23.11.2010 | 00:03
1209 - Enn eitt klámhöggið
Sagði í gær að fyrirsagnir trekktu mikið í bloggheimum. Það gerir klámið reyndar líka og öll fréttatengdu bloggin eða réttara sagt athugasemdirnar. Einu sinni hafði ég ógnargaman af að klæmast en það er liðin tíð. Kann samt býsnin öll af klámvísum. Gæti eflaust klæmst ennþá ef ég þyrfti.
Nú er ég búinn að koma mér upp allmörgum lesendum (Moggabloggsteljarinn segir heimsóknir vera á annað hundrað eða fleiri flesta daga) og því get ég skrifað eitthvað misgáfulegt og þeir lesa það með þökkum. Þarf bara að gæta þess að hafa það ekki of langt svo þeir verði ekki leiðir og hætti að lesa ruglið úr mér.
Það er erfitt að vera svona alvarlegur alltaf. Því skyldi ég ekki stundum skrifa eitthvað sem er ekkert að marka. Geri það reyndar stundum en allir virðast halda að ég meini það sem ég skrifa. Sem er erfitt. Ef ég skrifa einhverja meiningarleysu er það talið skáldlegt. Er annars skáldlegt að láta eins og fífl?
Það er svolítið erfitt að blogga þessa dagana án þess að minnast á stjórnlagaþingið. Þó hef ég reynt það. Jafnvel minnst á Hrunið sem flestir (nema auðvitað Lára Hanna og Marínó G. Njálsson) eru alveg hættir að nenna að minnast á.
Veit ekki af hverju ég er svona langrækinn eins og ég er. Er ennþá fúll út í þá sem gerðu at í mér þegar ég pissaði á mig á bíóinu sem sýnt var í Hótel Hveragerði. Ætli ég hafi ekki verið svona fjögurra eða fimm ára. Var allavega ekki byrjaður í skóla. Man að ég sat á grænum járnstól og vatnið (hlandið) lak niður um gat á setunni sem kannski var einmitt haft þar með hliðsjón af svona löguðu. Verst að ég man ekkert hverjir það voru sem gerðu at í mér.
Gæsalappafræði. Word-forritinu er fátt ómögulegt. Eitt af því sem pirrar suma Word-notendur eru árans amerísku gæsalappirnar. Á íslensku eru gæsalappir einfaldlega svona a". (Það er að segja 99 og 66, niðri og uppi.) Þetta er mjög auðvelt hjá mér. Þessar gæsalappir fylgja beinlínis Word-forritinu sem ég nota. Ég þarf bara að ýta á gæsalappatakkann fyrir ofan 2 eins og flestir gera og þær íslensku birtast. Eflaust hefur dóttir mín átt eitthvað við forritið. Hvað veit ég?
Nýlega sá ég einhversstaðar (andmenning.com - minnir mig) því lýst hvernig á að koma fyrir íslenskum gæsalöppum á F1 og F2 tökkunum og láta þær taka sér þar bólfestu. Þetta voru ein 17 skref og það talsvert flókin, kann mörgum að finnast. Það er samt ekki áhorfsmál að gera þetta fyrir þá sem eru á móti þeim amerísku og ekki eins heppnir og ég.
Annars held ég að þessar gæsalappir hjá mér aflagist eitthvað þegar ég sendi skrif með þeim á Moggabloggið. (Þar að auki kunna þær að haga sér öðru vísi í öðrum forritum.) Þessvegna nota ég þær eins lítið og ég get. Skrefin 17 eru líkast til betri að þessu leyti. Læt svo umfjöllun um gæsalappafræði lokið í bili, enda er ég ekki sérfræðingur.
Egill Helgason segir að í rauninni sé ekki nokkur vandi að gera byltingu. Allt sem þurfi að gera sé að fara í bankann og taka út alla sína peninga. Auðvitað þurfa allmargir að gera þetta í einu og Egill ber Eric Cantona fyrir þessari speki. Er Egill að hvetja til byltingar? Kannski. Ef nógu margir vilja byltingu verður bylting. Hvort hún byrjar með því að fólk tekur út peningana sína eða lemur með sleifum í potta og pönnur er ekki aðalatriðið heldur samstaðan. Það er hún sem venjulega bilar. Menn eru gjarnan ekki sammála um nærri allt, þó þeir séu sammála um sumt. Þannig er það bara.
Gömul áletrun á steini. Nei, ekki svo gömul!!
Athugasemdir
Því má treysta að hjá þér finnur maður alltaf eitthvað bitastætt þótt þú sért oftast afturvirkur og vaðir úr einu í annað Til dæmis þetta með gæsalappirnar. Ég vissi ekki að þetta væri svona mikið mál.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.11.2010 kl. 08:04
Gæsalappafræði er sérgrein innan setningafræðinnar. Hún er aftur alveg óskyld réttritun sem auðvitað á ekkert skylt við málfræði. Sérfræði hverskonar fer sífellt vaxandi.
Auðvitað veð ég úr einu í annað. Jafnvel í athugasemdum eða svörum við þeim. Þetta með afturvirknina held ég að eigi aðallega við fréttir og fréttatengt efni. Bitastaðan er svo annað mál og undir hverjum og einum komið.
Sæmundur Bjarnason, 23.11.2010 kl. 08:25
Færslur þínar þakka þér
það er mikill léttir
að lesa allt um ekkert hér
og afturvirkar fréttar
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.11.2010 kl. 10:34
Vísnaruglið virðist mér
vera komið aftur.
Án þess kemur eflaust hér
ekki nokkur kjaftur.
Sæmundur Bjarnason, 23.11.2010 kl. 10:41
Þarna hefði nú mátt vera broskarl. Gleymdi því bara.
Sæmundur Bjarnason, 23.11.2010 kl. 10:42
Eins manns klám er annars hallelúja-væl; Ef þú skilur hvað ég er að meina ;)
doctore 23.11.2010 kl. 13:24
Docore, ef flett er upp í orðabókum er sagt að klám sé meðal annar illa unnið verk og klámhögg sé vindhögg eða eitthvað þess háttar.
Sæmundur Bjarnason, 23.11.2010 kl. 13:47
Þegar eitthvað ærir oss
allar götur tæmast
fólk hellist hingað eins og foss
að hlusta á þig klæmast
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.11.2010 kl. 13:57
DoctorE með dylgjur hér
draga vill þig oní draf
kauði ætti að kynna sér
hvað áttir við með pornógraf
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.11.2010 kl. 14:14
Laxdalinn er löngum klár,
létt vill bloggið gylla.
Hann að öllum dregur dár
og doktor nær að spilla.
Sæmundur Bjarnason, 23.11.2010 kl. 15:25
Vísur Jóa voru tvær
sem vil ég reyna að svara.
Flestum mun víst þykja þær
þokkalegar bara.
Sæmundur Bjarnason, 23.11.2010 kl. 15:35
Guðleysingjar gráta nú
og geta ekki sofið hjá
ef æpir þeirra ekta frú
oh god oh god æm komin ná
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.11.2010 kl. 15:35
Ort er hér í erg og gríð,
ekki spöruð snilldin.
Sannast hérna sagan fríð
segja Jói og mildin.
Sæmundur Bjarnason, 23.11.2010 kl. 15:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.