1002 - Druslur og fleira

Ég er svo tortrygginn á allt sem heitir viðskipti og auglýsingar að þegar ég heyri setningu sem er mjög algeng í lok snyrtivöruauglýsinga og hljóðar þannig: „Because you are worth it" þá geri ég strax ráð fyrir að það sem auglýst er sé dýrara en góðu hófi gegnir og auglýsandinn sé, hvort sem hann veit af því eða ekki, að reyna að afsaka það.

Aldrei hefur enn í manna minnum
meira riðið nokkur Íslendingur.

Svo yrkir Grímur Thomsen í Skúlaskeiði. Ég er einn þeirra sem hef alltaf viljað skilja þetta dónalegum skilningi þó Grímur hafi eflaust ekki meint það þannig. Á mínum unglingsárum var mikið stundað að afbaka vinsæla söngtexta. Man til dæmis eftir að við sungum ævinlega hið þekkta ljóð Jónasar Hallgrímssonar þannig:

Hvað er svo glatt sem góðtemplarafundur?
Er gleðin skín á hverri mellubrá.
Eins og á vori er hittast tík og hundur
og hanga saman kynfærunum á.

Þetta minnir mig auðvitað á druslurnar svonefndu. Kirkjukórar æfðu oft sálmalög á stöðum sem ekki var öruggt að væru Guði þóknanlegir. Þá þótti ekki við hæfi að syngja sálmana sjálfa svo sungnar voru svokallaðar druslur sem voru kvæði sem féllu að viðkomandi sálmalagi. Oft voru þessi kvæði ekki par guðrækileg.

Nú er ég hættur að geta eytt skilaboðum sem koma á stjórnborðið hjá mér. Samt held ég að öll þjónusta við bloggara hér á Moggablogginu sé til mikillar fyrirmyndar. Þetta er svosem ekki til mikilla vandræða en breyting samt. Örlítið meiri fyrirhöfn að lesa upphafið á nýjum bloggum frá bloggvinum og heimsækja þau.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kama Sutra

"Nú er ég hættur að geta eytt skilaboðum sem koma á stjórnborðið hjá mér."

Ég held jafnvel að það sé einhver bilun í stjórnborðinu á Moggablogginu.  Ég er t.d. hætt að geta hent út athugasemdum við bloggfærslur, sem ég hef getað hingað til.  Ég reyndi þetta í gær en mistókst - og endaði á því að þurfa að henda út bloggfærslunni.

Önnur nýtilkomin bilun hjá mér (byrjaði í gær) er að ég get ekki lengur skráð mig inn á bloggið ef ég nota IE vafrann - en ég get það ef ég nota Firefox.

Ég hélt að þetta væri eitthvað í minni tölvu en fyrst þú ert líka með vandamál í stjórnborðinu þá er þetta kannski hjá fleirum?

Kama Sutra, 26.4.2010 kl. 01:04

2 Smámynd: Kama Sutra

Þegar ég tala um að henda út athugasemdum við bloggfærslur þá meina ég að fela þær.

Kama Sutra, 26.4.2010 kl. 01:06

3 identicon

Ein ábending, Sæmundur, því ég veit að þú ert svo mikil "tæknifrík":

Var að kynnast Feedly, sem tengist beint við Google Reader og gefur þér bloggin í skemmtilegu lestrarumhverfi. Nú ertu farinn að telja mínar heimsóknir aftur, því ég get skoðað bloggið þitt þarna í gegn, án þess að opna nýjan glugga! ;)

Veit það virkar fyrir FireFox, Safari og Chrome; veit ekki með IE - en hver notar þann trabant?

http://feedly.com/ - datt í hug að láta þig vita. ;)

Skorrdal 26.4.2010 kl. 09:31

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Skorrdal, tæknifrík? Veit ekki. Var það kannski einu sinni. Nota Explorerinn. Ástæður. Nægir mér yfirleitt. Á auðvelt með að fá aðstoð ef þarf. Leti.

Reyndi að sækja Feedly og nota eins og þú segir en lenti í vandræðum og hætti. Varðandi heimsóknir þínar hef ég engu breytt. Moggaguðirnir eru að fikta í þessu öllu án þess að láta okkur vita. Slæmt.

Sæmundur Bjarnason, 26.4.2010 kl. 10:51

5 identicon

Félagarnir kölluðu Victoríu skellinöðruna mína, drusslu.  Þeir voru á NSU og Kreidler.

Ólafur Sveinsson 26.4.2010 kl. 12:13

6 identicon

Ástfanginn af Chrome (http://www.google.com/chrome) - en það er bara ég.

Sótti Freedly í gærkvöldi - eyddi morgninum í að laga RSS-veiturnar til (allar 242). Mér finnst ég hafa fundið hjólið - eftir að dröslast á einhverjum ferningum... :P

Moggaguðirnir eru ferlegir - ég veit. Enda hættur að "tilbiðja" þá. En, það er bara andskotinn í sjálfum mér. ;)

Skorrdal 26.4.2010 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband