1244 - Hugleiðingar um hitt og þetta

Mér hefur alltaf fundist ég standa andlega a.m.k. jafnfætis þeim sem ég hef átt samskipti við. Jafnvel talið sjálfum mér trú um að ég stæði mun framar flestöllum öðrum a.m.k. á einhverju sviði. Samt naut ég ekki þeirrar skólagöngu sem ég hefði kosið og þurft á að halda, svona eftirá séð. Hefði ég á sínum tíma farið í menntaskóla og þaðan í háskóla (að öllum líkindum) hefði líf mitt eflaust orðið allt öðruvísi en það varð. 

Held að sjálfsálitið að þessu leyti hafi hjálpað mér í gegnum lífið. Það hlýtur að vera ömurleg tilfinning að finnast maður standa öðrum að baki. Það að ég skuli ekki hafa orðið einvaldur í heiminum á mínum sokkabandsárum á sér allt saman eðlilegar skýringar. Og ekki meira um það.

Nú þegar ég er orðinn löggilt gamalmenni og þarf ekki lengur fyrir fjölskyldu að sjá er óþarfi að láta fjárhagsáhyggjur hafa mikil áhrif á líf sitt. Þessi ár sem líklega eru eftir eiga bara að vera til skemmtunar. Eiginlega á lífið allt að vera þannig en framundir eða framyfir sextugt eru flestir svo sligaðir af ábyrgðartilfinningu, og það með réttu, að varla er tími til að lifa lífinu.

Bókmenntalega séð er ég jafnan svolítið á eftir öðrum. Núna er ég t.d. að byrja á bókinni „Ljósatími". Hún er eftir Sigurð A. Magnússon og ber undirtitilinn „Einskonar uppgjör". Bók þessi var gefin út árið 2003 og virðist fjalla um ýmislegt. Sigurður A. Magnússon er líka annálaður ritræpukall og ég hef alla tíð haft gaman af að lesa bækur eftir hann. Hreifst t.d. mjög af bókinni sem hann nefndi „Undir kalstjörnu" þó hún væri ansi kjaftasöguleg.

Það getur vel verið að ég minnist oftar á SAM í þessum pistlum mínum. Hann hefur verið svo áberandi í íslensku menningarlífi að hann á það sannarlega skilið. Á margan hátt er hann einstakur. Fáir sem kalla sig rithöfunda hafa tíundað sína verðleika sjálfir jafnoft og jafnýtarlega og hann.

Sá skáldlegi neisti sem margir rithöfundar eru sífellt að rembast við að rækta sem best hefur að mestu látið Sigurð í friði. Þessvegna er svo gaman að lesa hann. Ég þoli líka illa skáldsögur núorðið. Lífið sjálft er langtum mikilvægara. Ef skáldsögur fræða mann um eitthvað mikilvægt getur samt alveg verið þess virði að lesa þær. Annars ekki.

Skákin hefur skipt mig máli í lífinu. Þó ákvað ég að láta hana róa þegar mér fannst hún vera farin að skipta of miklu máli. Hugsanlega hefur hún rænt mig einhverju en kannski hefur hún komið mér að haldi í öðru. Um það er engin leið að fullyrða.

Fótbolta sökkti ég mér líka niður í áður og fyrr. Nú finnst mér hann í flestum tílfellum tímaeyðsla hin mesta. Skil heldur ekki af hverju atvinnuknattspyrnumenn geta illa fallist á að vera kallaðir skemmtikraftar. Það er samt svo sannarlega það sem þeir eru. Þeir bestu þeirra fá líka borgað í samræmi við það.

Kjaftasögur og hjátrú er það sem ég á erfiðast með að þola. Kjaftasögurnar hafa tekið sér bólfestu á netinu. Illmælgi og rógur eru þar auðvitað líka. Það sem áður var tíundað milli sárafárra yfir kaffibollum og ólyginn hafði sagt frá er nú dengt yfir alla hvort sem þeim líkar betur eða verr á fésbók og allskonar samskiptasíðum.

1244 er númerið á þessu bloggi. Árið 1244 var hinn eini og sanni Flóabardagi háður. Frægasta sjóorrusta sem háð hefur verið á Íslandi. P-1244 var númerið á Saabinum mínum þegar ég átti heima á Snæfellsnesi. M-2644 varð það seinna meir.

Sjálfur er ég fæddur árið 1942 en aftur á móti kom Þórður Kakali til landsins árið 1242 til að hefna bræðra sinna og föður sem drepnir höfðu verið í Örlygsstaðabardaga. Las einhverntíma um þetta og held að hann hafi komið að landi að Gásum. Sú atburðarás sem þar hófst endaði svo í Flóabardaganum sjálfum, en Sturlungu ætla ég ekki að endursegja hér.

IMG 3984Vin í eyðimörkinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæmi þú ert eins og kerti í dragsúgi. þegar maður heldur að skrifin séu að lognast útaf í leiðindum þá kemurðu með nýjan vinkil og pistillinn lifnar við Margt get ég samsamað mig við. annað ekki eins og gengur. Ég er til dæmis gagnrýninn og dómharður en þú frjálslyndur og sjálfhælinn. Ef þú hefðir gengið menntaveginn værirðu sennilega eins og Njörður P Njarðvík, besserwisser, bitur og hæðinn. En þetta segi ég í algjörum trúnaði og veit þú lætur það ekki fara lengra

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.12.2010 kl. 01:06

2 identicon

Eins og ég hef ður bent á, þá hentar þetta stutta setningarform Sæmundi, afar vel.
Langar kommusetningar gera stílinn stífan. Sæmundur, láttu bara dæluna ganga.
Við njótum hugrenninganna. Sturla hefði betur drepið Gissur, í Apavatnsför.  Þá fékk hann tækifærið, en vantaði einurð, vegna blíðmælgis Gissurar.

Ólafur Sveinsson 28.12.2010 kl. 02:03

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jóhannes, það getur vel verið að ég sé einmitt bitur og hæðinn í daglegri umgengni en kjósi bara að vera öðruvísi í blogginu. Dómharður er ég líka og tortrygginn en reyni að draga úr dómhörkunni í blogginu.

Sæmundur Bjarnason, 28.12.2010 kl. 09:01

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Ólafur ég reyni einmitt að hafa setningarnar stuttar eftir ráðleggingum Jónasar Kristjánssonar og set frekar punkt en kommu ef ég er í vafa.

Einu sinni stóð ég uppá Búrfelli í Grímsnesi og sýndi bróður mínum leiðina sem þeir Sturla Sighvatsson og Gissur Þorvaldsson fóru áleiðis að Reykjaum eftir Apavatnsförina. Hugrenningar Sturlu gat ég líka tíundað því hann hugleiddi áreiðanlega að láta drepa Gissur. Margt hefði farið öðruvísi hefði hann gert það. Íslendingar hefðu samt líklega lent undir Noregskonungi um svipað leyti og varð.

Sæmundur Bjarnason, 28.12.2010 kl. 09:08

5 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Athugasemdir þínar um fæðingarár, bílnúmer og ártöl tengd atburðum á 13 öld hafa vitaskuld ekkert við hjátrú að gera Sæmi, þar sem þú átt hvað erfiðast með að þola slíkt.

Hér er auðvitað á ferðinni hreinræktuð númerologia þar sem megin talan er sjö. Þversumma 1942=7  og  2644=7 og 1942 mínus 1242=700=7

Þetta er auðvitað hrein tilviljun en kannski efni í góða kjaftasögu :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 28.12.2010 kl. 10:21

6 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Hér er smá heimsk spekileg sólrisu sléttubandavísa í tilefni vetrarsólstöðunnar 22.desembersíðastliðinn

Þungi lífsins mildar menn
margir þessu lýsa
Drungi hugans slokknar senn
sólin tekur rísa

Rísa tekur sólin senn
slokknar hugans drungi
Lýsa þessu margir menn
mildar lífsins þungi

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.12.2010 kl. 10:26

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Alveg rétt hjá þér Svanur Gísli og vandræðalegt mjög. Það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann.

Sæmundur Bjarnason, 28.12.2010 kl. 10:51

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jóhannes, fín vísa sem ég hef ekki heyrt fyrr.

Í anda minnar sjálfhælni vil ég samt koma að sléttubandavísu sem ég gerði fyrir margt löngu:

Sléttubandavísa var
valin hér í bréfið. (svarið)
Gettu hvaða vísu var
vígorð þetta gefið.

Þetta leiddi svo til fleiri vísna en látum það liggja á milli hluta. Reyndi að breyta vísunni með tilliti til núverandi nota en það gekk ekki.

Sæmundur Bjarnason, 28.12.2010 kl. 10:58

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Svanur. Hef verið að hugsa meira um númerólógíuna. Hvernig er best að fá sjö útúr 1244? Annars er það engin tilviljun að ég skuli vera skráður á Moggabloggið sem saemi7. Tóm hjátrú.

Sæmundur Bjarnason, 28.12.2010 kl. 11:37

10 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Stundum í númeralógíu þegar sama talan kemur oft fyrir, er hún ekki talin nema einu sinni. 124 (4) = 7.

Og sé æið í nafninu Sæmundur talið sem einn sérhljóði er útkoman úr nafninu þínu 7.

Tóm tilviljun og hjátrú Sæmi7 :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 28.12.2010 kl. 12:20

11 Smámynd: Hörður Þórðarson

Skemmtilegt blogg, takk.

"Það hlýtur að vera ömurleg tilfinning að finnast maður standa öðrum að baki."

Maður er þar sem manni finnst maður vera.

Hörður Þórðarson, 28.12.2010 kl. 15:58

12 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já Hörður og þessvegna er sjálfsálitið svona mikilvægt. Þó öðrum gangi illa að uppgötva yfirburðina er ekkert við því að gera.

Sæmundur Bjarnason, 28.12.2010 kl. 17:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband