1125 - Vort daglega blogg

Dagleg blogg verða með tímanum eins og hver önnur óværa. Manni finnst að maður þurfi endilega að blogga en nennir því samt ekki. Að lesa daglega blogg hjá þeim sem ekkert hafa að segja er þó enn undarlegra. (Nú hætta allir að lesa bloggið mitt - stundum ratast þó kjöftugum satt á munn.)

Oft er ég í besta bloggstuðinu rétt eftir að ég hef sent upp mitt daglega blogg. Þá set ég stundum orð á blað (eða í tölvuskjal) sem ég lít svo betur yfir þegar tími er til kominn til að blogga næst. Þá sé ég oft (en ekki alltaf) hve léleg þessi orð eru og finn einhver skárri eða hendi þeim bara. Þetta er aðal-leyndarmálið við mína bloggun. Með því að gera þetta og lesa bloggin sæmilega yfir verður málfar á þeim skárra en hjá þeim sem alltaf eru að flýta sér og senda skrifuð orð jafnan strax út í eterinnn, eins og sumir (t.d. blaðamenn á netmiðlum) gera jafnan.

Ég miðla ekki fréttum með þessu, það veit ég. En eru blogg til þess? Mér finnst það ekki. Blogg eru næsti bær við skvaldrið á fésbókinni. Jafnast allsekki á við vandaðar og ritrýndar blaðagreinar en ættu yfirleitt að vera svolítið skárri en fésbókarspjallið.

Reyni að blogga sem minnst um mínar eigin upplifanir. Endurminningar er svosem gaman að skrifa en þær verða fljótt uppurnar og er satt að segja tímafrekt að gera almennileg skil. Þeim tíma sem ég eyði í bloggskrif (og blogglestur) væri eflaust betur varið í eitthvað annað. Það dettur mér oft í hug. En þá minnist ég þeirra sem þó lesa þennan samsetning og finnst ég vera að bregðast þeim ef ég set ekki nokkur orð á mitt blogg-blað.

Sjálfum finnst mér bloggin mín yfirleitt vera fremur stutt og kannski er það þeirra aðalkostur. (Fyrir utan að birtast daglega - eða næstum því.)

IMG 2964Blöðrusali (sennilega) í Reykjavík á menningarnótt (sem reyndar stendur allan daginn) Jú, víst er þetta menningarlegt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Mér finnst einmitt ágætlega gaman, oft á tíðum, að lesa smáævisögubrot eða frásagnir bloggara af einstökum atburðum í lífi þeirra. Kannski svona dálítið eins og að kíkja á glugga… sem er í sjálfu sér bölvuð frekja.

Nema viljandi hafi verið dregið frá, eins og í blogginu.

Sigurður Hreiðar, 31.8.2010 kl. 12:24

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já einmitt, Sigurður. Skil þig vel. Kannski slæðist þessháttar með öðru hvoru hjá mér en það má of mikið af öllu gera. Sum blogg fjalla varla um annað og þá finnst mér þau vera bara fyrir vini og kunningja en ekkert verri fyrir það. Held að sumir sem lesa mitt blogg að staðaldri þekki mig ekki nema af blogginu.

Sæmundur Bjarnason, 2.9.2010 kl. 07:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband