Færsluflokkur: Bloggar
17.6.2019 | 15:49
2858 - Heimsfriðurinn
Íslendingar eru Norðurlandameistar í bridds. Einu sinni voru Íslendingar nokkuð góðir í skák líka. Sama er að segja um boltaíþróttir eins og handboltann. Ef við Íslendingar einbeitum okkur að örfáum eða a.m.k. ekki of mörgum hlutum í einu, getur við alveg náð þokkalegum árangri miðað við fólksfjölda. Um leið og áhuginn eykst um allan heim getum við pakkað saman. Það sem við getum einkum státað okkur af er að þrátt fyrir fámennið hefur okkur tekist að halda uppi ríki sem getur borið sig saman við fjölmörg önnur, ef tillit er tekið til fámennisins. Einhvers staðar sá ég því haldið fram nýlega að við stæðum öðrum þjóðum að baki í Olympíugreinum íþrótta. Ég held að þetta sé mesta vitleysa. Þó við höfum aldrei unnið til gullverðlauna á Olympíuleikum höfum við síður en svo verið okkur til einhverrar skammar þar. Og landsliðið okkar í knattspyrnu hefur undanfarið staðið sig með prýði. Auðvitað lýkur þessum árangri einhvertíma, en er á meðan er.
Hvað loftlagsvá varðar, sem ég trúi ekki að öllu leyti á, erum við á Íslandi betur sett en flestir aðrir. Ég held að sumt af því sem haldið er fram af vísindamönnum um loftslagsmál sé óttaleg vitleysa. Sú heimshlýnun og það hallæri sem boðað er af hennar völdum held ég að sé að verulegu leyti byggt á ágiskunum. T.d. er ég viss um að þessi skurðaofanímokun hér á landi er stórlega ofmetin. Annað mál er það að ruslasöfnun sú sem um þessar mundir er stunduð á Vesturlöndum er alltof mikil. Að ráðast á sóun af öllu tagi er vissulega hið besta mál. Þó frárennslismál og hreinlæti geti verið dýrt, segir mér svo hugur um að við Íslendingar getum bætt okkur mikið þar. Í þeim efnum stöndum við nágrönnum okkar langt að baki.
Eiginlega eru bloggskrif af þessu tagi sem ég hef vanið mig á, marklaus að mestu. Ef að því er keppt að sem flestir lesi þessi ósköp væri sennilega best að setja þetta á fésbókina. Ég er bara svo mikið á móti henni þó ég geti alveg fallist á yfirburði hennar að þessu leyti. Kannski vil ég ekki að sem flestir lesi þetta og kannski er mér alveg sama. Afskiptaleysi Morgunblaðsins af því sem hér er skrifað hentar mér að mörgu leyti ágætlega. Afskiptasemin og nýjungagirnin hjá fésbókinni fer mest í taugarnar á mér. Með því móti er kannski hægt að fá fleiri til að skrifa, en mér finnst bara stór hluti af því sem skrifað er á fésbókina vera argasta bull.
Í dag er víst 17. Júní. Þ.e.a.s. þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga. Ekki hef ég hugsað mér að halda að neinu leyti uppá daginn. Er ég þá minni Íslendingur en þeir sem það gera? Ekki finnst mér það. Eiginlega finnst mér þetta þjóðhátíðarstand vera mest fyrir börn. Auðvitað er það ekkert verra fyrir það. Mér finnst bara útúr korti að meira eða minna leyti fyrir okkur gamlingjana að vera að sperra okkur af þessu tilefni.
Ekki fer hjá því að einhverjir (fjölmiðlamenn) álíti það hættulegra fyrir heimsfriðinn að kveikt sé í fáeinum olíuflutningaskipum en að þúsundir manna séu drepnar. Útskýri þetta ekki nánar enda veit ég svosem ekkert hvað ég á við með þessu. Mið-Austurlönd hafa lengi verið álitin sú púðurtunna sem hæglegast gæti komið heimsófriði af stað. Stórveldin hafa öll einhverja hagsmuni að olíu og þessvegna er heimsfriðnum kannski meiri hætta búin nú en oft áður. Samt er það svo að eftir því sem heimsstyrjöldin síðari fjarlægist meira því hættara virðist þessum svokallaða friði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2019 | 21:34
2857 - Heimsendir
Bandaríska alríkisstjórnin ætlar á næstunni að athuga starfshætti tæknirisanna Amazon, Apple, Google og Facebook. Aðrir eru ekki á þessum lista. Væntanlega eru þeir ekki nógu stórir eða þá að þeir hafa verið rannsakaðir áður. Ekki held ég að þetta sé runnið undan rifjum Trumps, en sumir (þar á meðal ég) virðast hafa fyrir reglu að kenna honum um allt sem aflaga fer. Lítið álit mitt á og stöðug gagnrýni á Facebook er heldur ekki úr Trump-skúffunni. Eða það held ég a.m.k. að sé ekki. Að setja sjálfan sig á stall með öllum þessum risum er auðvitað sjálfhælni á hæsta stigi, en ég get ekki að því gert.
Forseti Íslands lætur sig hafa það að grilla til góðs. Sagt er að þessi heimsviðburður muni eiga sér stað á Kótilettunni, sem einu sinni var og er kannski enn nafnið á bæjarhátíðinni á Selfossi. Þeir voru svo seinir að koma sér upp einni slíkri að þeir fundu ekki betra nafn. Kannski ber að þakka Sláturfélagi Suðurlands þessa nafngift. Forsetinn lætur hafa sig út í allskyns vitleysu eins og að segjast ætla að banna ananaspizzur. Reyndar held ég að þessi grillun hans sé allra góðra gjalda verð. Einu sinni gengu menn til góðs, en það er víst liðin tíð. Næst verður sennilega annaðhvort gutlað eða gjammað til góðs og væntanlega mun ég ekki taka þátt í því frekar en öðrum forsetaviðburðum.
Loftlaus dekk sem geta ekki sprungið. Michelin hefur kynnt slík dekk, en þau verða ekki til sölu í verslunum fyrr en svona árið 2024. Hver nennir að bíða eftir því. Eiginlega finnst mér sem næstum því sé það orðið óþekkt fyrirbrigði að springi dekk. Öðruvísi mér áður brá. Einu sinni voru punkteringar svo algengar að engir voru svo vitlausir að leggja í langferð án varadekks. Nú heyrir maður varla minnst á punkteringar. Hætt er með öllu, held ég, að nota slöngur innan í dekk og þar með hafa hinar eiginlegu dreifbýlistúttur misst sjarma sinn og eru víst löngu orðnar ófáanlegar. Man að eitt sinn eignaðist ég einar slíkar. Hvítbotnuðu gúmmískórnir þóttu þó flottari.
Listrænar ambisjónir eru hættulegar. Kannski getur stundum gengið í íþróttum að gera það sem maður heldur að viðhlæjendur vilji en slíkt gegnur ekki í listum og bókmenntum. Þar dugar ekkert annað en þrautseigja og hæfileikar að viðbættri ótakmarkaðri ástundun. Ef listamenn ímynda sér að einhverju takmarki sé náð þá er eins gott að hætta strax. Að vera að streða við það alla ævi, að bæta sig í einhverju er til harla lítils ef hæfileikarnir eru ekki fyrir hendi. Ef sóknin eftir bætingu er ekki altumlykjandi er lítil von til þess að streðið sé til nokkurs.
Í sumum ríkjum Bandaríkjann hafa að undanförnu verið samþykkt margvísleg lög sem þrengja verulega að þeim sem vilja hafa fóstureyðingar sem frjálsastar. Viðurlög hafa sumsstaðar verið hert verulega og jafnvel engar undantekningar leyfðar. Margir búast við að Hæstiréttur Bandaríkjanna muni ógilda þessi lög og þeim hefur víða verið mótmælt. Saksóknarar margir hafa og lýst því yfir að þessum lögum verði ekki framfylgt.
Búist er við enn einum heimsendi 9. september næstkomandi en þá er búist við að allstór loftsteinn eða smástirni muni heimsækja okkur. CNN telur þó að ekki sé mikið að óttast. Kannski það sé enn ein falsfréttin þar að áliti Trumps. Þær eru víst nokkuð margar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.6.2019 | 16:16
2856 - Enn um málþófið
Að minum dómi er þess ekki að vænta að málþófið mikla sé á leiðinni í burtu. Að miklu leyti má líta á þetta sem einskonar störukeppni á milli Sigmundar Dvíðs og Steingríms Jóhanns og þar sem báðir eru þverhausar hinir mestu er þess ekki að vænta að þófinu linni alveg á næstunni. Þetta þykist ég skilja því ég er sjálfur þverhaus mikill og ég get alveg sett mig í þeirra spor. Ríkisstjórnin getur ekki hvitþvegið sjálfa sig og ætlast til þess að aðrir leysi málin fyrir hana. Að svo mæltu mun ég ekki tala meira um þetta málþófsmet, en fróðlegt verður að sjá hvor vinnur. 9 þingmenn geta hvenær sem er bundið enda á þessa vitleysu, en vilja það ekki.
Að kæra Trump Bandaríkjaforseta til embættismissis (impeach) er vitatilgangslaust, því ef hann hagar sér ekki þeim mun asnalegar á næstunni en hann hefur þó gert higað til, er engin von til þess að öldungadeildin fallist á embættismissi hans. Þvert á móti má gera ráð fyrir að sigurlikur hans í kosningunum næsta haust aukist umtalsvert ef hann verður kærður. Þó Demókratar hafi meirihluta í fulltrúadeldinni dugar það ekki til. Stjórnmál í Bandaríkjunum hafa oft verið minna flokkspólitísk en þau eru um þessar mundir. Framgöngu Trumps er að miklu leyti um að kenna. Hann hefur á ýmsan hátt aukið viðsjár milli manna, ekki síst á þingi og meðal stjórnvalda. Segja má ennfremur að framganga hans í alþjóðamálum hafi aukið stríðhættu í heiminum. Nú hefur hann boðað nýjar tillögur um lausn Palestínuvandamálsins og satt að segja búast menn ekki við miklu úr þeirri átt.
Kannski er hættan af skipulagðri glæpastarfsemi ofmetin hér á landi og kannski ekki. Ekki skil ég samt í að margir finni muninn á því að verða fyrir skipulagðri glæpastarfsemi og óskipulagðri. Óskipulagða (= innlenda - sbr. helvítis utanbæjarmennina) glæpastarfsemin held ég að sé alveg eins hættuleg og hin. A.m.k. fyrir okkur pöpulinn, en kannski ekki löðlegluna og þessvegna þurfum við að passa okkur sérstaklega á henni. Annars held ég að ríkislögreglustjóri sé allra manna hættulegastur. Ég átta mig bara ekki á því hvort hann er skipulagður eða óskipulagður.
Þrjár klausur í hverju bloggi er algjört lágmark að mínu viti. Samt er ég ekki meðmæltur því að tala bara og tala til þess eins að tala. Alveg sama máli gegnir um skrif hvers konar. Ekki er sniðugt að skrifa bara til þess að skrifa. Þessvegn er ég að hugsa um að hætta núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.5.2019 | 16:20
2855 - Málþófið mikla
2855 Málþófið mikla
Nei, ég er ekki dauður ennþá og ekki heldur hættur að blogga. Skoðarir mínar á fésbókinni og blogginu hafa lítið breyst. Hinsvegar hef ég verið í hálfsmánaðarfríi á Ítalíu, nánar tiltekið í Toscany-héraði lengst uppi í sveit. Þó ég hafi haft dágott internetsamband og getað horft á sjónvarp þegar mér sýndist áleit ég mig vera í fríi frá hverskyns bloggskrifum fréttum og þessháttar.
Svolítið hef ég heyrt af fréttum frá Íslandi og horfði meira á söngvakeppnina en ég er vanur. Þegar ég kom svo heim seint síðastliðið laugardagskvöld varð ég fljótt var við að um fátt er meira rætt en orkupakka númer 3 og Hatara sem tóku þátt í söngvakeppninni.
Enn virðast þeir miðflokksmenn hafa lag á því að koma sér í fréttirnar. Þó ég sé á móti orkupakkanum finnst mér kannski óþarfi að láta svona. Ef alþingi hefur í sínum óendanlega vísdómi ákveðið að málþóf sé viðurkennd aðferð hvers vegna mega þá ekki miðflokksmenn nota sér þetta vopn eins og aðrir? Þó mistekist hafi að koma þeim útaf þingi er ekki sjálfsagt að vera meðmæltur orkupakkanum þessvegna.
Svipað er að segja um Hatara. Þó þeim hafi mistekist að sigra í söngvakeppninni er ekki þar með sagt að þeir séu lélegir. Mér finnst þeir harla góðir þó sumir segi að ekki megi styggja Ísraela. Annars held ég að flestir Evrópubúar séu fyrir löngu orðnir hundleiðir á þessari söngvakeppni. Mér finnst hún aðallega vera fyrir algera sjónvarpssjúklinga.
Þegar ég á sínum tíma stjórnaði kapalkerfinu í Borgarnesi rétt eftir 1980 var ein vinsælasta spólan þar upptaka á svokölluðum Skonrokksþáttum. (Tommi og Jenni undanskildir) Þar var um að ræða safn af tónlistarmyndböndum. Eina stöð fann ég úti á Ítalíu á einhverjum gervihnettinum sem útvarpaði eingöngu gömlum tónlistarmyndböndum. Þau voru mun skárri en söngvakeppnin og satt að segja sú stöð sem ég horfði langmest á þessa Ítalíudaga mína. Engin myndbönd sem leikin voru á þessari stöð voru samt eins gömul og Skonrokksþættirnir, þó flest þeirra hafi verið frá því fyrir síðustu aldamót.
Að við skulum hafa látið alþingi hafa öll þessi völd er óskiljanlegt. Auðvitað þarf stjórnarandstaðan að hafa einhverja aðkomu að völdum í þjóðfélaginu. Hinsvegar á það ekki að skipta máli hvaða flokkur beitir því vopni sem málþófið vissulega er. Hvort ekki er hægt að sniða þennan agnúa af þingstörfunum er verkefni sem ríkisstjórnin í samstarfi við meirihlutann á alþingi sem stuðst er við þyrfti að athuga mjög vandlega. Þetta ástand er vissulega til skammar. Ríkisstjórnin virðist halda að hún auki styrk sinn í réttu hlutfalli við minnkandi traust almennings á þinginu og starfsemi þess.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.5.2019 | 16:07
2854 - Maduro, Barr og Pompeo
Dómsmálaráðherrann í stjórn Trumps bandaríkjaforseta neitar að mæta í yfirheyrslu hjá fulltrúadeild þingsins. Ég er ekki að segja að þetta sé merki um mikið ósamkomulag milli þings og ríkisstjórnar í USA. Það gæti þó leitt til stjórnlagaþrætu þar í landi. Sömuleiðis er ekki hægt að horfa með öllu framhjá hótunum utanríkisráðherra sama ríkis um að fara með hernaði gegn Venezúelabúum ef fyrirskipunum er ekki hlýtt. Hugsanlegt og jafnvel líklegt er að um allt þetta verði samið. Vonum það a.m.k.
Annars hefur dregist úr hömlu að koma Maduro Venezúelaforseta frá völdum. Við Íslendingar höfum lagt okkar lóð á þær metaskálar og ekki er hægt að horfa framhjá því að ríkisstjórninni þar hafa verið ákaflega mislagðar hendur við stjórnun ríkisins.
Þó ég sé langt frá því að vera einhver sérfræðingur í heimsmálum fer ekki hjá því að ég velti slíkum málum fyrir mér. Að mestu er ég sammála Hjalmtý Heiðdal um að rétta ráðið hefði verið fyrir Hatara að hunsa Sönglagakeppnina með öllu að þessu sinni. Sérstaklega ef tekist hefði að fá fleiri þjóðir með til þess. Alþjóðleg hunsun hefur hingað til gefist nokkuð vel. Sú leið var ekki valin og því er þýðingarlaust að velta því fyrir sér. Reiknum bara með og vonumst eftir að Hatarar standi sig vel.
Ef ég á að bollaleggja um heimsmálin áfram fer ekki hjá því að ég staðnæmist við Assange. Þó hann hafi verið sakfelldur allharkalega fyrir að hafa komið sér hjá því að mæta fyrir rétti í Bretlandi er þar annað mál gegn honum sem úrskurður fellur víst í mjög fljótlega og skiptir meira máli. Það er framsalskrafa bandaríkjamanna. Ég held satt að segja að hann verði ekki framseldur. Hann er álíka úreltur og núverandi bandaríkjastjórn.
Einu dómsmáli enn bíð ég eftir að ljúki. Það er krafa ALC varðandi WOW-flugvélina. Held að bandaríkska fyrirtækið hafi gert mistök í því að hóta Íslendingum og að dæmt verði Isavia í vil í því máli. Þó dregur það hugsanlega úr slíkum líkum að forstjórinn er nýbúinn að segja af sér.
Svo er Íslandsmeistaratitillinn í körfubolta í veði í kvöld. Ég vona svo sannarlega að ÍR-ingar vinni. KR-ingar eru næstum því eins óþolandi og Valsarar.
Ýmislegt fleira ætlaði ég mér að minnast á, en sennilega bíður það bara betri tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.4.2019 | 06:56
2853 - Sif Sigmars
Enginn svarar Sif. Eins og ég sagði, eða ætlaði að segja um daginn þá ratast Sif Sigmarsdóttur oft satt orð á munn í sambandi við pólitík. Hún veit sannarlega sínu viti og kann að koma orðum að hlutunum. Gallinn er hinsvegar sá að henni er ekki svarað. Auðvitað geta pólitíkusarnir ekki gert það, en þeir gætu þó reynt. Að minnsta kosti gætu þeir afsakað sig smá þó ekki væri annað. En það gera þeir ekki því með því mundu þeir hætta sér útá hálan ís. Allir vita að flokkafjandarnir eru þeim mikilvægari en allt annað. Þar með talinn þjóðarhagur og ýmislegt fleira.
Sennilega er af hálfu Sjálfstæðisflokksins verið að undirbúa endurkomu Sigríðar Andersen í ráðherraembættið sem hún áður gegndi.. Ekki er þó víst að það gangi betur en að koma MAX 8 og 9 þotunum í umferð aftur. Hvorki stjórnendum Boeing fyrirtækisins né íslensku ríkisstjórninni virðist vera það ljóst að almenningálitið er gjörbreytt frá því sem áður var. Samfélagsmiðlarnir eru sú ástæða sem fyrst kemur upp í hugann en hugsanlega eru þær fleiri. Óþolinmæði almennings með spillingu og sjálfsupphafningu stjórnmálastéttarinnar er komin á hættulegt stig. Sú bylting sem hófst í Afríku um 2010 gæti sem hægast breitt úr sér. Eitthvað hlýtur það að verða sem kveikir á endanum í tundrinu sem safnast hefur saman undanfarna áratugi.
Nú er vorið endanlega komið. Meira að segja veðurspámennirnir eru farnir að spá hita og þreytast ögn á þessum sífelldu aðvörunum sínum. Allur snjór er löngu farinn, nema úr hæstu fjöllum. Látum það ekki á okkur fá þó páskahretið breytist í hvítasunnuhret, heldur höldum áfram að vona það besta. Hver veit nema sumarið verði með besta móti.
Fórum upp í Melahverfi í gær til að skoða kanínur og fylgjast með æfingum í körfubolta auk þess að sturta úr nokkrum kaffibollum. Skoðaði líka Kalmansvík og tók nokkrar myndir í morgunsárið. Sannkallað sunnudagsveður.
Ef ég minnist ekkert á Trump eða fésbókina þarf það svosem ekki að þýða það að þessi ógeðfelldu fyrirbæri séu að rétta úr kútnum. Ég er sífellt að sannfærast betur og betur um að fésbókin er stórhættuleg en býr samt yfir möguleikum sem eru ómetanlegir. Vonandi verður það sem tekur við af henni ekki eins hryllilegt og hún. Ekki verður það samt Twitter. Mér sýnist hann engu betri.
Að sumu leyti má lita á það sem heftandi að geta ekki sent snilli sína út í eterinn fyrr en komnar eru allnokkkrar klásúlur, þó mismunandi gáfulegar séu. Líka fylgja þessu kostir að sjálfsögðu. Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Það má finna útúr öllu ánægjuvott. Kannski ég fari bara að slútta þessu hér með.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.4.2019 | 20:44
2852 - Biden og Trump munu berjast á næsta ári
Ekki brást Biden vonum mínum. Það var svosem lengi búið að skora á hann að bjóða sig fram. En hann vildi ekki rasa um ráð fram. Nú hefur hann semsagt tekið ákvörðun og ekki er neinn vafí á því að hann er sem stendur sigurstranglegastur af einum 20 demókrötum sem gjarnan vilja komast í Hvíta húsið. Kapphlaupið um sigur getur orðið spennandi á næsta ári. Mér er engin launung á því að ég vil sjá Biden sem sigurvegara þar.
Mér finnst óþarfi að setja það of mikið fyrir sig að íþyngjandi sé að svipta bílaleigu réttindum til að svindla. Procar á ekki nokkurn skapaðan hlut inni hjá neinum og refsingar í sakamálum finnst mér að eigi að vera íþyngjandi.
Mér finnst það hraustleikamerki hjá hótelum á landsbyggðinni að hafa engar áhyggjur af minnkandi ferðamannastraumi. Ég hef það. Miðað við að gengið hefur staðið Wow-gjaldþrotið af sér er kannski engin furða þó hóteleigendur séu sæmilega bjartsýnir.
Fórum í Cosco í dag (í gær) og keyptum satt að segja fullmikið. En það er nú venjan í Costco-heimsóknum svo ég hef eiginlega engar áhyggjur. A.m.k. verð ég ekki klósettpappírslaus alveg á næstunni. Kannski við ættum að fækka svolítið heimsóknum þangað.
Veðrið varð kannski ekki alveg eins gott í dag eins og maður hafði reiknað með. En ágætt samt. Skýjafar og mistur var meira en búast mátti við. Sumardagurinn fyrsti var í dag og vonandi er að sumarið verði dálítið skárra en í fyrra.
Ekki tókst mér að klára þetta blogg í gær. Þó sumardagurinn fyrsti hafi verið þá og ég ekki haft öðrum hnöppum að hneppa en að fara í Costco. Reyndar er það talsvert afrek þó varla fáist mörg stig fyrir það.
Trump bandaríkjaforseti virðist hafa þá stefnu að segja bandaríkin frá sem mestu af alþjóðlegum samskiptum. Bíð bara eftir því að hann segist ætla að segja sig og bandaríkin úr Sameinuðu Þjóðunum. Með þessu kann að vera að hann auki lítillega líkur sínar á endurkjöri á næsta ári, en um leið held ég að hann tryggi útskúfun bandaríkjanna í framtíðinni. Alls ekki er víst að bandaríkin haldi hernaðaryfirburðum sínum endalaust. Samvinna og samstarf er sú eina aðferð sem dugar til að ráða bót á þeim áskorunum sem þjóðir heims munu standa frammi fyrir á næstu áratugum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2019 | 11:34
2851 - MAX 8 og 9
Núorðið er það svo að þegar eitthvað gerist og fólk er viðstatt (annars gerist það kannski ekki.) þá eru teknar 260 myndir af því og einar 16 vídeómyndir. Ef hjóli er stolið eða ef kviknar í bíl eru auðvitað um margfalt fleiri myndir að ræða. Hvað skyldi verða um allar þessar myndir? Ekki öfunda ég sagnfræðinga framtíðarinnar af að þurfa að skoða þær allar . Þessvegna er það sem ég er farinn að taka sífellt færri og færri myndir og nýta þær betur. T.d. eru allar þær myndir sem ég birti með bloggunum mínum endurnýttar. Samt hef ég nú tekið þær allflestar. Annars er það að verða mest fyrirkvíðanlegt í sambandi við bloggið að sækja þær alltaf. Ekki hef ég komið mér upp góðu systemi til þess arna.
Eiginlega er ég í mestu vandræðum með hvað ég á að gera við þriðja orkupakkann. Sumir segja að ég verði að vera á móti honum en aðrir að ég eigi að vera meðmæltur honum. Mér er nær að halda að það skipti litlu máli hvorn kostinn ég vel. Blessuð ríkisstjórnin er áreiðanlega búin að ákveða fyrir löngu (fisk) hvort hagstæðara er að vera meðmæltur honum eða andvígur. Gulli er a.m.k. meðmæltur honum. Kannski er það bara vegna þess að Bjarni hefur sagt honum það og kannski ekki. Hver veit nema við getur bara róið í burtu þegar Tjallinn kemur og vill stinga í samband.
Já, vel á minnst. Ég get sem best fjölyrt fjandann ráðalausan um Brexit. Ég er nefnilega kominn á þá skoðun að Bretar fari aldrei úr ESB-buxunum sínum. Á hverju byggi ég það? Skysemi eingöngu. Nú þegar Sambandsherrarnir eru komnir uppá lag með að veita Bretum frest, þá má hiklaust búast við að þeir haldi því áfram. Alltaf fær Bretinn frest á öllu. Kannski þeir fresti því bara að hætta að vera heimsveldi. Þeir reyndu það. Einu sinni héldu þeir meira að segja að þeir gætu eitthvað í fótbolta, en Íslendingar komu þeim í skilning um annað.
Mér sýnist að allar líkur séu á að langur tími muni líða þangað til Boeing fyrirtækið getur aftur farið að selja Boeing 737 MAX 8 og 9. Kannski geta þeir það aldrei og kannski fer þetta fyrirtæki á hausinn eða skiptir um kennitölu. Veit ekki hvort er vinsælla í henni Ameríku. Að láta sér í léttu rúmi liggja þó mörg hundurð manns hafi drepist af þeirra völdum er ekki í boði nútildags.Einu sinni voru fleiri fyrirtæki í USA sem framleiddu flugvélar. Kannski einhver þeirra verði endurvakin.
Að undanförnu hef ég verið að lesa gömul blogg eftir sjálfan mig. Ekki þó eftir einhverju áður ákveðnu skipulagi, heldu svona á maa og faa, einsog danskurinn mundi segja. Mikið andskoti hef ég stundum verið velskrifandi. Eiginlega er furðulegt að lesendur mínir skuli ekki vera miklu fleiri en raun ber vitni. Eins og ég hef verið frumlegur oft og einatt. Annars er ég ekkert að gagnrýna þessa fáu lesendur sem ég þó hef. Ekki geta þeir gert að því þó þeir séu ekki fleiri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.4.2019 | 22:38
2850 - Vaknað snemma og veðurlýsingar
Vaknaði um 5-leytið í morgun og skrifaði þá á bloggið mitt sem þeir sem þangað villast eru neyddir til að lesa. Fékk mér svo kaffi og fór aftur að sofa.
Mín reynsla er sú að ef maður fer að sofa ofaní kaffi þá dreymi mann einhverja vitleysu. Ekki brást sú trú að þessu sinni. Mig dreymdi að ég væri villtur í Hafnarfirði. Þangað hafði ég farið gangandi með band í eftirdragi. Svo var ég truflaður og týndi því. Fór með strætó, sem mér þótti furðu breiður, heim til Reykjavíkur. Við hliðina á mér sat landsþekktur húmoristi sem ég þekkti vel í sjón og reytti af sér brandarana, nema hvað þeir voru ekkert fyndnir. Svo lauk draumnum skyndilega.
Nú er klukkan að verða níu og ég er að hugsa um að fara út að ganga. Í dag er víst skírdagur. Þegar einfalt og tvöfalt i verða lögð að jöfnu verður þetta skyrdagur. Þá eiga allir á fá sér skyr.
Þetta gekk alveg bærilega. Nú er klukkan að verða tíu. Best að hlusta á fréttirnar.
Hlustaði á þær en varð lítið fróðari við það. Sennilega er það ofætlum hjá mér að ég geti skrifað tvö blogg sama daginn. Þó minnir mig að ég hafi gert það. Því ekki að reyna?
Líklega verð ég að hafa þetta blogg í styttra lagi svo þetta takist. Hef samt langa reynslu í að skrifa langt mál um lítið efni.
Um síðustu helgi fórum við norður á Akureyri í fermingarveislu. Undir Hafnarfjalli var nokkuð hvasst, en við vorum með Þór í jeppanum hans og höfðum ekki miklar áhyggjur af því. Á leiðinni sáum við að rúta hafði fokið utaf veginum, en þar sem nokkrir flutningabílar voru þar hjá stoppuðum við ekkert og fljólega batnaði veðrið. Á Akureyri var sól og blíða eins og innbyggjarar þar segja að sé alltaf. Eina nótt gistum við á Akureyri. Fengum lánaða íbúðina hjá Rakel en þau voru í fermingarveislu fyrir sunnan og við öfunduðum þau ekki. A.m.k. ekki útaf veðrinu.
Hvergi örlar á snjó hér á Akranesi en á Akureyri var nokkur snjór. T.d. á svölunum hjá Rakel. Götur voru þó auðar. Á heimleiðinni þaðan flýttum við okkur svolítið til að vera á undan lægðinni sem væntanlega var. Það gekk bærilega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2019 | 05:53
2849 - Notre Dame
Ég hef aldrei komið í Notre Dame kirkjuna og slepp þessvegna naumlega við að lýsa yfir hryggð minni og samstöðu með frjálsum Frökkum. Annars er þessi atburður ekki til að gera grín að. Samt er móðursýkin og gráturinn eftirtektarverður.
Hvernig sem á því stendur finnst mér þessi fontur ekki vera af réttri stærð. Tölvan heldur samt öðru fram og líklega verð ég að sætta mig við það. Síminn minn, eða réttara sagt Fitbitið mitt hélt því fram áðan að meðalhraði minn væri undir 10 mínútum per kílómeter. Þetta er ég alveg viss um að stendst ekki. Einu sinni gekk ég að vísu 5 kílómetrana undir 60 mínútum en það er liðin tíð. Nú er ég orðinn svo gamall að ég kemst með engu móti svona hratt áfram.
Í gamla daga sagði mamma alltaf að þar sem rottur væru þar væru ekki mýs. Þórarinn Þórarinsson sem kannski er Tíma-Tóta son skrifaði um rottur í bakþönkum Fréttablaðsins síðastliðinn föstudag. Í lokin segir hann:
Þar sem er fólk eru rottur. Hefur alltaf verið þannig og verður alltaf, þannig að það verður bara að hafa það og ég verð að játa mig sigraðan í baráttunni við óttann og rotturnar.
Þetta held ég að sé ekki rétt hjá honum. T.d. er ég nokkuð viss um að í alþjóðlegu geimstöðinni eru engar rottur. Jafnvel ekki einu sinni mýs. Þó er ég ekki alveg viss um að allir séu mennskir sem þar eru eða voru.
Í íslenskri fyndni eða íslenskum þjóðsögum er frá því sagt að kerling ein hafi mælt fram þessa vísu af gefnu tilefni.
Mörgum þótti málug ég,
mælti kerling skrýtileg.
Þagað gat ég þó með sann
þegar hún Skálholtskirkja brann.
Eiginlega er ekki hægt að blogga nútildax án þess að minnast á þriðja orkupakkann. Sennilega er ekki mikið um hann að segja. Minnir að ég hafi verið búinn að afgreiða hann fyrir nokkru.
Var að skoða gömul blogg og ýmislegt fleira sem ég fann svona hálfgert óforvarendis á tölvunni minni. Sömuleiðis er ég sífellt að fá einhverjar áminningar og þessháttar frá fésbókinni. Þó mér þyki hún yfigangssöm og fjandanum leiðinlegri stundum, þá get ég ekki annað en notað þessi ósköp. Það er næstum ómögulegt að hunsa hana. Kannski ég birti eitthvað gamalt hér á blogginu mínu. Alveg er ég hissa á því hvað ég hef verið frumlegur stundum.
Sem betur fer er fésbókin ekki fitandi. Þó styður hún hegðun sem valdið getur offitu. Þetta er efni sem ég á kannski eftir að fara betur ofaní í framtíðinni. Látum þetta nægja að sinni.
Annars er ég í nokkurskonar páskafríi frá bloggskrifum núna. Aðdáendur mínir (ehemm þeir gætu verið nokkrir) eru beðnir um að örvænta ekki. Ég mun ná mér að fullu og skrifin koma aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)