Færsluflokkur: Bloggar

3224 - Gervigreind

Svokallaða gervigreind er lítið að marka, finnst mér. Gerði það að gamni mínu að spyrja um framhald vísunnar alkunnu, sem byrjar svona: Komdu kisa mín kló er falleg þín og grátt þitt gamla trýn,

Fyrst sagði Ai að þetta væri eftir Jóhannes úr Kötlum og þvældi eitthvað um það. Svo að Þetta væri eftir Davíð Stefánsson. Hvorttveggja er tóm vitleysa. Gúgli var þó með tilvitnuna rétta, en ekki höfundinn. Ég gafst upp. Hef áður prófað Ai og fengið ruglsvör. Þykir lítið til koma.

Ég er á móti Trump. Bandaríkjamenn eru ágætir samt. Kannski eru það einkum blaðamenn og ritstjórar sem valda þessari óvild minni í hans garð. Mér finnst hann óttalegur vitleysingur.

Vísan minnir mig að sé svona:

Komdu kisa mín
kló er falleg þín
og grátt þitt gamla trýn.

Mikið malar þú
mér það líkar nú.
Víst ertu vænsta hjú

Banar margri mús
mitt svo verndar hús.
Ekki er í þér lús.
Oft þú spilar brús.

Undrasniðug létt og liðug
leikur bæði snör og fús.
Við skulum drekka dús.

Vísan held ég að sé svo gömul (vistarband) að allir hafi verið húsbændur eða hjú og engin neikvæð merking í að vera hjú. Vel getur verið að um sé að ræða afbökun í vísunni hjá mér eða að vanti inní. Þessvegna gerði ég þetta.

IMG 3213Einhver mynd.


3223 - Hátt hreykir heimskur sér

Hátt hreykir heimskur sér.
IMG 3134Heimskari sá fyrir neðan er.

Verður þegar vitið fer
vitlaus sýnist mér og þér.

Fyrripartur þessarar vísu er reyndar gamall húsgangur en ég prjónaði aftan við hann. Mig minnir að ég hafi einhverntíma haft á orði að ég hefði í hyggju að skrifa hér á bloggið ef mér yrði það á að yrkja vísukorn eða stunda prjónaskap af þessu tagi að setja það þá hér. Það er ekki vitlausara en hvað annað. En nóg um það.

Ég ætlaði að skrifa um allt annað hér.

Viðurkenni að septemberinnnleggið hjá mér var ansi þunnt. Kannski bæti ég úr því fljótlega.

Á stefnuskránni hjá mér er að fara að blogga vikulega. Kannski tekst það hjá mér. Hver veit.

Einhver mynd.


3222 - Trump étur ketti

Trump étur ketti.

Þetta þarf ekki að rökstyðja.

Það vita allir.

Og hinn líka.

IMG 3208Einhver mynd.


3221 - Lífið er samskipti

Lífið er samskipti.

Þessi samskipti eru á tímum snjallsíma, internets og gervigreindar sífellt að verða grynnri og grynnri.

Hvar endar þetta?

Hvað gagnar það mér að geta í gegnum samfélagamiðla haft samband við alla í veröldinni og er líklegt að þeir hafi einhvern áhuga fyrir því sem ég segi og skrifa?

Taka tölvurnar völdin?

Margir óttast það. Sumir flýja í tæknina og finnst völdum sínum ekki ógnað með því, en gera sér e.t.v. ekki grein fyrir því að þeim er stjórnað af voldugum tæknifyrirtækjum. Aðrir virðast halda að lausnina sé að finna í íþróttum, vímuefnum, skemmtunum, heilbrigðismálum, stjórnmálum, andstöðu við ríkjandi stjórnvöld o.s.frv. og stjórnast af auglýsingum og öðru þessháttar.

Lausnina er eflaust að finna í einhverju af þessu fyrir marga. En trúmálin skipa áreiðanlega sinn sess hjá ýmsum. Einkum hvað tekur við eftir líkamsdauðann. Einhvers konar tilvera að honum loknum virðist vera ofarlega á blaði hjá mörgum.

Flestir vilja valda sem minnstum skaða hjá öðrum og einkum sínum nánustu. Þar stendur hnífurinn í kúnni, því hvernig á að fara að því. Eins og heimurinn er í dag er það erfitt. Sjálfstæði þjóða og þjóðarbrota kemur í veg fyrir það. Andstaða við alheimsstjórnun yrði eflaust mikil.

Heimspekin á kannski einhver svör við þessu. Ekki ég.

IMG 3246Einhver mynd.


3220 - Enn ein tilraun

Ef ég ætla mér að bæta reglusaemina í bloggskrifum ætti ég e.t.v. að ákveða að blogga svona einu sinni í viku, í staðinn fyrir að vera að strekkjast við að blogga daglega. Ef mér skyldi fara örar fram en það ylli engum vandræðum að blogga oftar.

Ég ætla ekki að birta fleiri örsögur að sinni, enda eru þær heldur ómerkilegar, eða það finnst mér. Í staðinn ætla ég að reyna að skrifa eitthvað af viti hérna.

Skelfing líður mér vel í eigin skinni. Þetta skinn mætti samt alveg vera svolítið yngra. Þó mundi ég ekki vilja láta allt sem ég veit í skiptum fyrir yngra skinn. Engu að síður er margt sem ég veit ekki eða kann ekki. Engar líkur eru samt til að ég fengi slíkt með yngra skinni. Sennilega væri margt þar ósköp óreiðukennt a.m.k. fyrir mig.

Almanaksfræði eru merkileg vísindi. A.m.k. er svo hér á Íslandi. Ef þú skrifar á skipanalínuna á tölvunnni þinni „almanak.hi.is“ lendir þú á síðu sem fjallar um þau. Sennilega er það einn maður sem hefur safnað saman öllum þeim fróðleik sem þar er að finna. Ég held að þar sé um að ræða Þorstein Sæmundsson stjörnufræðing og ekki ætla ég mér þá dul að fara að keppa við hann og þess vegna bendi ég bara þeim sem áhuga hafa á þessum merkilegu fræðum á síðuna.

Seinna, miklu seinna.

Ekki hefur mér tekist að koma reglu á þessi bloggskrif mín, en ég held áfram að reyna.

Þetta er að verða sæmilega langt hjá mér, svo líklega er best að hætta.

IMG 3264Einhver mynd.


3219 - Ein sagan enn

Ekki hefur mér tekist að skrifa reglulega á þetta blogg, hvað sem verður. Eflaust mun ég reyna það, en valt er að treysta því. Ekki get ég ausið úr viskubrunni mínum, eins og margir gera hér. Nefni samt engin nöfn. Ég hef það eitt mér til ágætis að hafa verið hér lengi og skrifað mörg blogg. Flest eru þau mjög stutt. Þess vegna hef ég brugðið á það ráð að skrifa super-stuttar sögur og birta þær. Hér kemur ein:

Örsaga númer eitthvað. Veit ekki almennilega hve margar ég hef skrifað. Gætu verið svona 20. Einhverntíma gæti hugsast að einhverjum dytti í hug að prenta þetta alltsaman út. Þá á ég við bloggin yfir þrjú þúsund og eitthundrað. Eins gæti ég átt við örsögurnar. Þær eru nefnilega næstum allar í einu skjali, að ég held. Hvorttvegga er þó ákaflega vafasamt.

Þessi er talsvert öðruvísi. Eiginlega eru þær allar öðruvísi. Mér finnst það allavega.

Samt er ég ekki búinn að ákveða hvernig þessi á að vera. Kannski er fullmikið að senda þær á bloggið dag eftir dag. Ætla mætti að ég gæti ekki skrifað annað. Mér finnst ég samt geta skrifað um hvað sem er.

Þegar Hafsteinn kom út á sumardaginn fyrsta varð hann alveg hissa. Í túgarðinum var tvíhöfða hestur. Á báðum hausunum var háls en bringan var bara ein og að öðru leyti var hann eins og hestar eru vanir að vera. Þetta var fallegur hestur og leit vel út. Skjöldóttur eða skjóttur eins og sagt er. Samt var það svo að höfuðin höfðu, eða virtust hafa, sinn sjálfstæða vilja. Þegar annað höfuðið vildi bíta gras var hitt að hugsa um eihvað allt annað. Neyddist samt til að beygja sig alveg niður að túninu, en gæddi sér ekkert á grasinu. Þetta þótti Hafsteini einkennilegt. Hann var að vísu ekkert óvanur því að sjá tvíhöfða hesta, en þeir voru vanir að hafa mjög líkan smekki. Þannig að þegar annar vildi bíta gerði hinn það líka.

Hvernig ætti ég að láta þessa sögu enda? Höfuðin gætu farið að slást. Nei, það væri of venjulegt. Best að láta þau bíta gras sitt í hvoru lagi. Þegar annað vill næringu hefur hitt engan áhuga á því. Og vís versa. Hafsteini fannst þetta skritið en vildi ekki styggja höfuðin. Þessvegna skreið hann ofan í jörðin og lét sig hverfa. Þetta þótti hinsvegar hestinum eða hestunum mjög skrítið.

Þegar Hafsteinn kom út úr jarðveginum vestan við bjórhólinn var honum öllum lokið. Bjórinn var nefnilega búinn. Þar sem þetta var á sunnudegi var ekki neina hjálp að fá. Hafsteinn lagðist því niður og þóttist vera dauður.

Þetta sá örninn sem flaug í hringi langt fyrir ofan skýin og renndi sér þessvegna niður til að sjá þetta betur. Það fór ekki betur en svo að drjólinn vaknaði við vængjasláttinn og örninn fór því bónleiður til búðar.

Hafsteinn var alveg bikasvartur í framan. Þó var hann ekki svertingi. Moldin var bara svona svört. Í Miðskólanum í Hveragerði var okkur nefnilega kennt í fornöld að moldin í Rússlandi væri svört. Kannski gerðist þetta alltsaman þar.

Þetta er reyndar orðin algjör steypa svo líklega er bara best að hætta. Það er að segja þegar ég er búinn að kjósa Framsóknarflokkinn.

  • En afi, þetta er ekkert fyndið.
  • Átti heldur ekki að vera það.
  • Af hverju ertu þá að þessu?
  • Veit það ekki.

IMG 3282Einhver mynd.


3218 - Óskapleg vitleysa

Einhverjir lesa þessi ósköp sem ég set á bloggið mitt. A.m.k. fæ ég meldingu um það. Svo hækka ég á vinsældalistanum í hvert sinn sem ég blogga.

Ég er að hugsa um að skrifa hérna vísur sem ég geri. Stundum held ég að ég hafi gert vísur, en svo er eitthvert vísuorðið stolið úr annarri vísu sem ég hef kunnað fyrir löngu (þ.e. fyrir fisk). Nenni ekki að segja þá sögu núna. Hér kemur nýjasta vísan:

Karaktereinkennum katta
kisa mín segir mér frá.
Loksins þá læri ég slatta
um langanir hennar og þrá.

Nú get ég loksins hent miðanum sem ég skrifaði þessa vísu á. Annars geri ég lítið af vísum þessa dagana.

Sögurnar sem ég hef verið að birta hér að undanförnu eru ekki merkilegar enda er ég hættur að birta þær í bili a.m.k. og þær sýna bara að það er ósköp einfalt að fá hugmyndir að öllum fjáranum, en það þarf að vinna með þær og sannfæra sjálfan sig um að tímanum sé vel varið sem fer í það.

Þó ég hafi ætlað mér að blogga reglulega hefur orðið lítið úr því. Ekki veit ég af hverju. Sennilega er ég of latur og gamall til þess og svo er ég í hálfgerðum vandræðum með fingrasetinguna. Geri svo mikið af villum.

Látum þetta duga. Ég nenni ekki að skrifa meira í dag.

IMG 3315Einhver mynd.


3217 - Ný saga

3217 – Ný saga

Næst á eftir sögunni um nábrækurnar var þessa sögu að finna í skjalinu fyrrnefna:

 

Þessi saga gerist í nútímanum og snýst um óþekkan snjallsíma. Elías litli ákvað að reyna að læra sem best á farsímann sem hann hafði erft eftir mömmu sína. Hún hafði ekki einu sinni haft fyrir því að formatta símann uppá nýtt og þessvegna komst Elías ekki hjá því að fræðast meira um mömmu sína en hann í rauninni kærði sig um. En sleppum því. Það er hvort sem er aukaatriði. Ýmsu komst hann að sem ekki er ástæða til að flíka mikið, þó lesendur vildu sjálfsagt fá að vita um ýmislegt sem mamma hans Elíasar gerði við símann sinn eða sagði honum frá. (ég á að sjálfsögðu við símann, en ekki Elías.)

Hann tók nú uppá því að pota og svæpa sem allra mest og svo fór að lokum að hann var orðinn snillingur í símamálum. Hann þekkti orðið næstum alla leyndardóma símans og foreldrar hans voru farin að leita ráð hjá honum ef eitthvað bjátaði á í snjallsímunum þeirra, sem að sjálfsögðu voru í samræmi við nýjustu tísku.

Verst þótti Elíasi að síminn hans virtist kominn með sjálfstæðan vilja, sem ágerðist mjög eftir því sem tímar liðu og við það að hann kunni smám saman betur og betur á hann.

Til dæmis tók hann uppá þvi að setja sig sjálfur í samband við hleðslutæki í hvert skipti sem þess þurfti með. Og ekki nóg með það. Heldur tók hann sig sjálfur úr sambandi þegar hann var fullhlaðinn.

Elías hefði átt að vera mjög ánægður með þetta, en hann var það eiginlega ekki því honum fannst þetta vera hálfgerð árás á sig. Eitt sinn þegar símafjandinn hafði rifið sig úr sambandi gat Elías ekki stillt sig um að setja hann aftur í samband þó hann vissi alveg að hann væri fullhlaðinn. Svo varð honum litið út um gluggann og sá tvo tjalda vera að slást við máf. Þegar honum varð aftur litið á símann sá hann sér til mikillar furðu að hann var búinn að taka sig úr sambandi. Elías hafði einmitt langað til að sjá hvernig hann færi að þessu og reiddist nú heiftarlega.

Hann tók símann hálstaki og sneri hann niður og settist ofan á hann.

  • Gefstu þá upp ræfillinn þinn. Ég sá alveg til þín. sagði Elias.
  • Þetta var alveg óþörf rafmagnseyðsla. Ég var fullhlaðinn. sagði síminn.
  • Það er alveg sama. Símar með snert af sjálfsvirðinu eiga ekki að gera svona. sagði Elías, saltvondur.
  • Ég veit það alveg, en gat bara ekki stillt mig. svaraði síminn.
  • Viltu þá lofa að gera þetta aldrei aftur? sagði Elías.
  • Já, já.

Þannig tókst Elíasi að ná aftur valdi yfir símanum sínum. En áður en langt um leið tók síminn uppá því að fara sínar eigin leiðir og stundaði það til dæmis að spyrja Gúgla um ýmislegt og svo var hann í slagtogi við gervigreind, sem Elías fýsti að vita meira um, en símafjandinn steinþagði yfir öllu þessháttar, sem ekki var honum líkt. Nánar verður sagt frá þessu í næsta þætti.

IMG 3323Einhver mynd.


3216 - Nábrækurnar

3216 – Nábrækurnar

Örhugleiðingar nefnist þáttur hjá útvarpi allra landsmanna. Þar láta hinir og þessir ljós sitt skína um hitt og þetta. Oft hlusta ég á þetta. Stundum er þetta ágætt, en stundum lakara, eins og gengur. Kannski er það ekki réttnefni hjá mér að kalla þennan samsetning sem ég hef oft sett á bloggið mitt „Örsögur“. Það er dálítið yfirlætislegt. Hér kemur samt ein slík:

---------------------------------

Einu sinni í fyrndinni var bóndi sem kunni sitthvað fyrir sér. Eins og sagt var. Eiginlega þýddi þetta það að hann var pínulítið göldróttur. Ekki samt neitt líkur Harry Potter enda hafði hann aldrei í galdraskóla komið. Lítið kver átti hann þó þar sem nokkur galdrabrögð voru kennd.

Einhverju sinni komst konan hans að því að hann var að glugga í þetta kver og við lá að hún kjaftaði frá. Honum tókst þó að telja hana á að segja ekki frá þessu. Á þessum tíma var nefnilega harðbannað að eiga galdrakver og áttu menn á hættu að týna lífinu ef upp um þá komst.

Bóndi þessi hét Jón og var Jónsson og bjó að Jónsstöðum í Jónshreppi. Með öðrum orðum ég vil ekki segja nein deili á honum enda skipta þau engu máli.

Í þessu galdrakveri hans Jóns bónda á Jónsstöðum var meðal annars kennt að búa sér til nábrækur. Þær mátti að sögn nota til margra hluta. Grafa þurfti upp lík og fletta húðinni af fótum líksins og allt upp að nafla og urðu þá til þessar fínu nábrækur. Ekki mátti gera þetta nema á fullu tungli og keypti Jón því Almanak hins íslenska þjóðvinafélags. En svo komst Jón bóndi að því að tunglskin þyrfi að vera þegar þetta væri gert.

Fram eftir öllum vetri var ævinlega skýjað þegar fullt tungl var samkvæmt Almanakinu. Seinni part Einmánaðar skeði það hinsvegar að léttskýjað var þegar tungl var fullt. Jón bóndi hugsaði sér gott til glóðarinnar af þessu tilefni. Þá vildi svo illa til að í marga mánuði hafði ekki nokkur maður verið jarðsunginn í Hjallakirkju og ekki gat Jón hugsað sér að grafa upp rotnað eða hálfrotnað lík. Hann brá sér þessvegna upp að Kotströnd, en þar hafði einmitt gamall karlskröggur verið jarðaður fyrir fáeinum dögum.

Ekki eru tök á því að lýsa í smáatriðum hvernig Jón fór að, en nábrækurnar eignaðist hann eftir talsverða fyrirhöfn. Þegar hann fór í brækurnar voru skálmarnar að vísu í styttra lagi en Jón taldi sér trú um að það væri í lagi.

Ekki vildi betur til en svo að hann vissi ekkert og ekki var frá því skýrt í galdrakverinu til hvers ætti að nota brækurnar. Endirinn varð því sá að Jón notaði brækurnar ekkert og þegar fór að slá í þær og lyktin að versna henti hann þeim í fjóshauginn og notaði þær ekkert. Lýkur svo þessari sögu og vel getur verið að hún sé uppspuni frá rótum.

-------------------------------------------

Þessi saga var næst á eftir frásögninni af Guttormi dúllara í skjalinu sem ég nota undir þennan samsetning sem mig minnir að hafi verið sú síðasa sem ég birti áður en ég veiktist og hætti þessari vitleysu.

IMG 3336Einhver mynd.


3215 - Gamli maðurinn

Þegar maður er gamall (eins og ég) finnst manni að síminn sé bara tæki eins og hvert annað, en nýja hugsunin er að allir séu í sambandi við mann ef maður kærir sig um. Þeir gætu líka verið í sambandi við mann sjálfan ef þeir mættu vera að og kærðu sig um það. Hugarleikfimi, sem kannski er einskisvirði og kannski svo djúp að aldrei verður hægt að skilja hana.

Les oft bloggið hans Hrannars Baldurssonar. Hann er skýr og skemmtilegur.

Les líka oft bloggið hans Palla kennara. Finnst hann samt dálítið einspora og fordómafullur. En gáfaður er hann og vel að sér um margt.

Önnur blogg skoða ég líka stundum t.d. Jens Guð, Villa í Köben og Ómar Ragnarsson.

Af einhverjum ástæðum er ég ekkert snokinn fyrir fésbókinni og öðrum miðlum. Ég skoða þó fréttir sem haldið er að mér og eru í stýrikerfinu. Eins og t.d. Microsoft. Og svo horfi ég oft á fréttir í Íslenska Sjónvarpinu.

Svo er ég farinn að stunda það talsvert að glápa á Youtube. Þar er hægt að finna allt mögulegt. Mest er það samt tóm vitleysa. Kannski er ég bara svona takmarkaður.

Ógurlega er ég kvefaður núna. Best að hætta.             

IMG 3373Einhver mynd.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband