1035 - Körfubolti og kosningar

Hvusslags er þetta? Ekkert blogg komið. Best að bæta úr því í snatri. Eitthvað smá var ég búinn að skrifa hjá mér í gærkvöldi áður en syfjan varð of mikil. Best að lesa það yfir.

Vakti svolítið á kosninganóttina. Horfði þó eingöngu á RUV. Þar stöðvuðu þau Bogi og Þóra áhugaverðar umræður til þess eins að koma að sögum frá Súðavík. Ekki skynsamlegt. Mönnum virðast líka skelfilega mislagðar hendur við talningu atkvæða. Bagalegt. Ætla mér ekki þá dul að túlka úrslit kosninganna. Þar vilja samt margir láta ljós sitt skína.

„Af hverju get ég bara ekki truflað þau?" sagði Jón Gnarr í Silfrinu. Hann vildi semsagt láta finna fyrir sér og gerði það svo sannarlega. Íslensk stjórnmál verða aldrei söm aftur.

Það var hasar í stjórnmálum í byrjun tuttugustu aldar hefur maður heyrt. Ekki er heldur hægt að segja að rólegt sé yfir þeim í byrjun þessarar. Er samt af einhverjum ástæðum ekkert hræddur um að uppúr sjóði. Ef dómstólar ætla þó að hegna níumenningunum grimmilega eins og Alþingi hefur farið fram á er hætt við að illa fari.

Þegar ég byrjaði að fylgjast svolítið með körfubolta voru LA Lakers og Boston Celtics aðalliðin í NBA og háðu marga rimmuna í úrslitakeppninni. Nú er sú saga að endurtaka sig. Að vísu eru Larry Bird og Magic Johnson ekki aðalmennirnir lengur en samt.....

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er eini stjórnmálamaðurinn sem enn talar um stjórnlagaþing. (Kannski Birgitta líka en það eru allir hættir að taka mark á henni.) Stjórnlagaþing og beinar kosningar eru bara dúsa sem misheppnaðir stjórnmálamenn stinga uppí gagnrýnendur sína til að hafa þá góða í bili. Það verður aldrei neitt úr slíku. Foringjar flokkanna sjá fyrir því og kvarta og kveina undan því að alltaf sé talað um fjórflokkinn og fundið að því sem hann gerir. Þeir eru ekkert betri en annað frasafólk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Voru það ekki Larry Bird og Abdul Jabbar?

Stjórnlagaþing Jóhönnu er svo langt frá því sem fólkið óskaði eftir. Hver vill atvinnupólitíkusastjórnlagaþing? Ekki ég. Ef halda á kosningar um fólk á stjórnlagaþing, munu flykkjast að afdankaðir flokksdindlar og venjulegt fólk sem hefur eitthvað nýtt til málanna að leggja mun hverfa í fjöldann. Hugnast mér ekki.

Brjánn Guðjónsson, 31.5.2010 kl. 22:54

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú jú Brjánn, Lew Alcindor var í Lakers-liðinu eins og fleiri. Ég hélt líka með því þó Einar Bollason gerði það ekki. Finnst endilega að þeir hafi unnið mun oftar.

Er hræddur um að valið um stjórnlagaþing standi einmitt á endanum um það hvort menn vilji Jóhönnu-þing eða ekkert. Alþingismennirnir sjá um sitt. 

Sæmundur Bjarnason, 1.6.2010 kl. 06:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband