969 - Molar um málfar númer 7

Þetta á að vera málfarsblogg og til að vekja athygli á því hermi ég svolítið eftir Eiði Guðnasyni í fyrirsögninni. Ekki er það þó illa meint - fyrirgefðu Eiður.

Sæmundarháttur í bloggi er að mínum skilningi að skrifa um blogg. Að skrifa um málfar er þá Eiðsháttur. Og held ég svo áfram.

Eiður Guðnason skrifar oft um málfar og fylgist vel með málfari í fjölmiðlum. Gagnrýninn finnst mér hann þó úr hófi og smámunasamur. Tilgangi sínum nær hann þó líklega. Þeir sem áhuga hafa á að vanda mál sitt lesa gjarnan það sem hann skrifar og kætast mjög ef honum verður á.

Fyrstu greinina í dagblað skrifaði ég fyrir tvítugsaldur svo mikð vatn hefur runnið til sjávar síðan. Þá var ekkert Net og ritstjóri Vikunnar (hugsanlega Sigurður Hreiðar) hafði neitað að birta greinina þó hún fjallaði um efni sem þar hafði verið. Eykon (Eyjólfur Konráð Jónsson) vildi þó birta hana, ef ég breytti henni svolítið. Slíkt var sjálfsagt.

Í þann tíma og lengi á eftir var prófarkalestur tíðkaður á dagblöðunum og sjaldan kom fyrir almenningssjónir annað en sæmilega vel gerður texti.

Með tilkomu Netsins (með stórum staf) breyttist þetta allt. Allir gátu skrifað eins og þá lysti. Lesendur voru að vísu fremur fáir framanaf en það skipti ekki öllu. Til að sem flestir skrifuðu á þennan nýja miðil voru menn hvattir til að skrifa þó kunnátta í meðferð máls væri kannski ekki mjög mikil. Ekki var vel séð að fundið væri að málfari.

Ég er enn dálítið hallur undir þetta sjónarmið. Með harðri gagnrýni á málfar er komið í veg fyrir að margir skrifi sem vissulega ætti að heyrast í. Síst af öllu vilja menn gera sig að athlægi. Að hæðast að mönnum fyrir að skrifa ekki vel er beinlínis illa gert. Þeir sem í vinsæla og útbreidda fjölmiðla skrifa eiga þó skilið að vera teknir í gegn en þegar farið er að gagnrýna bloggara fyrir að skrifa ekki kórrétt er skörin farin að færast upp í bekkinn og beinlínis verið að vinna gegn því að sem flestir tjái sig.

Stjórnmál eru mörgum hugleikin og það er ósköp lítið að geta aðeins beitt sér á þeim vettvangi á fjögurra ára fresti með því einu að tala yfir hausamótunum á vinum og kunningjum og kjósa svo. (Rétt eða vitlaust eftir atvikum.)

Eins og búast mátti við á ég í erfiðleikum með að hemja mig þegar ég skrifa um málfar en er þó þeirrar skoðunar að því styttri sem texti er þeim mun áhrifameiri geti hann verið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Tómasson

Rétt.

Heimir Tómasson, 24.3.2010 kl. 08:06

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gott innihald í ljótum umbúðum selst illa og því verða menn að vanda sitt málfar og stafsetningu.

Engu máli skiptir hvort illa skrifaður texti er birtur í bók eða hér á Netinu. Fólk nennir ekki lengi að horfa á illa unna kvikmynd eða myndband á Netinu. Frágangur verður alltaf að vera góður í öllum miðlum til að innihaldið komist vel til skila.

Milljörðum króna hefur verið varið í íslenskukennslu í skólum landsins og sá sem ekki hefur lært þokkalega góða íslensku allan þann tíma sem hann situr hér á skólabekk á skilið að vera flengdur þannig að undan svíði.

Sumir þurfa að leggja mikið á sig til að læra stafsetningu en eiga aftur á móti auðvelt með að læra stærðfræði. Ef þeir nenna hins vegar ekki að læra stafsetningu er það í flestum tilfellum þeirra eigið vandamál.

En blaðamenn sem skrifa lélegan texta, eða gefa sér ekki tíma til að renna yfir textann áður en þeir senda hann frá sér, missa í flestum tilfellum vinnuna fljótlega vegna kvartana lesenda. Og þá gildir einu hvort textinn er birtur á prenti eða hér á Netinu.

Mest lesna bloggið er yfirleitt vel skrifað. Ómar Ragnarsson skrifar til að mynda oftast góðan texta í sínu bloggi en þyrfti í sumum tilfellum að renna yfir textann áður en hann er birtur hér.

Ómar var reyndar sjónvarpsfréttamaður en hann segir okkur ekki sjónvarpsfréttir hér á blogginu. Við verðum að lesa það sem hann hefur skrifað og ef frágangurinn á textanum er ekki góður verður textinn mun áhrifaminni en ella.

Og það er ekki skynsamlegt að eyða mörgum mínútum í að skrifa blogg en nota á hinn bóginn ekki nokkrar sekúndur í að renna yfir bloggið áður en það er birt.

Þorsteinn Briem, 24.3.2010 kl. 09:20

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ekki minnist ég þess að hafa neitað að birta grein eftir þig. Hitt er annað mál að Vikan tók -- á mínum ritstjórartímum sem urðu tveir -- almennt ekki við aðsendum greinum.

Man heldur ekki eftir að hafa átt orðaskipti við þig fyrr en hér á netinu. -- Um hvað var þessi grein?

Ég hef nokkrum sinnum neitað að birta greinar þar sem ég hef verið í einhvers konar tímabundnum forsvari á dagblöðum, fyrst Tímanum, þá Mynd, Vísi og síðast  DV bílar. Venjulega þá vegna orðbragðs frekar en innihalds. Varla hefur það átt við í þínu dæmi.

Mbkv.

Sigurður Hreiðar, 24.3.2010 kl. 09:44

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég er sammála þessari færslu í meginatriðum Sæmundur. En þó finnst mér við mega gera meiri kröfur um gott málfar  hjá atvinnu skrifurum. Að því leytinu finnst mér Eiður síst of smámunasamur. Enda er hann að vekja athygli á því sem betur má fara og er það vel. Moggabloggið hefur það fram yfir önnur vefumsjónarkerfi að hér getur maður notað "yfirlesara" til að leiðrétta innsláttarvillur og er það til fyrirmyndar. Fátt fer meira í taugarnar á mér en stafsetningar og innsláttarvillur, sem ekki er hægt að leiðrétta eftirá. Á sumum spjallsvæðum, sérstaklega spjallborðum, er oftast hægt að leiðrétta færslur í ákveðinn tíma. Þetta þyrftu vefumsjónarmenn að taka til skoðunar hvort ekki sé rétt að leifa á blogginu þótt ég geri mér grein fyrir að menn gætu misnotað slíkan "fídus"

Kannski er það bara rétt hjá Steina, að við erum ekkert of góðir til að lesa yfir það sem við viljum birta á netinu, hvort sem er í formi eigin færsla eða athugasemda. Rithöfundar vita hvað það er mikilvægt að marglesa yfir texta til að hann sé sem best úr garði gerður og því þá ekki bloggrithöfundarnir?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.3.2010 kl. 11:01

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Að blogga um icesave er eins og að ýta á takka
hjá áráttuþráhyggju bloggurum sönnum
Þeir bölva og ragna og í sig þig hakka
Fyrir að fylgja ekki þjóðhollum mönnum

Að blogga um málfar er eins og að ýta á pásu
Þá þagnar hér aftur hver leiðindakjaftur
Og til baka þeir koma sem áður þig lásu
og lífið á blogginu verður gott aftur

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.3.2010 kl. 11:50

6 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Steini er dæmi um umbúðir fínar
sem innrætinu er ætlað að hylja
og vel má það vera að blekkingar þínar
virki á þá sem aldrei neitt skilja

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.3.2010 kl. 12:05

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Segi nú ekki að flestir þurfi að marglesa textann áður en þeir senda hann frá sér hér á blogginu.

Þegar við Hjörtur Gíslason, sonur Gísla Jónssonar menntaskólakennara á Akureyri, vorum með Úr verinu á Mogganum, skilst mér að ekki hafi þurft að prófarkalesa það.

Við skrifuðum yfirleitt 5-10 fréttir, alls 10-20 fréttir á dag, bæði í Verið og Moggann. Og vorum einir með Verið þegar annar okkar fór til útlanda til að taka viðtöl og myndir, til dæmis í Danmörku, Bandaríkjunum, Kanada, Nýja-Sjálandi og Japan.

Og ég þurfti aldrei að skrifa leiðréttingu í Moggann.

Þorsteinn Briem, 24.3.2010 kl. 12:27

8 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Karl Th kom með þennan fyrripart í dag:

Hugurinn lyftist með hækkandi sól
við horfum til bjartari tíma

(yeah ræt, eins og Jenný mundi segja )

Við útrásarbanka og innheimtufól
almúginn þarf enn að glíma

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.3.2010 kl. 13:31

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

En þó á punginum Karl Th. kól,
í kollinum aldrei sést skíma.

Þorsteinn Briem, 24.3.2010 kl. 13:48

10 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Um Gunnar og Jónínu Ben:

Ef meinbugi veiztu þá máttu nú tala
um misbresti ýmsa, en ellegar þegi
Djöfullinn drýldinn með horn og hala
hórkonum kennir að vel það megi
hjónabönd deyða í drottins nafni
Guðfræði þeirra ég held ég hafni

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.3.2010 kl. 14:10

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þú hefur ætt hér í fúafen,
festur verður nú á krossi,
jarðar þig svo Jónína Ben,
með, Jesús minn, pólsku hrossi.

Þorsteinn Briem, 24.3.2010 kl. 14:53

12 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk allir.

Flottar vísur.

Skrifa kannski meira á eftir.

Sigurður: Minnir að greinin hafi verið skrifuð á tímum Kúbudeilunnar og verðið um Gísla Sigurbjörnsson.

Sæmundur Bjarnason, 24.3.2010 kl. 16:24

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Eiginlega hefur mér lengi fundist Gísli Jónsson einn í hópi þeirra sem fundu upp íslenskt mál. Þó er hitt nú líklegra að hann hafi verið óvenju vel læs á málfar og tungutak margra meistara og náð að samþætta þetta allt saman fyrir sig.

Það geta þeir einir sem hafa næma og meðfædda málkennd.

Árni Gunnarsson, 24.3.2010 kl. 16:36

14 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég hefi ekki oní pytt
ætt þótt ekki sé ég fit
mitt er mitt og þitt er þitt
I dónt give a fucking shit

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.3.2010 kl. 16:45

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gísli Jónsson og Böðvar Guðmundsson kenndu mér íslensku í Menntaskólanum á Akureyri.

Gísli taldi upp þær heimsbókmenntir sem við ættum að lesa og það var langur listi.

Ef ég man rétt stakk hann upp á orðinu skutbíll í staðinn fyrir steisjonbíll í einum af sínum mörgu og góðu útvarpsþáttum um íslenskt mál.

Þorsteinn Briem, 24.3.2010 kl. 18:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband