Bloggfærslur mánaðarins, desember 2018

2804 - Sjálfsævisaga

Hvar værum við stödd ef við hefðum engin nýjársheit? Auðvitað svíkjum við flest okkar nýjársheit. Þó það nú væri. Þau eru flest hvort eð er alveg óraunhæf. Ég gæti sem best lofað því að minnast ekki á Trump ræfilinn á næsta ári, en ég er alveg viss um að ég mundi svíkja það. Vinsældir hans innanlands eru vitanlega alveg furðulegar. Hins vegar virðist engum blöðum um það að fletta að meðal útlendinga er hann með óvinsælustu forsetum Bandaríkjanna sem um getur. Hvernig ætli standi á því? Hann hugsar bara um Bandaríkin kynni einhver að segja. En hafa Bandarískir forsetar ekki alltaf gert það? Eru Bandaríkjamenn ekki sjálfumglöðustu og óheiðarlegustu menn sem gengið hafa á þessari jörð. Er ekki allt stærst, best og mest í Bandaríkjunum? Það finnst þeim a.m.k. sjálfum.

Þetta blogg átti alls ekki að snúast um Bandaríkjamenn. Miklu fremur ætlaði ég að segja ykkur frá væntanlegu nýjársheiti mínu. Ég er nefnilega að hugsa um að skrifa sjálfsævisögu og byrja á henni á næsta ári. Auðvitað verður það bara uppkast. Miðað við það hve ég er úthaldsgóður við bloggskrifin og hve auðvelt ég á með að skrifa um allan fjandann þá ætti mér ekki að verða skotaskuld úr því að semja eina smá-sjálfsævisögu. Kemur ekki helvítis „skotaskuldin“ þarna eins og skrattinn úr sauðarleggnum einu sinni enn. Alltaf verður eitthvað til þess að glepja mig þegar ég ætla að byrja á einhverju stórfenglegu. Að sjálfsögðu yrði þessi sjálfsævisaga mín alveg stórkostleg og ekki er nokkur leið að ofmeta hana svona fyrirfram.

 Ekki lét ég fjandans „skotaskuldina“ glepja mig svo mjög að þessu sinni. Annars er áhugi minn á íslensku máli ekki nein uppgerð. Í þessari minni sjálfsævisögu, sem er næstum lokið, er þeim áhuga mínum gert hátt undir höfði. Svo má auðvitað ekki gleyma því að ég hef, með svolítilli aðstoð, gert Íslendingasögurnar aðgengilegar á Netinu og þarmeð sannað óbilandi trú mína á þeirri menningu sem við íslendingar höfum flestallir meðtekið með móðurmjólkinni. Greinilegt er að ég hef líka gott vald á orðatiltækjum og málsháttum, enda hef ég æfilanga reynslu af slíku.

Vitanlega gæti ég haldið áfram að fjölyrða um þessa væntanlegu sjálfsævisögu mína en hálfnað er verk þá hafið er eins og þar stendur, og auðvitað er ekki úr vegi að líta á þessa samantekt mína sem fyrst uppkastið að formála þeirrar merku bókar, sem hér hefur  stuttlega verið frá sagt. Þar sem ég er aftur farinn að tala um þessa bók, þá gæti ég sem best vikið fáeinum frekari orðum að þessum formála sem ég minntist á. Hugsanlega verður þessum orðum gjörbylt við frekari athugun. T.d. er ekki nokkur ástæða til að minnast á Trump Bandaríkjaforseta í þessum formála, sem kannski verður óhemju langur. Og rétt er að geta þess hér að ekki er víst að þessi bók komi út alveg á næstunni meðal annars vegna þess að ég reikna fastlega með að verða a.m.k. hundrað ára gamall.

Læt ég svo þessum hugleiðingum mínum lokið að þessu sinni og lofa því að hugsa betur um þennan blessaða formála. Auðvitað verður að vera bæði formáli, inngangur og aðfararorð að þessari títtnefndu bók enda er þar oft um einna mestan fróðleik um viðkomandi bækur að finna. Ég er líka mikið að hugsa um hvort ekki sé rétt að hafa atríðisorðaskrá í þessu verki. Sennilega verður ákvörðum um þann þátt að bíða eitthvað, enda liggur ekki lífið á að ákveða slíkt. Kaflaskiptingunni hef ég líka talsvert velt fyrir mér og satt að segja gæti Hveragerði sem best komið þar fyrir. Sannanlegt er að ég var með þeim fyrstu sem fæddist á þeim merka stað. Samkvæmt rannsóknum var ég þó af einhverju ástæðum ekki sá fyrsti.

Þennan bloggpistil samdi ég þegar ég varð andvaka um fjögurleytið síðastliðna nótt. Segið svo að andvökur geti ekki verið pródúktívar.

IMG 7411Einhver mynd.


2803 - Moggabloggið

Alltaf sé ég samstundis að ég hefði átt að tækla málin öðruvísi en ég gerði þegar ég setti upp síðasta blogg. Ekki þýðir þó að fást um það, því ég breyti aldrei uppsettum bloggum. Stundum laga ég augljós pennaglöp en aldrei meira. Stundum dettur mér eitthvað í hug sem mér finnst að ekki megi bíða og þá set ég það á fésbókarræfilinn. Alveg er ég hissa á rifrildinu og hinni heilögu sannfæringu sem þar er allsráðandi. Mér finnst eðlilegt að efast um allt.

Fésbókarfaraldurinn snýst samt um annað. Þar þykir sá mestur sem getur öskrað hæst. Með þessháttar öskri á ég við samansúrraða orðaleppa sem þykja því merkilegri sem þeir eru ógeðslegri. Kannski eru þeir fáir sem lesa þessi ósköp, en ég get ekki að mér gert. Mest eru þetta ómerkilegar pólitískar yfirlýsingar sem standast enga skoðun. Annars er ég svo mikill fésbókarandstæðingur að það er ekkert venjulegt og afskaplega varasamt að taka mark á þessu tuði mínu.

Sýnist að Moggabloggið sé að ganga í endurnýjun lífdaga. Ekki er aðsóknin þó svo mikil að vandræðum valdi. Pólitískt fimbulfamb er þar á undarhaldi sem betur fer. Sum vefrit gera samt útá slíkt. Vonandi fer þeim fækkandi sem svoleiðis nokkuð lesa. Myndir virðast vera aðall unga fólksins í dag. Helst þurfa þær myndir að hreyfast. Talandi hausar held ég að verði samt seint vinsælir.

Svo gamaldags er ég að við liggur að ég hafi verki með því. Eiginlega er ég alveg fastur í gamla tímanum. Bíð bara eftir því að Dabbi frændi fari að hætta. Þá ætti innleggjendum á þetta undarlega bloggsvæði, sem Moggabloggið óneitanlega er, að fjölga allmikið per samstundis. Hver veit nema Davíð og Trump hætti fljótlega báðir tveir. Best að spá því bara fyrir 2019. Það verður aldrei verra en vitlaust. Gallinn við þá sem verða vinsælir er að þeim hættir til að ofmetnast. Þá verða þeir leiðinlegir.

Alveg er ég hissa á því að enn skuli vera til fólk sem heldur í alvöru að óhætt sé að trúa nettengdum tryllitækjum einsog tölvum og þessháttar fyrir leyndarmálum. Ef eitthvað er sett á slík tæki er alveg hundrað prósent öruggt að ef einhvern langar nógu mikið til að nálgast þær upplýsingar þá getur hann það. Spurningin er bara hve langan tíma það taki. Einu sinni var sagt að sá sem ekki hefði lent í tölvukrassi, ætti það bara eftir. Kannski hafa tölvuskýin tekið fyrir alvarleika slíks. Tölvuvírusar herja þó alltaf öðru hvoru og valda stundum skaða.

Nú fer jólastressinu blessunarsamlega að ljúka. Eftir er samt að opna gjafirnar og sumir fara og skila því sem þeir fengu og dugar jafnvel tíminn milli hátiða varla til þess. Svo tekur hversdagurinn við. Það þarf bara að þreyja Þorrann og Góuna, svo fer vorið verulega að nálgast. Nú er að mestu leyti búið að skítnýta helstu hneykslunarefnin svo rétt að vinda sér að því að finna ný. Klaustur- og Braggamálin þvælast þó enn fyrir og ekki er loku fyrir það skotið að eitthvað hafist uppúr því að lokum. Það er lítið sem hundstungan finnur ekki.

Ég er nú svo gamall sem á grönum má sjá. Þó finnst mér ég ekki vera svo gamall. Helst er það göngulagið sem upp um mig kemur. Eða það held ég að minnsta kosti. Stóri munurinn sem ég sé á okkur Íslendingum fyrri tíma og núna eru lífskjörin. Munurinn felst kannski einkum í því að kröfurnar eru svo miklu meiri núorðið. Samanburð á þessu má víða finna, en hann er einskis virði, því allt er breytt. T.d. var sú venja ríkjandi víða áður fyrr að drekka sig fullan á Þorláksmessu og sprengja kínverja. Nú er skatan tekin við. Mér finnst samt brennivínið skárra.

Gleðileg jól öllsömul og gott og farsælt komandi ár.

IMG 7412Einhver mynd.


2802 - Sigurinn í Sýrlandi

2802 – Sigurinn í Sýrlandi

Mikið er ég sammála þeim sem til máls hafa tekið. Einkum þó síðasta ræðumanni. Er það ekki tilgangur þeirra sem til máls taka? Reyna að hafa áhrif á þá sem hlusta. Verst hvað sumir þeirra eru misheppnaðir ræðumenn. Eða er það kannski bara ég sem álít þá vera það? Þar liggur sennilega hundurinn grafinn og hnífurinn í kúnni. Hver veit nema allir ræðumenn hafi rétt fyrir sér. Jafnvel þó þeir séu allsekki sammála. Þetta er nokkuð sem við verðum að búa við í pólitíkinni. Best að eiga alltaf síðasta orðið. Þarna tókst mér það.

Eiginlega er það svo að ég ætlaði ekkert að blogga meira fram að jólum. En nú er mér semsagt orðið mál að skrifa, jafnvel þó ég hafi ekkert til að skrifa um. Sjáum til hvernig fer. Veðrið er alltaf jafnágætt þó það hvessi stundum svolítið. Hlýindakaflar um miðjan vetur eru alltaf velkomnir í mínum húsum og ekki við því að búast að kuldinn verði neitt meiri þó svo sé. Að hafa varla orðið var við frost þó komið sé að jólum hlýtur þó að vera sjaldgæft.

Ég er að reyna að vera jákvæður. Því hefur nefnilega verið haldið fram að jákvæðni í garð náungans sé einkennismerki bloggsins. Hver heldur slíku fram? Mætti kannski spyrja. Ég held því fram og það dugar.

Fýlan af fésbók nú lekur
fjandans til allt er á leið.
Andskotinn tilbúinn tekur
til sín þar allvæna sneið.

Þetta gat ég þegar til átti að taka. Var ekki nema í mesta lagi 5 mínútur að semja þetta. Fyrir þá sem leggja sig eftir því eru rím og stuðlar ekki mikið mál. Fyrir suma kann þetta samt að sýnast erfitt. Svo er þó ekki.

Áslaug fór í bæinn áðan. Sennilega til að kaupa síðustu jólagjafirnar og svo ætlaði hún víst að skila einhverju. Nú er óðum að birta, enda að nálgast hádegi. Í dag er þriðjudagur og ég segi ekki meir. Hlusta kannski á fréttirnar núna á eftir.

Þeir fjármunir sem ella hefðu farið til flugfélaga og annarra ræningja mun ég eyða í eitthvað annað úr því að svona mikill vafi lék lengi vel á um framtíð þeirra. Kannski er þessum vafa hvergi nærri eytt núna og eins gott að vara sig. Vanda.Sig, Drífa.Sig og Æsa.Sig ættu að athuga þetta. Nöfn geta nefnilega haft margskonar aukamerkingu. Ekki er þetta hugsað sem neinn endanlegur sannleikur um Sigurðardætur, heldur bara sem sýnishorn.

Þegar Georg Bush yngri var forseti lýsti hann því yfir á herskipi einu eins og frægt varð, að stríðinu við Írak væri lokið með fullnaðarsigri Bandaríkjanna. Ekki voru allir sammála því, enda átti ýmislegt eftir að koma í ljós. Nú hefur Trump Bandaríkjaforseti lýst yfir fullnaðarsigri Bandaríkjamanna á Kalífadæminu í Sýrlandi og víðar og að Bandaríkjamenn séu á förum þaðan. Einhverjir efast.

Einhver mynd.IMG 7433


2801 - Tvöþúsundogáttahundruð

Án þess að hafa áttað mig á því er ég nú búinn að blogga meira en tvöþúsund og átta hundruð sinnum. Það hlýtur að vera einhvers konar met, a.m.k. persónulegt met og engum er ætlandi að lesa þessi ósköp öll, ekki einu sinni sjálfum mér. Að hafa bloggað 2800 sinnum er ansi hraustlega gert.

Undanfarið hef ég fylgst með sjónvarpsþáttunum sem Hringfari hefur látið gera um ferðalag sitt á mótorhjóli umhverfis hnöttinn. Áður hef ég fylgst með bloggum frá slíkum ferðum og yfirleitt eru þau talsvert fróðleg. Þarna var farin önnur leið og meira í anda nútímans, skyldi maður ætla. Ég get samt ekki látið hjá líða að gagnrýna þessa þáttagerð svolítið. Vissulega voru þessir þættir fróðlegir, en væmnin og talandi hausar voru fulláberandi. Læt ég svo lokið þessari stuttu umfjöllun minni um þetta sem mér finnst vera smámál, þó þátttakendunum hafi vafalaust ekki fundist það.

Afar fátt gerist á fréttasviðinu þessa dagana. Jólin nálgast og þó margir fjalli um May, Trump, Klaustubúllu og misheppnaða viðreynslu eða nauðgunartilraun einhvers þingmanns sem ég man ekki einu sinni hvað heitir, þá virðast flestir gera það með hangandi hendi. Þetta „með hangandi hendi“ minnir mig náttúrulega á Ragga Bjarna. Man enn hvað konan mín varð hissa þegar hann keyrði okkur einu sinni heim á einum af leigubílunum sínum. Ókeypis um miðjan dag frá verkstæði langt í burtu. Þegar Raggi söng var hann nefnilega oftast með aðra hendina hangandi.

Það var Carter þáverandi væntanlegur forseti Bandaríkjanna sem fann uppá því að byrja á nýrri setningu án þess að ljúka almennilega við þá næstu á undan. Með þessu gerði hann sjónvarpsfréttamönnunum erfitt fyrir með að klippa viðtölin við hann og þannig fékk hann lengri tíma hjá sjónvarpsstövunum en hann hefði annars fengið. Þessari aðferð er svolítið beitt ennþá, en klipparar hafa að mestu séð við þessu.

Hvað sem hver segir munu jólin koma brátt og þá er best að taka sér frí frá öllu bloggi. Samt er ég nú að hugsa um að klára þetta. Ekki hefur snjóað að nokkru ráði hérna þennan vetur eða þetta haust og allt bendir til að hér verði rauð jól. Mikið er það nú gott þykir mér. Maður verður kannski alveg laus við kulda, hálku og snjókomu til áramóta eða lengur. Krakkarnir munu eflaust sakna þess að hafa engan snjó til að leika sér í, en það verður bara að hafa það. Ekki geta máttarvöldin gert öllum til hæfis. Svo fer að styttast í því að myrkrið láti undan síga og þá er óhætt að fara að hlakka til vorsins.

Skelfing geta allir verið í vondu skapi núna þessa dagana. Varla er óhætt að opna fésbókina, því þar hafa menn allt á hornum sér. Ef það er ekki veðrið eða vegirnir, ríkisstjórnin eða klaustrið, pólitíkin eða flugfélögin sem eru ómöguleg þá er það bara eitthvað annað. Jafnvel pólitískir andstæðingar. Ég bara tek ekki þátt í þessu.

IMG 7439Einhver mynd.


2800 - Fyrirspurn til stjórnvalda

Ekki get ég með nokkru móti skrifað í þetta blogg allt sem mér kemur í hug. Kannski er það þessvegna sem ég veð svona úr einu í annað. Margt er það sem ástæða er til að minnast á. Ég hef nefnilega skoðanir á öllum fjáranum. Sumar þeirra er engin ástæða til að láta í ljós, en ég er semsagt búinn að venja mig á að blogga um allt mögulegt. Eiginlega er ég svolítið líkur Birni Birgissyni í Grindavík nema ég hef ekki það sama dálæti og hann á fésbókinni og svo ímynda ég mér að ég sé ekki alveg eins íhaldssamur og hann.

Ég hef allsekki lagt í vana minn að endurbirta það sem ég hef fundið á flakki mínu um Internetið. Flestir hamast við að segja sína skoðun á Klausturmálinu og afleiddum fréttum . Ég nenni því bara ekki auk þess sem hugleiðingar um þau mál verða fljótt úreltar. Svo er líka að bera í bakkafullan lækinn að segja skoðun sína á þeim málum. Stundum leggst ég jafnvel svo lágt að lesa mbl.is. Ekki kræki ég samt í fréttir þar núorðið. Ég stundaði það einu sinni en er alveg hættur því. Eftirfarandi frétt er samt þaðan. Þeir sem fylgjast með sjónvarpsútsendingum frá alþingi Íslendinga kannast sennilega við málið. Til að ekki sé hætta á ruglingi ætla ég að gera þessa frétt skáletraða og setja innan tvöfaldra gæsalappa.

„“Ég hef verið kurt­eis hingað til en nú krefst ég þess að þess­ari van­v­irðingu við þing og þjóð verði hætt og að ég fái svar við þess­um rétt­mætu spurn­ing­um mín­um,“ sagði Þor­steinn Sæ­munds­son, þingmaður Miðflokks­ins, und­ir dag­skrárliðnum störf þings­ins.

Hann sagðist hafa að minnsta kosti fjór­um sinn­um komið í pontu og óskað eft­ir svari við fyr­ir­spurn sinni frá 26. fe­brú­ar um hverj­ir keyptu 3.600 íbúðir af Íbúðalána­sjóði og greiddu fyr­ir það 57 millj­arða króna. Hvaða ein­stak­ling­ar, hvaða fyr­ir­tæki og hverj­ir áttu fyr­ir­tæk­in.

Þor­steinn sagðist ekki hafa orðið þess var að fé­lags­málaráðherra hafi óskað eft­ir fresti til að svara fyr­ir­spurn­inni. Hann sagði ástandið vera þannig að ráðherra og hans fólk að sé greini­lega að „reyna að kreista út úr Per­sónu­vernd þókn­an­lega af­stöðu til þess­ar­ar fyr­ir­spurn­ar“. Bætti hann við að Per­sónu­vernd sé þegar búin að lýsa yfir hlut­leysi sínu og að það megi birta upp­lýs­ing­arn­ar.

Fleiri þing­menn Miðflokks­ins stigu í pontu á eft­ir Þor­steini og tóku und­ir orð hans. „Á bak við þetta eru 3.600 íbúðir og 3.600 fjöl­skyld­ur sem misstu heim­ili sín,“ sagði Jón Þór Þor­valds­son og benti á að sam­kvæmt regl­um eigi svarið að ber­ast inn­an 15 daga. Birg­ir Þór­ar­ins­son bætti við: „Það er ekki hægt að álykta annað en hér sé verið að fela eitt­hvað.“

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra, sagði rétt­ast að tek­in yrði afstaða vegna máls­ins í for­sæt­is­nefnd. Birg­ir Þór­ar­ins­son, þingmaður Miðflokks­ins, sagði þá að búið að væri að taka málið upp í nefnd­inni og þess vegna hafi verið leitað aðstoðar for­seta í mál­inu. „Þetta mál er ekki eins­dæmi þegar kem­ur að upp­lýs­inga­öfl­un.“““

Þetta hefur ekkert með það að gera hvaða þingmaður á í hlut eða hvað flokki hann tilheyrir. Mér finnst háttalag stjórnvalda með miklum ólíkindum í þessu máli. Hafa ráðherraræflarnir ekki döngun í sér til að gera neitt almennilega? Mér finnst ekki hægt að finna neinar afsakanir fyrir þessu háttalagi.

IMG 7441Einhver mynd.


2799 - Reddast þetta nokkuð?

Eigi veit eg þat svo gjörla, en hitt veit eg að stjórnmálin snúast fyrst og fremst um mikil eða lítil afskipti stjórnvalda af hinum ýmsu málum. Það sem fyrst og fremst þyrfti að reddast núna eru loftslagsmálin og hnatthlýnunin. Einn helsti forsvarsmaður einkaframtaksins í heiminum, sjálfur yfir-Tromparinn eini og sanni hefur afneitað öllum hallelújakórum og vísindasamfélaginu að mestu leyti, sem segja að allt sé að fara til fjandans ef ekki sé það samþykkt að mannkynið alltsaman sé með athæfi sínu að ganga of nærri náttúrunni sjálfri. Þó ekki sé sú svartsýnisspá samþykkt af öllum nema Trump er því ekki að neita að miklu fylgi á sú spá að fagna. Best er auðvitað að reyna eftir mætti að leiða slíka spurningu hjá sér, þó sennilega sé ekki hægt að gera það endalaust. Næst á eftir lífsgátunni sjálfri er þetta eflaust sú allra mikilvægasta.

Ekki hef ég lagt það á mig ennþá að horfa á Flateyjargátuna í sjónvarpinu. Þó las ég bókina á sínum tíma. Held að sjónvarpsútgáfan fjalli um allt aðra hluti. Nenni samt ekki að gá að því. Er mikið að velta því fyrir mér hvort ég eigi að horfa á Ófærð II sem mér skilst að verði sýnd eftir áramótin. Yfirleitt er ég ekki hrifinn af sjónvarpsefni. Það er helst að ég horfi þar á fréttir. Svo fylgist ég svolítið með íþróttum og læt helst ekki Kiljuna framhjá mér fara. Kvikmyndir eru næstum á bannlista hjá mér eins og amerískir sakamálaþættir, sem ég forðast eins og pestina. Íslenskar kvikmyndir koma þó alveg til greina.

Kannski les ég allt of mikið á Internetinu. Þó hef ég talsverða andúð á fésbókinni. Fer samt þangað flesta daga, en yfirleitt ekki með símanum. Oft er Netið eina ráðið til að fylgjast almennilega með nýjustu kjaftasögunum. Sumar eru dagsannar en aðrar haugalygi. Hvernig á að þekkja það í sundur. Sá sem finnur auðvelda og handhæga leið til slíks í einkaframtakslandi verður eflaust forríkur.

Einelti og nauðgunartilburðir eru fordæmdir í mannlegu samfélagi og ekki dettur mér í hug að mæla slíku á nokkurn hátt bót. Slíkir tilburðir eru samt ótrúlega algengir í dýraríkinu. Sjálfur hef ég oft fylgst með slíku á meðal fugla og þó dýr éti hvort annað og ekki síst maðurinn a.m.k. önnur dýr þá virðast flestir horfa í gegnum fingur sér með það, sé það gert á vissan og viðurkenndan hátt. Þvíumlíkar venjur geta þó fyrirvaralaust breyst eins og sannast hefur á hvölunum. Einu sinni voru þeir réttdræpir hvar sem er og hvernig sem er, en nú er öldin önnur.

Stundum, einkum þó í auglýsingum og þáttum allskonar, er því haldið fram að bækur séu upphaf og endir alls góðs. Þvílík endemis vitleysa. Svo er alls ekki lengur. Að vísu verður að viðurkenna að mikið af þekkingu og afþreyingu þeirri, sem safnast hefur í kringum mannkynið á umliðnum öldum, er saman komið í bókum. Gömlum bókum vel að merkja. Lestur er að vísu ennþá nauðsynlegur og mikilvægur í allri þekkingarleit. Bækur, í hefðbundnum skilningi, eru þó óðum að missa sjarma sinn og víst er að mikið af þeirri þekkingu sem orðið hefur til á síðustu árum, mun aldrei á bækur rata. Vel getur þó verið að með því að láta safnheitið „bækur“ ná yfir víðtækara svið en verið hefur megi e.t.v lengja líftíma þeirra nokkuð og svo hefur bókaútgáfa hvers konar sífellt orðið ódýrari og einfaldari m.a. með því að láta tölvur sjá um sem mest af þeirri vinnu sem til þarf.

IMG 7447Einhver mynd.


2798 - Fjölmiðlar og Fitbit

Að flestu leyti eru dagblöðin og aðrir fjölmiðlar á valdi auglýsenda, enda hafa þeir næstum alltaf yfir nógu af illa fengnum fjármunum að ráða. Auglýsingar og ritstjórnarefni blandast oft saman með ýmsu móti. Lítill munur er gerður á því. Almennir lesendur hafa engar forsendur til þess að greina hvort greitt hefur verið fyrir þá umfjöllun sem lesin er. Fréttir eru meira og minna pródúseraðar, en þó má oft trúa þeim og treysta. Einkum ef samstofna og samskonar fréttir er að finna í mörgum fjölmiðlum og þær eru framarlega í röðinni eða áberandi mjög. Ýmsar hliðar fréttanna eru þó komnar undir túlkun fjölmiðilsins. Ekkifréttir og útúrkúfréttir er næstum alltaf greitt fyrir.

Margir láta fjölmiðla ráða skoðunum sínum. Einkum er þetta áberandi með pólitík og kosningar. Fjölmiðlafulltrúar stórfyrirtækja eru líka oft valdamiklir. Einnig eru til fyrirtæki sem sérhæfa sig á þessu sviði. Þau kallast venjulega PR-fyrirtæki. Eins og kunnugt er þá er miklu fínna að hafa skammstafanir og einnig ýmislegt annað á ensku. PR þýðir public relations. Trump Bandaríkjaforseti talar oft um „fake news“. Það þarf þó ekki að þýða að þær séu ekki til. Sagt er að fésbókin sé sérstaklega útsett fyrir falsaðar fréttir. Þar berast nefnilega fréttir með eldingarhraða og engin leið eða a.m.k. afar erfitt að rekja þær til uppruna síns.

Dagblöðin og reyndar fleiri fjölmiðlar eru líka forheimskandi. T.d. var um daginn heilsíðugrein í útbreiddu dagblaði um einhvern knattspyrnumann. Hann skoraði mark 19. október 2011. Daginn eftir dó Gaddafi. Hann skorað mark líka 2. október 2011. Þremur dögum síðar dó Steve Jobs. 10. janúar 2016 skoraði hann mark. Daginn eftir lést David Bowie. 1. maí 2011 skoraði hann mark og daginn eftir var Bin Laden drepinn. 11. Febrúar 2012 skoraði hann mark gegn Sunderland. Sama dag lést Whitney Houston. Þetta er kallað Ramsey-bölvunin fáum við að vita í nefndri heilsíðugrein og birtar eru myndir þessum ósköpum til sönnunar.

Kannski eru einhverjir Fitbit-sérfræðingar sem lesa þetta blogg. Fitbit-appið í snjallsímanum mínum er minn aðal-samskiptavettvangur í hinum næstum daglegu gönguferðum mínum. Ég er svolítið að spekúlera í því hve mikið sé að marka peisið (hraðann) þar í byrjun. Mín reynsla er sú að lítið sé að marka það fyrr en eftir svona 2 til 3 hundruð metra. Útaf fyrir sig er nokkuð snjall að hafa upplýsingar um tímalengd, vegalengd og hraða aðgengilegar svona jafnóðum, en til þess þarf maður að geta treyst því að rétt sé. Að göngunni lokinni fæ ég einhverskonar athugasemd og get síðan fengið upplýsingar um skrefafjölda, hitaeiningar og leiðina. Vikulega fæ ég svo senda samantekt og samanburð við einhver markmið sem ég man ekki lengur hver voru. Allt er þetta ókeypis og sýnir, að mér finnst, ágætlega þá tækni sem öllum stendur til boða.

IMG 7456Einhver mynd.


2797 - Áfram halda Klausturmálin

Enn er rifist af heift um það sem sagt var á Klausturbarnum í síðasta mánuði. Lilja Alfreðsdóttir hefur með frammistöðu sinni í Kastljósi sennilega gengið frá Miðflokknum svonefnda. Vinstra sinnaða og feminiska eða góða fólkið hefur líklega alveg rétt fyrir sér í Klausturmálum. Ég fer samt ekkert ofan af þeirri skoðun minni að í mesta lagi verði það á endanum svona tveir alþingismenn sem segi af sér útaf þessu. Sennilega verða það Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason sem það gera, enda má rekja svakalegustu ummælin til þeirra, að ég held. Þó hef ég ekki heyrt nema stuttar glefsur úr þessari upptöku, sem allir eru að tala um, en aftur á móti lesið talsvert um túlkanir annarra á því sem þarna fór fram. Líta ber á þessa skoðun mína sem spádóm öðru fremur og ég er sammála flestum öðrum um að svona eiga alþingismenn, og reyndar á það við um alla aðra líka, alls ekki að tala, síst af öllu á opinberum stað. Sennilega hafa aðrir af sexmenningunum, en þeir Gunnar og Bergþór reynt að passa sig svolítið um leið og þeir hafa reynt að æsa þá upp.

Þetta mál finnst mér vera þannig vaxið að ástæðulaust sé fyrir mig að fjölyrða meira um það og hérmeð lýkur (vonandi) umfjöllum minni um þetta.

Hvernig á ég eiginlega að fara að því að skrifa um pólitík án þess að skrifa um pólitík? Hingað til a.m.k. hef ég haldið mig við það sem satt er og rétt. Það er að segja það sem mér finnst vera satt og rétt. Mér leiðast yfirleitt skáldsögur, sérstaklega þó krimmar allskonar og svo náttúrulega amerískir lögguþættir í sjónvarpi. Það er helst að íslenskir dægurlagatextar og sumir fjölmiðlar standist þeim einhvern samjöfnuð. Skáldskapur og lygi liggur mér nokkuð þungt á hjarta. Einkum eftir að ég las formálann að Geirmundar sögu heljarskinns. Þar reyndi höfundurinn sem mig minnir að heiti því ómögulega skáldanafni Bergsveinn Birgisson að telja lesendum sínum trú um að allt sem honum dytti í hug væri heilagur sannleikur. Sögulegar skáldsögur eru stórvarasamar því óinnvígðir gætu í sumum tilfellum haldið að það sem sagt er frá þar, sé satt og rétt. Annars er þetta svo yfirgripsmikið efni að mér finnst ég varla geta fjallað um það hér í blogginu.

Stundum finnst mér ég vera einskonar misskilinn rithöfundur. Það er þó sem betur fer ekki mjög oft. Þessvegna er það sem ég set mestalla mína snilld í þetta blogg. Auðvitað er mér nákvæmlega sama hvort 20 sálir lesa þetta eða 200.000. Á því geri ég engan greinarmun. Ef ég væri tvítugur unglingur mundi ég kannski sækjast eftir þeirri frægð sem hugsanlega fylgdi seinni tölunni. En seinni hálfleikurinn er langt kominn hjá mér svo það er í rauninni alltof seint í rassinn gripið. Til lengdar er leiðigjarnt að hafa allt á hornum sér. Vissulega finnst mér oft að þeir sem skrifa í fjölmiðlana og láta mikið á sér bera í pólitíkinni vera óttalega vitlausir, en við því er ekkert að gera og þýðingarlaust að hamra á því. Skárra er að vera jákvæður öðru hvoru og hrósa jafnvel fólki. Það reyni ég af og til.

Fréttasjúkur er ég með afbrigðum. Sem betur fer gleymi ég þó flestu jafnóðum. Það gerir samt lítið til. Af því sem sagt er í fréttum, sem mér finnst samt yfirleitt vera óttaleg vitleysa, reyni ég að draga minar eigin ályktanir. Ef ég er nægilega ánægður með þær ályktanir set ég þær gjarnan í bloggið mitt og ef ég sé svipuðum skoðunum lýst annarsstaðar reyni ég að telja sjálfum mér trú um að verið sé að stæla mig og ég sé merklegasti maður í heimi. Svolítið líkur Sigmundi Davíð. Greinilegt er að hann lítur mjög stórt á sjálfan sig og má varla hreyfa sig né segja eitthvað án þess að setja heimsmet. Stundum eru þessi heimsmet hans svolítið vafasöm en fjölyrðum ekki meira um það.

Nú er kominn tími til að hætta.

IMG 7464Einhver mynd.


2796 - Klausturpósturinn

Hef ekki hlustað á upptökurnar frá Klausturbarnum, sem allir eru að tala um þessa dagana. Hef látið mér nægja frásagnir dagblaða, fésbókar og annarra fjölmiðla. Flestir eða allir virðast sammála um að ummælin sem þar voru viðhöfð séu óverjandi með öllu. Ekki á ég samt von á að sexmenningarnir muni allir segja af sér þingmennsku. Kannski einn eða tveir og síðan muni þetta fárviðri gleymast smátt og smátt. Allsekki vil ég þó viðurkenna að svona orðbragð tíðkist víða. Kannski talar Trump svona og hugsanlega einhverjir aðrir. Virðing alþingis bíður sjálfsagt hnekki við þetta.

Það er búið að fjölyrða svo mikið um þetta Klausturmál að ég hef eiginlega engu við það að bæta. Margt annað er mikilvægara. Ég sé ekki betur en Katrín sé að festa sig svolítið á sessi sem forsætisráðherra hér á Íslandi á sama tíma og mér finnst vera að fjara aðeins undan Trump Bandaríkjaforseta. Annars er ég að hugsa um að forðast eftir megni pólitík í þessu blogginnleggi mínu. Það er satt að segja leiðindatík.

„Vísir leggur jafnframt til fasta auglýsingaborða sem vísa á Heimsljós og tryggja 15-20 þúsund birtingar á dag.“ Þessa klausu rakst ég á einhvernstaðar á Netinu. Líklega á Vísi.is í frásögn af samningi við Utanríkisráðuneytið um birtingar á efni þaðan. Semsagt það er verið að selja klikkin og ekki einu sinni reynt að fara leynt með það. Best að vara sig svolítið á þessum ófyrirleitnu sölumönnum.

Já, ég nota ennþá plast. Hvernig ætti að vera hægt að venja alla af plastnotkun bara svona hviss bang eins og ekkert sé. Sé ekki betur en stjórnvöld og félagasamtök hafi með öllu vanrækt að venja okkur Íslendinga á að flokka rusl. Auðvitað er ekki auðvelt að venja gamla hunda einsog mig á slíkt, en það má reyna. Svo eru ýmsir að reyna að telja manni trú um að plast sé bara stundum plast. Sumt úr þeirri olíufjölskyldu eyðist sjálfkrafa í náttúrunni segja þeir, annað ekki. Semsagt að til sé vont plast og gott plast. Kannski er munurinn bara sá að góða plastið eyðist á tíu þúsund árum en það vonda á hundrað þúsund árum. Hinsvegar er vel hægt að venja okkur af því að fleygja allskyns drasli í klósettið.

Súluritið mitt hjá Moggablogginu er ansi toppótt. Stundum eru heimsóknin nokkuð margar 2-4 hundruð (ekki hundruðir) og stundum sárafáar. Mér finnst  heimsóknir a.m.k. vera nokkuð margar þegar þær eru farnar að skipta allmörgum hundruðum. Það er samt engin regla á því hve ört ég skrifa. Alfarið fer það eftir nenningu hjá mér og hún er ekki alltaf mikil.

Kannski þetta blogg hjá mér ætti að vera ögn persónulegra. Um þessar mundir sef ég í splunkunýju rafmagnsrúmi, sem hægt er að stjórna með fjarstýringu. Búið er að vera fremur erfitt að koma því gamla fyrir kattarnef, en nú er það komið á stað sem það getur væntalega verið í friði í nokkra daga.

Hér á Akranesi er svolítil snjóföl yfir öllu. Það hefur snjóað aðeins í gærkvöldi eða nótt. Undanfarið hefur samt verið með öllu snjólaust hér og oftast einhver hiti. Kannski er frost núna.

IMG 7475Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband