonar lýsingu á henni. Eitthvað af yrkingunum var þó skrifað niður held ég.
Sæmundur Bjarnason, 12.4.2011 kl. 09:49
Fyrst mér þótti gaman að lesa þá er ég viss um að þið ferðafélagarnir hafið gaman af að rifja þetta upp. Og þá rifjast það upp fyrir mér hvað það er notalegt að koma þreyttur og glorsoltinn í náttstað og taka til nestis.
Árni Gunnarsson, 12.4.2011 kl. 20:49
Já, Árni. Það er engu líkt að vera á svona ferðalagi. Ég er einmitt viss um að þeir sem fóru í þessa ferð hafa gaman af að rifja hana upp núna.
Sæmundur Bjarnason, 13.4.2011 kl. 02:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.