1306 - Já eða nei - það er spurningin

Baráttan um Icesave-málið harðnar nú mjög í kjölfar allítarlegrar umræðu í Silfri Egils í gær. Ég er ennþá sannfærður já-maður og mun reyna að gera betri grein fyrir þeirri afstöðu minni hér á blogginu. Bæði nú og hugsanlega síðar. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að deilt sé harkalega um þetta mál fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni. Að gera það ekki er viss tegund af flótta.

Þegar atkvæðagreiðslunni 9. apríl er lokið með sigri annars hvors aðilans finnst mér að sættast eigi á þá niðurstöðu sem þar næst og láta deilum um þetta mál lokið. Samstaða er betri en flokkadrættir. Ég kvíði því mest að eftir að þjóðaratkvæðagreiðslunni lýkur verði hvert tækifæri notað til að ýfa upp sárin. Og tækifærin munu bjóðast. Á vissan hátt er þessi atkvæðagreiðsla æfing fyrir þá afdrifaríku þjóðaratkvæðagreiðslu sem fara mun fram um ESB-aðildina. Það má líka segja um þá atkvæðagreiðslu að óþarfi sé að láta hana bíða alltof lengi.

Neyðarlögin og sú atburðarás sem þá fór af stað er grunnurinn að þeirri skoðun minni að semja beri um Icesave-málið. Hefðu stjórnvöld strax við upphaf hrunsins og alla tíð síðan hagað sér allt öðru vísi en þau hafa gert, þá hefði vel komið til greina að ýta Icesave frá sér. Ef tekið er mið af þeirri atburðarás sem þá fór af stað er óhjákvæmilegt að semja nú um þessi mál.

Það er auðvelt fyrir já-sinna að segja að þeir séu leiðir á þessu máli og vilji koma því frá og jafnauðvelt fyrir nei-fólk að segja að stuðningur við frumvarpið sé tilkominn vegna þjónkunar við ráðandi öfl.

Vilhjálmur Þorsteinsson sagði í Silfri Egils í gær að hann væri hræddur um að auðveldara væri að berjast gegn lögunum en með þeim. Þar fannst mér hann fara yfir strikið og sýna yfirlæti. Hann gerir það sem erfitt er en aðrir taka auðveldu leiðina. Það er ekkert auðvelt við að taka afstöðu í þessu máli. Sjálfur hef ég oft skipt um skoðun á því og tölur eru hættar að hafa áhrif á mig.

Á léttari nótum má segja að eins gott sé að vera búinn að koma Icesave frá því bráðum verði allt vitlaust útaf kvótanum. Svo er sjálf ESB atkvæðagreiðslan úti við sjóndeildarhringinn.

Brottför Lilju og Atla úr þingflokki VG hefur líklega engin áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið og jafnvel heldur ekki á þjóðaratkvæðagreiðsluna í næsta mánuði. Ég er samt ennþá þeirrar skoðunar að þingkosningar verði á undan ESB-atkvæðagreiðslu. Meira hef ég ekki að segja um þetta mál að sinni.

IMG 4971Visið strá á villigötum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er gott meðan menn rökræða á yfirvegaðan hátt. Það versta við okkur er hvað við tölum yfir og ofan í hvern annan. Þetta verður alltaf eins og í fuglabjargi.  Við virðum sjaldan skoðanir annarra.

Ólafur Sveinsson 22.3.2011 kl. 00:31

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sammála þér að mestu með þetta Ólafur. Kannski er þetta verra á blogginu (og á netinu í heild) en víða annars staðar. Það er eins og menn hafi ekki áttað sig á því að bloggið er opið öllum og í raun ekki neitt líkt kaffibollaspjalli undir fá augu.

Sæmundur Bjarnason, 22.3.2011 kl. 08:10

3 identicon

Ég hef einnig skipt um skoðun margsinnis.  Hef hlustað á aðra og boðið við því, en ekki komist hjá því að hugleiða málið.  Eftir hugleiðingar, skipt um skoðun þar að lútandi.  Aðal atriðið er, að við lítum ekki málin einungis út frá eigin hagsmunarsjónarmiði.  Og að við breitum ekki til eftir frekju  og yfirlæti, þar sem eigin hagsmunir yfirgnæfa öll önnur rök í málunum.  Þó svo að menn tali ofan í hvern annan, á meðan þeir íhuga málin rökrænt.

Bjarne Örn Hansen 22.3.2011 kl. 11:01

4 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Ég er nei -maður -vegna prinsipps og  því ég vill ekki skapa nein fordæmi. Ég er skíthræddur um að þetta fari á versta veg, ef við samþykkjum ríkisábyrgð.

Ég vill fá umfjöllun og svör um tilboð sem Bretum var boðið og þeir höfnuðu. ÞEIM VAR BOÐIÐ 47 MILLJARÐA Í EINGREIÐSLU OG LANDSBANKANN. 

ÞEIR HÖFNUÐ ÞESSU TILBOÐ.  

Hvað vita þeir um eignir Landsbankans og / eða niðurstöðu í dómsölum gagnvart neyðarlögunum.  Þeir amk. vilja fá ríkisábyrgð hvað sem öllu líðu. 

Það get ég aldrei samþykkt og ég er hissa á þeim sem ætla að samþykkja það fordæmi.

Eggert Guðmundsson, 22.3.2011 kl. 12:18

5 identicon

Aðeins með Já-i verður hægt að hætta umræðum um þetta mál eftir kosningarnar. Ef við fellur þetta súpum við seyðið af því lengi og þá verður ekki hægt að fyrirgefa Nei-fólkinu. Við verðum stöðugt minnt á þennan vanda og heimsku meirihlutans.

ábs 22.3.2011 kl. 12:34

6 Smámynd: Gróa Hreinsdóttir

ÁBS:  Trúir þú því statt og stöðugt að umræðan um þetta ófyrirgefanlega RÁN detti dauð niður við JÁ-ið?

Mín afstaða til málsins er: Einkafyrirtæki er einkaeign eigenda þess  -  bæði hagnaður þess og skuldir!  Þess vegna segi ég NEI þann 9. apríl .... og alla daga eftir það.

Gróa Hreinsdóttir, 22.3.2011 kl. 12:56

7 identicon

Sæmundur Bjarnason síðuhaldari er einstaklega góður maður,og honum hlakkar til að koma skuldum annara á börn sín,barnabörn,og barna-barnabörnin sín. Þessvegna ætlar hann að segja´´já´´af því að hann er svo góður.

Númi 22.3.2011 kl. 14:04

8 Smámynd: Hrannar Baldursson

Hefðu stjórnvöld strax við upphaf hrunsins og alla tíð síðan hagað sér allt öðru vísi en þau hafa gert, þá hefði vel komið til greina að ýta Icesave frá sér.
Var ekki ríkisstjórn bylt úr sessi og ný tekin við í staðin með fögur fyrirheit en minni efni? Hvar hefur fólk haft tækifæri til að tjá sig öðruvísi en með þessum þjóðaratkvæðagreiðslum?
 

Hrannar Baldursson, 22.3.2011 kl. 17:10

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Rétt Hrannar. Þjóðaratkvæðagreiðsla er rétta aðferðin til að skera úr um svona lagað. Neyðarlögin voru hrikaleg mistök.

Sæmundur Bjarnason, 22.3.2011 kl. 17:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband