1851 - Breytingar

Skáksvindl er orðið vaxandi vandamál á mótum. Skákforrit eru svo feiknarlega sterk og aðgengileg að það að standa upp frá skák sinni, svo ekki sé talað um klósettferðir, vekur grunsemdir mótshaldara. Lyfjaneysla er líka orðin vandamál svo það er alls ekki auðvelt eða ódýrt að halda skákmót lengur. Lengi vel voru skákmót með öllu laus við þennan óþverra og ég man satt að segja ekki eftir öðrum vandamálum á þessu sviði en sígarettum. Ekki var ætlast til að menn blésu sígarettureyk framan í andstæðinginn, ef hann var svo óheppinn að reykja ekki, en að öðru leyti var svotil allt leyfilegt og vei þeim skákstjórnanda sem gleymdi að setja öskubakka á borðin.

Heilbrigðin ræður ríkjum á skákmótum nútildags og meiri líkur eru á að sjá þátttakanda bryðja gulrætur en súkkulaði.

Eins og nú er orðin venja getum við haldið skákmót í Hörpunni og boðið uppá óviðjafnanlega lífsreynslu fyrir þá sem hafa gaman af að tefla. Þeir eru alls ekki svo fáir í heiminum. Árleg skákmót þar eru sú besta landkynning sem hægt er að hugsa sér.

Seinni heimsstyrjöldin færði okkur Íslendingum heim sanninn um það að við getum sem best lifað í þeim heimi sem er. Við gætum alveg látið öllum líða vel. Við höfum aðgang að bestu fiskimiðum heims og ef þau bregðast sitjum við á nógu af heitu vatni til að lifa ágætu lífi eins lengi og það endist eða lengur. Líklega endurnýjast það að einhverju leyti.

En við þurfum endilega að herma eftir þeim sem mest eiga og gera fámenna yfirstétt forríka. Svo ríka að hún neyðist til að tortíma auðæfunum á Tortola. Ef við mundum losa okkur við afætur og þjófa úr eigin röðum gætum við komist ágætlega af.

Hvað á þá að gera við þá sem endilega vilja koma hingað í öll auðæfin. Það er þegar nokkuð erfitt. Gerum það bara ekki miklu auðveldara í einhverju hugsunarleysi. Við erum Norðurlandaþjóð og viljum vera það. Ef við erum það verðum við að hafa svipuð lífskjör. Hættum að elta Bandaríkjamenn útí hvaða fen sem vera skal. Högum okkur eins og Norðurlandabúar. Skandinavíska módelið er það besta.

Skammdegisþunglyndið leggst nú yfir okkur Íslendinga eins og kolsvart ullarteppi. Sama málið er upp á teningnum í Kastljósinu í heila viku. Engin grið eru gefin. Allir verða að hafa skoðun á barnaníði. Það er í tísku núna. Auðvitað leysum við ekki nema eitt mál í einu. Gallinn er bara sá að í skammdeginu leysum við yfirleitt ekki nokkurn skapaðan hlut, heldur flækjum okkur sem mest í ullarteppinu svarta. Svo kemur vorið og þá erum við svo himinsæl að við gleymum öllum Kastljósum og tengdum atburðum í fuglasöng og fíneríi.

Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn þreytast ekki á að tönnlast á því að stjórnarskrármál þurfi endilega að afgreiða í sem mestri sátt. Sátt hjá hverjum? Á alþingi? Já, en þar situr hópur sem hefur beinna hagsmuna að gæta og álit þeirra er í rauninni ómark. Sátt meðal þjóðarinnar? Já, en eru þær breytingar einhvers virði sem allir eru sammála um? Og er ekki nýja stjórnarskráin einmitt í talsverðri sátt hjá þjóðinni? Sátt hjá forsetanum? En hann sættir sig aldrei við neitt. Sátt hjá ofsatrúarmönnum? En þeir sætta sig ekki við neitt nema Guðlega forsjón. Sátt hjá vinstri vitleysingum? En þeir eru alltaf á móti öllu, nema kannski pólitískri rétthugsun. Er stjórnarskráin þá rétthugsun? Uss, ekki hafa hátt um það.

Hræddur er ég um að stjórnarskrármálið detti upp fyrir. Sá er hagur fjórflokksins. Tveir þeirra standa að ríkisstjórninni. Þeir svíkja heldur þjóðina en fjórflokkaskilninginn. Allt á að vera sem mest óbreytt. Engar breytingar skal samþykkja nema útúr neyð. Sá er skilningur þeirra. Ef farið er of ört í breytingar gætu völdin verið í hættu. Ekki skal taka þá áhættu að nauðsynjalausu.

Það virðist ætla að duga mér til talsverðra bloggvinsælda að setja nafn vinsæls bloggara sem fyrirsögn á bloggið mitt. Sú var samt ekki ætlunin, heldur var ég í einhverjum vandræðum með fyrirsögnina (eins og oft vill verða) og sá að ég hafði skrifað eitthvað um Evu Hauksdóttur í bloggið mitt. Þetta er a.m.k. ágætt sem eftiráskýring. Ég hef nefnilega fyrir löngu uppgötvað að það virkar vel til vinsælda að setja nafn eða nöfn í fyrirsögnina.

IMG 2392Listaverk.


1850 - Eva Hauksdóttir

Einhver harðasta refsingin sem úthlutað er á Norðurlöndum (og kannski víðar) um þessar mundir er útilokun frá fésbókinni. Pia Kjærsgaard er sögð hafa fengið útskúfun í heilan dag. Innlendur feminist hefur víst verið útlokaður þrisvar sinnum (einn dag í hvert sinn) Ekki held ég að Ögmundur hafi gert sér grein fyrir hvernig er hægt er að græða á þessu.

Einfaldast væri náttúrlega á láta fésbókina sjá um allar refsingar en ekki er víst að samningar mundu nást um það. Þar sem um er að ræða óvandað málfar, ærumeiðingar og annað smáskítlegt væri upplagt að nota fésbókina. Skoða þyrfti vandlega hvort ekki mætti líka láta í þessa ágætis verksmiðju háreisti og djöfulgang í heimahúsum.

Nota má þessa aðferð til prufu við næstu alþingiskosningar og hafa refsingarnar þá fremur vægar fyrsta kastið.

Ein frétt frá síðustu viku er mér ofar í huga en flestar aðrar. Veit ekki af hverju:

Laus armur laganna
gaf í og gusaði
á viðstaddar vampýrur
svo ljósmyndin langa
lukkaðist vel.

Gef ekki frekari skýringar. Meina ekkert sérstakt með þessu. Svona er þetta bara í mínum huga.

Himstrakeppnin í handbolta hófst í gær. Hún er haldin annað hvert ár á móti Evrópumeistaramótinu svo hægt sé að nota sér áhuga almennings sem mestur er jafnan í janúar. Einhver hélt því fram í sjónvarpi um daginn að handbolti væri þjóðaríþrótt Íslendinga og stæði jafnvel framar glímunni. Minntist ekki á knattspyrnuna sem enn er langvinsælust og mest iðkuð hér á ísa köldu landi þó himstrakeppnin þar sé bara fjórða hvert ár og ekki í janúar. Glíman er bara þjóðaríþrótt að því leyti að aðrir stunda ekki slíka vitleysu og hefur verið þannig þjóðaríþrótt í marga áratugi.

Einhverntíma ekki alls fyrir löngu skrifaði Jens Guð athugasemd við bloggið mitt og kvaðst oft líta á það hjá mér. Sömuleiðis. Ég varð náttúrulega talsvert upp með mér enda finnst mér Jens góður bloggari. Kannski fær hann hugmyndir af því að lesa bloggið mitt. Fæ ég kannski hugmyndir af því að lesa bloggið hans? Ekki finnst mér það. Ætli það sé ekki yfrið nóg af hugmyndum á sveimi um allt þó maður nái í skottið á einni og einni. Skrifelsishugmyndir fara mest eftir þeim sem hugmyndirnar fær. Ekki því hvað bloggarinn hefur farið oft til útlanda eða gert hitt oft. Að gera hitt einsog Þórbergur komst jafnan að orði er ekki það sem lífið snýst um. Kannski gerir það það samt hjá sumum.

Eva Hauksdóttir reynir af veikum mætti að berjast gegn feminisma og pólitískri rétthugsun. Stundum verður henni prýðilega ágengt í því, en það er þegar hún talar um rétt fólks til að skrifa undir dulnefni sem ég sperri eyrun. Með eignarrétti stórfyrirtækja á Internetinu, sem er í undirbúningi, líður ekki á löngu áður en frelsið til að dyljast þar líður undir lok og það er mikill skaði. Sú þöggun sem þá verður hægt að beita er hættuleg allri netumræðu. Það er sú þöggun sem hingað til hefur verið beitt. Með Internetinu hefur svolítið los komist á hana og það eiga ráðandi öfl erfitt með að þola. Auðvitað misnota sumir dulnefnisréttinn en hjá því verður aldrei komist.

IMG 2391Það er alveg að koma.


Bloggfærslur 13. janúar 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband