Færsluflokkur: Bloggar
11.1.2019 | 09:46
2808 - Hrossatað
Kannski er ég búinn að verða mér úti um sérstakan bloggstíl, með númeragjöfinni einkum og sér í lagi. Treysti mér varla til að fullyrða um neitt annað. Aðra get ég miklu fremur fjölyrt um. Til dæmis er mér engin launung á því að undanfarið hef ég einkum hrifist af þeim bloggstíl sem Jens Guð hefur tamið sér. Í gegnum tíðina hef ég þó haft fleiri mentora í þessum efnum, en ég læt liggja á milli hluta að nefna þá. 2808 blogg verða sko ekki til af sjálfu sér.
Man vel eftir mínum fyrstu bloggum hér á Moggablogginu. Áður hafði ég gert smávegis tilraunir með slíkt á PITAS.COM. Salvör Kristjana varð einna fyrst til að veita bloggum mínum athygli og kommenta á þau. Bloggkomment eru að sínu sínu leyti alveg eins og blessuð lækin á fésbókarfjáranum. Menn geta alveg orðið háðir þeim. Alltaf hef ég bloggað hér á Moggablogginu og er ekkert á leiðinni með að hætta því. Þeir eru greinilega farnir að skipta nokkrum hundruðum, sem varla láta hjá líða að lesa bloggið mitt. Enda er lestur ekki erfiður. Þó er eitthvað um það að erfiðlega gangi stundum að kenna slíkt og er það furðulegt. Þekki samt vel að börnum vaxi slík kunnátta mjög í augum. Svipað má um vísnagerð segja. Hún er ekki erfið ef menn leggja sig eftir slíku.
Talsvert hef ég velt því fyrir mér hve fyrirferðarmikil öll mín blogg yrðu ef þau væru prentuð út. Það held ég þó að verði seint. Eitthvað er um endurtekningar að ræða meðal minna blogga en þó held ég og vona að svo sé ekki í miklum mæli. Að minnsta kosti ekki í svo ríkum mæli að til vandræða horfi. Myndskreytingarnar hafa þó orðið sífellt fyrirhafnarsamari. Undarfarið hef ég einkum leitað í gamlar myndir, enda er ljósmyndadella mín á undanhaldi.
Sennilega er ég ekki einn um að fylgjast með Ófærðinni í sjónvarpinu. Merkilegast er þar að ekki ber mikið á ófærðinni sönnu og einu að þessu sinni. Þó ég geti ekki annað en viðurkennt að þessi þáttaröð er talsvert spennandi, átel ég stundum sjálfan mig fyrir að horfa á þennan samsetning. Í raun og veru er þetta ekki annað en það sem amerískar lögguseríur snúast yfirleitt um. Eini raunverulegi munurinn er sá að íslenska er töluð (oft illskiljanleg) í þessum þáttum og leikararnir eru íslenskir. Já, og svo má minna á það að hestaskítur er oftast nefndur hrossatað á íslensku.
Nú er orðið svo langt liðið á Janúar-mánuð og svo lagt síðan ér byrjaði á þessu blogginnleggi að ég verð eiginlega að fara að koma því frá mér. Ekki get ég að því gert þó það sé í styttra lagi. Það er bara svo lítið að frétta, þó Trumparinn sé ennþá einu sinni að æsa sig smávegis og með nýja árinu hefur sú gagnmerka breyting orðið á dauðanum sjálfum, að ríkið á núna innvolsið úr flestum Íslendingum. Ekki reikna ég með að ég hafi döngun í mér til þess að mótmæla þessu ofríki. Akkúrat í dag virðast flestir vera uppteknir af klukkunni. Ég er nú svo gamall að ég man greinilega eftir því að þegar ákveðið var að hætta þessari hringavitleysu með klukkuna (ætli það hafi ekki verið árið 1968 það var mikið breytingaár, var ekki hægri umferð tekin upp þá?) þá var ein aðalrösemdin sú að sennilega mundu flestar þjóðir hætta þessu fljótlega. Það hefur samt ekki orðið raunin og ég heyri ekki betur en sama röksemd sé uppi núna. Það er auk allra annarrra. Eiginlega byrjaði ég á þessu bloggi fyrir alllöngu en hef ekki komið því í verk að klára það. Set það bara upp eins og það er núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.1.2019 | 04:02
2807 - Um múra
Á margan hátt má segja að múr sá sem Trump Bandaríkjaforseti vill reisa á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkós sé að verða að samskonar litmus-testi og bátarnir á Miðjarðarhafinu voru fyrir fáeinum mánuðum síðan í Evrópu og eru kannski enn. Lítill vafi er á því að þarna er um vandamál að ræða. Fyrir allmörgum árum eða áratugum síðan, gátu vandamál af þessu tagi hæglega leitt til styrjalda. Svo er ekki lengur og má alveg kalla það framfarir.
Ekki þarf heldur að efast um að múr sá sem reistur var á sínum tíma í kringum Austur-Berlín var af þeim orsökum m.a. að mikill munur var á lífskjörum fólks eftir því hvorum megin múrsins var verið. Þau vandamál sem af þessum mun leiddi voru á sinn hátt undirstaða kalda stríðsins. Að sá múr tilheyri nú sögunni má á sama hátt kalla framfarir.
Það sem þessir múrar eiga sameiginlegt er að þar er safnað saman fjölmörgum vandamálum af ýmsu tagi og reynt að láta þau kristallast á tiltölulega einfaldan hátt í afmörkuðu máli. Áður fyrr gátu þessi mál orðið til þess að til átaka kæmi. Svo er ekki lengur. Samt eru alltaf einhverjir sem óska þess að mál versni að mun. Ofast er það vegna þess að vonast er til að ástandið þurfi að versna að mun áður en það geti farið batnandi. Vonum það að minnsta kosti.
Ekki get ég þó með öllu neitað því að ég finn fyrir einskonar Þórðargleði í hvers sinn sem Trump Bandaríkjaforseta eða Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins verður alvarlega á, en það er sem betur fer ég meina því miður -- dálítið oft.
Álit mitt á múrum af ýmsu tagi skiptir reyndar afar litlu máli. Stjórnmálafólk hefur yfirtekið svokallaða lausn eða frestun allskyns mála og fær laun fyrir og skammir pólitískra andstæðinga. Svipting launa og atvinnu eru nú um stundir það hræðilegasta sem komið getur fyrir almúgafólk og vinnuþræla hér í þessum heimshluta að minnsta kosti.
Á Vesturlöndum þarf fólk ekki lengur að óttast svo mjög um líf sitt vegna átaka, en aðrar sorgir verða bara meira áberandi fyrir vikið. T.d. hefur verkbannið í Bandaríkjunum valdið því meðal annars að laun æðstu yfirmanna þar í landi eiga samkvæmt lögum að hækka um sirka eina skitna milljón króna eða rúmlega það. Á ári vel að merkja. Þeirri útskýringu mætti þó alveg sleppa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.1.2019 | 14:03
2806 - Skortsala eða skottsala
Satt og logið sitt er hvað,
sönnu er best að trúa.
En hvernig á að þekkja það
þegar flestir ljúga?
Þessi gamli húsgangur flytur okkur að sumu leyti ódauðlegan sannleika. Svona má meðal annars minna á það:
Á margan hátt má segja að svarið við lífsgátunni felist í því hvort maður telur sig líða skort eða hvort maður telur að maður hafi nóg af öllu. Að dæma eftir því sem margir segja um fésbókar-fárið sem geysar hér á Íslandi eru þeir allmargir sem telja sig líða skort af einhverju tagi þrátt fyrir fagurlegan front. Marga skortir peninga og ekki er örgrannt um að einhverjir magni þau ósköp upp hjá fólki. Með auglýsingum og öðru. Sumum finnst jafnvel gaman að eyða og spenna og lítið er hægt fyrir þá að gera, nema helst að benda þeim í villu síns vegar. Hinsvegar eru margir sem í rauninni hafa alveg nóg, en láta samt eins og þeir þurfi meira. Auðveldast kann að vera að telja fólki trú um að það þurfi meiri og fínni mat. Auk þess gefst vel að telja fólki trú um að það þurfi endilega að fylgja tækninni. Nú er búið að telja næstum öllum trú um að þeir þurfi endilega að eiga snjallsíma, en af hverju það á að vera betra að borga með honum en með kortinu sínu er mér hulin ráðgáta.
Já, ég var næstum búinn að gleyma því að ég lofaði víst um daginn að segja frá því þegar ég ruglaði saman skortsölu og skottsölu. Skottsala er nefnilega þannig að maður setur allskyns skran í skottið á bílnum sínum og reynir svo að selja það. Á ákveðnum stað og ákveðnum tíma hittast síðan bílarnir og hver reynir að selja öðrum sem allra mest. Ef einhverjir eiga í vandræðum með að skilja þetta skal ég reyna að útskýra það betur í næsta bloggi. Skortsala er aftur á móti, að mínum skilningi, það að reyna að selja öðrum þá hugmynd að þeir líði almennan skort. Skorti peninga til að eyða eða eitthvað annað. Betri lífskjör til dæmis. Þetta er mikið stundað í vestrænum samfélögum og er kallað ýmsum nöfnum. Starfsemi margra snýst um þetta fremur en að ráða bót á raunverulegum skorti. Raunverulegur skortur er það að hafa ekki nóg til fæðis og klæðis. Og að hafa ekki þak yfir höfuðið. Gerviþarfir af öllu mögulegu tagi er síðan auðvelt að búa til.
Eitt helsta vandamálið í mörgum samfélögum er einmitt að uppfylla allskyns gerviþarfir. Um það eru stofnaðir stjórnmálaflokkar sem ná gríðarlegum vinsældum í stuttan tíma, en auðvitað áttar fólk sig að lokum á því að loforð eru lítils virði ef þau eru aldrei efnd. Samt er alltaf hægt að lofa einhverju nýju í hvert skipti. Vitanlega er ég ekki að segja nein ný tíðindi með þessu. Ég er bara að setja þetta í samband við skortsölu, sem sennilega þýðir eitthvað allt annað í útrásar-jargoni. Látið ekki blekkjast. Það eru flestallt ímyndaðar þarfir sem auglýsendur eru að stíla inná. Látið vera að fá ykkur nýjan bíl eða nýjan snjallsíma og sjáið til hvort þið verðið nokkuð óhamingjusamari.
Að hamingjan sé fólgin í því að fylgja sem nákvæmlegast tískusveiflum allskonar er útbreiddur misskilningur. Jafnvel hættulegur stundum, því hann getur orðið til þess að menn eyði um efni fram og ekki er það gott.
Er þá lífshamingjan fólgin í því að telja sér trú um að maður hafi það bara fjári gott, jafnvel þó svo sé allsekki? Er ekki auðvelt að benda á að nútímamaðurinn hafi það á margan hátt mun betra en afar okkar og ömmur? Auðvitað er það svo og ekki má gerast katólskari en páfinn að þessu leyti heldur reynda að rata meðalhófið. Það er best í hverjum hlut. Kaupahéðna og auglýsendur ber þó að varast. Og nú er best að hætta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.1.2019 | 11:03
2805 - Bloggað í spreng
Jæja, þá er árið 2019 loksins runnið upp í öllu sínu veldi. Þegar ég var lítill. Raunar held ég að ég hafi aldrei verið pínulítill a.m.k. man ég ekki eftir því. En hvað um það. Þegar ég var minni en ég er núna var árið 2000 ákaflega fjarlægt. Maður hugsaði ekki einu sinni svo langt. Man þó eftir að hafa einhverntíma reiknað út hve gamall ég yrði ef ég lifði svo lengi. Er samt alveg búinn að gleyma niðurstöðunni af þeim útreikningum. Ýmsa útreikninga stundaði ég á þeim tíma. Ekki man ég þó eftir að hafa reiknað barn í svertingjakerlingu í Afríku, eins og Sölvi Helgason gerði. Eða reiknaði hann það úr henni aftur? Man ekki lengur hvort er réttara.
Annars ætlaði ég að skrifa eitthvað um árið 2019. Auðvitað er alltof snemmt að skrifa um hvað gerðist markverðast á því ári. Á samt von á að það verði einhverntíma gert. Verð víst að láta mér nægja að vona að það verði öllum gjöfult. Nema ég reyni að spá einhverju um það hvað gerast muni á því merkisári.
Trump Bandaríkjaforseti mun líklega missa embættið á þessu ári. Líklega fer það þá til Pence varaforseta og ekki er víst að hann verði hótinu skárri. Niðurlæging Trumps verður góða fólkinu og jafnvel fleirum mikilsverð búbót. Ekki er samt öruggt að allir verði fegnir að losna við hann. T.d. voru víst einhverjir sem kusu hann. Jafnvel má reikna með að einhverjir þeirra mundu gera það aftur ef þeir fengju tækifæri til þess.
Það fá þeir þó sennilega ekki, því Pence varaforseti og væntanlegur forseti mun eflaust verða í framboði 2020, en tapa fyrir Bernie Sanders sem mun látast í embætti árið 2023, en ég sé ekki í Tarotspilunum mínum hvað hann heitir sem taka mun við af honum. Látum svo lokið spádómum mínum um þetta vesæla embætti og snúum okkur að mikilsverðari málum.
Snarhætt verður við það hér á Íslandi að láta kjósa á hverju ári. Gott ef kosningum verður bara ekki alveg hætt eftir að Davíð Oddsson kemst á gamalsaldri til valda á ný. Það er þetta með Davíð sem mér þykir skrítnast í þessum spádómum öllum saman og kannski er bara best að hætta þessu alveg. Sé ekki betur en Davíð verði við völd þangað til hann drepst um síðir. Kannski verður þá byrjað að kjósa aftur en ég sé það ekki almennilega.
Ekki fleiri spádómar að þessu sinni. Enda er ég alveg þurrausinn og kem líklega aðeins með nöd og næppe einhverju fleiru að í þessu úrvalsbloggi. Veit bara ekki hvað það ætti helst að vera. Kannski ég taki bara uppá þeirri vitleysu að blogga á hverjum degi. Það gerði ég einu sinni. Treysti mér samt ekki alveg til þess. Minnir nefnilega að það hafi verið talsvert átak. Sumir hafa heila fréttastofu á bak við sig og fara létt með að skrifa sex mismunandi merkilegar fréttir á hverjum degi. Ekki hef ég neitt þessháttar að baki mér og þessvegna vex mér svolítið í augum að blogga daglega. Kannski tekst mér að blogga samt eitthvað þéttar en að undanförnu. Ég er bara að vara þá við sem eru svo vitlausir að lesa allt eftir mig.
Skottsala og skortsala. Skortsala er hugtak sem útrásarvíkingar notuðu mikið á sínum tíma. Mér finnst betra að tala um skortsölu sem sölu á skorti. Telja sem flestum trú um að þá skorti allt mögulegt. Sumum finnst að þá skorti peninga og ýmislegt fleira. Ruglaði í eina tíð saman skortsölu og skottsölu, en það er nú önnur saga. Segi hana kannski í næsta bloggi.
Bloggar | Breytt 2.1.2019 kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.12.2018 | 04:39
2804 - Sjálfsævisaga
Hvar værum við stödd ef við hefðum engin nýjársheit? Auðvitað svíkjum við flest okkar nýjársheit. Þó það nú væri. Þau eru flest hvort eð er alveg óraunhæf. Ég gæti sem best lofað því að minnast ekki á Trump ræfilinn á næsta ári, en ég er alveg viss um að ég mundi svíkja það. Vinsældir hans innanlands eru vitanlega alveg furðulegar. Hins vegar virðist engum blöðum um það að fletta að meðal útlendinga er hann með óvinsælustu forsetum Bandaríkjanna sem um getur. Hvernig ætli standi á því? Hann hugsar bara um Bandaríkin kynni einhver að segja. En hafa Bandarískir forsetar ekki alltaf gert það? Eru Bandaríkjamenn ekki sjálfumglöðustu og óheiðarlegustu menn sem gengið hafa á þessari jörð. Er ekki allt stærst, best og mest í Bandaríkjunum? Það finnst þeim a.m.k. sjálfum.
Þetta blogg átti alls ekki að snúast um Bandaríkjamenn. Miklu fremur ætlaði ég að segja ykkur frá væntanlegu nýjársheiti mínu. Ég er nefnilega að hugsa um að skrifa sjálfsævisögu og byrja á henni á næsta ári. Auðvitað verður það bara uppkast. Miðað við það hve ég er úthaldsgóður við bloggskrifin og hve auðvelt ég á með að skrifa um allan fjandann þá ætti mér ekki að verða skotaskuld úr því að semja eina smá-sjálfsævisögu. Kemur ekki helvítis skotaskuldin þarna eins og skrattinn úr sauðarleggnum einu sinni enn. Alltaf verður eitthvað til þess að glepja mig þegar ég ætla að byrja á einhverju stórfenglegu. Að sjálfsögðu yrði þessi sjálfsævisaga mín alveg stórkostleg og ekki er nokkur leið að ofmeta hana svona fyrirfram.
Ekki lét ég fjandans skotaskuldina glepja mig svo mjög að þessu sinni. Annars er áhugi minn á íslensku máli ekki nein uppgerð. Í þessari minni sjálfsævisögu, sem er næstum lokið, er þeim áhuga mínum gert hátt undir höfði. Svo má auðvitað ekki gleyma því að ég hef, með svolítilli aðstoð, gert Íslendingasögurnar aðgengilegar á Netinu og þarmeð sannað óbilandi trú mína á þeirri menningu sem við íslendingar höfum flestallir meðtekið með móðurmjólkinni. Greinilegt er að ég hef líka gott vald á orðatiltækjum og málsháttum, enda hef ég æfilanga reynslu af slíku.
Vitanlega gæti ég haldið áfram að fjölyrða um þessa væntanlegu sjálfsævisögu mína en hálfnað er verk þá hafið er eins og þar stendur, og auðvitað er ekki úr vegi að líta á þessa samantekt mína sem fyrst uppkastið að formála þeirrar merku bókar, sem hér hefur stuttlega verið frá sagt. Þar sem ég er aftur farinn að tala um þessa bók, þá gæti ég sem best vikið fáeinum frekari orðum að þessum formála sem ég minntist á. Hugsanlega verður þessum orðum gjörbylt við frekari athugun. T.d. er ekki nokkur ástæða til að minnast á Trump Bandaríkjaforseta í þessum formála, sem kannski verður óhemju langur. Og rétt er að geta þess hér að ekki er víst að þessi bók komi út alveg á næstunni meðal annars vegna þess að ég reikna fastlega með að verða a.m.k. hundrað ára gamall.
Læt ég svo þessum hugleiðingum mínum lokið að þessu sinni og lofa því að hugsa betur um þennan blessaða formála. Auðvitað verður að vera bæði formáli, inngangur og aðfararorð að þessari títtnefndu bók enda er þar oft um einna mestan fróðleik um viðkomandi bækur að finna. Ég er líka mikið að hugsa um hvort ekki sé rétt að hafa atríðisorðaskrá í þessu verki. Sennilega verður ákvörðum um þann þátt að bíða eitthvað, enda liggur ekki lífið á að ákveða slíkt. Kaflaskiptingunni hef ég líka talsvert velt fyrir mér og satt að segja gæti Hveragerði sem best komið þar fyrir. Sannanlegt er að ég var með þeim fyrstu sem fæddist á þeim merka stað. Samkvæmt rannsóknum var ég þó af einhverju ástæðum ekki sá fyrsti.
Þennan bloggpistil samdi ég þegar ég varð andvaka um fjögurleytið síðastliðna nótt. Segið svo að andvökur geti ekki verið pródúktívar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.12.2018 | 11:38
2803 - Moggabloggið
Alltaf sé ég samstundis að ég hefði átt að tækla málin öðruvísi en ég gerði þegar ég setti upp síðasta blogg. Ekki þýðir þó að fást um það, því ég breyti aldrei uppsettum bloggum. Stundum laga ég augljós pennaglöp en aldrei meira. Stundum dettur mér eitthvað í hug sem mér finnst að ekki megi bíða og þá set ég það á fésbókarræfilinn. Alveg er ég hissa á rifrildinu og hinni heilögu sannfæringu sem þar er allsráðandi. Mér finnst eðlilegt að efast um allt.
Fésbókarfaraldurinn snýst samt um annað. Þar þykir sá mestur sem getur öskrað hæst. Með þessháttar öskri á ég við samansúrraða orðaleppa sem þykja því merkilegri sem þeir eru ógeðslegri. Kannski eru þeir fáir sem lesa þessi ósköp, en ég get ekki að mér gert. Mest eru þetta ómerkilegar pólitískar yfirlýsingar sem standast enga skoðun. Annars er ég svo mikill fésbókarandstæðingur að það er ekkert venjulegt og afskaplega varasamt að taka mark á þessu tuði mínu.
Sýnist að Moggabloggið sé að ganga í endurnýjun lífdaga. Ekki er aðsóknin þó svo mikil að vandræðum valdi. Pólitískt fimbulfamb er þar á undarhaldi sem betur fer. Sum vefrit gera samt útá slíkt. Vonandi fer þeim fækkandi sem svoleiðis nokkuð lesa. Myndir virðast vera aðall unga fólksins í dag. Helst þurfa þær myndir að hreyfast. Talandi hausar held ég að verði samt seint vinsælir.
Svo gamaldags er ég að við liggur að ég hafi verki með því. Eiginlega er ég alveg fastur í gamla tímanum. Bíð bara eftir því að Dabbi frændi fari að hætta. Þá ætti innleggjendum á þetta undarlega bloggsvæði, sem Moggabloggið óneitanlega er, að fjölga allmikið per samstundis. Hver veit nema Davíð og Trump hætti fljótlega báðir tveir. Best að spá því bara fyrir 2019. Það verður aldrei verra en vitlaust. Gallinn við þá sem verða vinsælir er að þeim hættir til að ofmetnast. Þá verða þeir leiðinlegir.
Alveg er ég hissa á því að enn skuli vera til fólk sem heldur í alvöru að óhætt sé að trúa nettengdum tryllitækjum einsog tölvum og þessháttar fyrir leyndarmálum. Ef eitthvað er sett á slík tæki er alveg hundrað prósent öruggt að ef einhvern langar nógu mikið til að nálgast þær upplýsingar þá getur hann það. Spurningin er bara hve langan tíma það taki. Einu sinni var sagt að sá sem ekki hefði lent í tölvukrassi, ætti það bara eftir. Kannski hafa tölvuskýin tekið fyrir alvarleika slíks. Tölvuvírusar herja þó alltaf öðru hvoru og valda stundum skaða.
Nú fer jólastressinu blessunarsamlega að ljúka. Eftir er samt að opna gjafirnar og sumir fara og skila því sem þeir fengu og dugar jafnvel tíminn milli hátiða varla til þess. Svo tekur hversdagurinn við. Það þarf bara að þreyja Þorrann og Góuna, svo fer vorið verulega að nálgast. Nú er að mestu leyti búið að skítnýta helstu hneykslunarefnin svo rétt að vinda sér að því að finna ný. Klaustur- og Braggamálin þvælast þó enn fyrir og ekki er loku fyrir það skotið að eitthvað hafist uppúr því að lokum. Það er lítið sem hundstungan finnur ekki.
Ég er nú svo gamall sem á grönum má sjá. Þó finnst mér ég ekki vera svo gamall. Helst er það göngulagið sem upp um mig kemur. Eða það held ég að minnsta kosti. Stóri munurinn sem ég sé á okkur Íslendingum fyrri tíma og núna eru lífskjörin. Munurinn felst kannski einkum í því að kröfurnar eru svo miklu meiri núorðið. Samanburð á þessu má víða finna, en hann er einskis virði, því allt er breytt. T.d. var sú venja ríkjandi víða áður fyrr að drekka sig fullan á Þorláksmessu og sprengja kínverja. Nú er skatan tekin við. Mér finnst samt brennivínið skárra.
Gleðileg jól öllsömul og gott og farsælt komandi ár.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.12.2018 | 11:30
2802 - Sigurinn í Sýrlandi
2802 Sigurinn í Sýrlandi
Mikið er ég sammála þeim sem til máls hafa tekið. Einkum þó síðasta ræðumanni. Er það ekki tilgangur þeirra sem til máls taka? Reyna að hafa áhrif á þá sem hlusta. Verst hvað sumir þeirra eru misheppnaðir ræðumenn. Eða er það kannski bara ég sem álít þá vera það? Þar liggur sennilega hundurinn grafinn og hnífurinn í kúnni. Hver veit nema allir ræðumenn hafi rétt fyrir sér. Jafnvel þó þeir séu allsekki sammála. Þetta er nokkuð sem við verðum að búa við í pólitíkinni. Best að eiga alltaf síðasta orðið. Þarna tókst mér það.
Eiginlega er það svo að ég ætlaði ekkert að blogga meira fram að jólum. En nú er mér semsagt orðið mál að skrifa, jafnvel þó ég hafi ekkert til að skrifa um. Sjáum til hvernig fer. Veðrið er alltaf jafnágætt þó það hvessi stundum svolítið. Hlýindakaflar um miðjan vetur eru alltaf velkomnir í mínum húsum og ekki við því að búast að kuldinn verði neitt meiri þó svo sé. Að hafa varla orðið var við frost þó komið sé að jólum hlýtur þó að vera sjaldgæft.
Ég er að reyna að vera jákvæður. Því hefur nefnilega verið haldið fram að jákvæðni í garð náungans sé einkennismerki bloggsins. Hver heldur slíku fram? Mætti kannski spyrja. Ég held því fram og það dugar.
Fýlan af fésbók nú lekur
fjandans til allt er á leið.
Andskotinn tilbúinn tekur
til sín þar allvæna sneið.
Þetta gat ég þegar til átti að taka. Var ekki nema í mesta lagi 5 mínútur að semja þetta. Fyrir þá sem leggja sig eftir því eru rím og stuðlar ekki mikið mál. Fyrir suma kann þetta samt að sýnast erfitt. Svo er þó ekki.
Áslaug fór í bæinn áðan. Sennilega til að kaupa síðustu jólagjafirnar og svo ætlaði hún víst að skila einhverju. Nú er óðum að birta, enda að nálgast hádegi. Í dag er þriðjudagur og ég segi ekki meir. Hlusta kannski á fréttirnar núna á eftir.
Þeir fjármunir sem ella hefðu farið til flugfélaga og annarra ræningja mun ég eyða í eitthvað annað úr því að svona mikill vafi lék lengi vel á um framtíð þeirra. Kannski er þessum vafa hvergi nærri eytt núna og eins gott að vara sig. Vanda.Sig, Drífa.Sig og Æsa.Sig ættu að athuga þetta. Nöfn geta nefnilega haft margskonar aukamerkingu. Ekki er þetta hugsað sem neinn endanlegur sannleikur um Sigurðardætur, heldur bara sem sýnishorn.
Þegar Georg Bush yngri var forseti lýsti hann því yfir á herskipi einu eins og frægt varð, að stríðinu við Írak væri lokið með fullnaðarsigri Bandaríkjanna. Ekki voru allir sammála því, enda átti ýmislegt eftir að koma í ljós. Nú hefur Trump Bandaríkjaforseti lýst yfir fullnaðarsigri Bandaríkjamanna á Kalífadæminu í Sýrlandi og víðar og að Bandaríkjamenn séu á förum þaðan. Einhverjir efast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.12.2018 | 15:49
2801 - Tvöþúsundogáttahundruð
Án þess að hafa áttað mig á því er ég nú búinn að blogga meira en tvöþúsund og átta hundruð sinnum. Það hlýtur að vera einhvers konar met, a.m.k. persónulegt met og engum er ætlandi að lesa þessi ósköp öll, ekki einu sinni sjálfum mér. Að hafa bloggað 2800 sinnum er ansi hraustlega gert.
Undanfarið hef ég fylgst með sjónvarpsþáttunum sem Hringfari hefur látið gera um ferðalag sitt á mótorhjóli umhverfis hnöttinn. Áður hef ég fylgst með bloggum frá slíkum ferðum og yfirleitt eru þau talsvert fróðleg. Þarna var farin önnur leið og meira í anda nútímans, skyldi maður ætla. Ég get samt ekki látið hjá líða að gagnrýna þessa þáttagerð svolítið. Vissulega voru þessir þættir fróðlegir, en væmnin og talandi hausar voru fulláberandi. Læt ég svo lokið þessari stuttu umfjöllun minni um þetta sem mér finnst vera smámál, þó þátttakendunum hafi vafalaust ekki fundist það.
Afar fátt gerist á fréttasviðinu þessa dagana. Jólin nálgast og þó margir fjalli um May, Trump, Klaustubúllu og misheppnaða viðreynslu eða nauðgunartilraun einhvers þingmanns sem ég man ekki einu sinni hvað heitir, þá virðast flestir gera það með hangandi hendi. Þetta með hangandi hendi minnir mig náttúrulega á Ragga Bjarna. Man enn hvað konan mín varð hissa þegar hann keyrði okkur einu sinni heim á einum af leigubílunum sínum. Ókeypis um miðjan dag frá verkstæði langt í burtu. Þegar Raggi söng var hann nefnilega oftast með aðra hendina hangandi.
Það var Carter þáverandi væntanlegur forseti Bandaríkjanna sem fann uppá því að byrja á nýrri setningu án þess að ljúka almennilega við þá næstu á undan. Með þessu gerði hann sjónvarpsfréttamönnunum erfitt fyrir með að klippa viðtölin við hann og þannig fékk hann lengri tíma hjá sjónvarpsstövunum en hann hefði annars fengið. Þessari aðferð er svolítið beitt ennþá, en klipparar hafa að mestu séð við þessu.
Hvað sem hver segir munu jólin koma brátt og þá er best að taka sér frí frá öllu bloggi. Samt er ég nú að hugsa um að klára þetta. Ekki hefur snjóað að nokkru ráði hérna þennan vetur eða þetta haust og allt bendir til að hér verði rauð jól. Mikið er það nú gott þykir mér. Maður verður kannski alveg laus við kulda, hálku og snjókomu til áramóta eða lengur. Krakkarnir munu eflaust sakna þess að hafa engan snjó til að leika sér í, en það verður bara að hafa það. Ekki geta máttarvöldin gert öllum til hæfis. Svo fer að styttast í því að myrkrið láti undan síga og þá er óhætt að fara að hlakka til vorsins.
Skelfing geta allir verið í vondu skapi núna þessa dagana. Varla er óhætt að opna fésbókina, því þar hafa menn allt á hornum sér. Ef það er ekki veðrið eða vegirnir, ríkisstjórnin eða klaustrið, pólitíkin eða flugfélögin sem eru ómöguleg þá er það bara eitthvað annað. Jafnvel pólitískir andstæðingar. Ég bara tek ekki þátt í þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.12.2018 | 22:44
2800 - Fyrirspurn til stjórnvalda
Ekki get ég með nokkru móti skrifað í þetta blogg allt sem mér kemur í hug. Kannski er það þessvegna sem ég veð svona úr einu í annað. Margt er það sem ástæða er til að minnast á. Ég hef nefnilega skoðanir á öllum fjáranum. Sumar þeirra er engin ástæða til að láta í ljós, en ég er semsagt búinn að venja mig á að blogga um allt mögulegt. Eiginlega er ég svolítið líkur Birni Birgissyni í Grindavík nema ég hef ekki það sama dálæti og hann á fésbókinni og svo ímynda ég mér að ég sé ekki alveg eins íhaldssamur og hann.
Ég hef allsekki lagt í vana minn að endurbirta það sem ég hef fundið á flakki mínu um Internetið. Flestir hamast við að segja sína skoðun á Klausturmálinu og afleiddum fréttum . Ég nenni því bara ekki auk þess sem hugleiðingar um þau mál verða fljótt úreltar. Svo er líka að bera í bakkafullan lækinn að segja skoðun sína á þeim málum. Stundum leggst ég jafnvel svo lágt að lesa mbl.is. Ekki kræki ég samt í fréttir þar núorðið. Ég stundaði það einu sinni en er alveg hættur því. Eftirfarandi frétt er samt þaðan. Þeir sem fylgjast með sjónvarpsútsendingum frá alþingi Íslendinga kannast sennilega við málið. Til að ekki sé hætta á ruglingi ætla ég að gera þessa frétt skáletraða og setja innan tvöfaldra gæsalappa.
Ég hef verið kurteis hingað til en nú krefst ég þess að þessari vanvirðingu við þing og þjóð verði hætt og að ég fái svar við þessum réttmætu spurningum mínum, sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, undir dagskrárliðnum störf þingsins.
Hann sagðist hafa að minnsta kosti fjórum sinnum komið í pontu og óskað eftir svari við fyrirspurn sinni frá 26. febrúar um hverjir keyptu 3.600 íbúðir af Íbúðalánasjóði og greiddu fyrir það 57 milljarða króna. Hvaða einstaklingar, hvaða fyrirtæki og hverjir áttu fyrirtækin.
Þorsteinn sagðist ekki hafa orðið þess var að félagsmálaráðherra hafi óskað eftir fresti til að svara fyrirspurninni. Hann sagði ástandið vera þannig að ráðherra og hans fólk að sé greinilega að reyna að kreista út úr Persónuvernd þóknanlega afstöðu til þessarar fyrirspurnar. Bætti hann við að Persónuvernd sé þegar búin að lýsa yfir hlutleysi sínu og að það megi birta upplýsingarnar.
Fleiri þingmenn Miðflokksins stigu í pontu á eftir Þorsteini og tóku undir orð hans. Á bak við þetta eru 3.600 íbúðir og 3.600 fjölskyldur sem misstu heimili sín, sagði Jón Þór Þorvaldsson og benti á að samkvæmt reglum eigi svarið að berast innan 15 daga. Birgir Þórarinsson bætti við: Það er ekki hægt að álykta annað en hér sé verið að fela eitthvað.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði réttast að tekin yrði afstaða vegna málsins í forsætisnefnd. Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, sagði þá að búið að væri að taka málið upp í nefndinni og þess vegna hafi verið leitað aðstoðar forseta í málinu. Þetta mál er ekki einsdæmi þegar kemur að upplýsingaöflun.
Þetta hefur ekkert með það að gera hvaða þingmaður á í hlut eða hvað flokki hann tilheyrir. Mér finnst háttalag stjórnvalda með miklum ólíkindum í þessu máli. Hafa ráðherraræflarnir ekki döngun í sér til að gera neitt almennilega? Mér finnst ekki hægt að finna neinar afsakanir fyrir þessu háttalagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.12.2018 | 22:48
2799 - Reddast þetta nokkuð?
Eigi veit eg þat svo gjörla, en hitt veit eg að stjórnmálin snúast fyrst og fremst um mikil eða lítil afskipti stjórnvalda af hinum ýmsu málum. Það sem fyrst og fremst þyrfti að reddast núna eru loftslagsmálin og hnatthlýnunin. Einn helsti forsvarsmaður einkaframtaksins í heiminum, sjálfur yfir-Tromparinn eini og sanni hefur afneitað öllum hallelújakórum og vísindasamfélaginu að mestu leyti, sem segja að allt sé að fara til fjandans ef ekki sé það samþykkt að mannkynið alltsaman sé með athæfi sínu að ganga of nærri náttúrunni sjálfri. Þó ekki sé sú svartsýnisspá samþykkt af öllum nema Trump er því ekki að neita að miklu fylgi á sú spá að fagna. Best er auðvitað að reyna eftir mætti að leiða slíka spurningu hjá sér, þó sennilega sé ekki hægt að gera það endalaust. Næst á eftir lífsgátunni sjálfri er þetta eflaust sú allra mikilvægasta.
Ekki hef ég lagt það á mig ennþá að horfa á Flateyjargátuna í sjónvarpinu. Þó las ég bókina á sínum tíma. Held að sjónvarpsútgáfan fjalli um allt aðra hluti. Nenni samt ekki að gá að því. Er mikið að velta því fyrir mér hvort ég eigi að horfa á Ófærð II sem mér skilst að verði sýnd eftir áramótin. Yfirleitt er ég ekki hrifinn af sjónvarpsefni. Það er helst að ég horfi þar á fréttir. Svo fylgist ég svolítið með íþróttum og læt helst ekki Kiljuna framhjá mér fara. Kvikmyndir eru næstum á bannlista hjá mér eins og amerískir sakamálaþættir, sem ég forðast eins og pestina. Íslenskar kvikmyndir koma þó alveg til greina.
Kannski les ég allt of mikið á Internetinu. Þó hef ég talsverða andúð á fésbókinni. Fer samt þangað flesta daga, en yfirleitt ekki með símanum. Oft er Netið eina ráðið til að fylgjast almennilega með nýjustu kjaftasögunum. Sumar eru dagsannar en aðrar haugalygi. Hvernig á að þekkja það í sundur. Sá sem finnur auðvelda og handhæga leið til slíks í einkaframtakslandi verður eflaust forríkur.
Einelti og nauðgunartilburðir eru fordæmdir í mannlegu samfélagi og ekki dettur mér í hug að mæla slíku á nokkurn hátt bót. Slíkir tilburðir eru samt ótrúlega algengir í dýraríkinu. Sjálfur hef ég oft fylgst með slíku á meðal fugla og þó dýr éti hvort annað og ekki síst maðurinn a.m.k. önnur dýr þá virðast flestir horfa í gegnum fingur sér með það, sé það gert á vissan og viðurkenndan hátt. Þvíumlíkar venjur geta þó fyrirvaralaust breyst eins og sannast hefur á hvölunum. Einu sinni voru þeir réttdræpir hvar sem er og hvernig sem er, en nú er öldin önnur.
Stundum, einkum þó í auglýsingum og þáttum allskonar, er því haldið fram að bækur séu upphaf og endir alls góðs. Þvílík endemis vitleysa. Svo er alls ekki lengur. Að vísu verður að viðurkenna að mikið af þekkingu og afþreyingu þeirri, sem safnast hefur í kringum mannkynið á umliðnum öldum, er saman komið í bókum. Gömlum bókum vel að merkja. Lestur er að vísu ennþá nauðsynlegur og mikilvægur í allri þekkingarleit. Bækur, í hefðbundnum skilningi, eru þó óðum að missa sjarma sinn og víst er að mikið af þeirri þekkingu sem orðið hefur til á síðustu árum, mun aldrei á bækur rata. Vel getur þó verið að með því að láta safnheitið bækur ná yfir víðtækara svið en verið hefur megi e.t.v lengja líftíma þeirra nokkuð og svo hefur bókaútgáfa hvers konar sífellt orðið ódýrari og einfaldari m.a. með því að láta tölvur sjá um sem mest af þeirri vinnu sem til þarf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)