1059 - Herra Grímur á hana

Ómar Ragnarsson skrifar ágætan pistil um verðtryggingarmál á sitt Moggablogg. Pistilinn nefnir hann „Margþætt mál" og ég er sammála honum að mestu leyti. Man vel eftir þessum tíma um 1983. Þá steinhættum við við að byggja í Borgarnesi þó við værum búin að fá ágæta lóð á góðum stað. Seinna keyptum við svo íbúð í Kópavoginum og tókum lítinn þátt í gróðærispartíinu.

Um daginn var hringt í mig frá Borgarbókasafni Reykjavíkur í Gerðubergi vegna þess að ég hafði nýlega tekið þar að láni bókina „Bessi gamli" eftir Jón Trausta. Inni í henni var bréf sem sá sem hafði haft bókina síðast í láni saknaði. Þessu bréfi er ég búinn að skila en ástæðan fyrir því að ég tók þessa bók að láni var sú að ég hef lesið næstum allt sem út hefur komið eftir Jón Trausta (nema Bessa gamla) og hef talsvert dálæti á honum.

Það dálæti stafar meðal annars af því að við hjá Netútgáfunni vorum svo stálheppin að hann dó í spænsku veikinni árið 1918 og þessvegna gátum við sett upp allt efni eftir hann sem við komum höndum yfir án þess að brjóta höfundarréttarlög. Þeim til upprifjunar sem muna lítið eftir Jóni Trausta (Guðmundi Magnússyni) þá fæddist hann árið 1873 og dó semsagt árið 1918. Var prentari að atvinnu og er einna frægastur fyrir sögur sínar um Höllu og Heiðarbýlið.

Minnir að það hafi verið í síðustu sögunni um heiðarbýlið sem Jón var að fabúlera um járnbrautarlestir á Austurlandi. Þar er komin tenging við bloggið hans Egils Helga og athugasemdir þær sem ég er nýbúinn að fá.

Ein frægasta Íslendingasagan sem enginn núlifandi maður hefur lesið er líklega Gauks saga Trandilssonar. Margar sögur eru í svonefndri Möðruvallabók og á einum stað er ritað þar neðanmáls eitthvað á þessa leið: „Láttu rita hér við Gauks sögu Trandilssonar mér er sagt að herra Grímur eigi hana." Grímur þessi er líklega Grímur Þorsteinsson sem eitt sinn var hirðstjóri yfir Íslandi og dó um 1350. Fátt fleira er um Íslendingasögu þessa vitað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, Það var mikil heppni að Jón Trausti varð ekki eldri!

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.6.2010 kl. 00:30

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Sigurður. Svona er hægt að taka til orða núna þó hastarlegt sé. Skilst einmitt að "Bessi gamli" sé eitt af hans síðustu verkum. Kannski var honum farið að fara aftur. Hugsaðu þér ef hann hefði nú orðið eins gamall og Kiljan sjálfur. 

Sæmundur Bjarnason, 24.6.2010 kl. 03:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband