1203 - Þeir drápu hann og myrtu síðan

Já, áður fyrr þýddi það að myrða einhvern að drepa hann og leyna drápinu. Andstæðan við það var auðvitað að lýsa víginu á hendur sér. Vitanlega gat slíkt haft eftirmál af öllu tagi í för með sér. Hefndir tóku oft ekki enda áratugum saman  og fæðardeilur svokallaðar voru algengar meðan ríkisvald á Íslandi var veikt. Það var ekki fyrr en Þjóðveldið leið undir lok að deilur og mannvíg af þessum sökum tóku enda. En því miður tók ýmislegt annað enda líka.

Þrennt er það þó í íslenskri afbrotasögu seinni tíma sem mér finnst ekki hafa fengið þá umfjöllun sem vert væri og alls ekki vera eins kunnugt almenningi og maður gæti haldið. Öll þessi mál ættu skilið að um þau væru skrifaðar bækur og reynt að útskýra hvers vegna þau fóru eins og þau fóru.

Fyrst ber ef til vill að telja drápið á Jóni Gerrekssyni árið 1433. Hvernig í ósköpunum þorðu óbreyttir íslenskir bændur að hópast að Skálholti, taka biskupinn þar, sem jafnframt var hirðstjóri (forsætisráðherra) og sérstakur vinur konungsins, (Eiríks af Pommern) stinga honum í poka og skutla svo út í Brúará og drekkja honum þannig? Og hversvegna var þessa athæfis aldrei hefnt svo orð væri á gerandi?

Frásögnin af Bjarna-Dísu og örlögum hennar er hrikalegri en orð fái lýst. Margir kannast þó lítt við málið. Ég hef tvívegis bloggað nokkuð um það. Fyrst 16. September 2008 og aftur 8. október á þessu ári og ætla ekki að endurtaka það sem þar var sagt. Sú draugatrú sem tröllreið öllu hér á Íslandi í byrjun nítjándu aldar hefur án efa valdið þessu og ef til vill ýmsu fleiru.

Þriðja atriðið sem kemur mér í hug er morð það í grennd við Kolviðarhól sem ég skrifaði stuttlega um fyrir fáeinum dögum. Í eftirmála þeirrar sögu kemur vel í ljós hvernig fordómar og klíkuskapur komu í veg fyrir að dæmigert og hroðalegt morðmál væri nokkru sinni rannsakað í alvöru. Almenningsálitið kom ekki að gagni þar og er nokkur vissa fyrir því að það sé virkara í dag?

Eitt verst varðveitta leyndarmálið á Íslandi í dag er væntanlegt stjórnlagaþing. Hvernig fjölmiðlar flestir koma sér hjá því að minnast á það er ótrúlegt svo ekki sé meira sagt. RUV lætur til dæmis þannig að engu er líkara en að aldrei hafi verið gert ráð fyrir stjórnlagaþingi. Að minnsta kosti er reynt með öllum ráðum að koma því inn hjá sem flestum að um algjöran minniháttar atburð sé að ræða. Einskonar framhaldsþjóðfund sem engu máli skipti.

Síðan eru flestir með öllu hættir að tala um Icesave. Líklega á það mál bara að hverfa. En tilvera okkar Íslendinga sem þjóð meðal þjóða er líka á hraðri leið með að hverfa. Mér finnst sorglegt að sjá hvernig það eina sem við Íslendingar virðumst geta sameinast um er að fyrirgefa útrásarvíkingunum sem allra fyrst og hraða okkur í sama far og við vorum í áður. Höfum við ekkert lært? Er græðgin, sjálfhverfan og þjóðremban það eina sem við kunnum?

Ef ekki koma sæmileg stjórnarskrárdrög útúr stjórnlagaþinginu og alþingi þjóskast við að samþykkja þau eða allt lendir í flækju og rifrildi þar eða á stjórnlagaþinginu er vissulega vafamál hvort betur var af stað farið en heima setið. Tilraunina er samt sjálfsagt að gera fyrst svona langt er komið. Sumir sem áður studdu stjórnlagaþing eru nú hættir að tala um það. Ekki er að sjá að nein samtök ætli að gera nokkuð í sambandi við þingið. Allmörgum virðist alveg sama þó þessi hugmynd koðni niður og hafa einsett sér að stuðla að því að svo verði.

Áhyggjur mínar um þessar mundir snúast einkum um það að allt þetta verði til þess að kjörsókn í stjórnlagaþingskosningunum verði svo lítil að þingið verði hálfómarktækt. Úr því getur þó ræst.

IMG 3736Snjóber.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Eir´kur af Pommern stóð höllum fæti, Íslenskir bændur áttu en vopn á þessum tíma. Íhaldsöflin vita að Steingrímur J. er huglaus og Jóhanna orðin þreytt, og hvorugt þeirra verið í sambandi við alþýðu landsins um áratugaskeið. Sjálfstæðismenn hefur tekist að telja of mörgum trú um það að x-d eigi aldrei að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Íslenskri alþýðu hefur verið innrætt of mikið langlundargeð svo í augum afturhaldsmanna halda þeir þeim sé allt leyfilegt, sá tími er liðinn,þetta eru fjörbrotin. Stjórnlagaþingið verður, hvort 17% eða 70% nýta sér kosningarétt sinn skiptir ekki öllu máli, heldur hitt að halda afturhaldshyskinu frá því.                                                                                        

P.S.

Við sem þjóð einángruðumst ekki fyr en á 18. öldinni sem afleiðingu Stóru bólu og móðuharðinda, þá glataðist svo margt, og þá byrjaði svona fólk að þrýfast sem nú er í sjálfstæðisflokknum, niðurlæging mannlegs anda og máttar.

Álfur 17.11.2010 kl. 01:13

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gaman af svona upprifjunum úr menningararfleyfð kikjunnar hornsteins. Fylgir ekki sögunni hvað ærði menn svona gegn Jóni Gerreksyni? Menn gengu allavegahreint til verks á þessum tíma.  Freistandi að taka upp einhverja svona aðferðarfræði gangvart stjórnvöldum.  Allavega sjá hvort það dugar, þar sem flest annað hefur verið reynt.

Þú mælir spámannlega um Icesave. Líklega ýfist það brjálæði upp aftur innan skamms því Steini vill að við borgum partýið þrátt fyrir að við höfum afþakkað heiðurinn.

Það er annars hægt að margdrepa. Bók sem ekki lýgur segir ítrekað frá slíku. Ísraelsmenn gereyddu Amalkítum með aðstoð almættisins hlutdræga, börnum konum og húsdýrum....þrisvar.

Í plágunum 10 í Egyptalandi eyddi hann öllum húsdýrum...þrisvar og svo má lengi telja.

Ekkert er nýtt undir sólinni og margt skrítið í kýrhausnum...ja seisei...

Jón Steinar Ragnarsson, 17.11.2010 kl. 03:18

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Álfur, varðandi Jón Gerreksson held ég að þú vanmetir þátt Englendinga í málinu og gerir of mikið úr núverandi flokkaskipun í pólitíkinnni. Varðandi einangrunina er ég heldur ekki sammála. ´Hún hófst á fjórtándu öld, jafnvel þeirri þrettándu og ekki fór að birta til fyrr en í lok nítjándu aldar.

Sæmundur Bjarnason, 17.11.2010 kl. 07:16

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jón Steinar, kirkjan er bara einn hluti af andlegu lífi þjóðarinnar. Mæli ekki með að svipaðar aðferðir og notaðar voru á fimmtándu öld verði teknar upp nú. Icesave málinu er alls ekki lokið. Einangrun eða einangrun ekki gæti ráðist af úrslitum þess máls.

Sæmundur Bjarnason, 17.11.2010 kl. 07:20

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Trúin er hluti af andlegu lífi þjóðarinnar áttu væntanlega við? Kirkjan er sjálfmi'uð sofnun eins og allar stofnanir. Þetta er jafngilt við að segja að landbúnaðarráðuneytið sé hluti af afkomu þjóðarinnar. Sjálfsagt. En er það afurðin?

Jón Steinar Ragnarsson, 17.11.2010 kl. 10:06

6 identicon

Þetta var varla morð; Bara verið að senda biskup heim til himna ;)

doctore 17.11.2010 kl. 12:15

7 identicon

Þú vitnar í Færeyingasögu?

Ólafur Sveinsson 17.11.2010 kl. 13:44

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já. Og af hverju settu þeir hann í poka? Þar með skertu þeir ekki hár á höfði hans og ekki drápu þeir hann sem settu hann í poka. Kannski þeir sem hentu pokanum útí Brúará. Þó vissu þeir ekki fyrir víst að hann mundi drepast.

Ha? Færeyingasögu? Ég?

Sæmundur Bjarnason, 17.11.2010 kl. 15:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband