3.4.2011 | 02:10
1318 - Klám og fleira
Núorðið er næstum ekkert fyndið nema það sé svolítið klámfengið líka. Í mínu ungdæmi var klám sjaldgæft. Alltof sjaldgæft fannst manni. Man eftir að farið var með Sangen om den röde rubin" eftir Agnar Mykle og Sexus" eftir Henry Miller eins og mannsmorð eða næstum því. Hjónalíf" sá ég líka í fyrsta sinn um þetta leyti og undraðist að hægt væri að skrifa um svona mál eins og ekkert væri eðlilegra. Bækur sem þessar voru faldar á ólíklegustu stöðum.
Þar sem Íslendingasögurnar og það allt var til sá maður að Bósa Saga og Herrauðs í Fornaldarsögum Norðurlanda hafði verið mikið lesin eða skoðuð og fátt annað. Askur Burlefot gat helst ekki sagt BH því það þýddi brjóstahaldari og sú mest krassandi skammstöfun sem ég lærði var að APOTHEK þýddi í rauninni Alle Piger Og Töse Har En Kusse.
Þetta var nú í þann tíð og uppeldið og allt það hafði hugsanlega þau áhrif að minna var riðið en annars hefði verið. Svo þegar maður var svolítið búinn að hrista þetta allt saman af sér þá var alnæmið komið til sögunnar og stórhættulegt að gera allt svona. Nú eru þessi mál aftur að fara í gamla Kaupmannahafnarfarið og ég er svosem feginn því, þó það komi alltof seint fyrir mig. Svona mál eiga það til að taka mikinn tíma frá unglingunum og þá er klámið og framboðið á því ekki aðalatriðið.
Svo haldið sé aðeins áfram með það sem ég skrifaði um Vanadísina í gær man ég að ég fór ekki á Selfoss til að skoða hana. Samt hef ég áreiðanlega trúað þessu eins og nýju neti. Það var bara talsvert mál að komast á Selfoss frá Hveragerði á þessum árum.
Í DV er sagt að tvö aprílgöbb hafi verið í gær. Bæði fóru fram hjá mér því ég les ekki fréttir um fræga kaffið eða fræga fólkið. Og svo les ég yfirleitt bara netútgáfur blaða.
Man samt vel að ég var búsettur í Reykjavík þegar Surtseyjargosið hófst 1963 og þá skrapp ég út austur á Kambabrún til að horfa á þá tilkomumiklu og minnisstæðu sjón. Á heimleiðinni þaðan fór ég framúr mörgum bílum því umferðin var mikil og öll á leiðinni til Reykjavíkur.
Líklega hefur það verið á þessum árum sem framhaldssleikritið Hver er Gregory?" var flutt. Þá var maður bókstaflega límdur við útvarpið því það var svo spennandi.
Hef á tilfinningunni að Sjálfstæðisflokkurinn klofni á næstunni og stærra brotið verði undir stjórn Bjarna Benediktssonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Davíð hlýtur að verða einangraður með sínum öfgamönnum að lokum. Þau Bjarni og Þorgerður eru bæði tiltölulega ung og myndarleg. Þorgerður er áheyrileg þó merkingarlausu pólitísku frasarnir velli óstöðvandi upp úr henni um þessar mundir og árásir hennar á ríkisstjórnina séu ósköp fálmkenndar og marklausar. En þau skötuhjúin þurfa að fara að láta glytta í sinn ESB-boðskap fljótlega og fara með það sem eftir verður af flokknum til Jóhönnu þegar Grímsi fer í fýlu, sem verður áður en langt um líður.
Mér leiðist þetta pólitíska fjas þó það séu ær og kýr sumra. Og fjölmiðlun öll finnst mér að eigi að vera á netinu og ókeypis með öllu. Mogginn er enn að burðast við selja sig en það hlýtur að taka enda. Hann á sennilega eftir að fara á hausinn svona einu sinni eða tvisvar ennþá.
Þó báturinn sé einskonar Sputnik er stiginn það varla.
Athugasemdir
lestrarkvitt :)
Óskar Þorkelsson, 3.4.2011 kl. 20:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.