1053 - Fésbók, Gnarr og ýmislegt fleira

Ekki ber á öðru. Nú hefur hæstiréttur sett allt á annan endann í þjóðfélaginu rétt á eftir Jóni Gnarr. Hvar endar þetta eiginlega? Ég er nú svo gamall sem á grönum má sjá (skegginu altsvo) en man ekki eftir svo hröðum breytingum sem nú skella á þjóðinni.

Þessi fésbók er meiri vitleysan. Nú er hægt að segja að maður kunni að meta athugasemdir og þeir sem það gera eru víst meiri manneskjur en aðrir. Kannski hefur þetta alltaf verið svona. Ef maður skrifar eitthvað á fésbókarvegginn eða annars staðar veit maður aldrei hvert það fer og hver sér það. Maður sér líka furðulegustu hluti. Sumir skrifa greinilega eitthvað þar og halda að sumir sjái það en aðrir ekki. Óttalega ruglandi.

Auðvitað er best að skrifa bara sem allra minnst en stundum ræður maður ekkert við sig. Fídusarnir eru líka svo margir að maður veit ekkert hvernig maður á að nota þá. Best að láta þá bara í friði. Svo hefur íslenskunin á skilaboðum í forritinu ekki alltaf tekist sem skyldi. Sumt er maður orðinn svo vanur að sjá á ensku að það skilst illa á íslensku.

Bloggi maður aftur á móti þá ímyndar maður sér að minnsta kosti að hlutirnir séu svolítið einfaldari.

Bloggið hans doktor Gunna er stórfínt. Mæli með að allir lesi. Hef samt aldrei komið honum í Google-readerinn minn.

Fylgist ekki nákvæmlega með því á hverju fólk heykslast mest á hverjum tíma. Síst af öllu hvaðan sú hneykslun kemur. Nú virðist fólk hneykslast mest á því að Jón Gnarr sé að gera eitthvað ólöglegt með því að fækka nefndum. Niður með þau lög sem banna slíkt, séu þau til. Svo eru aðrir að hneykslast á því að Jóhanna skuli rugla saman Dýrafirði og Arnarfirði. Mér finnst það skipta litlu máli. Sýnir bara að hún er lítið kunnug á þessu svæði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Sammála þér með fésbók (sem ég vil kalla Smettu). Ég veit aldrei hvar það lendir sem ég kann að skrifa þar né hverjum það er opið og finn aldrei neitt merkilegt frá öðrum heldur.

Þetta varð til þess að ég hætti að þiggja smettuvini og hef kannski aflað mér gremju einhverra góðra vina minna með því.

Sem skiptir svo sem ekki Smettumáli því það má heita að ég sé hættur að koma þar við. Dropinn sem fyllti bikarinn var lesning í Fréttablaðinu um daginn um að í Smettu væri innbyggt njósnaforrit til að komast inn í tölvur smettara og ná aðgangi að helstu leyndarmálum þeirra, sosum lykilorðum bankareikninga og þess háttar.

Megi Smetta hvíla í friði. 

Sigurður Hreiðar, 18.6.2010 kl. 11:43

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Sigurður ekki trúa öllu sem þú lest :)  flest allar síður innihalda einhverskonar skanna sem skannar hvaða síður þú heimsækir og síðan eru auglýsingarnar á viðkomandi síðum beint að þér og þínum áhugamálum ;) 

Óskar Þorkelsson, 18.6.2010 kl. 14:50

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Óskar: mér þykir Smetta svo laus við að vera aðlaðandi að ég trúi ýmsu illu um hana.

Sigurður Hreiðar, 18.6.2010 kl. 17:55

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er einfalt að stilla feisbúkk og vera í samfélagi við þá sem menn kjósa. Aðeins Þeir lesa það sem maður skrifar á feibúkk. Og ef menn eiga skemmtilega vini getur veri gaman á feisbúkk. En menn mega ekki taka þetta of hátíðlega. Þetta er fyrst og fremst maður er manns gaman leikur. Mannlífið þarf ekki endilega að vera merkilegt til að vera skemmtilegt. Feisbúkk finnst mér skárra en bloggið með öllum þeim stóryrðum og skætingi sem þar ræður ríkjum. Á feisbúkk losar maður sig bara við svoleiðis.

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.6.2010 kl. 19:22

5 Smámynd: Ragnheiður

Sigurður Þór er með þetta. Hér situr fólk undir skammaskvettum frá einhverjum sem ekki endilega kemur fram undir nafni (líka vont að fá skammir frá nafnkunnum) en maður getur lokað meira að sér og haft skemmtilega vini sér til ánægju :)

Ragnheiður , 18.6.2010 kl. 19:44

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk öll.

Ég er með þeim ósköpum gerður að vilja endilega skilja alla hluti. Facebook er það margbrotin að það er erfitt að kunna á alla fídusa þar. Skemmtigildið og það að ná sambandi við marga er þó óumdeilanlegt. Eigendur allra þeirra upplýsinga sem þar eru geta þó hæglega misnotað þær.

Sæmundur Bjarnason, 18.6.2010 kl. 22:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband