1175 - Kópavogur og Reykjavík

Ekki er fjarri lagi að álykta að ég sé einn af föstu bloggpunktunum í tilveru nokkurra Íslendinga. Ég blogga orðið á hverjum einasta degi og set bloggið mitt oftast upp rétt eftir miðnætti á hverju kvöldi og fæ yfirleitt alltaf um eitt hundrað lesendur eða fleiri eftir því sem teljarinn segir. Nú eftir að ég missti vinnuna eins og margir aðrir fer ég venjulega að sofa fljótlega eftir það.

Vakna samt oft snemma og byrja að blogga. Best af öllu þykir mér nefnilega að blogga á morgnana. Þá er hugsunin skýrust og fátt sem truflar. Það er líka ágætt að láta sem mest af bloggi næsta dags liggja í gerjun yfir daginn og lesa það svo yfir áður en það er sett upp á Moggabloggið. Þetta er orðin mín venja. Oft prjóna ég samt við og breyti og bæti yfir daginn.

Mér finnst ég vera farinn að verða dálítið ófyrirleitinn í þessum bloggskrifum mínum. Enginn er óhultur fyrir mér. Ég birti gamlar hópmyndir og hvað sem er. Þessvegna stórar og miklar myndir og skrifa svo um allan fjárann sem mér dettur í hug. Sem betur fer dettur mér sífellt sjaldnar í hug blessað hrunið en þeim mun meira segi ég frá einskisverðum hlutum. Mest einhverjum fjáranum sem ég hef áhuga á en oftast nær fáir aðrir. Persónuleg mál læt og þó oftast að mestu eiga sig.

Jæja, hvað um það. Meðan einhverjir nenna að lesa þetta held ég árfram að vaða elginn.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að sjálfsögðu að Kópavogur og Reykjavík ættu að vera sama bæjarfélagið. Það er líka dálítið fáránlegt að Seltjarnarnes skuli vera sérstakt bæjarfélag. Nú er Gnarrinn sjálfur búinn að vekja máls á þessu og kannski leiðir umræðan núna til aðgerða. Hún hefur ekki gert það hingað til en oft hefur verið um þetta rætt. Mestöll sameiningarorka fólks hefur farið í að sameina lítil bæjarfélög úti á landi. Það hefur stundum tekist og stundum ekki. Kannski hefur fólk mestan áhuga á því til að forðast að ræða um sjálfsagða hluti.

Bráðum verður hægt að fara að blogga um hverja kjósa skal á væntanlegt stjórnlagaþing og það hyggst ég gera svikalaust. Kastljós sjónvarpsins er farið að beinast að þessum óvenjulega atburði og aðrir fjölmiðlar munu eflaust fylgja í kjölfarið. Ég bíð eftir kynningunni á þessum 500 aðilum sem kæra sig um að vera þarna. Nöfn sumra þeirra kannast ég við en er þó engan veginn búinn að ákveða neitt um hverja ég komi til með að kjósa. Kjósa mun ég þó næstum örugglega. Sennilega eins marga og ég má en það á eftir að koma betur í ljós.

Um helgina var ég í afmælisveislu afastelpunnar Tinnu en hún varð eins árs þann 12. október síðastliðinn. Þetta var mikil og góð veisla og mætti margt um hana skrifa. Sleppi því þó að mestu og geri ráð fyrir að fólkið mitt meti það við mig enda ekki minn stíll að fjölyrða um slíkt. Konan mín átti líka afmæli á laugardaginn var og ekki spillti það.

IMG 3471Skálmað um með villidýrssvip.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Á höfuðborgarsvæðinu væri nærtækast að sameina Reykjavík, Kópavog, Seltjarnarnes og Mosfellsbæ í eitt sveitarfélag og Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes í annað.  Ætli Kjósarhreppur færi ekki best með Hvalfjarðarsveit?  Og svo er spurning með Voga.

Axel Þór Kolbeinsson, 20.10.2010 kl. 09:06

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Axel. Það væri hægt að gera þetta á ýmsa vegu. Nærtækast væri samt, og er búið að vera lengi, að sameina Kópavog og Reykjavík.

Sæmundur Bjarnason, 20.10.2010 kl. 09:41

3 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Er ekki réttast að sameina litlu sveitarfélögin sem mótvægi við Reykjavík, frekar en að setja saman tvö stærstu sveitarfélög landsins, enda er ég ekki viss um að Kópavogsbúar hafi minnsta áhuga á að sameinast Reykjavík. 

Kjartan Sigurgeirsson, 20.10.2010 kl. 14:56

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það finnst mér ekki Kjartan. Það þyrfti ekki allt að vera sameiginlegt. Þar sem sveitarfélögin skiptast á um að valda hvort öðru tjóni væri samt sameiginleg stefna hagstæðari.

Sæmundur Bjarnason, 20.10.2010 kl. 15:44

5 identicon

Sammála Sæma skólabróður. Mann grunar, að það væri talsvert minna til af auðum íbúðum ef sameiginleg stjórn og yfirsýn hefði verið yfir skipulags- og byggingamál á þenslutímanum. Þarna voru sveitarfélögin í undarlegri og hóflausri samkeppni um byggingarnar.

Ellismellur 20.10.2010 kl. 22:16

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Rétt Ellismellur. Sameiginlegt skipulag og stjórn á byggingamálum mundi spara heilmikið. Mörg svið önnur gætu verið sameiginleg auðvitað. Sjálfstæði bæjarhluta yrði þó töluvert. Held að Breiðhyltingar og Grafarvogsbúar gætu vel séð um margt sjálfir og Kópavogsbúar að sjálfsögðu líka.

Sæmundur Bjarnason, 21.10.2010 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband