Bloggfærslur mánaðarins, júní 2020

2967 - Lætin í USA

Sú reiði og sá uppreisnarhugur sem tröllriðið hefur Bandaríkjunum að undanförnu, er á flestan hátt afar skiljanlegur. Rasismi er þar landlægur og ekki hefur framkoma forsetans þar bætt ástandið. Vissulega hefur hann stuðlað að og reynt að auka þá gjá sem þar er á milli ríkra og snauðra. Einnig er þar mikill munur á milli hvítra og svartra. Svörtum í óhag. Í stað þess að leitast við að breiða yfir þessa gjá og sætta fólk, hefur Trump forseti leitast við að ala á sundrungu og dregið á alla hátt taum þeirra ríku og hvítu. Hvort um einhverja endingargóða lausn verður að ræða að þessu sinni er alveg óvíst. Einhverntíma hlýtur samt þessu ástandi að ljúka og ekki er gott að segja hvort Demókratar eða Repúblikanar græði meira á þessu.

Að bæði kórónuveiran og þessar óeirðir skuli eiga sér stað á kosningaári er til þess fallið að gera kosningarnar í Bandaríkjunum í haust enn meira spennandi en ella. Ef skoðanakannanir sýna Trump forseta fara halloka þegar nær líður kosningum, má búast við hverju sem er af honum. Hann mun einskis svífast til að reyna að halda völdum. Greinilega er hann eina von Repúblikanaflokksins og ekki er við því að búast að hann fái neitt marktækt mótframboð þar. Á sama hátt og forkosningar beggja flokkanna eru að mestu leyti búnar að vera lausar við alla spennu, má búast við að kosningarnar sjálfar í byrjun nóvember verði afar spennandi. Biden er kannski ekki sá sem vinstri menn hefðu óskað sér, en margt bendir samt til að þeir muni styðja hann. Gleymum því ekki að bandaríkjamenn eru jafnan fremur hægrisinnaðir samaborið við evrópubúa.  

Vel getur farið svo að ferðalög með flugvélum verði það sem mest breytist á næstunni. Hætt er við að það að vera lokaður inni í járnröri í marga klukkutíma höfði ekki til margra.. Búast má við að sumarleyfisferðlög verði mjög flókin í nánustu framtíð og þar að auki miklu dýrari en þau hafa verið. Flugfélög munu varla geta þjappað flugfarþegum eins mikið saman og gert hefur verið. Allskyns sóttvarnarbúnaður og þessháttar verður nauðsylegur í flugvélum o.s.frv.

Annars veit enginn með neinni vissu hvernig ferðalög muni þróast á næstunni ef kórónuveiran sleppir því kverkataki sem hún hefur haft á heimsbyggðinni. Kannski fer allt fljótlega í sama far og áður var og kannski minnkar flugumferð verulega. Loftslagsváin mun eflaust ógna flugfélögunum meira en mörgum örðum. Hvernig mengunvörnum verður viðkomið þar er allsekki ljóst. Kannski förum við meira og minna að ferðast með skipum aftur.

Líkur eru til að við Íslendingar munum ekki fljúga mikið í sumar. Flestir fara eflaust eftir ráðleggingum Þórólfs sóttvarnalæknis og ferðast innanlands í sumar ef þeir ferðast þá nokkuð. Unanlandsferðum kann að fækka verulega. Ekki er einu sinni öruggt að allt verði komið í lag næsta sumar.

IMG 5810Einhver mynd.


2966 - Utanbæjarmenn

Óeirðir eru talsverðar í Bandaríkjunum. Stjórnvöld tala um „utanbæjarmenn“. Þetta er eins og hér á litla Íslandi. Allsstaðar eru þessir utanbæjarmenn til bölvunar. Trump vill setja alla þá sem eru á móti honum í skipulögð samtök og skilgreina þau sem hryðjuverkasamtök. Þetta held ég að sé ekki rétt. Að halda því fram að óeirðir þessar snúist um eina persónu, er heldur ekki rétt. Þetta er miklu stærra en svo. Skilgreining eftir pólitískum línum rekst líka á staðreyndir. Hægri og vinstri eiga ekki við hér. Hvernig þetta endar er það eina sem máli skiptir núna.

Alveg er ég hissa á því hve margir heimsækja þessa bloggsíðu. Athugasemdum fer líka stórlega fjölgandi. Sennilega er þetta mest vegna þess að ég blogga fremur oft um þessar mundir.

Fór áðan í nokkuð langa gönguferð. Held að hún hafi verið rúmir 4 kílómetrar. Sennilega er kófið sem margir kalla svo, í þann veginn að yfirgefa okkur. Túristarnir kannski líka. Sjálfur er ég að mestu hættur að vera hræddur við hurðarhúna og lyftuhnappa. Innilokunin sem hefur verið síðustu mánuði hefur ekki haft mjög mikil áhrif á mig. Mest er það að sjálsögðu vegna þess að einhverfa eða introvert-ska mín hefur farið vaxandi með aldrinum. Ekki get ég neitt gert að því þó fjarlægð mín frá öðru fólki sé svo mikil að kófið hefur ekki fært mér nein vandræði að ráði.

Aðrir kunna vel að hafa orðið fyrir miklum vanda í sambandi við þennan faraldur. Tala nú ekki um þá sem hafa misst atvinnu sína og/eða lifibrauð af hans völdum. Hugsanlega breytir hann hugsunarhætti fólks verulega og varanlega. Kannski láta samt margir sér nægja að þvo sér eitthvað oftar um hendurnar og láta það duga. Allt á þetta eftir að koma í ljós eins og margt fleira.

Best finnst mér þegar ég fer í gönguferðir að hugsa ekki um neitt sérstakt. A.m.k. að vera ekki með neina fyrirframgerða áætlum um slíkt. Upplagt er að hugsa fyrst og fremst um veðrið og gönguna sjálfa. Af nógu er að taka. Einkum ef öpp eru notuð. Þá má velta fyrir sér hraða, vegalengd og ýmsu öðru. Svo er líka ágætt að tala svolítið við sjálfan sig á göngunni. Jafnvel reyna að komast vel að orði o.s.frv. Mér datt t.d. í hug áðan: „Sennilega er ég summan af öllu sem mér hefur dottið í hug á ævinni“. Hver veit nema þetta sé ódauðlegt spakmæli.

Sumir vilja helst fara í gönguferð með öðrum. Aðrir fara með hundinn sinn. Sumir vilja helst vera í hóp, aðrin einir. Svo er upplagt að fylgjast með landslagi, litum, birtu eða dýralífi. Afbrigðin eru óteljandi.

IMG 5859Einhver mynd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband