1253 - Málfrelsið hefur margar hliðar

Það er lítill vandi að verja tjáningarfrelsi þeirra sem maður er alveg sammála en erfitt að verja leyndarmálafrelsi allra þeirra sem til einhverra metorða komast.

Þetta er á margan hátt kjarninn í skoðunum mínum á málfrelsismálum. Þó mikið mál- og tjáningarfrelsi geti stundum valdið vandræðum er þöggunin oftast verri. Þessi mál eru þó öll æði margslungin og margt getur blandast inn í umræður um þau.

Ég er hættur sem miðnæturbloggari. Hafði samt ekki gert mér grein fyrir að það hefði áhrif á veru mína á Blogg-gáttinni. En svo virðist vera og er kannski ekki nema eðlilegt. Ég bloggaði semsagt klukkan rúmlega 10 í gærkvöldi og svo aftur allsnemma í morgun. Sé ekki að færslan frá í gærkvöldi sé nokkursstaðar. Kannski er það vegna seinni færslunnar.

Sá áðan að Sverrir Stormsker hafði spunnið upp einhverja langloku um Ástþórsmálið og ýkt það stórlega. Hann skákar augljóslega í því skjólinu að enginn taki bullið í honum alvarlega og að Moggabloggsguðirnir þori ekki að loka síðunni hans. Mér fannst hann ekkert sérlega fyndinn en hann linkaði í mbl.is fréttina um þetta mál í lokin og þar er ekki um neinar augljósar ýkjur að ræða sýnist mér.

Maður nokkur fór í feðralag með son sinn að nafni Hveragerði og dótturina Ólafsvík. Nei annars, ég er steinhættur við þessa sögu. Þetta átti víst að vera eitthvað fyndið hjá mér. Hef orðið var við áráttu frægs fólks í útlöndum að skíra börn sín staðarnöfnum. Vesalings börnin.

IMG 4051Beðið eftir brauðinu.


1252 - Tjáningarfrelsi

Blöskrar hve auðvelt er að þagga niður í fólki. Moggabloggsguðirnir hafa komist upp með að þagga niður í hverjum sem er hér á blogginu og þó einhverjir kvaki hefur það ekki haft mikil áhrif. Ástæðan er líka alltaf einhver og þó sumir séu fegnir eru aðrir það ekki. Menn geta svosem fært sig annað og gera það en ég er ekki viss um að þeir séu eins beittir þar og fái sama lestur og áður.

Líka er hægt að halda sig nokkurnvegin á mottunni eins og ég og fleiri gerum. Ég reyni að passa mig að vera ekki of persónulegur eða orðljótur og held að mínu bloggi verði seint lokað vegna þess.

Í gær var Ástþór Magnússon fyrrum forsetaframbjóðandi handtekinn og færður til yfirheyrslu og sleppt síðan. Þetta stafar að ég held af kæru frá DV vegna gruns um að Ástþór standi fyrir skrifum á síðunni „sorprit.com" . Mér þótti þetta nokkuð merkileg frétt og hún rataði í vefmiðlana en virðist ekki ætla lengra.

WikiLeaks hafa verið í fréttum á heimsvísu en ekki er annað að sjá en alþjóðlegu stórfyrirtækin eigi að komast upp með að leggja stein í götu þeirra og á endanum að gera útaf við þá sem þar ráða.

Svona er þetta oftast nær. Það er nóg til af „fréttum" og auðvelt að kæfa það sem manni líkar ekki við. En fjölmiðlar með fjölda fólks í fastri vinnu eiga að þjóna lesendum sínum en ekki mata þá.

IMG 4043Kópavogur á jólum.


Bloggfærslur 4. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband