962 - Hveragerði

Það er hægt að keyra á þremur (eða fjórum) stöðum inn í þorpið. Gamli vegurinn er samt sá sem liggur frá réttinni að Reykjafossi. Fyrst liggur hann framhjá Eldborg. Þar eiga Laufey og Magnús heima. Þau eiga marga krakka. Einn þeirra er Erlendur. Hann er kallaður Bóbó. Veit ekki af hverju. Svo liggur hann (vegurinn - ekki Bóbó) á milli húsanna hjá Baldri Gunnars og Snorra. Síðan fyrir neðan bakaríið og fram hjá Bláfelli þar sem ég á heima. Svo á milli Símstöðvarinnar og Nýja Reykjafoss og áfram að Gamla Reykjafossi. Svo er auðvitað hægt að halda áfram niður að Kaupfélagi og Hóteli og að skólanum. Jafnvel að Fagrahvammi eða yfir brúna og uppað Laugaskarði.

Líka er einskonar framhald af Laufskógunum sem nær alla leið niður á þjóðveg. Svo er það náttúrulega Breiðamörkin. Hún liggur framhjá garðyrkjustöðinni hjá Gústa gamla og niður á þjóðveg. Það er orðin aðalleiðin núna. Gamla veginum hjá Eldborg er ekkert haldið við. Aldrei heflaður eða neitt. Eintómir pollar þegar rignir.

Auðvitað er hægt að komast frá þjóðveginum og beint niður að Náttúru. Hún er samt eiginlega fyrir utan þorpið. Vegurinn niður í Ölfus kemur á þjóðveginn rétt hjá Eden. Þar er hótelið með söluskúr og selur Shell-bensín.

Vel á minnst. Gústi gamli. Merkilegur karl. Mótaði rauð mannshöfuð í leir og stillti þeim upp um allt í vinnuskúrnum hjá sér sem var eiginlega íbúðin hans líka. Einu sinni plataði hann mig. Þá var ég að vinna hjá Baldri Gunnars. Baldur var veikur og Gústi kom í heimsókn. Spurði mig hve marga kassa af gúrkum við hefðum sent suður daginn áður.

„Tuttugu og tvo", sagði ég hróðugur.

Auðvitað mátti ég ekki segja honum hvað við sendum marga kassa. Hann var bara að njósna. Ræktaði nefnilega sjálfur gúrkur.

„Hveragerði er heimsins besti staður," segir í kvæðinu sem ég kunni einu sinni. Auðvitað er ekki logið í kvæðum. Mér finnst líka ágætt að eiga heima þar. Þekki ekki annað.

Gamli vegurinn liggur líka á ská framhjá húsinu hans Stebba hreppstjóra. Hinum megin við það er Breiðamörkin. Stefán er einn af örfáum Hvergerðingum sem eiga drossíu. Gott ef ekki sá eini. Geymir hana samt ekki á Breiðumörkinni, heldur hinum megin. Stundum rúntar hann um bæinn á sunnudögum. Einu sinni var ég eitthvað að sniglast í kringum bílinn. Kannski að fikta í honum. Þá byrjaði skyndilega að leka loft úr dekki. Hugsanlega af mínum völdum. Man að ég hafði mikið samviskubit útaf þessu lengi og þorði helst ekki að koma nálægt bílnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Oft fór Sæmi inn í Hveragerði,
og út kom stundum þar á sama stað,
kristilegt þar kallinn margt nú gerði,
og kirkjurækinn var hann, nema hvað?

Þorsteinn Briem, 17.3.2010 kl. 01:31

2 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Af þeim stöðum sem ég hef búið á er besta jafnaðarveðrið í Hveragerði.

Annars vorum við hálfgerðir nágrannar því ég bjó í gamla kvennaskólanum þar til fyrir ári síðan.

Axel Þór Kolbeinsson, 17.3.2010 kl. 08:56

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Man vel eftir bæði Árnýju og Hebba á Hverabökkum. Sigmundur (faðir Ingibjargar) og Kristín bjuggu á Hunkubökkum. Er samt í einhverjum vafa með það nafn.

Sæmundur Bjarnason, 17.3.2010 kl. 13:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband