33. blogg

 

Nú er ég farinn að átta mig á hvers vegna ég er að blogga. Þetta eru einskonar ritæfingar. Mér leiðist að vera að burðast við að skrifa um málefni dagsins með því að linka í fréttir Moggans því það eru svo margir sem það gera (eflaust oft í auglýsingaskyni) og ég held að ég hafi litlu þar við að bæta. Pólitíkin er líka oft svo leiðinleg, jafnvel leiðinlegri en rjómatíkin Kiljans, að ég get ekki fengið af mér að skrifa langt mál um hana þó ég hafi að sjálfsögðu skoðanir á ýmsu sem þar er til umræðu og auðvitað muni ég kjósa eins og ég er vanur. Í lífi mínu og fjölskyldunnar gerist ekki margt sem í frásögur er færandi um þessar mundir og þá finnst mér einkum vera eftir það sem mér finnst mest gaman að skrifa um, en það eru frásagnir um eitt og annað frá því í gamla daga. Vel getur hugsast að einhverjir, ættingjar og aðrir sem eru nálægt mér í aldri hafi gaman af að lesa þetta. A.m.k. er lítil hætta á að aðrir skrifi um það sama.

Á laugardaginn fórum við Áslaug ásamt Benna upp að Húsafelli í heimsókn til Bjarna og Charmaine. Við skoðuðum okkur nokkuð um í Víðgelmi, því leiðin að Surtshelli var lokuð. Einnig skoðuðum við Hraunfossa í bakaleiðinni en að öðru leyti gerðist ekki margt merkilegt í þessari ferð. Á uppeftirleiðinni fórum við um Dragháls en í bakaleiðinni framhjá Borgarnesi. Þegar ég gúglaði Víðgelmi áðan svona að gamni mínu þá vakti það athygli mína að lítið virtist skrifað um þennan víðkunna helli á íslensku, svolítið meira á ensku en mest á öðrum málum, einkum þýsku, frönsku og spænsku sýndist mér.

Jæja, nóg um þetta og áfram með smjörið. Hér kemur næsti kafli úr endurminningunum um brunann í desember 1951.

 

Ég hafði vaknað skyndilega um nóttina á dívaninum mínum inni í svefnherbergi hjá pabba og mömmu. Bræður mínir tveir, Vignir 6 ára og Björgvin 2 ára, sváfu líka  í herberginu. Í sömu mund og ég vaknaði hafði mamma þotið fram úr hjónarúminu.

Þetta var í öðru af þeim tveimur stóru herbergjum sem voru í viðbyggingunni sem lokið hafði verið við um sumarið. Stelpurnar, Sigrún og Ingibjörg voru í hinu herberginu en Unnur var farin að heiman. Jórunn amma var einnig í húsinu en ekki fleiri.

Ég hljóp fram úr rúminu á eftir mömmu en hún sneri sér við þegar hún hafði opnað fram á gang og sagði við mig:

"Farðu og vektu hann pabba þinn og segðu honum að það sé kviknað í húsinu."

Ég hlýddi umyrðalaust enda var eitthvað skrýtið um að vera frammi á ganginum. Snark og læti ásamt einkennilegri birtu.

Ég flýtti mér að fara hinum megin við hjónarúmið og ýtti á öxlina á pabba:

"Pabbi, pabbi. Vaknaðu. Vaknaðu, það er kviknað í húsinu."

Pabbi var ekki lengi að vakna og þegar við komum fram að svefnherbergisdyrunum kom mamma til baka eftir að hafa vakið aðra í húsinu. Stelpurnar þær Sigrúnu og Ingibjörgu og Jórunni mömmu sína. Þegar hún sá að við vorum komnir að dyrunum sagði hún við mig:

"Hlauptu út með stelpunum, við komum svo á eftir með litlu strákana."

Ég hljóp yfir ganginn rétt á eftir stelpunum sem ég sá í þessu hlaupa út. Þó leiðin væri ekki löng var einhver geigur í mér. Undarleg birta var á ganginum og snark og hiti fyrir ofan mig. Ég þorði þó ekki að líta upp því ég óttaðist að það mundi tefja mig. Þegar komið var yfir ganginn tók við opin dyragætt og eitt þrep niður og þá var komið í bíslagið og útidyrahurðin til vinstri.

(framhald síðar)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband