Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
27.4.2007 | 00:48
35. blogg
Í gærkvöldi horfði ég á myndina "Bowling for Columbine" á alluc.org. Nei, ég hafði ekki séð hana áður. Mér fannst hún alveg þokkalega góð en þó varla verðskulda allt það umtal sem um hana varð á sínum tíma. Vissulega fjallar hún um áhugavert efni en er eiginlega ekkert sérstaklega vel gerð.
Mér finnst þetta mjög sniðugt að geta horft á myndir og annað efni á Netinu án þess að þurfa að dánlóda það. Ég er viss um að þetta streaming er framtíðin. Á alluc.org er ótrúlega mikið efni, bæði kvikmyndir og sjónvarpsþættir.
Einn af fyrstu landsleikjunum í knattspyrnu sem ég sá var landsleikur milli Íslendinga og Bandaríkjamanna. Sennilega hefur það verið svona um miðjan sjötta áratug síðustu aldar. Leikurinn fór fram á Melavellinum gamla og ég man ekki með hverjum ég fór í bæinn eða hvernig ég komst aftur heim í Hveragerði. Líklegt er þó að ég hafi farið með einhverjum sem hefur haft yfir bíl að ráða, en það hafði ég alls ekki á þessum tíma. Ég man að það voru nokkuð margir áhorfendur á leiknum og ég var eitthvað að flytja mig til á áhorfendastæðunum meðan á leiknum stóð. Ég endaði með því að standa uppá þaki á skúrunum sem voru næst Hringbrautinni. Þá var nokkuð langt liðið á leikinn og Bandaríkjamönnum tókst að jafna 3:3. Alveg undir lok leiksins tókst Íslendingum svo að komast aftur yfir og leikurinn endaði 4:3. Í seinni hálfleik sóttu Íslendingar á syðra markið svo ég sá ekki vel síðustu mínútur leiksins, enda minnir mig að það hafi verið byrjað að skyggja þá. Ég held að Gunnar Gunnarsson hafi skorað lokamarkið. Gunnar held ég að sé eini Íslendingurinn sem hefur verið á sama tíma Íslandsmeistari í knattspyrnu og í skák.
Ástæðan fyrir því að ég man svona vel eftir þessum leik er sú að þegar leiknum lauk stökk ég ofan af skúrþakinu þar sem ég var staddur og sneri mig svo illa á löppinni að ég var í marga daga að jafna mig.
26.4.2007 | 00:09
34. blogg
Alveg er ég hissa á hvað Stefán Pálsson nennir að andskotast útaf þessu Moggabloggi. Svei mér ef álit mitt á því eykst ekki pínulítið við það. Nú skrifar hann pistil um Moggabloggið og reynir að vera málefnalegur en í mínum augum er hann bara fyrst og fremst hlægilegur.
Hann er mánuðum saman búinn að hnoða saman einhverjum bölbænum um Moggabloggið í lok hverjar einustu bloggfærslu hjá sér. Barnalegt. Kannski er hann búinn að komast að því að Moggabloggið hverfur ekki þó hann láti illa og er að leita sér að útgönguleið útúr vitleysunni.
Annars hef ég lesið bloggið hans Stebba árum saman og finnst það fínt. Líklega er hann samt skelfilegur besservisser. Leiðinlegast finnst mér þegar hann dembir spurningum í miklu magni yfir lesendur sína og má ekki vera að því blogga neitt af viti.
Ólína Þorvarðardóttir skrifar um að einhver hafi náð því að eignast 195 bloggvini hér á Moggablogginu án þess að blogga nokkuð. Mér finnst þetta fyndið og sýna vel hvernig þessi bloggvinasótt hefur farið úr böndunum og ég er svosem sammála Stebba Páls um að það er margt athugavert við Moggabloggið.
En nú koma lokin á brunafrásögninni:
Þegar ég kom út stóðu stelpurnar þar og horfðu inn um opnar útidyrnar og á dyragættina innaf bíslaginu. Ég tók mér stöðu við hlið þeirra og saman stóðum við þarna og biðum eftir því að foreldrar okkar og bræður kæmu út úr brennandi húsinu.
Það var fremur kalt í veðri enda komið fram í desember, örlítil snjóföl yfir öllu og jörð frosin. Þó við systkinin værum berfætt og aðeins klædd náttfötum varð okkur ekki kalt. Að minnsta kosti var ekki um það rætt. Reyndar var ekki rætt um neitt. Við stóðum bara þarna og biðum án þess að segja eitt einasta orð.
Ég man að ég stóð syðst og næst kálgarðinum, Ingibjörg í miðjunni og Sigrún næst veginum. Við stóðum dálítið á ská miðað við húsið og störðum í eldinn.
Eftir nokkra stund tóku eldtungur að standa út um opna dyragættina sem við horfðum eins og dáleidd á. Eldurinn magnaðist smátt og smátt og eldtungurnar breiddust fljótlega út um alla ofanverða dyragættina. Drengurinn níu ára gamall og systur hans tvær sem voru nokkrum árum eldri stóðu þarna í umkomuleysi sínu og horfðu á eldinn magnast og æsast og fylla að lokum alla dyragættina.
Hugur drengsins var sem lamaður. Þarna voru foreldrar hans og tveir bræður inni í eldinum og hann gat ekkert gert. Það væri óðs manns æði að ætla sér að fara aftur inn í húsið enda datt engu þeirra það í hug. Þau stóðu bara þarna sem lömuð og gátu hvorki hreyft legg né lið. Hann reyndi að gera sér í hugarlund hvernig lífið mundi verða uppfrá þessu. Hann og systur hans munaðarlaus og mundu hvergi eiga öruggt skjól. En hugur hans var fastur og hann gat ekki hugsað um neitt nema þetta sama fram og aftur.
"Nú verð ég munaðarlaus, mamma og pabbi dáin og bræður mínir ekki lengur til. Þetta er hræðilegt. Ég veit ekki hvað ég á að gera. Ég get eiginlega ekki gert neitt. Bara staðið hérna og starað í eldinn." Aftur og aftur þyrluðust þessar hugsanir í huga hans. Engin niðurstaða fékkst, bara þetta sama aftur og aftur. Hann hafði enga hugmynd um hve lengi hann stóð þarna. Stelpurnar stóðu þarna við hliðina á honum og hugsuðu sennilega eitthvað svipað. Ekkert þeirra sagði þó eitt einasta orð. Það eina sem þau gátu gert var að stara í þögulli skelfingu í eldinn. Þau voru yfirkomin af ógn þess sem var að gerast. Gersamlega lömuð. Ófær um að hreyfa sig. Ógnin lagðist yfir þau og kom í veg fyrir að þau fyndu til hita frá eldinum eða kulda frá umhverfinu.
Skyndilega kom Vignir blaðskellandi fyrir hornið á húsinu og sagði: "Hvað er þetta? Ætlið þið ekki að koma?"
Álögin runnu af okkur systkinunum á augabragði og við eltum Vigni sem sneri strax við og fór aftur bak við hús. Þar voru foreldrar okkar og Björgvin og höfðu þau öllsömul komist út úr húsinu með því að brjóta rúðu í glugganum á svefnherberginu, því þegar búið var að finna Vigni sem hafði falið sig undir rúmi í öllum ósköpunum, var eldurinn á ganginum orðinn svo magnaður að ekki var fært þar út úr húsinu.
Við fórum nú öll sjö yfir til Steinu og Tedda í næsta húsi og vöktum upp. Þar var okkur að sjálfsögðu vel tekið. Pabbi hafði skorið sig á hendinni við að brjóta gluggann og mamma hafði ekki haft tíma til að taka fölsku tennurnar sínar með sér, en að öðru leyti amaði svosem ekkert að okkur.
23.4.2007 | 19:41
33. blogg
Nú er ég farinn að átta mig á hvers vegna ég er að blogga. Þetta eru einskonar ritæfingar. Mér leiðist að vera að burðast við að skrifa um málefni dagsins með því að linka í fréttir Moggans því það eru svo margir sem það gera (eflaust oft í auglýsingaskyni) og ég held að ég hafi litlu þar við að bæta. Pólitíkin er líka oft svo leiðinleg, jafnvel leiðinlegri en rjómatíkin Kiljans, að ég get ekki fengið af mér að skrifa langt mál um hana þó ég hafi að sjálfsögðu skoðanir á ýmsu sem þar er til umræðu og auðvitað muni ég kjósa eins og ég er vanur. Í lífi mínu og fjölskyldunnar gerist ekki margt sem í frásögur er færandi um þessar mundir og þá finnst mér einkum vera eftir það sem mér finnst mest gaman að skrifa um, en það eru frásagnir um eitt og annað frá því í gamla daga. Vel getur hugsast að einhverjir, ættingjar og aðrir sem eru nálægt mér í aldri hafi gaman af að lesa þetta. A.m.k. er lítil hætta á að aðrir skrifi um það sama.
Á laugardaginn fórum við Áslaug ásamt Benna upp að Húsafelli í heimsókn til Bjarna og Charmaine. Við skoðuðum okkur nokkuð um í Víðgelmi, því leiðin að Surtshelli var lokuð. Einnig skoðuðum við Hraunfossa í bakaleiðinni en að öðru leyti gerðist ekki margt merkilegt í þessari ferð. Á uppeftirleiðinni fórum við um Dragháls en í bakaleiðinni framhjá Borgarnesi. Þegar ég gúglaði Víðgelmi áðan svona að gamni mínu þá vakti það athygli mína að lítið virtist skrifað um þennan víðkunna helli á íslensku, svolítið meira á ensku en mest á öðrum málum, einkum þýsku, frönsku og spænsku sýndist mér.
Jæja, nóg um þetta og áfram með smjörið. Hér kemur næsti kafli úr endurminningunum um brunann í desember 1951.
Ég hafði vaknað skyndilega um nóttina á dívaninum mínum inni í svefnherbergi hjá pabba og mömmu. Bræður mínir tveir, Vignir 6 ára og Björgvin 2 ára, sváfu líka í herberginu. Í sömu mund og ég vaknaði hafði mamma þotið fram úr hjónarúminu.
Þetta var í öðru af þeim tveimur stóru herbergjum sem voru í viðbyggingunni sem lokið hafði verið við um sumarið. Stelpurnar, Sigrún og Ingibjörg voru í hinu herberginu en Unnur var farin að heiman. Jórunn amma var einnig í húsinu en ekki fleiri.
Ég hljóp fram úr rúminu á eftir mömmu en hún sneri sér við þegar hún hafði opnað fram á gang og sagði við mig:
"Farðu og vektu hann pabba þinn og segðu honum að það sé kviknað í húsinu."
Ég hlýddi umyrðalaust enda var eitthvað skrýtið um að vera frammi á ganginum. Snark og læti ásamt einkennilegri birtu.
Ég flýtti mér að fara hinum megin við hjónarúmið og ýtti á öxlina á pabba:
"Pabbi, pabbi. Vaknaðu. Vaknaðu, það er kviknað í húsinu."
Pabbi var ekki lengi að vakna og þegar við komum fram að svefnherbergisdyrunum kom mamma til baka eftir að hafa vakið aðra í húsinu. Stelpurnar þær Sigrúnu og Ingibjörgu og Jórunni mömmu sína. Þegar hún sá að við vorum komnir að dyrunum sagði hún við mig:
"Hlauptu út með stelpunum, við komum svo á eftir með litlu strákana."
Ég hljóp yfir ganginn rétt á eftir stelpunum sem ég sá í þessu hlaupa út. Þó leiðin væri ekki löng var einhver geigur í mér. Undarleg birta var á ganginum og snark og hiti fyrir ofan mig. Ég þorði þó ekki að líta upp því ég óttaðist að það mundi tefja mig. Þegar komið var yfir ganginn tók við opin dyragætt og eitt þrep niður og þá var komið í bíslagið og útidyrahurðin til vinstri.
(framhald síðar)
21.4.2007 | 00:10
32. blogg
32. blogg
Andskotinn í Helvítinu hóar / hinum megin við Esjuna snjóar / Mýramenn í koppa sína kúka / og klóra sína lúsugu búka. Þessi gamla vísa grasserar í huga mér akkúrat núna. Eflaust er hún öðruvísi í minningu sumra og í sjálfu sér er hún ekki merkileg. Ekki einu sinni rétt ort eins og ég man hana.
Nýbúinn að blogga og ekki frá miklu að segja. Var að enda við að lesa skáldsögu sem kölluð er Ár hérans" og er eftir finnskan höfund. Merkilegt hvað ég, sem nánast er hættur að lesa skáldsögur, hef mikinn smekk fyrir finnskum sögum. Í fljótu bragði man ég eftir þónokkrum. Mika Waltari las ég fyrir mjög löngu síðan og man t.d. vel sögu eftir hann sem heitir Egyptinn". Síðan man ég vel eftir sögu sem ég las fyrir mörgum árum og heitir Manillareipið". Fyrir fáeinum árum las ég svo sögu sem heitir Stórfenglegt fjöldasjálfsmorð" eða eitthvað í þá áttina. Allt eru þetta nokkuð eftirminnilegar bækur og á margan hátt ágætar. Finnar eru sérstakir, næstum eins sérstakir og við Íslendingar. Talandi um alla þessa Finna man ég líka eftir formúlu-eitt-brandara frá því fyrir nokkrum árum. Formúlufíklar sögðu gjarnan og þóttust gáfaðir: To win a race you have to finish." Þessu var svo breytt lítillega þegar Hakkinen var uppá sitt besta og sagt: To win a race you have to be finnish."
En auðvitað er aðalástæðan fyrir því að ég blogga svona fljótt aftur sú að ég þarf að koma næsta kafla af framhaldssögunni að:
Upp við Reykjafoss hitti ég Jósef Skafta sem þar var á gangi með Auði systur sinni. Við fórum öll þrjú í áttina að bakaríinu og við Jósef höfðum um margt að tala. Ekkert var þó minnst á atburði næturinnar. Fyrir framan bakaríið heyrði ég að Auður var að spyrja Jósef bróðir sinn um eitthvað en hann sagði henni að þegja og hætta þessu rövli. Ég var forvitinn og spurði hvað hún hefði verið að segja.
"Hún var eitthvað að tala um að húsið heima hjá þér hefði brunnið í nótt", sagði Jósef.
"Af hverju viltu ekki leyfa henni það?" spyr ég steinhissa.
"Ég hélt að það mundi kannski særa þig", svarar Jósef.
Ég er alveg gáttaður. Hvernig getur honum dottið slík fjarstæða í hug. Eins og mér sé ekki sama þó húsið hafi brunnið. Það er frekar að ég geti miklast af því að hafa lent í sögulegum atburðum. Þetta er alveg stórmerkilegt. Að aðrir skuli hafa áhyggjur af því hvernig mér líður. Þegar mér líður einmitt prýðilega. Ekki hef ég misst nokkurn hlut sem merkilegur getur talist. Ég þarf að vísu sennilega að sofa einhvers staðar annars staðar næstu nætur og eignast eflaust nýtt heimili von bráðar. En hvað með það? Kannski verður það einmitt bara betra en það gamla. Engin ástæða til vera að væla.
Við Jósef erum góðir félagar og ásamt með Jóhannesi bróður hans leikum við okkur oft saman. Jósef er einu ári yngri en ég og Jóhannes einu ári eldri. Stundum leikum við okkur í fótbolta á túninu hjá Grund og þá er venjulega einn í marki og hinir tveir þykjast vera einhver tiltekin landslið. Eitt sinn kemur Jóhannes okkur mikið á óvart. Hann segist vilja spila fyrir landslið Uruguay. Uruguay? Hver fjandinn er það nú?
"Vitið þið ekki að Uruguaymenn eru heimsmeistarar í fótbolta?" segir Jóhannes þá.
"Heimsmeistarar peimsmeistarar. Þú veist ekki hundaskít um Uruguaymenn", segjum við Jósef, annarhvor eða báðir eða hugsum a.m.k. eitthvað á þá leið.
Í garðyrkjustöð Skafta pabba þeirra Jósefs og Jóhannesar leikum við okkur líka oft. Þar eigum við fullt af merkilegum köllum sem flestir eru hvítir og með stafina Champion um sig miðja. Sumir heita reyndar einhverjum öðrum skrítnum nöfnum og fáeinir eru af öðrum lit en hvítum. Til dæmis eru mjög verðmætir og sjaldgæfir kallar í bleikum lit og við rífumst jafnvel um að eiga þá. Fullorðið fólk segir að þessir kallar séu bara bílkerti en við tökum lítið mark á því og látum þessa kalla okkar lenda í ýmsum merkilegum og hættulegum ævintýrum.
(framhald síðar)
19.4.2007 | 23:57
31. blogg
Nú er sumardagurinn fyrsti að kveldi kominn og góður tími til að skrifa smá þó langt sé síðan ég bloggaði síðast. Við því er ekkert að gera, ég blogga bara þegar mér sýnist. Giftingin með öllu sínu stressi er afstaðin og viss ró farin að færast yfir tilveruna. Allt tókst þetta bærilega að ég held og varla ástæða til að fjölyrða mikið um það hér. Bjarni og Charmaine eru í sumarbústað við Húsafell þessa vikuna. Hafdís og Jói fóru í heimsókn til þeirra í dag og við Áslaug förum líklega þangað ásamt Benna á laugardaginn kemur. Benni er búinn að ganga frá sölu á íbúðinni sinni og er nú að leita sér að nýrri.
Kosningarnar nálgast eins og óð fluga en ég nenni ekki að blogga mikið um þær. Skoðanakannanir sveiflast talsvert fram og aftur og það sem mér finnst þær einkum sýna er að framtíð núverandi ríkisstjórnar er í mikilli óvissu, auk þess sem svo er að sjá að Fjórflokkurinn svonefndi sé að festa sig aftur í sessi, þó tveir flokkanna beri ný nöfn.
Eflaust eru það ellimörk, en mér finnst gaman að skrifa þessi minningabrot sem ég hef verið að hamra hér á lyklaborð að undanförnu. Ég reyni að telja mér trú um að einhverjir sem hingað slæðast hafi gaman af að lesa þetta. Einn er þó sá atburður sem ég hef ekki minnst á, en sem stendur mér þó jafnan ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, en það er þegar brann heima. Eiginlega er ekki hægt að afgreiða þann atburð í stuttu máli svo ég er að hugsa um að hafa þau brot eins og nokkurs konar framhaldssögu hérna og e.t.v. að flétta inn í hana frásögnum af ýmsu öðru.
ÞEGAR BLÁFELL BRANN
Þegar níu ára gamall drengurinn kom út fór hann strax að brunarústunum. Þarna hafði heimili hans verið þangað til í nótt. Hann hafði fæðst í þessu húsi og alið þar allan sinn aldur. Nú var allt brunnið til kaldra kola. Ekki einu sinni flekkóttir veggir uppistandandi, því þetta hafði verið timburhús. Alveg ný viðbygging hafði þó verið klædd að utan með asbesti og um nóttina þegar mest gekk á höfðu smellirnir í asbestinu verið eins og vélbyssuskothríð. Nú var þetta allt saman kolsvart og ólögulegt, hálfbrunnar sperrur, upprúllað járn af þakinu, brunnin húsgögn og hvaðeina allt í einni bendu. Yfir öllu gnæfði samt svartur og sótugur klósettkassi úr járni eða einhverjum málmi á sínu járnröri. Keðjan sem togað var í til að sturta niður með var meira að segja á sínum stað.
Hann fann eiginlega ekki til neinna sérstakra tilfinninga, eiginlega kom honum þetta ekki svo mikið við. Foreldrar hans myndu ráða framúr þeim vandamálum sem við blöstu og það var svosem ekkert sérstakt sem hann saknaði. Engin áhugaverð föt eða merkileg leikföng. Vinir hans og félagar mundu áfram verða til staðar, systkinin og foreldrarnir einhvers staðar nálægt eins og venjulega, skólinn á sínum stað o.s.frv. Eiginlega var ekki til neins að vera að hanga yfir þessu. Nær að reyna að fara eitthvað. Nú var hann með alveg pottþétta afsökun fyrir því að læra ekki neitt. Ekki það að hann þyrfti yfirleitt mikið að læra. Honum gekk alveg prýðilega í skólanum án þess. Hann nennti ekki einu sinni að gá að því hvort nokkuð nýtilegt eða merkilegt væri að finna í rústunum heldur rölti af stað upp að Reykafossi og Kaupfélaginu, þar mundi hann eflaust hitta einhverja af félögum sínum.
(framhald síðar)
12.4.2007 | 00:56
30. blogg
27. og 28. blogg eru komin fram aftur og ég held jafnvel að ég sé búinn að fatta þetta með greinaskilin. Kannski er betri tíð með blóm í haga í vændum. Aðalspurningin er bara hvað ég nenni að blogga.
Teljarinn er ótrúlega hár en ég er ekkert að velta mér uppúr því. Greinilegt er að einhverjir lesa þetta og það dugar mér alveg. En ég nenni ómögulega að blogga nema þegar mér sjálfum dettur í hug.
Skrif mín hér eru einkum ætluð ættingjum til lesturs. Ef einhverjir aðrir slysast til að lesa þetta þá er það bara allt í lagi. Undalregt uppátæki að skrifa dagbók á Netinu. Þó er þetta þegar grannt er skoðað e.t.v. ekki skrýtara en margt annað.
Ég les alltaf talsvert af bloggum, svona eftir því sem ég hef tíma til. Það er ýmislegt að snúast hjá mér núna um þessar mundir og þar sem ég er ekki að stefna að neinu vinsældabloggi þá verða þessi skrif gjarnan útundan hjá mér.
Charmaine og Bjarni komu á sunnudaginn, en af því að það var einhver misskilningur í gangi varðandi vegabréfsáritun hennar þá stóð á tímabili til að vísa henni frá landinu. Svo fór þó ekki en þar sem sami misskilningur var í gangi varðandi mömmu hennar þá ákvað hún að hætta við að koma.
Á annan í páskum fórum við Áslaug og ég ásamt Bjarna, Charmaine, Benna, Jóa og Hafdísi í smáferðalag. Fyrst fórum við að Eyrarbakka og Stokkseyri og síðan að Gullfossi og Geysi. Fórum af stað um 10 leytið um morguninn og komum aftur um fjögur. Áslaug fór síðan í fermingarveislu, en ég að vinna.
Giftingin er svo á laugardaginn. Ég veit ekki betur en að öll mín systkini komi. Veit þó ekki með Björgvin og líklega kemur Unnur ekki nema í kirkjuna. Charmaine er svo að ég held með dvalarleyfi til næstu mánaðamóta, en fer þá væntanlega aftur til Bahamas og Bjarni svo e.t.v. síðan í sumar á eftir henni þangað.
Mótinu á Gameknot.com er nú að ljúka. Bjarni, Þorgeir og Þórður í Strympu eru efstir og ef Þorgeir nær hálfum eða heilum vinning í seinni skákinni við mig þá verður hann efstur.
Þegar ég stundaði nám við Miðskóla Hveragerðis undir lok sjötta áratugar síðustu aldar var einn af kennurum mínum séra Gunnar Benediktsson, klerkur, kommúnisti, rithöfundur og margt fleira. Einhverju sinni var séra Gunnar að kenna okkur stærðfræði. Líklega hefur það verið í forföllum, því ég man ekki til þess að stærðfræðikennsla væri hans fag. Hins vegar var hann óviðjafnanlegur íslenskukennari og ég man ekki betur en að hann hafi kennt okkur dönsku líka.
Þegar sá sem tekinn hafði verið upp að töflu hafði lokið við að skrifa dæmið upp sagði Gunnar: "Ég held að best sé að byrja á því að útrýma öllum kommum."
Það var ekki fyrr en almennur hlátur glumdi við í skólastofunni sem Gunnar áttaði sig á tvíræðni orðalagsins.
4.4.2007 | 11:04
29. blogg
Til að toppa þetta allt saman er ég svo enn í vandræðum með greinaskilin. Ég þarf greinilega að fara að ýta frekar á vista og skoða" hnappinn en hingað til hef ég yfirleitt ýtt á vista og birta" hnappinn þegar ég er búinn að peista skrifin mín. Eða valið að taka Word skjal inn sem mig minnir að sé opsjón líka. Eitt af því sem örugglega veldur þessum vandræðum meðal annars er að ég er að nota ýmsar útgáfur af Word og hinar og þessar tölvur og nenni þar að auki ekki að kynna mér nákvæmlega stjórntæki bloggsins, en það breytir því ekki að Moggabloggið gæti verið betra. Fróðlegt verður að sjá hvernig þessu 29. bloggi reiðir af.
En ekki meira um það að sinni. Um daginn fór ég til Bjarna og þeir Benni og hann settu sturtuna upp á baðinu og tengdu eldavélina. Bjarni fór síðan til London morguninn eftir og hann og Charmaine koma svo þaðan á sunnudaginn kemur, að ég held. Í gær fór ég með Sigrúnu til Unnar sem nú dvelst á Sunnuhlíð. Ég lét líka gera við bremsurnar á Volvoinum sem biluðu hjá Bjarna um daginn þegar hann þurfti að nauðhemla til að forðast árekstur. Bjarni og Charmaine munu síðan gifta sig laugardaginn 14. apríl í Hallgrímskirkju.
Lungnasérfræðingurinn sem skoðaði gögnin úr svefnrannsóknartækinu sem ég notaði um daginn vill að ég fari í svefnrannsókn á Landsspítalanum einhvern tíma á næstunni því margt bendi til að ég þjáist af kæfisvefni.
Minningabrot, minningabrot... Jú, ég man eftir því að Ingimar í Fagrahvammi átti eitt sinn gríðarstóran Sankti Bernharðshund (það var áður en hann eignaðist Kalló, úlfhundinn fræga, sem ættaður var úr Geysi á Bárðabungu eins og margir vita) Hundurinn, sem ég man ómögulega hvað var kallaður beit eitt sinn strák í þorpinu svo flytja þurfti hann á sjúkrahús. Þá sagði bróðir stráksins: Ég vildi að hann hefði bitið mig, þá hefði ég fengið að fara til Reykjavíkur". Þetta þótti hraustlega mælt og líka er á það að líta að á þeim tíma var mikið ævintýri að fá að fara í langferð eins og frá Hveragerði til Reykjavíkur.
2.4.2007 | 00:58
28. blogg
1.4.2007 | 01:00
27. blogg
Ég sé ekki betur en lesendur mínir séu orðnir um 10, svo það er líklega best fyrir mig að fara að blogga oftar. Einkum og sér í lagi vegna þess að ég hef sjálfur gaman af því. Hef löngum verið svolítið fyrir að skrifa og bloggið býður upp á ágætis tækifæri til þess.
Þó ég sé nú farinn að blogga ansi þétt ætla ég að reyna að halda mig við það að blogga ekki alltof mikið hverju sinni.
Skrítið hvað maður man og hvað ekki. Ein af mínum fyrstu berskuminningum er að ég skar mig illa á hægri úlnlið. Nánast þvert yfir púlsinn og það blæddi mikið. Þetta var niður við Ullarþvottastöð og það var flöskubrot sem ég skar mig á. Ég var ábyggilega ekki gamall þegar þetta var og eldri systur mínar hafa eflaust verið þarna með mér að passa mig. Ég man vel og nákvæmlega eftir atburðinum sjálfum. Hvar þetta var við Ullarþvottastöðina, hvernig glerbortið var (botn á grænni brennivínsflösku), að það lá ofan á einskonar fjalhöggi og að ég var líklega einn þarna þegar atburðurinn átti sér stað, a.m.k. var enginn til þess að trufla mig þegar ég lamdi hendinni ofan á flöskubotninn. Síðan man ég einungis eftir því að pabbi kom og sótti mig, vafði vasaklút um sárið, tók mig upp og hélt á mér heim á leið. Ég man vel eftir því að vasaklúturinn sem hann notaði var rauður og hvítur og gæti lýst honum í smáatriðum. Ég man meira að segja mjög vel hvar við vorum staddir (við norðvesturhornið á Kaupfélaginu) þegar ég tók eftir því að vasaklúturinn var rauður og að mér þótti mjög smart að hafa svona rauðan vasaklút bundinn um handlegginn. Meira man ég eiginlega ekki eftir þessum atburði, en mér er sagt að Lúðvík Nordal (tengdafaðir Davíðs Oddssonar) hafi verið sóttur á Selfoss þar sem hann var héraðslæknir á þessum tíma og hann hafi saumað sárið saman.
Þegar ég les þetta yfir sé ég að þetta er bara ágæt saga hjá mér svo ég læt þetta duga núna.
Ég get ekki að því gert, en þegar ég sá í fréttum áðan að Hafnfirðingar hefðu hafnað stækkun álversins í Straumsvík þá var mín fyrsta hugsun: "Nú verða Keflvíkingar kátir."
30.3.2007 | 23:00
26. blogg
Nú dregur að því að Hafnfirðingar kjósi um framtíð álversins. Ef ég ætti að kjósa akkúrat núna þá býst ég við að ég mundi kjósa með því. Einkum vegna þess að mér finnst margt í málflutningi náttúruverndarsinna bera vott um hálfgerðan yfirgang. T.d. að stilla alþingismönnum upp við vegg og kalla þá annaðhvort gráa eða græna eftir því hvort þeir undirrita eitthvað eða ekki. Það er bara ofbeldi í mínum huga. Ég er samt fremur óákveðinn í þessu og í raun feginn að þurfa ekki að kjósa. Þessar kosningar eru án efa þýðingarmiklar, jafnvel á sinn hátt þýðingarmeiri en Alþingiskosningarnar sem fram munu fara í vor. Stjórnmálaleiðtogar margir hverjir hafa komið fram fyrir alþjóð og lýst því yfir að komandi Alþingiskosningar séu einhverjar þær þýðingarmestu sem farið hafi fram. Þetta er nú alltaf sagt og mér finnst margt einmitt benda til að þessar kosningar verði þær minnst sögulegu sem lengi hafi farið fram. Líklegast er að framhald verði á svipaðri stefnu og hér hefur ríkt að undanförnu, þó eflaust með breyttum áherslum og e.t.v. nýjum flokkum.
Var að enda við að horfa á úrslitin í spurningakeppni framhaldsskólanna og því er ekki að neita að þetta var spennandi. Liðin stóðu sig bæði mjög vel, helst kom mér á óvart hve lítið þau vissu um æfi Aðalsteins Kristmundssonar og var hann þó enginn meðaljón.
Bjarni var að ganga frá uppgjöri vegna árekstursins á Bústaðaveginum. Úrskurðarnefndin úrskurðaði sök 50:50 og hann fær víst 95 þúsund í bætur. Sjálfur var ég að fá frí 13. og 14. apríl vegna þess að Bjarni ætlar að gifta sig laugardaginn 14. Eftir helgi fer hann víst til London og hittir Charmaine þar. Jói mun líklega hætta að vinna fyrir Opin Kerfi hjá Íslandsbanka á næstunni því samningnum milli þeirra aðila verður sagt upp skilst mér. Benni er að ég held ekki búinn að ganga endanlega frá sölu á íbúðinni sinni en það verður víst fljótlega.