944 - Hekla

Eins og kunnugt er gýs Hekla á 10 ára fresti núorðið. Í Skjólkvíagosinu svokallaða árið 1970 komst ég í nánari kynni við eldgos en nokkru sinni fyrr eða síðar. Í janúar árið 1991 fór ég uppí Landssveit til að fylgjast með gosinu sem þá var. Um það leyti gerðist einnig ýmislegt annað sem frásagnarvert er. Missti alveg af gosinu árið 2000 en kannski munu leiðir okkar Heklu skarast í næsta gosi. Veit samt ekki hvenær það verður og bíð ekkert í ofvæni. Man vel eftir að einu sinni var tilkynnt í útvarpi að gos myndi hefjast í Heklu eftir 15 mínútur. Ætli það hafi ekki verið árið 2000.

Á sínum tíma álpaðist ég til að ganga í framsóknarflokkinn til að hjálpa Bjarna frænda í prófkjöri. Síðan hef ég lítinn frið haft fyrir framsóknarmönnum. Nú dynja á mér SMS skilaboð og símtöl en hingað til hef ég bara fengið einhver tölvupóstskilaboð frá þeim og reikninga fyrir félagsgjaldi.

Svo er það framhald af sögunni sem sögð var í næstsíðasta bloggi.

Varla var hann kominn út þegar hann mundi allt í einu eftir því að hann hafði gleymt símanum sínum. Hann stoppaði samstundis og sneri við. Dró síðan hægt úr ferðinni og sneri aftur við.

„Nei, það hringir hvort eð er enginn í mig. Svo mundi mömmu þykja skrítið hvað ég er orðinn gleyminn. Sú held ég að færi í flækju ef síminn færi allt í einu að hringja."

Hann greikkaði sporið og talaði í hálfum hljóðum við sjálfan sig: „Nei, þetta gengur ekki. Nú er ég búinn að vera atvinnulaus í tvo mánuði og bráðum fara atvinnuleysisbæturnar að minnka. Hvað á ég þá að gera. Ekki get ég lifað á berstrípuðum bótunum."

„Djöfuls læti alltaf í kellingunni. Maður hefur bara engan frið. Næst gæti henni dottið í hug að æða inn í herbergið mitt."

Jakob snarstansaði. Nú datt honum svolítið í hug.

„Hvað ef hún njósnar nú um mig og fer alltaf inn í herbergið mitt þegar ég er ekki heima. Best væri náttúrulega að snúa við strax og athuga það."

Hann snarsneri við einu sinni enn og stikaði heim á leið.

Þegar að húsinu kom fór hann eins hljóðlega og hann gat og reif svo allt í einu upp hurðina og fór rakleiðis inn í herbergið sitt.

Auðvitað var enginn þar. „Asni gat ég verið. Nú passar hún sig áreiðanlega ennþá betur næst því þó hún segi ekki neitt þá veit hún áreiðanlega að ég var að reyna að ná henni í herberginu mínu. Fjandinn sjálfur."

-------

„Maturinn er tilbúinn."

„Ég vil engan helvítis mat."

„Nú, en klukkan er alveg að verða sjö."

„Það var ágætt. Þá eru sennilega komnar fréttir. Gott að þú minntir mig á það. Ég ætla ekkert að éta."

„Hvað á ég þá að gera við allar þessar pulsur?"

„Nú, eru pulsur? Kannski ég fái mér eina eða tvær."

„Á, var það ekki?"

(Jakob hámar í sig 10 pulsur á notime)

„Jæja, ætli fréttahelstið sé þá ekki búið."

Jakob notaði þetta orð alltaf í tíma og ótíma. Kunningi hans sagði honum nefnilega einu sinni að þetta orð væri notað yfir fyrirbrigðið hjá þeim sem ynnu við sjónvarpsstöðina.

Ætli þetta dugi ekki sem örsaga. Nenni þessu ekki lengur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eldstöðin Hekla er komin á tíma, samkvæmt goshegðun síðustu ára. Hinsvegar er Eyjafjallajökull að gera sig tilbúinn í eldgos, ásamt Mýrdalsjökli og Grímsfjalli. Þannig að það er eitthvað að gerast hérna á landi.

Jón Frímann 27.2.2010 kl. 01:36

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hugur við því hrýs,
ef Hekla bráðum gýs,
og fyrr í helvíti frýs,
en Framsókn aftur kýs.

Þorsteinn Briem, 27.2.2010 kl. 02:20

3 Smámynd: Kama Sutra

Ég myndi berja sjálfa mig með hnútasvipum, samfellt í heilt ár, ef ég álpaðist til að kjósa Framsókn.

Kama Sutra, 27.2.2010 kl. 02:39

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þess Steini ekki verður vís
er voðaflokkinn Framsókn kýs.
Detta allar dauðar lýs
ef djöflatindur Heklu gýs.

Þetta með Framsókn var nú bara útaf prófkjöri. Bjarni var í framboði á Suðurlandi.

Sæmundur Bjarnason, 27.2.2010 kl. 02:58

5 identicon

Aldrei hefði ég trúað því á þig, Sæmundur skólabróðir, að þú myndir láta orða þig við framsókn. Þessi þvingunaraðgerð bóksalans ætti að sanna fyrir þér að frændur eru frændum verstir! - En meðal annarra orða; þegar við erum farin að íslenska engilsaxneska orðtakið um "when Hell freezes over", þá erum við komin í mótsögn við hina fornu, norrænu hugmyndafræði um að Helja sé öðrum stöðum kaldari. Hugmyndaheimur hinna fornu, norrænu goðafræði gerði sumsé ráð fyrir að sá staður, sem væri öðrum verri, hlyti að vera kaldur, því á þessum breiddargráðum berjast menn meira við að halda á sér hita en verja sig fyrir honum eins og er nærtækara suðlægari breiddargráðum.

Ellismellur 27.2.2010 kl. 12:12

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Bjarna tókst að segja sig úr flokknum en ekki mér. Kannski hef ég ekki gert almmennilegan reka að því enda er það fyrst núna að síminn minn verður fyrir barðinu á þeim.

Varðandi hitann (eða kuldann) í helvíti (eða Hel - allt eftir smekk) mætti skrifa margar bækur en orðatiltækin láta ekki að sér hæða og móta oft hugmyndir manna.

Sæmundur Bjarnason, 27.2.2010 kl. 14:09

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Fyrr mun í helvíti frjósa,

en fari ég Framsókn að kjósa.

Þá Guð gæti reiðst

og út í það leiðst

að láta þá Heklu gjósa.

Theódór Norðkvist, 27.2.2010 kl. 17:00

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Fín limra Theódór.

Í helvíti mun hitan vel
og hrapa af mönnum spikið.
En í prófkjörunum telst mér til
að tapist alltof mikið.

Sæmundur Bjarnason, 27.2.2010 kl. 22:46

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þá ætti maður kannski að taka þátt í prófkjöri!

En merkilegt að þessi sama hugsun kom upp hjá mér í gærkvöld, sem Steina og þér tókst að setja í þessar fínu vísur, að tengja saman Heklugos og að kjósa Framsókn.

Ég gat bara ómögulega komið henni í bundið mál, sama hvað ég reyndi. Lokst tókst það þegar ég reyndi nú í dag og því kom N1 útgáfan.

Theódór Norðkvist, 27.2.2010 kl. 23:11

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Úps! Orðinn dálítið hroðvirkur við yrkingarnar. Hér kemur vísan leiðrétt.

Í helvíti mun hitna vel
og hrynja af mönnum spikið.
Í prófkjörunum traustu tel
að tapist alltof mikið.

Sæmundur Bjarnason, 27.2.2010 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband