Færsluflokkur: Bloggar

3214 - Þerapia

Veit svosem ekki frekar en fyrri daginn hvað ég á að skrifa um. Eitthvað verður það samt að vera, ef ég ætla mér að fara að skrifa reglulega.

Segja má með hæfilegri einföldun að forsetakosningarnar um síðustu helgi hafi farið þannig að óvinsældir ríkisstjórnarinnar hafi orðið Katrínu að fótakefli, en lyft Höllu Tómasdóttur til æðstu metorða. Öflug kosningabarátta Höllu og röng tímasetning Katrínar (sem hún var eiginlega þvinguð útí) hafði eflaust einnig sitt að segja. Fyrstu skref Höllu á forsetastóli verða þó eflaust skoðuð í þaula. En nóg um það.

Ekki er örgrannt um að ég hefði skrifað meira, ef ég hefði verið vanari því. Það er enginn vandi að fimbulfaba eitthvað, án þess að meina nokkuð með því. Kannski er þetta einskonar þerapía. Hættur að þessu sinni.

IMG 3385Einhver mynd.


3213 - Speglasjónir eða spekúlasjónir

Sé að ég hef tvisvar notað sömu bloggfyrirsögnina. Slíkt er alveg forkastanlegt. Skýrist sennilega af því að langt er á milli og minnið svikult.

Kannski er ég að koma til í því að blogga. Hver veit. Ekki er ég Höllusinni, en þó er ég ekki á móti henni. Ef ég hefði fyrir hvern mun viljað koma í veg fyrir að Katrín kæmist á Bessastaði hefði ég samt kosið hana. Tengingin er augljós og öllum sýnileg.

Hún (Katrín) ætlaði bersýnilega að tilkynna um framboð sitt eins seint og mögulegt væri. Þá hefði hún flogið inn og enginn hefði áttað sig á plotti Bjarna &Co fyrr en um seinan.

Já, ég er einn af þeim sem sé plott allstaðar og trúi öllum samsæriskenningum og þessháttar. Það er ágætt að geta yfirleitt alltaf verið á móti öllu.

Þann tíunda febrúar 2023 endurfæddist ég til þess skilnings að ég væri ekki mikilvægur í samhengi hlutanna. Áður fannst mér ég vera það. Einhverjum finnst ég kannski mikilvægur, en ég er það ekki. Mikilvægast er sambandið við aðra. Þar er ég lélegur. Hættur.

IMG 3393Einhver mynd.


3212 - Forsetakosningar

Jæja, þá eru forsetakosningarnar blessunarlega afstaðnar. Ég er líka búinn að borga af húsinu. Þegar ég fór að sofa í gærkvöldi, skömmu eftir miðnætti, mundi ég skyndilega eftir því. Í látunum útaf kosningunum hafði ég steingleymt því.

Ekki kaus ég Höllu, en á samt von á að hún verði fyrirmyndarforseti. Að sumu leyti staðfesta þessi úrslit að skoðanakannanir geti haft skoðanamyndun í för með sér. Fjölyrðum þó ekki mjög um það.

Helst mundi ég vilja fjalla um annað hér en forsetakosningarnar, en það er varla hægt.

Sagðist ætla að skrifa hér í hverjum mánuði og kannski oftar. Stend eflaust við það. Sérstaklega þetta með „kannski oftar“.

Ekki lofa ég neinu með framhald þessara skrifa. Sjáum til.

IMG 3401Einhver mynd.


3211 - Forsetakosningar

3211 – Forsetakosningar

Ætli maður að skrifa á hverjum degi er eins gott að hafa eitthvað að segja.

Ekkert er eins leiðinlegt og sjúkrasögur, nema ef vera skyldi umferðasögur.

Hundleiðinlegt er líka að skrifa langhunda um það sama á hverjum degi.

Svo má líka nota tímann til að lesa eitthvar uppbyggilegt. Nóg er af því á Netinu. Fréttir eru það ekki nærri alltaf. Þ.e.a.s. uppbyggilegar. Stundum eru þær leiðinlegar líka. T.d. stríðssögur og frásagnir af allskyns óáran. Oftast skemmtlegar samt. Gott að fylgjast með.

Enn á ný er ég að hugsa um að blogga reglulega. Veit samt ekki almennilega hvernig ég á að fara að því.

Seinna.

Enn á ný fara forsetakosningar í hönd. Ég er ekki alveg búinn að ákveða hvernig ég kýs, en hallast að því að ég kjósi annaðhvort Höllu Hrund eða Baldur. Ekki býst ég við að ég kjósi Katrínu, því mér finnst að ekki eigi að vera hægt að stökkva svona á milli valdamestu embætta landsins.

Ekki er fingrasetningin alveg komin í lag hjá mér. Eiginlega bara allsekki. Þar að auki finnst mér lyklaborðið ansi lítið. Kannski er þetta alveg nóg og líklega er best að hætta hér. Sennilega gefur fyrirsögnin ranga mynd af því sem hér stendur hérna.

IMG 3426Einhver mynd.


3210 - Meira af vilja en mætti

Enn er ég að hugsa um að fara að skrifa oftar. Ekki er samt víst að úr því verði frekar en fyrri daginn.

Beinar útsendingar frá fréttamannafundum eru að verða hálfleiðinlegur dagskrárliður. Samt er sennilega mikið horft á þessa þætti. Ég er samt kominn á þann aldur að ég er sennilega meðal þeirra síðustu sem horfi á sjónvarp í línulegri dagskrá. Það eru þó einkum fréttir sem það á við um, að öðru leyti þykir mér fremur lítið til sjónvarps koma. Þar að auki eru þessir þættir fyrst og fremst áróður fyrir ríkisstjórnina, sem aldrei gerir neitt að viti.

Alltaf er ég að hugsa um að gera eitthvað að gagni, en ekkert verður úr neinu. Framtaksleysi er þetta víst kallað. Ekki er rétt að kenna kóveitinu einu um þetta, ég var svosem farinn að finna fyrir þessu áður. Jafnvægisleysinu allar götur síðan 2007. Úthaldsleysi og allskonar lausatökum var ég farinn að finna fyrir nýlega.

Best er að hætta hverjum leik þá hæst hann stendur, og því hætti ég núna.

IMG 3429Einhver mynd.


3209 - Kata o.fl.

Eins og sjá má lenti ég í tómri vitleysu með myndirnar sem fylgdu blogginu sem ég setti upp í gær. Nú verður reynt að bæta úr þessu.

Gera má ráð fyrir að Kínverjar mundu styðja Rússa ef í harðbakkann slagi. Sömuleiðis er hægt að gera ráð fyrir að Bandaríkin og Evrópa mundu stilla saman strengi sína ef ekki væri á öðru völ. Þá er Indland eftir. Frá fornu fari hefur Indlandi komið illa saman við Kínverja (svo ekki sé nú talað um Pakistan) og þessvegna gætu þeir hallað sér að Vesturveldunum, þó það sé alls ekki víst.

Gaman er að velta fyrir sér heimspólitískum hlutum og á því má sjá hve agnarsmáir við Íslendingar erum á þeim skala.

Að vísu getum við státað af vondu veðri og eldgosum, en það dugir skammt á þeim vettvangi.

Ekki veit hvort ég er með þessu að spá þriðju heimsstyrjölinni, en ómótmælanlegt er að eftir því sem fleiri gleyma heimsstyrjöldum aukast líkur á þeim. Fleiri og fleiri þjóðarleiðtogar virðast nú um stundir vilja auka viðsjár milli hópa og þjóða fremur en að minnka þær.

Seinna (Miklu seinna)

Á sínum tíma ætlaði ég sennilega að halda áfram að skrifa daglega, en ekki tókst mér það.

Nú hefur Katrínarmálið bæst við og allir þurfa að láta ljós sitt skína í sambandi við það. Ég er þar engin undantekning. Líklega tekst henni ekki að halda forystu sinni í foseta-reisinu nægilega lengi til að sigra þar. Ríkisstjórnin lafir þó sennilega enn um sinn. Hætt er samt við að VG líði undir lok.

Vera má að þetta sé nóg. Best er að setja skrifelsi sín sem fyrst upp svo þau gleymist ekki. Hættur.

IMG 3436Einhver mynd.


3208 - Stórveldin 5

Stórveldi heimsins eru eiginlega fimm, Bandaríkin, Rússland, Kína, Evrópa og Indland. Þau eru ákaflega mismunandi. Bandaríkin (sem við Íslendingar tilheyrum) eru sterkust (vopnalega séð) um þessar mundir. Rússar eru í fjörbrotum. Kína og Indland eiga framtíðina fyrir sér. Evrópa er stóra spursmálið í þessu sambandi. Samstaða næst aldrei meðan núverandi aðferðum er beitt. Útþensla á sér þó stað.

Eitt fyrrverandi stórveldi ber að nefna. En það er Bretland. Sumir þarlendir halda að enn sé svo. Það er ímyndun.

Auðvitað veit ég að fleiri ríki hafa mannafla til að geta kallast stórveldi, en þau eru það ekki núna. Hvað sem síðar verður.

Ef Trump vinnur í haust verða Bandaríkin einangrunarsinnaðri en áður. Þá verða Evrópuþjóðirnar að treysta meira á sjálfar sig. Ísland er Evrópuþjóð. Samt er vissara að sitja og standa eins og Bandaríkin vilja.

Sennilega er þetta að verða nógu langt. Kannski held ég áfram með þessar speglasjónir einhverntíma seinna.

IMG 3520IMG 3435Einhver mynd.


3207 - Um eldvirkni og fótbolta

Nú er ég búinn að blogga sex daga í röð, svo kannski er þetta að koma hjá mér. Þ.e.a.s. fingrasetningin.

Bjössi bróðir hringdi í mig í gær. Hann er að hugsa um að endurvekja súpuhittinginn hjá okkur systkinunum. Hafdís var búin að tala um að bjóða okkur hjónum í mat um páskana svo ég gat ekki almennilega ákveðið að fara. Bjöggi kemst nú varla eftir veðurfréttum að dæma. Auk þess sem mér skilst að mikið sé um að vera á Ísafirði núna.

Hringdi í Bjössa í dag og boðaði komu okkar.

Mikið er að gerast í fréttum um þessar mundir. Ekki er þó allt sem sýnist í því efni. T.d. er alls ekki víst að Ísraelsmenn séu eins vondir upp til hópa eins og margir vilja vera láta. Að Íslendingar skuli þurfa að spila fótbolta við þá á þessum tíma er óhepplegt, en ekkert meira. Að þeir skuli með því að sigra þá fá rétt til að leika knattspyrnu við Ukrainumenn er dæmi um sjaldgæfa tilviljun.

Líka mætti skrifa langhund um eldvirkni á Reykjanesi, en því nenni ég ennþá síður.

IMG 3435Einhver mynd.


3206 - AÐ EIGA PENINGA

Nú er ég kominn á skrið. Kannski þetta sé ekki vonlaust. Skrifa samt ósköp hægt ennþá. Hvernig fór ég að því að skrifa yfir þrjú þúsund innlegg. Skil það ekki almennilega, en þó virðist ég hafa gert það. Ekki eru það allt gáfuleg skrif, og þó. Gáfurnar koma vonandi með kalda vatninu. Um að gera að hafa bloggin stutt og skrifa um ýmislegt. Ekki bara eitt mál. Kannski dettur mér eitthvað í hug ef ég bíð.

Jens Guð segist hafa tekið um það ákvörðun að vera alltaf jákvæður og gagnrýna aldrei neinn. Húrra fyrir honum. Þetta geta alls ekki allir. T.d. er hægt að segja að ekkert mundi breytast ef aldrei væri fundið að neinu. Ég er því marki brenndur að finna að öllum fjáranum.

Mest finnst mér um þessar mundir að vandamálið við að eiga peninga gegmsýrir greinilega núverandi ríkisstjórn. Auðvitað hefur verið níðst á bændum undanfarin ár. Þó er varasamt að taka þá út fyrir sviga og aðskilja þá frá öðrum fyrirtækjum sem e.t.v. vildu sleppa við erfðafjárskatt. Engin þessháttar vandamál fylgja peningaleysi.

En greinilega er mikið vandamál að eiga peninga eins og ráðherrann sagði um árið.

IMG 3436Einhver mynd.


3205 - Ýmislegt

Kannski er mér að fara fram í fingrasetningunni. Hver veit? Eiginlega er þetta ígildi punkts og þessvegna ætti að koma sjálfkrafa stór stafur hér. Wordið er nefnilega stillt þannig. Nú er ég númer 28 á vinsældalistanum hér á Moggablogginu og ætla jafnvel hærra.

Veit ekki hvar ég enda. Allir hérna á Moggablogginu eru sagðir „smáskrítnir“ eða sannfærðir ofuríhaldsmenn. Sennilega var það fésbókar-isti sem sagði þetta.

Af hverju bilið milli lína er ítarlegra ef á nýrri málsgrein er byrjað veit ég ekki.

Heimilislæknirinn minn hringdi áðan og ég er að bíða eftir að hann hringi aftur. Hugsanlega gerir hann það ekki.

Sennilega klára ég ekki þetta innlegg fyrr en í kvöld, en það er allt í lagi. Mér er greilega að fara fram í blogginu og er það vel. Ég er strax farinn að hugsa um fyrirsögnina á þessu. Hver veit hvort þetta verður lengra. Verst að þetta er að mestu meiningarlaust hjá mér.

Spádómur um forsetaframboð Kartrínar Jakobsdóttur í fyllingu tímans hefur haft talsverð áhrif á mig og ég hef gert hann að mínum. Hún skilur flokkinn sinn að vísu eftir í skítnum, ef hún gerir þetta, en kannski er honum ekki viðbjargandi hvort sem er. Neikvæðni lokið. Hættur.

IMG 3364Einhver mynd.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband