1048 - Vatn

Vatnið er undirstaða lífs á jörðinni. Vatnalög svonefnd eiga að taka gildi 1. júlí næstkomandi ef ég hef skilið málið rétt. Þetta mál er mjög pólitískt og var afar umdeilt á sínum tíma. Æ ofan í æ hefur gildistöku laganna verið frestað. Ég sé ekki síðri ástæðu til þess nú.

Ríkisstjórnin sem nú situr vill fresta gildistöku laganna að ég held. Er þó ef til vill tilbúin til að láta þau taka gildi í hrossakaupum um önnur mál. Eflaust verður auðveldara að fá fjárfestingar erlendis frá ef vatnið er til sölu á sama hátt og önnur jarðargæði. Þetta frumvarp var á sínum tíma samþykkt á Alþingi Íslendinga og þeir þingmenn sem það samþykktu telja eflaust að nægilegar tryggingar hafi verið í lögunum til áframhaldandi notkunar almennings á vatninu.

Þeir þingmenn sem nú sitja eru eflaust sama sinnis. Gallinn er bara sá að þeim er illa treystandi. Það hve oft málinu hefur verið frestað bendir til þess að ekki sé allt eins og það á að vera.

Mér skilst að boða eigi til fjöldafundar um þetta mál næstkomandi mánudag við Alþingi Íslendinga. Gallinn er bara sá að það eru svo mörg önnur mál sem brýnt er að mótmæla að hætt er við að þetta afmarkaða mál drukkni í ósköpunum.

Ég vil ekki stuðla að því að núverandi ríkisstjórn hrökklist frá völdum. Sé engan veginn að líklegt sé að skárri stjórn taki við.

Fer nokkuð oft á Facebook því þar tefli ég nokkrar bréfskákir. Renni meðal annars yfir það sem fésbókarvinir mínir hafa til málanna að leggja. Er oftast fljótur að því. Skrifa yfirleitt ekki mikið sjálfur þar enda málefnin oftast ekki við mitt hæfi.

Eru þeir uppteknari af skoðunum annarra á sér og sjálfmiðaðri en aðrir sem skipta þar um forsíðumynd vikulega eða oftar? Kannski er það svo. Hvað veit ég?

Fésbókin er áhrifamikil leið til að koma af stað samskiptum manna. Bloggið reyndar líka þó það sé ekki eins mikið í tísku núna og Facebook, sérstaklega ekki Moggabloggið. Meðal vefmiðla virðist eyjan.is vera mjög að bæta sig. Að trúa öllu sem þaðan kemur og frá Agli Helga og dv.is er þó varasamt í meira lagi.

Morgunblaðið og mbl.is eru purkunarlaust notuð í pólitískum tilgangi og fréttablaðið og visir.is líka. Þetta vita allir sem vilja vita og þegar ég les mbl.is sem ég les mun meira en vísi.is þá tek ég að sjálfsögðu tillit til þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

,,Vatn er nauðsynlegt. Ef ekkert vatn væri til gæti enginn lært að synda og þá myndu allir drukkna.'' Ekki satt?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 13.6.2010 kl. 09:52

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

"Eins og allir vita hefur vatn hvarvetna og á öllum tímum valdið mun meiri skaða en vín." sagði drykkjurúturinn við bindindispostulann.

Sæmundur Bjarnason, 13.6.2010 kl. 11:11

3 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Sammála.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 13.6.2010 kl. 13:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband