27.2.2012 | 23:09
1624 - ESB og Steinunn Ólína
Gamla myndin.
Heilsað við heimkomu.
Óneitanlega hallast ég að því að ég bloggi of mikið. Mér finnst næstum eins og ég þurfi að skrifa eitthvað á bloggið mitt á hverjum degi. Það er óþarfi. Mest er þetta meiningarlaust blaður. Það finnst mér a.m.k. stundum eftirá. Þegar ég set ósköpin upp finnst mér það sem ég skrifa stundum vel sagt. Ekki er það samt alltaf. Stundum sé ég ósköp vel sjálfur að skrif mín eru marklaus. Einkum á það við um stjórnmálalegu skrifin, enda hef ég enga sérþekkingu á slíkum ósköpum sem pólitíkin er og ekki fæ ég upplýsingar fyrr en aðrir. Margt annað get ég skrifað um. Bollaleggingar mínar um bloggið sjálft eru kannski stundum einhvers virði. A.m.k. fyrir þá sem áhuga hafa á slíku. Að koma því sem maður hugsar sæmilega frá sér í orðum er auðvitað fyrst og fremst æfing.
ESB-málið er og verður mál málanna. Þó ég sé ekkert að bila í stuðningi mínum við aðild sé ég greinilega að ólíklegt er að hún verði samþykkt af þjóðinni í þessari atrennu. Samt er rétt að klára það ferli sem hafið er. Verði aðildarumsóknin felld í þjóðaratkvæðagreiðslu verða a.m.k. svona fimmtán til tuttugu ár þangað til næst verður reynt. Þá verður hugsanlega svo komið fyrir okkur Íslendingum að við verðum að nýju farin að dragast verulega aftur úr öðrum Evrópuþjóðum í lífskjörum. Ef hinsvegar verður hætt við alltsaman núna verður hugsanlega farið af stað aftur fljótlega. Þessu virðast ESB-andstæðingar ekki nærri alltaf gera sér grein fyrir. Andstaða þeirra við aðild að ESB snýst oft upp í ríkisstjórnarandúð. Ríkisstjórnir koma og fara en Evrópusambandsaðild ekki. Þessvegna geta þær umræður um aðild eða aðild ekki, sem væntanlegar eru, orðið óvenju hatrammar.
Á bloggi Arnþórs Helgasonar er eftirfarandi klausa sem líklega er eftir Pétur Blöndal:
Merkilegt nokk, þá er ekki útilokað að sægreifar, kommúnistar, kapítalistar, femínistar, miðaldra karlar, stjórnmálamenn, öfgatrúaðir, öfgavantrúaðir, karlrembur, lattelepjandi listamenn eða útrásarvíkingar geti haft nokkuð til síns máls.
Þarna er verið að tala um hve mikið það tíðkast að fara í manninn frekar en boltann.
Las fyrir nokkru bók um líf heimskonunnar og auðkýfingsins Sonju de Zorillo sem Reynir Traustason skrifaði. Sonja var eitthvað skyld eða tengd einhverjum á Núpum í Ölfusi og lét byggja þar íbúðarhús fyrir sig. Það sem Hvergerðingar og aðrir nágrannar hennar töluðu mest um í sambandi við það var að sundlaugin skyldi vera á annarri hæð. Þeir voru ekki að setja það mikið fyrir sig að í húsinu skyldi vera sundlaug. Það hefði samt þótt óhemju spandans í mínu ungdæmi. Held að hún hafi látið eftir sig allmikla peninga og sjóður verið stofnaður en honum verið komið lóg af útrásarvíkingum.
Auk þess legg ég til að Steinunn Ólína endurskoði afstöðu sína til forsetaframboðs. Kannski vill hún bænarskrá líka. Hugsanlega er hægt að fá afleggjara hjá Ólafi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.2.2012 | 01:34
1623 - Hagsmunasamtök heimilanna
Gamla myndin.
Feðgar ræða saman.
Húsnæðiskerfið hér á Íslandi er tóm þvæla. Ég á ekki bara við húsnæðislánakerfið sem er nógu snúið til þess að dómstólar dæma út og suður og lögspekingar vaða uppi og raka saman fé að amerískri fyrirmynd. Íslenskt þjóðfélag er að verða þjóðfélag málaferlanna og mótmælanna. Reynt er að koma húsnæðisþvælunni allri saman yfir á almenning með því að láta hann bera ábyrgð á sem flestu. Þeir sem peningana hafa ráða þó enn öllu sem þeir vilja. Útrásarvíkingarnir eru ekkert að sleppa neinu taki. Breyta bara um baráttuaðferðir og fá aðstoð sérfræðinga við að rata um lagaflækjur þær sem þeir áttu þátt í að koma á.
Þó ríkisstjórnin sé á margan hátt viljalaust verkfæri í höndum peningaaflanna verður ekki hjá því komist að hafa einhverja stjórn á hlutunum. Það eina sem virðist geta breytt einhverju til frambúðar án þess að vandræði hljótist af er nýja stjórnarskráin. Þó er mjög óljóst hver áhrif hennar mundu verða ef frumvarp um hana verður samþykkt. Verði frumvarpið samþykkt þarf það helst að vera nokkuð afgerandi svo tekið verið mark á því. Kannski verður endirinn sá að það eina sem breytist er að völd forsetans hafa aukist að mun (vegna aðgerða ÓRG) og e.t.v. næst fram einhver réttur til þjóðaratkvæðagreiðslna.
Gísli Tryggvason, umboðsmaður neytenda, hafði í fullu tré og rúmlega það við þingmanninn Vigdísi Hauksdóttur í Silfri Egils í dag. Aðrir voru hálfgerðir statistar þar. Ótrúlegt er annað en fylgi framsóknarflokksins verði áfram lítið í næstu þingkosningum. Líklegt er líka að kosið verði um stjórnarskrárfrumvarpið samhliða forsetakosningunum í vor e.t.v. með valkostum varðandi umdeildustu breytingarnar.
Það er misjafnt hvort menn setja niður við það að auglýsa pólitíska sannfæringu sína. Geir Jón Þórisson virðist samt hafa gert það. Eflaust auglýsir hann sig þó vitandi vits. Frami hans innan Sjálfstæðisflokksins er vafasamur.
Kóngulóarvefur ég meina svell.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)