1151 - Blogg, fésbók, saga o.fl.

Var að enda við að lesa bók sem ég fékk á bókasafninu um daginn. Hún heitir „Stórkostlegt líf herra Rósar og fleiri sögur af ótrúlega venjulegu fólki" og er eftir Ævar Þór Benediktsson. Þessi bók mun vera nýkomin út og er styrkt af Menningarsjóði Borgarbyggðar. Í henni eru allnokkrar (yfir 30) smásögur, allar fremur stuttar enda er bókin ekki nema um 90 blaðsíður. Höfundurinn er ekki nema 25 ára og auk þess að skrifa er hann einnig þekktur sem leikari. 

Sögurnar eru vissulega áhugaverðar og vel skrifaðar. Bókin er fremur fljótlesin og gerir ekki miklar kröfur til lesenda. Semsagt afar auðveld yfirferðar en ekkert lakari fyrir það.

Stundum reyni ég að skrifa eitthvað gáfulegt á fésbókina. Það þýðir samt lítið. Fáir taka eftir því. Kannski er ekkert betur tekið eftir gáfulegum hlutum hér á blogginu en maður getur þó alltaf talið sér trú um að svo sé. Lítið er samt að marka athugasemdirnar. Þær fara aðallega eftir því hvort minnst er á trúmál eða ekki. Svo athugasemdast sumir hjá mér af gömlum vana. Fésbókarskrif fara ekki nógu víða nema maður eigi einhvern helling af fésbókarvinum og það er heilmikil fyrirhöfn að koma sér upp slíku safni. Svo eru flestir fésbóklingar uppteknir við bústörf og leikjarísl sýnist mér.

Spurning spurninganna er: Var allt farið til fjandans þegar ríkisstjórn Geirs Haarde og Samfylkingarinnar tók við eða var hægt að bjarga einhverju.

Þeir sem velta þessum málum fyrir sér segja að það hefði að minnsta kosti mátt flýta bankahruninu og þá hefði skaðinn orðið minni. Þetta er að mestu leyti ósannað mál og byggist eingöngu á getgátum. Eftiráspeki af þessu tagi er ekki mikils virði og hæpið að dæma fólk til refsingar á henni einni saman.

Samt sem áður er ég fylgjandi tillögum Atlanefndarinnar og tel að líkurnar á sýknu séu ekki nógu miklar til að vera á móti þeim.

Að Ingibjörg Sólrún skuli núna hamast eins og sært ljón gegn Atla og nefnd hans er óhjákvæmilegt en hefur vonandi lítil áhrif. Fróðlegt verður að sjá eftir helgi hvernig mál skipast á Alþingi.

Einkennilegt er að heyra þingmenn tala um það í fullri alvöru að lögin um landsdóm séu úrelt og að engu hafandi. Það er ekki vaninn hér á Íslandi að setja slíkt fyrir sig og úreltari lög en þau um landsdóminn eru mörg til og oft dæmt eftir þeim. Fáránlegra en flest annað er þó að hægt skuli að setja menn í fangelsi í langan tíma ef skrifstofustjóra Alþingis finnst það við hæfi og ef menn eru taldir tefja þingstörf á þessu einskisverða Alþingi. Virðing þess er komin hættulega nálægt núllpunkti.

Til hvers er ég eiginlega að þessu sífellda bloggi? Finnst mér þetta sniðugt? Finnst mér þetta skáldlegt og flott? Finnst mér þetta bæta samband mitt við annað fólk? Veit það ekki en get ekki að þessu gert. Afar hentugt að geta losað sig svona fljótt og vel við það sem maður hefur skrifað. Það er að segja það skásta af því. Sumu hendir maður náttúrulega sem fyrst. Mest hefur mér farið fram með árunum í því að greina á milli hverju ég á að henda í ruslið og hverju á Moggabloggið. Hmm, þarna sagði ég sennilega of mikið. Það verður bara að hafa það. Svona er þetta.

Hver skyldi grufla í gömlum bloggum? Ekki ég. Gúgli frændi er alltaf með nefið niðri í þessu og sumir eru alltaf að vísa í gömul blogg eftir sig. Kann ekki að fíla slíkt. Veit að ég endurtek mig óþægilega oft. Segi þó vonandi ekki alveg á sama hátt það sem ég hef áður sagt. Viðvaranir um að lesa ekki eru lítils virði. Annaðhvort nennir maður að lesa eða nennir því ekki.

Sjálfhverfur er ég með afbrigðum. Þykist samt aðallega skrifa um blogg. Auðvitað mest um mitt eigið því ég þekki það best. Örstuttar athugasemdir eru samt stundum um önnur blogg. Þar verður þó að fara varlega. Sumir eru svo viðkvæmir. Kannski ég sé það líka. Sem betur fer skrifa þeir fáu sem á mitt blogg minnast fremur jákvætt um það. Veit ekki hvernig ég brygðist við gagnrýni. Mér hefur samt verið hallmælt og ég tek öll almenn ummæli um blogg til mín. Er samt alveg sama þó fólk líti niður á þessa iðju. Fyrir mér er hún mun betri en ekki neitt.

Nú þarf ég eiginlega að setja saman einhverja sögu eins og í gær. Hún gæti svosem verið framhaldssaga um hundinn herlega sem þar var minnst á. Hann átti hvergi höfði sínu að halla og var allsstaðar fyrir. Að lokum ákvað hann að drekkja sér. Þá stóð hann frammi fyrir því óleysanlega vandamáli að enginn hefur áhuga á dauðum hundum. Íslendingar éta ekki einu sinni hunda!!

En hann var eiginlega alveg farinn í hundana svo hann ákvað að taka málið í sínar eigin hendur. Þá tók annað vandamál við. Hann var nefnilega handalaus eins og flestir hundar. Þetta hefði getað farið illa en þá hugkvæmdist honum að taka til fótanna og það gekk alveg prýðilega.

Á örskömmum tíma komst hann alla leið til tunglsins. Karlinn þar tók allshugar feginn á móti honum en sagði þó: „Hvað er þetta? Ertu ekki með súrefnisgrímu?" Þá tók semsagt eitt vandamálið enn við svo hann hljóp stystu leið til baka.

Þá mundi Snati skyndilega eftir því að róninn hafði sagt honum að fara og ná í flösku fyrir sig. Það var einmitt upphafið að öllum hans óförum. Snati komst að því í snatri að kannski væri bara betra að komast yfir eina brennivínsflösku en að lenda í öllum þeim vandræðum sem hann hafði lent í.

Snaraðist því í hasti til sprúttsala sem hann þekkti dálítið og bað hann um brennivínsflösku. Sprúttsalinn sagði að hún kostaði tíuþúsundkall og af því að Snati átti ekki slíkan ofsapening handbæran þá vatt hann sér samstundis í að útvega hann.

Hann sá nokkra krakka sem óðu í peningum uppí mjóalegg. Fór til þeirra og bauð þeim að sveifla sér í hringi á skottinu fyrir þúsundkall. Krakkarnir þáðu það eins og skot og sneru Snata í tíu hringi og borguðu honum tíuþúsundkall. Þá var Snati orðinn svo ringlaður að hann þurfti að láta þau snúa sér öfugt í tíu hringi. Fyrir það fékk hann annan tíuþúsundkall og keypti bara gos útí brennivínið og sælgæti fyrir það allt og þá er sagan búin því róninn hafði dáið brennivínsdauða yfir þessu öllu saman.

IMG 3140Bíll í ógöngum. Og búinn að týna númerinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Ég les alltaf bloggið þitt Sæmundur en set sjaldan athugasemd.  Ég hef gaman af blogginu þínu, vangaveltum þínum um hitt og þetta. Held þú ættir að gefa út bók þú hefur hæfileikana til þess.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 26.9.2010 kl. 00:54

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Sólveig Þóra. Ég les þetta blogg líka alltaf og finnst það mjög vel skrifað!!

Sæmundur Bjarnason, 26.9.2010 kl. 08:14

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ég þurfti 2 kaffibolla í þennan lestur.. þetta er orðið sæmilega langt blogg Sæmi ;)

Óskar Þorkelsson, 26.9.2010 kl. 09:30

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Óskar, reyni að hemja mig betur næst.

Sæmundur Bjarnason, 26.9.2010 kl. 10:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband