Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2022

3125 - Örsaga númer eitthvað

Hef víst klúðrað myndinni með síðasta bloggi. A.m.k. stækkaði ég hana ekki. Alltof mikið er á þessari síðu skrifað um pólitík. Kannski er það engin furða miðað við hvar þetta er. Líka er mikið fjasað um Covid-veiruna. Sumir vilja skrifa um eitthvað annað. En af því að bloggið er sagt dautt og grafið eru það bara sérvitringar og sannfærðir sjálfstæðismenn sem skrifa hérna. Heldur vil ég vera áltinn sérvitringur hinn mesti, en að vera svo sannfærður sjálfstæðismaður að ég álíta að þeir geti ekkert rangt gert. A.m.k ekki BB hvort sem átt er við Bjarna Ben eða Björn Bjarnason. Eða jafnvel einhvern alltannan.

 

Eiginlega ætlaði ég ekki að semja fleiri örsögur. Það er ekkert víst að þetta verði einhver saga. Ekki er ég búinn að finna uppá neinu til að skrifa um.

Það var ekki nærri kominn fótaferðartími.

Samtsem áður var frú Ásgerður á fótum.

Það kom ekki til af góðu. Hún vaknaði við brak í stiganum. Það var að vísu hætt núna, en hún var dálítið myrkfælin svona einsömul. Sigurbergur hafði farið í útkall skömmu eftir minætti. Það var víst útaf einhverjum túristum sem voru fastir uppá heiði. Nú brakaði aftur í stiganum. Það var næstum eins og einhver væri að koma upp. En þó ekki alveg. Auðvitað var fólk mismunandi léttstígt, en þetta var þó ekki alveg eins.

Kannski var það draugur. Hvernig skyldi braka í stiga eftir draug. Þetta var áhugaverð spurning og Ásgerður velti þessu fyrir sér dálitla stund. Það ætti eiginlega ekki að braka neitt. Draugar ættu að geta svifið þyngdarlaust í loftinu. Ef það brakaði hlaut það vera vegna þess að hann (draugurinn) vildi láta braka. Eða einhver væri að koma. Kannski hafði draugnum ekki tekist alveg að hafa það innbrotsþjófsbrak en það mátti alveg laga seinna meir.

Hugsanlega var þetta bara einhver sem kunni ekki að láta braka í stiga. Ásgerði rann kalt vatn milli skinns og hörunda og sveipaði sloppnum fastar að sér. Kannski var hann að koma til þess að nauðga henni. Aftur brakaði í stiganum og nú sá hún að hurðarhúnninn hreyfðist. Henni varð ekki um sel. Einhver var greinilega að koma. Bagalegt að vera ekki í neinu innan undir sloppnum. En við því var ekkert að gera. Hún sagði því stundarhátt:

„Hvurslags er þetta? Af hverju ertu að læðast svona?“

Hurðarhúnninn snarstansaði.

Ef til vill var þetta ekki Gísli.

Hver skyldi þetta þá vera? Kannski bara venjulegur innbrotsþjófur. En af hverju var hann að brjótast inn núna? Sennilega hafði hann séð Sigurberg fara og haldið að hann væri eini íbúi hússins. En hversvegna þá að læðast? Þetta var beinlínis dularfullt.

Hún hafði þó munað eftir að hafa byssuhólkinn með sér. Hún var ekki vitund hrædd. Frekar að hún vorkenndi þessum vesæla innbrotsþjófi, sem nú gat átt von á því að verða skotinn. Nú fjarlægðist brakið. Það var ekki um neitt að villast. Þetta brak var fjarri því að vera eðlilegt.

Skyndilega hljóp skot úr byssunni. Hún hafði alveg óvart komið við gikkinn og hann var svo kvikur að skotið hafði hlaupið úr byssunni samstundis. Verst ef þetta var eina skotið í byssunni. Hún var ekkert viss um að mörg skot hefðu verið látin í byssuna. Strax og skotið hafði hlaupið úr byssunni þagnaði brakið og nú jókst það um allan helming. Það var eins og eitthvað ylti niður stigann.

Skyndilega sá hún að byssan hafði beinst að hurðinni. Kannski hafði hún skotið það sem var í stiganum. Hún fór hiklaust að hurðinni og opnaði hana og sá að hún hafð skotið manninn sinn. Með veikum burðum sagði hann henni að hann hefði gleymt gleraugunuum sínum og ekki viljað vekja hana. Svo dó hann. Ekki fer miklum sögum að túristunum en enginn þeirra dó.

reynir petur kemur í borgarnesEinhver mynd.


3124 - Um heimspólitík o.fl.

Þrettándinn 2020 er dagurinn sem lýðræðið dó í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Ég hika ekkert við að segja þetta, því það er hafið yfir allan vafa að næstum allar lýðræðissinnaðar þjóðir í heiminum sjá árásina á þinghúsið í Washingtom í þessu ljósi. Yfirleitt sjá lýðræðisþjóðir í heiminum þetta sem tilraun til valdaráns eins og það vissulega var. Auðvitað er við því að búast að einstaklíngar fái konungs-komplexa, en að annar af stærstu pólitísku flokkunum í þessu víðfeðma ríki sem hingað til hefur af mörgum verið álitið eitt helsta forysturíki lýðræðis í veröldinni, skuli mæla þessu bót er vissulega ógnvekjandi. Repúblikanaflokkurinn í USA hefur tækifæri til þess að segja sig frá þessu í kosningunum sem verða þar í landi næsta haust, en satt að segja er ekkert sem bendir til þess að svo verði gert. Ég hef ekki í hyggju að fjölyrða meira um þetta mál nema sérstakt tilefni verði til þess.

Ég hef gaman af að skrifa. Verst ef það er tóm vitleysa. Mér finnst það reyndar ekki. Vissulega eru bloggin hjá mér orðin allmörg. Einhverntíma (langt innan við 100) fékk ég þá flugu í höfuðið að númera bloggin mín. Þessu hef ég haldið áfram síðan og ekki haldið framhjá Morgunblaðinu að þessu leyti. Samt hef ég aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn.

Kannski hefur allt þetta bloggelsi orðið til þess að ég hef ekkert (eða fátt eitt) annað skrifað. Þegar ég bjó á Vegamótum og fyrst á eftir og undan hélt ég dagbækur og skrifaði mikið. Þessar dagbækur eru enn til. Gallinn er bara sá að þó þær séu skrifaðar að mestu laust eftir 1970 eru þær allar (a.m.k. í minningunni) óttalega einhæfar og snúast mest um kynferðismál og klámefni allskonar. Kannski eru þær dæmi um aldarfarið sem þá gilti. Ég verð að reyna að hugga mig við að þær séu einhvers virði sem lýsing á því. Ég hef líka haldið svolítið áfram við dagbókarskrifin en trúað tölvunni fyrir þeim og þau hafa verið ákaflega stopul.

Einsaga sú sem kennd er við prófessor Sigurð Gylfa Magnússon, hefur höfðað mjög til mín. Það sem skrifað er um atburði sem orðið hafa á þeim tíma sem um þá er skrifað er allsekki einskis virði. Jafnvel þó það sé skrifað af óbreyttu alþýðufólki. Þó ég sé af slíku fólki kominn hefur mig aldrei skort einurð til þess að skrifa um skoðanir mínar. Hvort ég hef síðan látið þær í ljós er annar handleggur.

Þegar ég set upp bloggin mín, er ég búinn að lesa þau yfir og leiðrétta ef þarf. Ég nota word og læt mér að mestu í léttu rúmi liggja setningarfræðileg tákn og þessháttar. Hins vegar held ég að ég sé nokkuð sterkur í réttritun auk þess sem ég bý enn að því að hafa lært fingrasetningu á ritvél að Bifröst fyrir rúmlega 60 árum. Vissulega skrifa ég mun hægar nú en áður fyrr, en mér finnst hraðinn alveg nægur. Það sem ég hef einkum á móti nútímanum er hraðinn sem orðinn er á öllu, ekki síst umferðinni. Hún er líka svo mikil í Reykjavíkinni að mig sundlar næstum því. Þá er nú betra að vera hér á Akranesi.

Öllum bloggum læt ég fylgja mynd. Langflestar þeirra hef ég sjálfur tekið, þó hef ég minnkað það mikið og tek ég afar sjaldan sjálfur svokallaðar. Það er að segja myndir af sjálfum mér með eitthvað athyglisvert í baksýn, eins og margir virðast gera.

Oftar en einu sinni hefur mér dottið í hug að nota mér þessa skrifnáttúru mína í eitthvað bitastæðara en blogg. Ekki hefur þó orðið úr því. Það væri þá helst að ég skrifaði ævisögu mína. Hún er að vísu ekkert merkileg eða sérstök, en allt má gera athyglisvert ef á þann hátt er um það fjallað.

Svokallaðir samfélagsmiðlar hafa breytt vestrænu samfélagi verulega. Að flestu leyti hefur það verið til góðs, en óneitanlega hefur það stundum verið til tjóns. Ræði ekki meira um það hér og nú, en vissulega er þetta áhugavert efni.

IMG 4030Einhver mynd.


3123 - Einu sinni var

Nú er árið 2022 komið. Áreiðanlega til þess að vera. Það sem mér þykir langmerkilegast við þetta ár er að á því verð ég áttræður. Ekki hefði mér dottið í hug þegar við Ingibjörg vorum að bollaleggja um framtíðina að ég yrði svona gamall. Við hugsuðum í mesta lagi til ársins 2000.

Ingibjörg hélt því fram að næstu Ólympíuleikar eða þeir þarnæstu, yrðu haldnir á Íslandi. Það sem meira var að þeir yrðu haldnir á svæðinu frá Hveragerði og niður að Núpum. Hún útmálaði í smáatriðum fyrir mér hvernig þetta yrði. Þessu trúði ég alveg. Ekki veit ég hve gamall ég var þegar þetta var, en sjálfsagt hef ég ekki verið gamall þá.

Seinna meir hætti ég að trúa öllu sem hún sagði. Til dæmis sagði hún mér einhverju sinni að ég mætti eiga allan heiminn. Þessu trúði ég allsekki. Í fyrsta lagi átti hún ekki allan heiminn og í öðru lagi mundi hún aldrei tíma að gefa mér hann, ef svo ólíklega vildi til að hún eignaðist hann.

Unnur systir sagði mér einu sinni, eftir að hún fékk áfallið og hélt næstum til í reykherberginu á hælinu í Kópavoginum, að allir við matarborðið hefðu þurft að þagna þegar við Ingibjörg létum ljós okkar skína. Mig minnir að hún hafi hljómað sem  hálfhneyksluð á þessu. Um aldur okkar þegar þetta var veit ég ekkert. Kannski Sigrún muni eftir þessu. Ekki er hægt að spyrja Unni nánar útí þetta, því hún er dáin.

Sigrún sagði einhverju sinni við mig að Hitler væri í flugvél sem var á flugi skammt frá Hveragerði og hann ætlaði áreiðalega að skjóta mig.

Þetta átti nú allsekki að verða einhverjar afgamlar minningar þó sagt sé að minningar frá bernskunni verði gjarnan fyrirferðarmiklar hjá okkur gamalmennunum. Ég ætlaði að blogga um eitthvað annað. En man bara ekki hvar það var.

IMG 4033Einhver mynd.


3122 - Bölvað kófið

Líklega hefur það verið á Þorláksmessu eða um það leyti sem ég lá uppi í rúmi og hlustaði á jólakveðjur. Tvö nöfn sem þar voru nefnd vöktu athygli mína. Það voru nöfnin Aðaldagur og Rúmhildur. Þessi nöfn hafði ég ekki heyrt áður. Vera kann að um misheyrn hafi verið að ræða hjá mér varðandi Rúmhildi. Það hafi semsagt verið eða átt að vera Rúnhildur. Rúmhildur er alveg afleitt nafn og gefur vissulega tilefni til eineltis í skóla. Varðandi hitt nafnið er sennilega bara um óvana að ræða hjá mér. Aðalsteinn og Aðalgeir eru til dæmis algeng nöfn. Því skyldi ekki mega heita Aðaldagur. Samt finnst mér það dálítið sérstakt nafn.

Sagt er að um 38 manns hafi látist af völdum covid-19 hér á Íslandi. Í Bandarikjum Norður-Ameríkiu sé dánartalan um 800 þúsund og í Brasilíu rúmlega 600 þúsund. Líklega eru allar þessar tölur óttalega ómarktækar. Vel getur verið að um mismunandi skilgreiningar sé að ræða og auk þess er yfirvöldum ekki fullkomlega treystandi. Allar tölur af þessu tagi í samanburði við BNA er okkur Íslendingum óhætt að margfalda með þúsum því íbúar þar eru um það bil þúsund sinnum fleiri.

Þetta blogg er skelfing stutt, en samt er ég að hugsa um að láta það flakka. Ekki er víst að það skáni við geymslu.

IMG 4043Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband