1148 - Útvarp Saga

Mér finnst Útvarp Saga hafa sannað sig á ýmsan hátt sem vettvangur hins talaða orðs. Hinn tónlistarlegi jafnaðarvæll sem einkennir flestar aðrar útvarpsstöðvar hér á landi er augljóslega bara til notkunar þegar fólk vill ekki hugsa eða nennir því ekki. 

Auðvitað er ég afskaplega ósáttur við umfjöllun Útvarps Sögu um mörg málefni. Það eru örugglega margir. Samt er það svo að maður hlustar á þessi ósköp og borgar ekki krónu fyrir það. Þeir sem hlusta á tónlistarvælinn borga auðvitað ekki heldur neitt en mér finnst auglýsendur hafa uppgötvað Útvarp Sögu nú í seinni tíð. Kannski er fjárhagslegur grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstur stöðvarinnar að skapast.

Arnþrúður hefur unnið þrekvirki í að koma stöðinni fyrir vind. Er hún annars ekki búin að því? Skaði ef Sigurður G. Tómasson er hættur. Hann er margfróður mjög og innhringiþættirnir hjá honum ágætir. Guðmundur Ólafsson hagfræðingur skemmir hann svolítið og saman eru þeir eitt versta Gróu-á-Leiti-par sem hægt er að hugsa sér.

Arnþrúður virðist helst ekki borga fólki fyrir að koma fram og margir virðast hafa hrakist í burtu af stöðinni. Það er samt allt í lagi. Fólk verður bara að passa sig á henni.

Mjög margir hrakyrða allt sem frá Sögu kemur. Telja hana vera kverúlantastöð og aldrei beri þar á ánægju með neitt. Fara jafnvel í stríð við kellingarnar þar en þær kunna vel að svara fyrir sig. Svo finnst sumum útvarpsstöðin ekki vera nógu pólitísk eða of pólitísk. Þegar til kosninga kemur er ómetanlegt að hafa yfir að ráða tæki sem Útvarpi Sögu og það er ég viss um að Arnþrúður kann að nota sér.

Ínn-ið hans Yngva Hrafns er á svolítið annarri bylgjulengd og ekki er víst að myndirnar, þó ódýrar séu, bæti miklu við umfjöllunina. Þar er pólitíkin (pólitík Yngva Hrafns) í öndvegi og kemur kannski í veg fyrir vinsældir.

Þegar að næstu kosningum kemur (líklega vorið 2013) verða þetta stöðvarnar sem blakta. Sumir munu að vísu halda sig við RUV-ið en það verður ekki á þeim vettvangi sem hlutirnir gerast.

IMG 3237Tætingslegir sveppir og svolítið ofskynjunarlegir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gorkúla á fæti er gott nafn á þessa mynd.

Gudmundur Bjarnason 23.9.2010 kl. 02:49

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Talandi um Útvarp Sögu og aðdáendurna, þá datt mér í hug ;

Þótt Eiður hann elski að hata þær
og hrokkinn sé af límingunum
hann aldrei þvegin orðin fær
frá Arnþrúði og kerlingunum

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.9.2010 kl. 04:43

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta var ágætur pistill, Sæmi.

Og alltaf hægt að spinna við í alvöruleysi, ekki satt?

Hann flæktist í háleitum hugsunum

og hélt sér víst lengstum í buxunum.

Hann hlustar án afláts með eyranu

öðru og telur sig heyra nú

gáskann í fjörugum gellunum,

gránar þá hraðar í sellunum

æstur, því aðeins ef hann mætti ...

en eilífum haldinn er vanmætti.

Hann þráir að stjórna stöðinni,

en stendur þar aftast í röðinni,

hann Eiður sem elskar að hata'hana

Arnþrúði – vegna fatanna!

Jón Valur Jensson, 23.9.2010 kl. 07:40

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ertu viss um að það verði ekki kosningar strax árið 2011, Sæmundur? -- Það er varla ráðrúm til að hafa þær fyrir áramót.

Sigurður Hreiðar, 23.9.2010 kl. 21:48

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sigurður. Ég held að núverandi læti sprengi ekki ríkisstjórnina heldur ESB-málið þegar það verður komið heldur lengra. Ég meinti nú eiginlega 2012 en ekki 2013 eins og stendur víst í bloggpistlinum.

Guðmundur, Jóhannes og Jón Valur. Takk fyrir ykkar komment og gaman að fá þau í bundnu máli.

Sæmundur Bjarnason, 23.9.2010 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband