1254 - Kominn aftur

Einhverjir kunna að hafa saknað mín en eins og í fyrra er ég búinn að vera í löngu bloggfríi. Já, ég fór til Kanaríeyja og eins og fyrri daginn var sú vera á flestan hátt ágæt. Sleppi samt ýtarlegri lýsingu á ferðinni.  

Það er ágæt hugmynd að hvíla sig svolítið á blogginu.Ég er með þeim ósköpum fæddur að vilja umfram allt líta út fyrir að vera gáfaðri en aðrir. Fyrir mörgum áratugum tók ég gáfnapróf og fékk þar ein 120 stig án þess að svindla nokkuð að ráði. Þessu trúði ég auðvitað eins og nýju neti og hef hangið á því eins og hundur á roði allar götur síðan. Vil ekki einu sinni vita meira um þetta próf eða önnur gáfnapróf.

Auðvitað veit ég allt best og er hissa á því að aðrir skuli þykjast vita eitthvað. Þessi hugsunarháttur er hættulegur en því miður alltof algengur. Alþingismenn okkar virðast flestir halda að meirihluti kjósenda sé heldur vitgrannur og auðvelt sé að hafa áhrif á skoðanir þeirra með fagurgala og útútsnúninngum en það er mikill misskilningur.

Samkvæmt fréttum er stjórnarskármálið allt komið í háaloft út af aðgerðum hæstaréttar. Ég ætla ekki að tjá mig að neinu ráði um það mál en trú mín á að stjórnlagaþing verði haldið og að það muni marka djúp spor í þjóðlífið hefur lítið sem ekkert dvínað við þessi síðustu tíðindi.

Nokkrar bækur hef ég lesið nýlega sem hafa haft talsverð áhrif á mig

Fyrst ber að nefna bókina „Billions and billions..." eftir Carl Sagan. Sú bók hefur hvorki meira né minna en breytt áliti mínu á einhverju mesta deilumáli sem mannkynið fæst við um þessar mundir. Þar á að við hnatthlýnunina að sjálfsögðu. Vitað er að gróðurhúsaáhrif auka hættuna á almennri hnatthlýnun. Ég hef þó hingað til verið þeirrar skoðunar að ósannað sé að sú breyting sé að verulegu leyti mannkyninu að kenna. Sú skoðun hefur breyst. Ég hef sannfærst um að skylda okkar er að draga sem mest úr gróðurhúsaáhrifum og einnig ber okkur að draga úr mismun þeim á lífskjörum sem viðgengst í heiminum. Þetta má auðvitað gera á marga vegu en aðgerðarleysið í þessum efnum er hættulegast.

Einnig ber að nefna bókina um Önnu á Hesteyri sem kölluð er: „Ég hef nú sjaldan verið algild". Þá bók hefði eflaust verið hægt að skrifa öðruvísi á ýmsan hátt. Ævi Önnu eru þó gerð ágæt skil og ekki er hægt að komast hjá því að hrífast af þeirri sögu. Anna hefur svo sannarlega farið eigin leiðir og veröldin hefur síst af öllu orðið fátæklegri af að hafa hana.

IMG 4056Ha, ha, ha.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Velkominn aftur Sæmundur. Og þó. Hér versnar ástand dag frá degi. Hér ríkir algert dómstólaræði svo þó sjálfstæðisflokkur sé áhrifalaus á þingi þá bæta dómararnir það upp og gott betur

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.2.2011 kl. 03:26

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þá er lífið farið að færast í eðlilegt horf :) velkominn aftur Sæmi

Óskar Þorkelsson, 2.2.2011 kl. 04:15

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Jóhannes. Er ekki sammála þér um að heimur versnandi fari. Ríkisstjórnin tekur mikið (kannski of mikið) tillit til stjórnarandstöðunnar en lætur það ekki hindra sig í að halda sínu striki og vandamálin eru mikil og að sumu leyti önnur en oftast áður en samt finnst mér þetta nú tosast.

Sæmundur Bjarnason, 2.2.2011 kl. 07:15

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Óskar. Eðlilegt horf er ekkert endilega það besta.  En við skulum halda áfram að ímynda okkur að við breytum einhverju og blogga eins og við getum.

Sæmundur Bjarnason, 2.2.2011 kl. 07:18

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Velkominn aftur, Sæmundur. Vona að vel hafi farið um þig á Hundaeyju hinni meiri. Þykist þó hafa sannfrétt að sólarfar hafi verið hagstæðara á Hvítafjallsey núna í janúar. Hvor tveggja eru hátt skrifaðir vetrardvalarstaðir í minni óskabók. Þó hefur Hvítafjallsey heldur vinninginn þessa stundina.

-- Við breytum sosum engu með því að blogga. En stundum er það gaman og gott að fá dálitla útrás.

Sigurður Hreiðar, 2.2.2011 kl. 11:19

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Sigurður. Ég var einmitt á Tenerife og af svölunum hjá okkur sáum við Gomera. Hef ekki spekúlerað mikið í landafræði svæðisins en óneitanlega fannst okkur við vera nær Egyptalandi en við erum vön þegar við vorum að fylgjast með látunum þar á CNN. Einn daginn fórum við upp að Teide og þar var kalt.

Sæmundur Bjarnason, 2.2.2011 kl. 11:52

7 identicon

Ekki orð um það frekar. Feginn að sjá, að allt er með feldu.

Ólafur Sveinsson 2.2.2011 kl. 15:07

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Ólafur.

Sæmundur Bjarnason, 2.2.2011 kl. 20:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband