1201 - Kolviðarhóll

Nýlega hafði samband við mig í tölvupósti maður að nafni Bjarni Ásmundsson. Ekki veit ég hvort honum er nein þægð í því að ég segi frá honum hér. Hann sagði mér að afi sinn hefði verið bróðir Kristmanns þess Jónssonar sem myrtur var við Kolviðarhól sunnudaginn í 16. viku sumars árið 1881. 

Kristmann þessi var gullsmíðanemi eða ef til vill útlærður gullsmiður og hafði farið í útreiðartúr þennan dag ásamt fleirum, en var myrtur skammt frá Kolviðarhóli. Frá þessu er sagt í bókinni „Saga Kolviðarhóls" eftir Skúla Helgason sem gefin var út á Selfossi árið 1959. Ég hafði bloggað um þá bók þann 7. mars 2008.

Kristmann Guðmundsson rithöfundur skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins 14. júlí árið 1957 langa og ítarlega grein um mál þetta. Sú grein heitir „Nafni minn vitjar nafns," og er ekki annað að sjá en Kristmann hafi haft í huga að skrifa bók um þetta.

Bjarni Ásmundsson hafði einhvers staðar rekist á klausu úr blogg-grein minni um þetta og hafði þessvegna samband við mig. Mér finnst þetta mál allt hið forvitnilegasta og ekki síst er áhugaverð sú mannfyrirlitning og klíkuskapur sem fram kemur við rannsókn morðsins.

Skúli Helgason getur að nokkru um þá hlið málsins í bók sinni sem áður er getið en flest í frásögn hans virðist vera haft eftir Kristmanni Guðmundssyni rithöfundi. Ekki er samt fráleitt að gera megi rannsókn málsins og eftirmálum öllum betri skil nú þó langt sé um liðið síðan atburðir þessir gerðust.

Í frásögn rithöfundarins kemur fram að Kristmann Jónsson hafi vitjað nafns hjá móður hans þegar hún gekk með hann og að þaðan sé nafn hans komið.

IMG 3731Nóg að éta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ég veit ekki um neitt annað land þar sem það gengur og gerist að dautt fólk (og lifandi) vitjar nafns síns í draumi. Þetta er líklega sér-íslenskur siður en mig grunar að hann sé ekki eins algengur og áður var. Ég og flest systkini mín bera reyndar nöfn sem vitjað var hjá móður minni eða ömmu. - Ætli það hafi verið/sé algengara að nafna var vitjað hjá konum, frekar en körlum?

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.11.2010 kl. 21:56

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já þetta er einkennilegt og á margan hátt athugunarvert. Nafnvenjur Íslendinga eru sérkennilegar og oft erfitt að skýra fyrir útlendingum.

Sæmundur Bjarnason, 15.11.2010 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband