29.8.2012 | 18:27
1751 - Ágúst Borgþór
Skilst að Ágúst Borgþór skrifi aðallega á kaffihúsum. Helst þurfa þau að vera í Þýsklandi. Getur samt látið aðra staði duga. Segir einmitt frá því á fésbókinni að hann hafi fundið heppilegt kaffihús í miðborg Reykavíkur. Veit ekki hvort kaffihúsið telur sig hafa fundið hann. Skáld og rithöfundar skrifa oft á furðulegustu stöðum.
Ég er samt ekki að halda því fram að kaffihús séu furðuleg í þessu sambandi. Halldór Kiljan Laxness skrifaði alltaf standandi við skrifpúlt. (Helgi Ágústsson gerði það líka, en hann var ekki rithöfundur mér vitanlega) Sem betur fer var þetta skrifpúlt heima hjá honum. (Þ.e.a.s Halldóri, ekki Helga) Sjálfum finnst mér best að skrifa við tölvugarminn minn snemma á morgnana. Útsýni til Perlunnar spillir ekki. En ég er nú hvorki skáld né rithöfundur svo það er ekki að marka.
Mann þekki ég sem hvergi getur skrifað nema á klósettinu. Hann fer nokkuð oft á klósettið og er þar lengi. Þessi maður er þekktur rithöfundur en ég vil ekki segja til hans. Kannski mundu lesendur hans kunna því illa. Hugsanlega á þetta að vera leyndarmál. Annars segir pólitíska rétthugsunin að maður eigi ekki að eiga nein leyndarmál. Allir megi tala um hvað sem er og allir eigi að tala um hvað sem er. Það sem talað er um hlýtur að mega skrifa um líka. Ég er samt ekki viss um að þetta eigi alltaf við.
Þetta leiðir huga minn, sem ég ræð lítið við, að dulnefnum á Internetinu. Þar man ég best eftir DoctorE. Hann vill frekar að rigni yfir sig eldi og brennisteini, en að gefa upp nafn sitt þannig að allir megi sjá. Ég hef heldur ekki hugmynd um hver hann er. Ég er mjög hlynntur því að menn geti skrifað undir dulnefni. Svo er náttúrulega vel hægt að þegja. Það gera margir. Kannski of margir.
Egill Helgason skrifar um kvótamál og ýmislegt þessháttar í tilefni af grein eftir Guðmund í Brimi þar sem því er haldið fram að þorskurinn í sjónum eigi sig sjálfur. Slíkar heimspekilegar vangaveltur skipta auðvitað engu máli þegar rætt er um kvótamál. Einkarekstur og opinber rekstur gerir það hinsvegar og þar með er málið orðið pólitiskt.
Það er hægt að sanna það á óyggjandi hátt að opinber rekstur er yfirleitt óhagkvæmari en góður einkarekstur. En er einkarekstur alltaf góður? Það finnst mér Hrunið hafa afsannað. Miður góður einkarekstur er ekki vitund betri en lélegur opinber rekstur. Þarna er það sem stjórnmálin stöðvast yfirleitt. Hægri menn halda sig við einkareksturinn en vinstri menn við þann opinbera. Endalaust er svo hægt að finna tölur og tímabil sem sanna hvað sem er. Það hvort rekstur er einkalegur eða opinber þarf ekki að skipta nokkru máli.
Mín skoðun á vinstri og hægri er sú að síðastliðin fjögur ár hafi verið stefnt til vinstri hér á landi. Hægri sinnaðir stjórnmálamenn vilja auðvitað beygja aftur til hægri þó greinilegt sé að árin fyrir Hrun var stefnt of mikið í þá átt. Auðvitað er ekki hægt að sanna þetta og pólitíkin mun áfram snúast um sálir mannanna eða réttara sagt atkvæði þeirra.
Enn og aftur er þetta blogg mitt orðið pólitískara en ég ætlaði. Hvernig ætli standi á því? Þegar ekki er lengur hægt að óskapast og rífast yfir veðrinu, það er nefnilega svo gott, þá taka stjórnmálin við. Það er svosem hægt að rífast um ýmislegt annað, en það hafa allir vit á pólitík og þessvegna er svo gott að rífast um hana.
MicrosoftAppleSamsungGoogleAmazonYahooNokia
Hvern er best að veðja á. Skilst að þetta séu fjarskipta- og tölvufyrirtæki sem berjist um yfirráð yfir markaði sem sífellt er að verða stærri og stærri. Einu sinni var til siðs að tala um bílafyrirtæki þegar rætt var um stórfyrirtæki. Það er vist ekki svo lengur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2012 | 05:34
1750 - Fésbókarstagl
Ekki veit ég með ykkur. Mín fésbók er orðin yfirfull af allskyns rusli. Sennilega eru fésbókarvinirnir mínir líka alltof margir. Skynsamlegast býst ég við að væri að fækka þeim verulega eða fara mun sjaldnar á fésbókina. Sennilega er líka hægt að stinga upp í þá án þess að þeir viti. Hef bara ekki gáð að því. Já, gallinn við fésbókina er sá að þessi fjári er jafn ávanabindani og kaffi. Nota ekki sterkari eiturlyf núorðið. Hættur að reykja og að mestu hættur að drekka því vínið er svo dýrt hér.
Að mínu viti vantar öfluga miðju í íslensk stjórnmál. Ef Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin gætu unnið saman að stjórn landsins án klíkuskapar og án sinna æstustu fylgismanna, þá er von. Æstustu frjálshyggjupostular sjálfstæðisflokksins og heitustu vinstri menn Samfylkingarinnar mega ekki taka sjálfa sig of hátíðlega. Miðjumoðið er eina vonin.
Á tuttugust öldinni kopíeruðu kommarnir á Íslandi eins mikið og þeir gátu ástandið í Ráðstjórnarríkunum og Sjálfstæðisflokkurinn dáðist mjög að öllu sem kom frá Ameríku. Þegar þeir deildu um ágæti kommúnismans og kapítalismanns á sýningunni austur í Moskvu þeir Krúsjeff og Nixon var það ekki bara til skrauts. Þar náði stríðið milli austurs og vesturs (kalda stríðið) hámarki sínu. Síðan hefur flest í samskiptum þessara þjóða stefnt framávið. Von heimsins er að sú þróun haldi áfram.
ESB er einfaldlega þriðja aflið sem hugsanlega getur bjargað heiminum. Fátt er hættulegra en einstrengingslegar skoðanir þjóða um hin ýmsu málefni. Samningar eru það sem mestu máli skiptir. Hvort Ísland gerist aðili að ESB er afar lítilvægt atriði fyrir heimsfriðinn en kann á hinn bóginn hafa þýðingu fyrir Íslendinga sjálfa.
Horfi afar lítið á sjónvarp. (Er annars ekki heilsuspillandi að horfa of mikið á það?) Sé fáar kvikmyndir. Aðallega skoða ég trailera í kyndlinum mínum því það kostar ekki neitt. Svona verður lífið þegar maður fer að eldast. Fátt spennandi nema helst bloggið og pólitíkin. Get kannski æst mig pínulítið ef mikilli vitleysu er haldið fram varðandi rafbækur. Hef nefnilega áratugum saman verið þeirrar skoðunar að framtíðin sé þeirra.
Já, og svo er það náttúrlega skákin. Enn held ég þeim sið að tefla samtímis nokkra tugi bréfskáka. Er orðinn svo metnaðarlaus þar að mér er bara alveg sama þó ég leiki stórkostlega af mér eða gleymi að leika. En það er samt alltaf gaman að vinna skák. Jafnvel þó andstæðingurinn leiki klaufalega af sér.
Nú fer kosningaundirbúningur að fara á fullt. Búast má við hatrömmum árásum á RUV-ið í framhaldi af því. Ef gagnrýnin verður álíka miki úr báður áttum mega þeir vel við una. Annars finnst mér vefmiðlum (sem ég nota nú aðallega) fara mjög aftur um þessar mundir. Fréttaskrifin eru oft mjög hroðvirknislega unnin og íslenskan á þeim léleg. Einhverjar krónur kunna að hafa sparast með því að losa sig við reynslumikla blaðamenn og láta skólakrakka um þetta í staðinn. Þau valda þessu bara alls ekki
Greinarnar á Smugunni, Eyjunni og fleiri netmiðlum eru oft ágætar. Eins er ég viss um að margir lesa það sem Egill Helgason lætur frá sér fara og ég hugsa að orðið á götunni sé líka vinsælt.
Þessi ófreskja var á reinfanginu. Þorði ekki nær.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)