Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2019

2873 - Skák og mát

Er ekki frá því að ég sé sífellt að blogga sjaldnar og sjaldnar. Hvernig ætli standi á því? Veit það ekki, en hitt veit ég að bla. bla. bla. Þetta var einu sinni afar vinsæl aðferð til að skipta um umræðuefni. Oft er það nauðsynlegt. Um að gera að halda orðinu. Ekki gefa öðrum of mikinn sjens. Einn af aðalkostunum við samfélagsmiðlana er að þar er hægt að halda orðinu endalaust. Hér má gjarna segja franskbrauðsbrandarann þó það sé óneitanlega farið að slá svolítið í hann. Einmitt útaf þessu er fésbókin líkari kaffibolla-kjaftæði en bloggið.

Ef hægt er að segja að fésbókin sé kaffibolla-kjaftæði þá er bloggið líka einskonar predikun. Einu sinni las maður með athygli öll þau blogg sem maður frétti af. Því lengri sem þau voru þeim mun betra. Nú finnst mér að blogg megi ekki vera of löng. Attention spanið fer víst sífellt minnkandi hjá flestum.

Nú er ég farinn að fjölyrða um uppáhaldsefnið mitt. Þ.e.a.s. muninn á bloggi og fésbók. Sagði ég ekki einmitt í síðasta bloggi að Sturlungaöldin væri mitt uppáhaldstímabil. Auðvitað þekki ég fjölmörg önnur. Af eigin reynslu þekki ég sveitaballasjarmann og fyrstu árin eftir Heimsstyrjldina síðari. Já, ég er svona gamall. Sagnfræði og bókmenntir eru mitt uppáhald. Í sambandi við tónlist og matseld er ég alveg blankur. Þessi síðastnefndu svið virðast samt vera afar vinsæl nútildags. Ætti ég kannski að segja nútildax. Þá er eiginlega komið að mínu þriðja áhugamáli en það er íslenska í öllum sínum fjölbreytttu og marsgskonar myndum.

Eitt áhugamál mitt er ónefndt ennþá, en það er skák. Að vísu get ég afar lítið núorðið en í eina tíð var ég með vel yfir 1500 stig. Komst aldrei hærra enda hefði ég þá þurft að sleppa einhverju öðru. Einu sinni vissi ég líka ýmislegt um tölvur. Las meira að segja kennslubók í DOS eftir Jörgen Pind í rúminu á kvöldin.

Það er þetta með áhugamálin. Þau koma og fara. Einu sinni hélt ég að ég væri efni í skáld, eða a.m.k. rihöfund. Þær grillur er ég fyrir löngu laus við. Kvikmyndum og poppi hef ég aldrei haft sérstakan áhuga fyrir. Þá eru nú íþróttirnar skárri. Man m.a. vel eftir Ólympíuleikunum í Melbourne 1956, þar sem Villi sprækur stökk sitt fræga stökk. Hann stökk líka feiknahátt í hástökki án atrennu. Það sá ég á Bifröst.

Skrítið að heyra aldei frá öllum þeim sem lesa þetta blogg. Þeir eru að vísu ekkert sérlega margir. En samt. Þeir sem einhverntíma hafa skrifað athugasemdir við þessar hugdettur mínar eru samstundis fastir lesendur í mínum huga. Hverfa ekki þaðan fyrr en eftir dúk og disk.

IMG 6744Einhver mynd.


2872 - Sturlungaöldin

Að fá litaða ljósaperu fyrir 8 þúsund krónur er náttúrulega gjafverð og fyllsta ástæða til að auglýsa það á stórri baksíðuauglýsingu í Fréttablaðinu. Reyndar er engin furða þó Nova séu dálítið dýrseldir, fyrst þeir þurfa svona dýrar auglýsingar. Í ljósi þess að maður sem rekinn var fyrir afglöp í starfi fékk 150 milljónir króna í sárabætur, er þetta kannski ekkert sérlega mikið. Kannski hef ég bara dregist svona mikið aftur úr fyrir aldurs sakir. Mér finnst það samt ekki.

Ofanritaða klásúlu setti ég á fésbókina því mér ofbauð þessi auglýsing, en kannski verður þetta með öllu úrelt á morgun og komið eitthvað nýtt til að hneykslast á. Hvað veit ég? Á maður ekki helst af öllu að vera jákvæður gagnvart hverju sem er. Ef ég fengi, þó ekki væri nema 6-7 þúsund krónur fyrir hverja ljósaperu í íbúðinni væri ég alveg til í að sitja í myrkri þangað til ég kæmist í verslun sem seldi ódýrari perur. Síðastliðinn mánudag skrifaði ég þetta.

Bretar létu plata sig til að ganga úr ESB og nú sjá þeir eftir því. Ekki finnst mér gæfulegt fyrir þá að gera það án samnings. Sennilega fallast þeir að lokum á það sem Theresa May var búin að semja um. Kannski geta Bretar svosem farið út ESB og það án samnings. Þeir eru líka stórþjóð sem auveldlega getur leyft sér ýmislegt. Ef hérlendir andstæðingar orkupakka númer 3 eru í rauninni á móti veru okkar í EES eins og margir halda fram, er ég enganvegin á því að við ættum að fella hann. Auk þess sem vera okkar í því samstarfi hefur auðveldað okkur mjög allan útflutning og þarmeð bætt stórlega lífskjör okkar, hefur sú aðild fært okkur margar leiðréttingar á lagakerfi okkar. Þar að auki er ég þeirrar skoðunar að við eigum fleira að sækja til Evrópuþjóða en til Bandaríkjanna.

Eiginlega byrjaði Sturlunga-aldar áhugi minn á því að ég las og eignaðist einhverntíma í fyrndinni Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Í skóla var reynt að troða ýmsu um Sturlungaöldina í okkur, en mér fannst þetta allt saman ósköp ruglinglegt, þó vissulega væri það áhugavert. Aldrei las ég Sturlungu sjálfa, en hafði þó talsverðan áhuga á þessu tímbili Íslandssögunnar. Það var svo ekki fyrr en ég skoðaði Sögu-Atlasinn sem ég fór svolítið að skilja þessi ósköp.

Á þessari öld las ég svo skáldsögur Einars Kárasonar um Sturlungaöldina og nú má segja að ég sé heltekinn af þessu tímabili. Fyrstu sögurnar „Óvinafagnað“ og „Ofsa“ las ég fyrst en núna nýlega „Skálmöld“ og „Skáld“ í bók með öllum sögunum sem mér hefur skilist að sé nýkomin út og ég fékk lánaða á bókasafninu hér á Akranesi. Er um þessar mundir að lesa „Sturlunga sögu“ á vef rafbókasafnsins.

„Viðskiptabaðið“ (takið eftir að ég segi baðið en ekki blaðið) er sennilega með misheppðustu falsfréttum sem ég hef séð. Hef samt ekki verið að leita að þeim. Sem betur fer er ég að eðlisfari fremur tortrygginn. Sagt er að einhverjir hafi fallið fyrir þessari bitcoin-tröllasögu, en þeir geta nú varla verið margir. Á Netinu er til vefur sem heitir „falsfréttir.is“ og eflaust er hægt að trúa því sem þar er sagt. Þeir eða þær eða þau gætu samt misst af einhverju og eflaust er gott að vera sæmilega tortrygginn, sérstaklega gagnvart fésbókinni, sem ég hef nú fremur lítið álit á.

IMG 6746Einhver mynd.


2871 - Óvelkomni maðurinn

Baráttan um klikkin. Enginn vafi er í mínum huga á að peningaplokkið hefur heltekið internetið. Fjölmiðlar eru skoðanamyndandi. Heimilisföng og ýmsar upplýsingar um fólk ganga kaupum og sölum. Fólk ímyndar sér að það sé yfir þessa baráttu hafið, en staðreyndin er sú að allir eru þátttakendur í þessum leik. Gagnaverum mun fjölga og allskyns þjónusta við tölvur mun bara vaxa á næstu árum. Allar framkvæmdir og aðgerðir mannfólksins munu í vaxandi mæli taka mið af þörfum tölvuheimsins og stóru alþjóðafyrirtækjanna. Ekki spái ég því að tölvur og gervigreind muni beinlínis taka völdin á næstunni. Þróunin er samt greinileg í þá átt. Lengi mun mannkynið halda að það hafi völdin eftir að það hefur í raun misst þau.

Fjölmiðlar standa framarlega í þessari baráttu. Þeir dreifa bæði upplýsingum og skoðunum. Hafa þannig mikil áhrif á stjórnmálaþróun alla. Öll fjölmiðlun mun á næstunni flytjast á internetið. Pappírsprentun mun að mestu leggjast af. Bækur verða æ sjaldgæfari og minimalisminn og megrunaræðið mun leggjast sífellt þyngra á fólk. Margt má auðvitað um matinn segja. Þar stendur mannkynið langt að baki vélunum.

Í Bandaríkjum Norður-Ameríku er á skaðlegan hátt hægt að segja að byssulöggjöf öll sé flokkspólitískt mál. Völd og áhrif NRA (National Rifle Association) eru geysimikil eins og allir vita. Meðan Republikanar halda völdum í efri deildinni (Senatinu) og forsetinn kemur úr þeirra röðum er ekki við neinum umbótum á byssulöggjöfinni að búast. Demókratar virðast á hinn bóginn a.m.k. vilja gera árásarvopn hverskonar ólögleg. „Byssur drepa ekki fólk, menn gera það“ segja stuðningsmenn óbreyttrar byssulöggjafar jafnan og kenna útbreiðslu ofbeldisfullra tölvuleikja oft um „mass shootings“.

Sennilega hefur Moggabloggið á sér hægri stimpil. Að svo miklu leyti sem hægt er að tengja íhaldssemi og hægri stefnu saman er það kannski rétt. Vinstri stefna er af hægri sinnuðu fólki gjarnan talin óraunsæ með öllu. Hvernig dýr og flóttafólk er meðhöndlað og réttindi þess munu í framtíðinni einkum skera úr um stjórnmálalega stefnu. Ekki virðist lengur rétt að skipta flokkkum eftir hægri og vinstri, miklum eða litlum ríkisafskiptum eða alþjóðahyggju vs. einangrunarstefu heldur eftir afstöðu til flóttamanna og hælisleitanda. Peningaleg afkoma mun þó áfram skipta miklu máli hjá flestum, þó annað sé hugsanlega látið í veðri vaka.

Lengi hef ég verið heldur á móti glæpasögum (krimmum) Arnald hef ég lesið talsvert og hann er nokkurð góður. Flateyjargátuna las ég á sínum tíma og fannst höfundur hennar allgóður. Yrsu hef ég mjög takmarkað álit á og einnig á flestum öðrum íslendskum höfundum í þessari grein. Nýlega las ég bók sem heitir „Óvelkomni maðurinn“. Þetta er glæpasaga sem ég las spjaldanna á milli, en það geri ég sjaldan. Held hún sé eftir Jónínu Leósdóttur og sennilega er þar á ferðinni einhver besti krimmahöfundur landsins.

IMG 6750Einhver mynd.


2870 - Mass shootings

Held að það sé alveg rétt að ástæðan fyrir því að Sigmundur Davíð og Davíð Oddsson fallast svona í faðma núna sé sú að báðir séu á mótir EES-samningnum. Að vísu var Doddsson forsætis þegar hann var gerður en hann er eins og Simmi að hann tekur jafnan þá afstöðu sem hann heldur að komi honum best hverju sinni. Það sem flestir sjá sem kosti við þann samning sjá þeir sem ókosti. Aumingja mennirnir. Samt held ég að þeir ættu að fá að hafa sínar skoðanir í friði. Verst að þeir reyna að troða þessum skoðunum uppá aðra.

„Mass shootings“ eru mjög í tísku um þessar mundir í henni Ameríku. Þ.e.a.s. í Bandaríkjunum. Sagt er (og sennilega er það alveg rétt) að af öllum „gun deaths“ í USA séu þau sem orsakast af „mass shootings“ (þar sem 4 eða fleiri særast eða deyja) u.þ.b. 1%. Mörgun finnst þessi tala ótrúlega lág. Í „gun deaths“ eru sennilega innifaldir dauðdagar sem orsakast af slysaskotum, sjálfsmorðum og af völdum lögreglunnar. „Mass shootings“ fá þó mikla fjölmiðlaumfjöllun og eflaust er það oftast svo að sárasaklaust fólk verður fyrir þessum ósköpum. Líklega finnst flestum sem ekki þurfa að búa við þessa ógn að rétta svarið við þessu sé ekki að vopna sem flesta. T.d. kennara í skólum og varðmenn við alla opinbera staði og verslanir. Einhvern vegin verður þó að bregðast við þessu. Sök fjölmiðla er hugsanlega einhver.

Sennilega lesa fáir blogg þessa dagana. Af hverju eru næstum allar fjölmennar útihátíðir um verslunarmannahelgina? Það er löngu úrelt klisja að það séu næstum allir aðrir en þeir sem vinna í búðum í fríi á frídegi verslunarmanna. Samt er það svo. Kannski tekur fésbókin sjálf sér frí á þessum degi. Efast samt um það. Lognið og góðviðrið hér að Suðvesturhorninu er orðið meira en elstu menn muna. Það er þetta með elstu mennina sem ég set svolítið spurningarmerki við. Sennilega fer ég að teljast til þeirra. Samt finnst mér einsog alltaf hafi verið gott veður þegar ég var lítill. Snjórinn reyndar með mesta móti á veturna þá, en sleppum því. Veðuráhugi fólks er mikill, en veðurminni lítið. Best að spyrja Sigurð Þór eða Trausta. Tala nú ekki um að lesa boggin þeirra og fésbókarinnleggin.

Mikið hefur nú enn á ný verið talað um Klausturmál. Öll sú umfjöllun leiðir e.t.v. ásamt öðru til hugarfarsbreytingar, en ekki er að sjá að hún valdi breytingu á kosningahegðun fólks. Annars er alltaf varasamt að heimfæra skoðanakannanir á kosningaúrslit. Samt er talsvert að marka skoðanakannanir sem gerðar eru nálægt kosningum. Um það eru mörg dæmi. Með því að spila á slíkar kannanir tekst politíkusum stundum að hafa áhrif á kjósendur og auka þannig völd sín til skamms tíma.

Best er samt að láta kosningar og dómstóla (lítið spillta) ráða framúr flestum ágreiningsmálum. Hótanir og hernaður hafa oft öfug áhrif. Þar sem spilling er mikil verður stundum að koma til erlend íhlutun og ber að fagna henni en ekki fordæma.

IMG 6798Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband