Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2024

3210 - Meira af vilja en mætti

Enn er ég að hugsa um að fara að skrifa oftar. Ekki er samt víst að úr því verði frekar en fyrri daginn.

Beinar útsendingar frá fréttamannafundum eru að verða hálfleiðinlegur dagskrárliður. Samt er sennilega mikið horft á þessa þætti. Ég er samt kominn á þann aldur að ég er sennilega meðal þeirra síðustu sem horfi á sjónvarp í línulegri dagskrá. Það eru þó einkum fréttir sem það á við um, að öðru leyti þykir mér fremur lítið til sjónvarps koma. Þar að auki eru þessir þættir fyrst og fremst áróður fyrir ríkisstjórnina, sem aldrei gerir neitt að viti.

Alltaf er ég að hugsa um að gera eitthvað að gagni, en ekkert verður úr neinu. Framtaksleysi er þetta víst kallað. Ekki er rétt að kenna kóveitinu einu um þetta, ég var svosem farinn að finna fyrir þessu áður. Jafnvægisleysinu allar götur síðan 2007. Úthaldsleysi og allskonar lausatökum var ég farinn að finna fyrir nýlega.

Best er að hætta hverjum leik þá hæst hann stendur, og því hætti ég núna.

IMG 3429Einhver mynd.


3209 - Kata o.fl.

Eins og sjá má lenti ég í tómri vitleysu með myndirnar sem fylgdu blogginu sem ég setti upp í gær. Nú verður reynt að bæta úr þessu.

Gera má ráð fyrir að Kínverjar mundu styðja Rússa ef í harðbakkann slagi. Sömuleiðis er hægt að gera ráð fyrir að Bandaríkin og Evrópa mundu stilla saman strengi sína ef ekki væri á öðru völ. Þá er Indland eftir. Frá fornu fari hefur Indlandi komið illa saman við Kínverja (svo ekki sé nú talað um Pakistan) og þessvegna gætu þeir hallað sér að Vesturveldunum, þó það sé alls ekki víst.

Gaman er að velta fyrir sér heimspólitískum hlutum og á því má sjá hve agnarsmáir við Íslendingar erum á þeim skala.

Að vísu getum við státað af vondu veðri og eldgosum, en það dugir skammt á þeim vettvangi.

Ekki veit hvort ég er með þessu að spá þriðju heimsstyrjölinni, en ómótmælanlegt er að eftir því sem fleiri gleyma heimsstyrjöldum aukast líkur á þeim. Fleiri og fleiri þjóðarleiðtogar virðast nú um stundir vilja auka viðsjár milli hópa og þjóða fremur en að minnka þær.

Seinna (Miklu seinna)

Á sínum tíma ætlaði ég sennilega að halda áfram að skrifa daglega, en ekki tókst mér það.

Nú hefur Katrínarmálið bæst við og allir þurfa að láta ljós sitt skína í sambandi við það. Ég er þar engin undantekning. Líklega tekst henni ekki að halda forystu sinni í foseta-reisinu nægilega lengi til að sigra þar. Ríkisstjórnin lafir þó sennilega enn um sinn. Hætt er samt við að VG líði undir lok.

Vera má að þetta sé nóg. Best er að setja skrifelsi sín sem fyrst upp svo þau gleymist ekki. Hættur.

IMG 3436Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband