1898 - Árni Páll

Fyrir allmörgum áratugum síðan heyrði ég fyrst af merkilegri tillögu varðandi alþingiskosningar. Hún var sú að kjósendur fengju það kostaboð að geta (í stað fjórflokksins) fengið að kjósa auða stóla á alþingi. Sjálfkrafa væru þeir að móti öllu. Ekki man ég útfærsluna nákvæmlega, en hugmynd er þetta.

Einhvernveginn þarf að losna undan ofurvaldi þeirra afla sem ráða í flokkunum. Búið er að ganga þannig frá málum að smáflokkar eiga svotil enga möguleika til neins. Þeir sem óánægðir eru með fjórflokkinn sameinast aldrei. Þessvegna var óhætt að stöðva og eyðileggja kvótafrumvarpið (með aðstoð Steingríms) og nú er Árni Páll notaður til að eyðileggja tilraunina með nýja stjórnarskrá. Að mörgu leyti er þetta leiftur liðinna tíma. Er Árni Páll ekki bara að máta sig við Davíð og Halldór?

Ef annað bregst er alltaf hægt að etja saman landsbyggð og höfuðborgarsvæði. Það læknar víst flest mein og aldrei verður fullkominn jöfnuður þar frekar en annarsstaðar.

Vel er hugsanlegt að næstu dagar verði spennandi fyrir þá sem stjórnmálaáhuga hafa. Ríkisstjórnin gæti fallið og allt mögulegt gerst. Árni Páll er greinilega að taka mikla áhættu með leifturárás sinni á hina flokkana. Hugsanlega telur hann sig hafa engu að tapa og kannski er það rétt hjá honum.

Jónas segist miða við 140 slög. Ég geri þó heldur betur. Málsgreinarnar eru fleiri og stundum dálítill fita á þeim. Þeim mun styttri sem þær eru því betra.

RUV virðist hafa ákveðið að taka orðaleppinn „fasbók“ uppá sína arma. Sennilega er þetta of seint hjá þeim. Í munni unga fólksins heitir fyrirbrigði þetta „facebook“ (borið fram feisbúkk). Þeir sem endilega vilja þýða nafnið kalla það flestir „fésbók“. Sennilega fer líkt fyrir þessu orði og „alnetinu“ alræmda. Kannski er þýðingarsóttin þýðingarlaus.

Það er dýrt að draga andann og eftir nýjustu fréttum að dæma er líka dýrt að hætta því. Sagt er að það kosti margar milljónir að drepast. Vitanlega á ég við útfararkostnað o.þ.h. Verður maður ekki að hugsa um það líka? Og svo eru læknarnir svotil ekkert farnir að græða á mér ennþá.

Að hlusta á þriggja ára afastelpuna mína söngla fyrir munni sér illskiljanlegan texta sem hún býr til jafnóðum og er auðvitað tómt bull, færir mér heim sanninn um að íslenskan er ekki það viðkvæma og brothætta blóm sem margir vilja meina. Hún þolir alveg að henni sé misþyrmt og farið með hana eins og hverja aðra útlensku. Réttritun er bara handverk. Ef fólk talar skiljanlega íslensku eru því allir vegir færir.

IMG 2704Að senda steypu upp í loftið – 2.


1897 - Vorið kemur (áreiðanlega)

Kannski hafa einhverjir sem lesið hafa stjórnmálaskrif mín undanfarið lesið einhvern stuðning við Framsóknarflokkinn út úr þeim. Ég er samt ekkert búinn að gleyma þeim peningum sem ég átti að fá frá VÍS (og var stolið frá mér af framsóknarmönnum) eða gleyma spillingarsögu flokksins bæði gamalli og nýrri.

Þeir höfðu SÍS í vasanum og öfugt. Ekki dugði það því útgerðarauðvaldið og verðandi útrásarvíkingar voru sniðugri og sennilega ríkari líka. Ég er í þeirri skemmtilegu stöðu núna að ég þarf ekkert á stuðningi flokksins (eða annarra flokka) við eitt eða neitt að halda lengur.

Svo virðist vera að fjórflokknum verði breytt smástund í fimmflokk. Allavega er ljóst að gamlir og úr sér gengnir stjórnmálamenn munu halda áfram að ráða því sem þeir vilja eins og verið hefur undanfarin kjörtímabil.

Nýir og framsæknir stjórnmálaflokkar ná ekki að fóta sig. Illfyglin standa í vegi fyrir þeim, hvort sem um er að ræða fjórflokk eða fimmflokk. Sennilega eru það örlög okkar Íslendinga að sitja uppi með fjórflokkinn. (Undir ýmsum nöfnum) Ætli við eigum nokkuð betra skilið? Jón Gnarr er bara til skrauts hjá Bjartri Framtíð og nú er farið að falla á það skraut.

Póltitísk kaldhæðni hefur engin áhrif. Ekki frekar en það hefur áhrif hjá RUV að kalla á stjórnmálafræðing til að útskýra skoðanakannanir. Þvílíkt bull. Og að kalla þetta opinbera umræðu. Ja, svei.

Hallgrímur Helgason segist styðja Samfylkinguna. A.m.k. eins og er. Það gæti vel verið að hann gangi samt í björg fljótlega. Það er eðli rithöfunda að hugsa á sig gat.

En sleppum pólitíkinni. Ég er hundleiður á henni. Kosningarnar fara einhvern veginn. Ekki get ég kennt mér um úrslit þeirra. Nær væri að taka almennilega á móti vorinu. Þrátt fyrir tímabunda kuldatíð er það áreiðanlega á leiðinni og gott ef hann skellur ekki á með sólskin hér á Reykjavíkursvæðinju seinni partinn. Og þá verður gaman að lifa. Gróður er farinn að taka við sér, en það er bara plat. Raunverulegt vor kemur ekki fyrr en eftir páska.

Já, já. Auðvitað skrifa ég mest um sjálfsagða hluti. Kannski lýkst það upp fyrir einhverjum sem þessar línur les að gamalt fólk hugsar líka. Bara ekki alveg eins hratt. Veröldin hægir talsvert á sér þegar maður eldist. Líklega er það eðlilegt. Unga fólkið kemur ýmsu í verk einmitt með hraða sínum og ákefð. Óneitanlega finnst manni samt margt vera gert ákaflega vitlaust.

Þeir sem yngri eru vilja fremur krónuna en eitthvað annað. Svo er a.m.k. sagt. Hvernig skyldi standa á því? Trúa þeir ekki okkur sem eldri erum þegar við segjum krónuna vera undirrót alls ills? Gengisfellingar á gengisfellingar ofan eru dálítið þreytandi þó hægt sé að læra að lifa við þær. Gengisfellingar- og happdrættishugsunarháttur okkar Íslendinga er alveg að fara með okkur. Við ráðum ekkert við það að vera með sérmynt. Íslenska krónan er allsstaðar aðhlátursefni. Hefði það ekki verið vegna krónunnar þá hefði ekkert (eða a.m.k. lítið) Hrun orðið.

IMG 2701Að senda steypu uppí loftið. 


1896 - Sprengisandur

Hlustaði áðan á Árna Pál og Sigmund Davíð rífast á Bylgjunni. Fannst Árni Páll komast sæmilega frá því öllusaman og með góðum vilja mátti skilja formann Framsóknarflokksins þannig að honum fyndist heppilegast að segjast styðja krónuna en gera það samt ekki.

Svo horfði ég á byrjunina á silfri Egils og Eygló Harðardóttir olli mér vonbrigðum með að vilja ekkert ræða um þá fáránlegu samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins að loka bæri Evrópustofu svokallaðri og var þannig í raun samþykk henni. Baldur Þórhallsson stóð sig eiginlega best þeirra sem fram komu fyrst í þeim þætti.

Það er tiltölulega auðvelt að vera vitur eftirá, jafnvel stórgáfaður. Gallinn við stjórnmál dagsins í dag er einkum sá að menn eru fastir í fortíðinni. Eiginlega er það ekkert interessant varðandi stjórnmálin í dag af hverju Hrunið varð. Hvernig farið verður með það fé sem falið er núna fyrir íslenskum yfirvöldum er eina málið frá Hruninu sem skiptir nokkru máli varðandi stjórnmálin í dag og svo auðvitað skjaldborgin um heimilin.

Augljóst er að það var algjört dómgreindarleysi hjá Guðbjarti Hannessyni að gera samninginn um kauphækkunina við forstjóra landsspítalans. Ef það er eitt atriði sem hefur sett þá verðbólguskriðu, sem yfirvofandi er, af stað þá er það sú ákvörðun. Svona er nú baksýnisspegillinn góður. Ekki ímynda ég mér að Guðbjartur hafi séð þetta fyrir og þannig gert þetta viljandi.

Annars hef ég skrifað svo mikið um pólitík undanfarið að ég er að hugsa um að taka mér frí. Auðvitað hef ég samt jafnmikinn áhuga á því og flestir aðrir að bæta stjórnarfarið hér á landi. Alltaf verður samt ágreiningur um leiðir að markmiðunum og þessvegna eru stjórnmálin þannig vaxin að ekki er gott að gefa þeim of mikinn tíma af sínu lífi.

Það er kostur að blogga oft og mikið. Ég reyni að blogga ekki mjög mikið í einu en þess oftar. Held að mér hafi farið fram með árunum. Annars er það annarra að dæma um það. Afleiðingin af þessu bloggstandi er sú að ég skrifa fátt annað á meðan. Jú, jú ég skrifa kannski ýmislegt annað en mesta hugsun mín fer í bloggið. Margir sem blogga gera það bara öðru hvoru og helst um eitthvað ákveðið efni. En það geri ég ekki. Læt allt flakka og hef þessvegna fáar sögur að segja. Ég er búinn með þær flestar. Samt leggst mér alltaf eitthvað til. Ef ekki vill betur skrifa ég bara um pólitík. Á henni hef ég skoðanir eins og margir aðrir. Er heppinn að því leyti að á pólitíska sviðinu hefur margt og mikið gerst á undanförnum árum.

IMG 2694Misheppnað graffiti.


Bloggfærslur 4. mars 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband