Bloggfærslur mánaðarins, júní 2022
28.6.2022 | 11:19
3144 - Meira um kisu litlu.
Þessari krúttsprengju, sem ég talaði um í síðasta bloggi tókst í gær að koma mér í þau vandræði með lyklborðsást sinni að ég gat ekki notað tölvuna mína fram eftir degi í gær. Komst að því eftir langa yfilegu, að með því að róla sér í snúrum og japla á þeim hafði henni tekist að losa um snúruna sem tengir skjáinn við tölvuna.
Kisan heitir reyndar Sprite (Fjarskírð frá Florida) var okkur sagt og er stelpa eins og krakkarnir mundu segja. Þetta litla stýri sem við Áslaug björguðum úr klóm Fernandos hins fjöruga þrífst á athygli annarra og klifrar gjarnan upp eftir fótunum á manni (með beittar klær) og Áslaug vill gjarnan að heiti Doppa, því hún er bæði með doppu á maganum og á trýninu.
Ég gæti lengt þetta blogg verulega með allskyns kisusögum, en það væri nú ekki í stíl Dabba frænda.
Stutt blogg eru skemmtilegust og hafa þann ótvíræða kost að það er fljótlegt að lesa þau. Ég er semsagt hættur.
Einhver mynd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2022 | 05:41
3143 - Krúttsprengja
Nú skil ég orðið krúttsprengja. Ef þetta litla tveggja vikna stýri sem við Áslaug björguðum úr klóm Fernandos hins fjögurra mánaða gamla frænda síns er eitthvað þá er hann einmitt algjör krúttsprengja. Sjá myndir o.fl. á Facebook-síðu Áslaugar.
Annars er þessi helgi búin að vera viðburðarík. Á föstudaginn fór ég til augnlæknis. Áslaug keyrði. Í gær fórum við fyrst til Borgarness og síðan að Þingvallavatni þar sem við vorum í mikilli veislu hjá Hafdísi og Guðmundi í sumarbústað þeirra þar, en verið var einmitt að halda uppá 80 ára afmæli hans.
Ýmislegt fleira mætti tína til, en það á ekkert erindi á þetta blogg og þess vegna sleppi ég því að sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2022 | 13:44
3142 - Setjum ríkisstjórnina í biðflokk
Nú munu um það bil fimmtán ár hafa liðið frá hruninu mikla. Minningar mínar frá þessum tíma eru ósköp venjulegar. Nenni ekki að tíunda þær hér.
Segja má að kominn sé tími á nýtt hrun. Gott ef ekki stefnir í það núna. Viðmiðunarvextir Seðlabankans eiga eftir að ná nýjum hæðum. Ekki er þó líklegt að þeir nái sömu hæðum og í aðdraganda hrunsins. Sama er að segja um Verðbólguna. Útrásarvíkingarnir heita líka eitthvað annað núna, en einhverjum verður að kenna um væntanlegt hrun.
ÍSLENSKIR BÆNDUR FLYTJA INN Æ MEIRA AF KJÖTVÖRU, segir í aðalfyrirsögn fréttablaðsins í dag. Ekki efast ég um að þetta sé rétt. Skýringin álít ég að sé sú að forystumenn þeirra séu í KLÍKUNNI. Flestir sem eitthvað mega sín hér á landi eru í henni. Meðvitað eða ómeðvitað. Spillingin hér á landi er þannig að hún mælist ekki vel á alþjóðlega mælikvarða og flestum okkar þykir hún ósköp eðlileg. Frændhygli hefur lengi tíðkast hér og þó hefðbundin stéttaskipting sé lítil hér á landi er enginn vafi á því að aðstaða og eðli fólks er ákaflega misjafnt. Í þessu njótum við þess að vera pínulítil og margt af því sem tíðkast meðal stærri þjóða erum við laus við.
Kannski getur þetta gengið sem Júní-innleggið mitt. Ég held að ég hafi ekki margt fleira að segja að þessu sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)