1909 - 4 - 8 - 5 og sjö

4 – 8 – 5 og sjö
14 – 12 og níu.
11 – 13 eitt og tvö
18 – 6 og 10.

Þetta er fræg tölustafavísa og ég tek fram að ég samdi hana alls ekki. Sonur minn brilleraði einu sinni í skóla með því að kannast við þessa vísu. Útkoman (ef allar tölurnar eru lagðar saman) er stórt hundrað eða 120 eins og allir þeir sem fornum fróðleik unna, hljóta að vita.

Einhverntíma las ég bók sem hét (og heitir sjálfsagt enn) „Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð“ Hún var eftir finnskan höfund. Sennilega hef ég lesið hana á íslensku (örugglega ekki á finnsku) því nafnið er sennilega rétt hjá mér. Nenni samt ekki að spyrja Gúgla.

Efnið var að tveir menn hittust einhversstaðar í Finlandi og voru báðir á leiðinni til að fremja sjálfsmorð. Fóru samt að tala saman og datt í hug að auglýsa eftir fólki í fjöldasjálfsmorð. Gerðu það og fengu í framhaldinu rútu sem var fyllt af líkt þenkjandi fólki og svo var leitað að góðum stað. Leikurinn barst til Norður-Noregs og þaðan til Þýskalands og mig minnir að þetta hafi allt farið í handaskolum fyrir rest.

Þessi bók er eftirminnilega eins og margar finnskar bækur (skyldu Finnar vera líkir okkur?). Dettur stundum í hug fjöldafullnæging frekar en fjöldasjálfsmorð þegar ég horfi á endalok íþróttakappleikja í sjónvarpinu.

Það Deja Vu sem ég man best eftir, tengist páfadauða. Kannski þarf að útskýra fyrir einhverjum hvað Deja Vu er. Endurupplifun væri kannski hægt að nefna það á íslensku. Í svefnrofunum á Hótel Esju heyrði ég í útvarpinu sagt frá því að páfinn væri dauður og nú yrði að kjósa nýjan. Ég var alveg sannfærður um að ég hefði heyrt þetta skömmu áður undir sömu kringumstæðum. Seinna kom svo í ljós að þetta var allt páfanum að kenna. Hann hafði tekið uppá því að drepast stuttu eftir að hann var kjörinn páfi. Dagsetningu væri hægt að finna eða tala við páfafróðan mann en raunverulegt Deja Vu var þetta semsagt ekki.

Á svipuðum tíma man ég eftir að Bresnév eða einhver Sovétleiðtogi drapst skyndilega. Á fundi með einhverjum spáði ég um hver mundi taka við af honum og nefndi eina rússneska nafnið sem ég mundi eftir í svipinn. Það var nafnið Andropov. Mikil var undrun mín, þegar hann fékk svo djobbið.

Í skólanum í gamla daga hætti mér til að rugla saman ánum á Norð-Austurlandi. (Jökulsá á Fjöllum, Jökulsá í Dal og Lagarfljóti). Enda er ég Sunnlendingur, en ekki Austfirðingur. Finnst ekkert flókið varðandi Hvítá, Tungufljót, Brúará, Sog og Ölfusá. (Velti samt fyrir mér í eina tíð af hverju Jóni Gerreksyni var fleygt í Brúará en ekki Hvítá.) Bjó í Borgarnesi í þónokkur ár og á samt í miklum vandræðum við að greina á milli Borgarfjarðardalanna allra.

Þeir litlu flokkar sem kannski koma manni á þing í kosningunum í vor eru: Dögun, Píratar, Hægri grænir og Lýðræðisvaktin. (Já, nöfnin eru illa valin) Svo er það spurningin hvort Vinstri grænir, Björt framtíð og jafnvel Samfylkingin sjálf eru litlir flokkar. Gætu orðið það. Ef menn vilja fá Sjálfstæðismenn og Framsókn yfir sig aftur þá er ekkert við því að segja. Sú stjórnarandstaða sem þá tæki við völdum ætlar sér sennilega að hefja málþóf í æðra veldi.

Sagt er á Smugunni að Margrét Tryggvadóttir ætli að reyna að leika á Sigmund Davíð og Bjarna Ben með tillöguflutningi á alþingi. Bíðum og sjáum hvað setur. Efast um að öll kurl séu til grafar komin þar. Hef samt takmarkaðan áhuga á því sem gerist á alþingi. Finnst illa farið með tímann (sem sagður er af skornum skammti) þar.

IMG 2805Að byggja hús.


1908 - Under the Dome

Nú ætla ég að skrifa um bækur. Ég er nýbúinn að lesa bókina „Under the Dome“ eftir Stephen King. Þessi bók er einkum merkileg fyrir hugmyndina. Höfundurinn er óþægilega orðmargur en eflaust hentar það sumum og ekki er hægt að neita því að það er margt sem hann þarf að koma að.

Grunnhugmyndin er sú að einhverskonar hjálmur hvolfist skyndilega yfir lítið bæjarfélag í Bandaríkunum. Hjálmurinn er gegnsær og ómögulegt er að sjá hann, en sterkur mjög og engin leið að komast í gegnum hann. Forcefield eiginlega. Hann veldur að sjálfsögðu ýmiss konar vanda þegar hann hvolfist skyndilega yfir. En dagar og vikur líða án þess að hann fari í burtu og vera hans gefur höfundinum margskonar færi á að lýsa smábæjarlífinu.

Að því leyti líkist sagan „Peyton Place“ eða Sámsbæ sem var feykivinsæl bók fyrir löngu síðan. Heimspekilegar vangaveltur sem tengjast hjálminum gefa höfundinum tækifæri til að fjalla um lífið í þessum smábæ á margvíslegan hátt. Einnig eru tæknilegar og vísindalegar spurningar í þessu sambandi fyrirferðarmiklar og það er einkum í því sambandi sem ég er oft ósammála höfundinum. Hann fjallar þó um flestar þær hugsanlegu spurningar sem upp koma í þessu sambandi og hefur greinilega kynnt sér málin vel.

Fyrir allmörgum árum las ég bókina „The Stand“ eftir sama höfund. Sú bók fjallar um drepsótt sem herjar á allan heiminn en leggur þó ekki alla að velli, því fáeinir lifa af. Þónokkur fjöldi safnast saman í Denver í Colorado og í bókinni er lífinu þar lýst á sannfærandi hátt.

Stephen King hefur samið mikinn fjölda bóka og er einn vinsælasti höfundur Bandaríkjanna. Mér finnst þó þessar tvær bækur standa langfremst af þeim sem ég hef lesið eftir hann.

Sýnist að búið sé að slátra stjórnarskrárfrumvarpinu. Líklega á að samþykkja tillöguna frá þríeykinu (Katrínu, Guðmundi og Árna Páli) Hugsanlega á samt eftir að sannfæra einhverja stjórnarsinna um að það sé jafn-nauðsynlegt að samþykkja hana og að losa sig við stjórnarskrárfrumvarpið. En hvernig á þá að gera við kvótagreyið?

Miklar líkur held ég að séu á því að úrslit kosninganna í vor verði svipuð því sem skoðanakannanir sýna núna. Það er að segja: Útlit er fyrir talsverðan ávinning Framsóknar, tap Sjálfstæðisflokksins, allmikið tap ríkisstjórnarflokkanna og talsverðan fjölda smáflokka. Björt framtíð er líkleg til að fá nokkra þingmenn, sömuleiðis er líklegt að einhverjir smáflokkanna (kannski 2 – 4 ) fái þingmenn kjörna.

Afleiðingar þessara úrslita verða líklega einkum þær að Framsókn mun sennilega fara í ríkisstjórn, en hvort hún muni halla sér til vinstri eða hægri í leit að stuðningi til að ná meirihluta get ég ómögulega séð. (Fer kannski eftir því hve tap Sjálfstæðisflokksins verður mikið)

Í heildina vona ég þó að fjórflokkurinn tapi verulega. Hvað sjálfan mig varðar er líklegast að valið standi einkum á milli Bjartrar Framtíðar og Pírataflokksnins. Annars er þetta mín kosningaspá, en hún verður kannski lagfærð þegar nær dregur kosningum.

IMG 2737Auðvitað veit hún alltaf allt best.


Bloggfærslur 14. mars 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband