1095 - ESB

Morgunblaðið og Viðskiptablaðið eru að reyna að koma á sama ástandi hér og var fyrir hrun. Hampa Björgúlfi Þór Björgúlfssyni og útlendum peningum eins og mögulegt er. Í mínum hug bera allir þeir gjörningar sem hann kemur nálægt feigðina í sér. Davíð Oddsson og allir þeir vesalings stjórnmálamenn sem hans forsjá játuðu voru undir hið alþjóðlega fjármálavald seldir og ímynduðu sér að íslenskir útrásarvíkingar hefðu einhverju hlutverki að gegna þar. 

Í því þjóðfélagsástandi sem ríkir í hinum vestræna heimi er samt ekki hægt að hunsa þetta vald með öllu. Það er þó ekki nauðsynlegt að sitja og standa eins og einhverjir lúsablesar því tilheyrandi skipa fyrir um. Reisn og sjálfstæði kemur vel til greina í því þjóðskipulagi sem ríkjandi er. Einangraðir og vinafáir munum við Íslendingar þó eiga verra með slíkt en ef við tökum að fullu þátt í samstarfi og samvinnu með vina- og nágrannaþjóðum okkar. 

ESB-umræðan er nú að fara af stað. Og hún verður hörð. Sumt af henni er á svo lágu plani að varla er orðum að því eyðandi. Til dæmis fer því fjarri að það sé eitthvert reikningsdæmi hvort rétt sé fyrir okkur að gerast aðilar eður ei. Þetta muni eflaust hækka og annað lækka og svo framvegis. Styrkir verði svo og svo miklir og kostnaður við hitt og þetta svo og svo mikill.

Á þessu plani er umræðan samt að miklu leyti. Það sem skiptir mestu máli er hvernig líklegt er að þróunin verði næstu áratugina og jafnvel til lengri framtíðar. Aðild okkar að EES hefur að flestu leyti orðið okkur til blessunar. Hefði stjórnarfarið verið skárra hefðum við jafnvel sloppið við bankahrunið.

Stjórnmálamönnum verður samt ekki einum treyst fyrir þessu máli. Þjóðaratkvæðagreiðsla verður um aðildina og þau úrslit sem þar fást munu ráða miklu um framtíð okkar. Ef ákveðið verður í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu að standa utan ESB enn um hríð þá er að taka því. Ég tek eftir því að sumir andstæðingar aðildar eru að hóta hinu og þessu ef aðild verði samþykkt en það er að engu hafandi. Sem betur fer erum við Íslendingar nógu þroskaðir til að forðast allt ofbeldi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Vel mælt eins og jafnan.

Sigurbjörn Sveinsson, 30.7.2010 kl. 21:31

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Sigurbjörn. Les oft bloggið þitt og finnst það fínt.

Sæmundur Bjarnason, 31.7.2010 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband