Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2017
28.4.2017 | 09:43
2601 - Vísindin og tæknin
Allt í einu eru menn farnir að rífast um bensínsölu. Ekki seinna vænna. Sú sala er nefnilega að verða úrelt. Það skyldi þó ekki vera að hægt sé að græða á slíkri sölu. Kannski fáum við alvöru samkeppni þar. Einhverjir hóta því að keyra frekar bensínlausir en skipta við Haga/Olís. Þetta er gamall brandari, sem einu sinni var heimfærður uppá Essó eða Skeljung meðan pólitíkin skipti meira máli en bensínverðið. Svo komu menn sér saman um að féfletta bara pöpulinn í staðinn.
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins hugsa stundum. Ég er þó ekki þeirra á meðal. Þarna sneri ég á þá sem alltaf vilja snúa útúr öllu. Mér leiðist flokkapólitík. Liðaskiptingin á alþingi er stærsti gallinn á þeirri stofnun. Alþingismenn hafa samt áhrif. Baráttan um ræðustólinn er þó stundum svolítið hlægileg. Málþófið líka. Margt væri hægt að laga í starfsemi alþingis.
Vísindin og tæknin
hafa til þess fundið ráð
að taka upp ræður þingmanna
á fínan segulþráð.
Var einu sinni ort. Þetta minnir mig að hafi verið birt í Speglinum sáluga sem kallaður var samviska þjóðarinnar (með setu þó).
Enginn vafi er á því að sú tækni sem dembt hefur verið yfir íbúa hins vestræna heims hefur á margan hátt auðgað líf almennings og bætt lífskjör hans. Hinar suðrænu þjóðir hafa sumar farið á mis við þessa tækni að meira eða minna leyti. Hver og einn vill halda sínu. Þessvegna er það sem þjóðernishyggja hverskonar hefur víða grafið um sig. Á þann hátt má segja að tæknin hafi pólitísk áhrif.
Með tækninni hafa margar iðngreinar orðið óþarfar og dáið út. Ekki þarf að tíunda það hér. Eins hefur tæknin breytt mörgu. Drónarnir sem æða um loftin blá hafa gjörbreytt allri ljósmyndun og kvikmyndatækni og gert hana að almenningseign í ríkari mæli en áður hefur þekkst. Geimrusl hverskonar fer líka mjög vaxandi og sífellt verður ódýrara og ódýrara að setja allskonar tæki á braut um jörðu. Einhvertíma kann það að torvelda geimferðir.
Ef maður fylgist svolítið með fjölmiðlum og fésbókarskrifum fer ekki hjá því að manni detti í hug að bakteríuhræðsla og flóttamannagæði séu að eyðileggja líf sumra. Hvað bakteríuhræðsluna snertir er greinilegt að flestallir verða að treysta á ansi marga í því efni ef komast á með öllu hjá bakteríum og vírusum. Flóttamannagæðin geta líka gengið útí öfgar þó sjálfselskan og græðgin séu að sjálfsögðu ekkert betri.
Klukkan var að verða hálfátta þegar ég kom mér af stað í morgungönguna. Það var að sjálfsögðu fremur seint og ekki bætti úr skák að hér á Akranesi var þá bæði rok og rigning. Veðrið er eitthvað skárra núna en vorið lætur samt bíða svolítið eftir sér þó ég sé búinn að láta setja sumardekkin undir bílinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2017 | 10:05
2600 - Á Grandi að stjórna landinu?
Að því leyti rennur mér blóðið til skyldunnar að ég er búsettur á Akranesi. Mikið er rætt um hvort fyrirtækið Grandi, sem gleypti önnur fiskvinnslufyrirtæki, eigi að vera á Akranesi eða í Reykjavík. Af er sú tíð að sérstakt fiskvinnslufyrirtæki sé í hverju krummaskuði. Þau stærri hafa að sjálfsögðu gleypt þau minni. Slík er lífsins saga. Forstöðumenn Granda h/f hafa lýst því yfir að ekki komi til greina að vera með fiskvinnslu á báðum stöðunum. Þá gætu minni fyrirtæki farið að standa í þeim. (Gleypigangurinn altsvo.) Eftir að sementverksmiðjan hér á Akranesi lagði upp laupana er besta plássið í bænum undirlagt þessum andskota. Annars stefnir í það að Reykjavík og Akranes vaxi saman. Jafnvel frekar en Reykjavík og Suðurnesin. Samt veit ég svosem ekkert um þetta frekar en aðrir. Bollaleggingar eru þó ókeypis og þar að auki er Keflavíkurflugvöllur á Suðurnesjum.
Þessa klásúlu setti ég á fésbók, því mér fannst áríðandi að koma þessum miklvæga boðskap sem fyrst í umferð. Þeir sem eru svo langt leiddir að lesa bæði bloggið mitt og það sem ég læt frá mér fara á fésbókinni geta semsagt sleppt þessu.
Vaðlaheiðargöngin eru umdeild mjög. Ekki stendur þó til að hætta við. Allar stórframkvæmdir eru umdeildar meðan á þeim stendur. Hvalfjarðargöng voru það, sömuleiðis Borgarfjarðarbrúin, Ráðhús Reykjavíkur, Perlan og ekki má gleyma Hörpunni. Eftirá keppast allir við að lofa framkvæmdina, enda verður ekki aftur snúið. Afkomuna má alltaf laga til með bókhaldbrellum ef þörf er á.
Frjálsar fóstureyðingar eða þungunarrof. Þetta eru dæmi um mátt tungumálsins. Um að gera að taka upp Newspeak ef þess er nokkur kostur. Þó er ekki rétt að ganga alla leið samstundis. Miklu máli skiptir samt að rétt tungutak sé notað hjá þeim sem um málin fjalla. Kynvilla man ég eftir að hafi verið nokkurn vegin viðurkennt orð í eina tíð. Alls ekki er svo lengur. Nú er fólk í mesta lagi samkynhneigt. Eiginlega má ekki einu sinni segja að menn séu samkynhneigðir því með því er líklega verið að gefa í skyn að umræðan sé ekki nógu feminisk. Allir eiga að vera feministar eins og kunnugt er.
Þetta setti ég saman á gönguferðinni í morgun:
Hundarnir eru alltaf berfættir
Og vilja ganga þar sem mýkst er
Þeir sem eru vel skóaðir
Vilja ganga á sem sléttustu undirlagi
Nema þeir séu að æfa sérstaklega
Hið íslenska þúfnagöngulag
Eða á leiðinni að klífa fjöll.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2017 | 09:47
2599 - Fyrsti fésbókar forseti Bandaríkjanna
Skil ekki almennilega hvaða læti eru í fólki útaf Tromparanum. Það er fátt óvenjulegt við hann. Bandaríkjamenn eru bara svolítið skrýtnir. A.m.k. miðað við okkur venjulegu Evrópubúana. En erum við annars nokkuð venjulegri en aðrir? Ekki held ég það. Þegar sami forsetinn hefur setið í 8 ár í Bandarríkjunum er það bara til siðs að hinn flokkurinn taki við. Auðvitað er Donald Trump ekkert venjulegur, en það óvenjulega við hann finnst mér aðallega hafa verið anti-establishment áherslur hans sem fjölmiðlar létu hann komast upp með og höfðu gaman af. Með því afneitaði hann hefðbundnum Repúblikana-gildum og fékk talsvert fylgi. Lygin og ómerkilegheitin eru svo bara það sem tíðkast í stjórnmálum.
Einhver bankinn auglýsti (talsvert stórt minnir mig) um daginn: Ekki gefast upp. Það er hægt. Auðvitað er hægt að gefast upp. Flestir hafa að ég held gefist upp á bönkunum. Annars virðist það orðin lenska í auglýsingum hér á landi að það eigi að vera hægt (jafnvel auðvelt) að snúa útúr þeim. Einni vandaðri (og eflaust dýrri) auglýsingu úr sjónvarpi man ég samt eftir að hafi einfaldlega verið kippt í burtu í snarhasti vegna meinlegrar málvillu. Þar var talað og skrifað um að hnykla augabrýrnar, sem ljóslega er tóm vitleysa. Hnykla augabrýnnar heitir það. Munur er á augabrú og augabrýn. Það fyrrnefnda er bókstaflega ekki til. Augabrún er svo allt annað orð.
Til stóð að allstórt smástirni mundi jafnvel hitta Jörðina. Ekki varð úr því en litlu munaði víst. 500 ár eða svo skilst mér að séu þangað til það kemur næst. Annars er það sem gerist eða gerist ekki í himingeimnum stórum merkilegra en það sem við mannaumingjarir fáumst við. Reynum samt eftir megni að telja okkur trú um annað. Jafnvel að daglegar fréttaútsendingar séu það. Og hugsanlega fésbókin.
Auglýsingar á bloggi. Veitingastaðir, tískuverslanir og þeir sem almennt stunda fjárplógsstarfsemi gera mikið af því er mér sagt að kaupa bloggara, allskyns miðla og aðra gúrúa til fylgilags við sig. Enginn hefur þó boðið mér svomikið sem eyrisvirði, enda er ég sennilega bæði of gamall og lítið vinsæll til slíks. Annars er það nokkuð einkennilegt hve mörgum er ósýnt um að gera ráð fyrir að allskyns jákvæð umfjöllun á netinu sé einfaldlega dulbúnar auglýsingar.
Ekki er ég hissa á því að Eiríkur Jónsson sé vinsæll bloggari. Bæði er hann með fréttanef, ágætis kjaftasöguheimild og þar að auki með góð sambönd. Myndirnar sem hann birtir eru oft prýðilegar. Ættfræðin hjá honum er líka oftast í lagi. Ekkert hef ég þó séð hann skrifa um Vísindagönguna á Grænlandi eða hin sí-ó-vinsælu hótelherðatré. Hef ekki heyrt fyrr að nauðsynlegt sé að hafa þau svona til þess að þeim sé ekki stolið. Einhvern tíma var stundað að safna merktum hótelhandklæðum. Ekki er ég samt að hugsa um að fara að stela hótelherðatrjám.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2017 | 08:04
2598 - Sól tér sortna
Kannski er heimsfriðnum hættara nú en undanfarið. Er ekki viss um að aukin áhersla Bandríkjanna á mátt sinn og megin verði til þess að öll önnur ríki lúffi fyrir þeim. Það athyglisverðasta sem ég sá nýlega og tengist óbeint þessu máli er að meðalhæð fólks í Suður-Kóreu sé u.þ.b. 5 cm. meiri en í Norður-Kóreu. Það ætti að vera vandræðalaust að tékka á þessu. Treysti mér samt ekki til að ganga úr skugga um hvort þetta sé rétt. Var þetta ef til vill bara dæmigerð anti-frétt.
Nýliðnir Páskar (eða kannski óliðnir) eru búnir að vera ömurlegir. Það er nú samt engin nýjung, en til viðbótar öllu hinu sem maður var farinn að venjast erum við búin að vera lasin alla bænadagana og Páskana sjálfa og satt að segja hálf rotinpúruleg.
Ekki er heldur hægt að segja að heimsmálin (sem eru mitt aðaláhugamál þessa dagana) séu neitt falleg um þessar mundir. Eiginlega er það eina sem hægt er að segja í því tilfelli, að vandamálin sem við Íslendingar glímum við séu heldur fáfengileg miðað við það sem flestir aðrir þurfa að búa við.
Vaknaði snemma á Páskadagsmorgun og setti þetta á fésbókina. Er hún ekki helsta dagstimplunin nútildags?
Páskadagsmorgunn.
Klukkan ekki orðin sex.
Friðsældin ofar öllu.
Síminn segir að úti sé frost.
Veikindin að baki.
Veðrið fallegt.
Tunglið áðan engu líkt.
Mávarnir vappa um.
Sjá ekki dýrðina.
Láta samt eins og þeir skilji allt.
Einu sinni var til siðs að kalla svona lagaðan samsetning atomljóð. Þetta er sett saman eftir birtingu en samt fyrir sólarupprás. Þá er stundum eins og náttúran haldi niðri í sér andanum. Segi kannski ekki að sólin eyðileggi stemninguna, en næstum því. En þó það sé bara atomljóð og stuðlasetning ekki góð þá skal ég áfram kveða óð... o.s.frv.
Ein er spurning okkur frá
öllum ljóðavinum.
Hvaða munur er nú á
Atomskáldi og hinum?
Tek fram að ekki gerði ég þessa vísu, þó ég eigi það til að klambra saman vísum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2017 | 13:31
2597 - Guðbjartur Gunnarsson
Já, eiturvopnaárás er skelfileg. Jafnvel skelfilegri en hryðjuverkaárás með bíl. Eiginlega á Trump ekki þá viðurkenningu skilið sem hann að líkindum fær fyrir að senda þessar rándýru elflaugar í áttina að flugvellinum sem sagt er að eitrið hafi komið frá. Þessar eldflaugar kosta meira en eina milljón dollara hver og ameríski herinn borgar það verð með glöðu geði. 59 eldflaugar eru sagðar hafa verið sendar. 36 hittu víst flugvöllinn, en hann var samt notaður daginn eftir. Mér finnst þetta hálf ómarkviss hefndarráðstöfun.
Að hafa fengið teknar myndir af sér ásamt Margréti Thatcher er víst nokkurs virði. A.m.k. veifa þeir sem þær eiga eins t.d. Jón Kristinn Snæhólm og Hannes Hólmsteinn þeim óspart. Já og ekki má gleyma sjálfum Doddsson og kannski eru þeir fleiri. Man best eftir því að Mrs. Thatcher var í fyrstunni alltaf kölluð Mrs. Thatcher the milk snatcher. Held nefnilega að hún hafi byrjað sem sá ráðherra sem tók fyrir þann arf frá stríðsárunum að skólarnir gæfu öllum breskum börnum mjólk að drekka daglega. En nú er hún dauð og ekki verða teknar fleiri myndir með henni fyrir þá Íslendinga sem það vilja. Einhverjir held ég að séu þegar farnir að gorta af því að hafa tekið í spaðann á Trump. Verði þeim bara að góðu.
Ég er alveg sammála því að tölvurnar séu um það bil að eyðileggja það sem hingað til hefur verið kallað klassísk skák. Þ.e.a.s. skák þar sem umhugsunartími er sá hefðbundni fyrir langar skákir. Ef skákmenn eru nokkurn vegin jafngóðir þá snýst mest um að undirbúningurinn og að skákforritin séu nógu góð. Byrjanaþekking slær flestu við. Svindl í skák er líka að verða sífellt algengara, því tölvuforritin eru svo góð og fyrirferðarlítil. Allir geta komist uppá lag með að fá a.m.k. aðstoð frá þeim. Sívaxandi fjöldi þeirra sem það gera ber því vitni. Skákstjórar eru ekki öfundsverðir nútildags. Sennilega verður það vinsælasta í skákheiminum áður en yfir lýkur það sem áður fyrr voru kallaðar hraðskákir eða 5-10 mínútur á skák. Increment mætti þó nota.
Súgfirðingur fer út í heim nefnist sjálfsævisaga sem nýlega er komin út hjá Vestfirska forlaginu. Hún er eftir Guðbjart þann Gunnarsson sem einu sinni útúr vandræðum var um eins vetar skeið hafður fyrir skólastjóra í Hveragerði. Ekki ber hann Hvergerðingum vel söguna og þó ég hafi nú ekki nennt að lesa nema það sem hann skrifaði um þá, sýnist mér þetta vera ósköp venjuleg karlagrobbsaga og ekki mikið um hana að segja framyfir það. Lítið er að marka það sem hann segir um Hvergerðinga.
Einhver spurði á fésbók hvað HVA þýddi. Ég held að það þýði Heilsugæslustöð Vesturlands á Akranesi. Annars nota Íslendingar ekki mikið skammstafanir en Bandaríkjamenn gera mikið af því. T.d. var um daginn stórri sprengju varpað á skotmark í Afghanistan. Þessi sprengja hefur gælunafnið MOAB en það þýðir samt ekki Mother Of All Bombs eins og margir halda heldur: Massive Ordnance Air Blast ef einhver skyldi vera að velta því fyrir sér. Að vísu er þetta stærsta sprengja sem notuð hefur verið í hernaði en stærri eru samt til.
Um daginn horfði ég í sjónvarpinu á mynd um Kristbjörgu Kjeld og satt að segja kom mér á óvart hve víða hún hefur komið við. Og þó ég muni fyrst og fremst eftir henni úr 79 af stöðinni undir Gunnari Eyjólfssyni, annarsvegar og hinsvegar sem mamma Gógó úr samnefndri kvikmynd þar sem hún stendur uppi í klósetti og togar í örvæntingu í kassakeðjuna segir það í rauninni lítið um feril hennar.
Er búinn að vera veikur undanfarið og þessvegna hefur dregist mikið hjá mér að blogga. Samt sem áður er ég að hugsa um að setja þetta upp núna til að vera laus við það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2017 | 23:26
2596 - Að tefla við páfann (eða kónginn)
Ég hélt að allir (bókstaflega allir) hefðu vitað það árum saman að Hakk og Afhausunarbankinn þýski (sjálfur hefði ég nú haft aðra röð á orðunum í nafninu) hefði bara verið leppur fyrir S-hópinn. Man vel eftir að hafa séð mynd af Ólafi Ólafssyni og Finni Ingólfssyni þar sem þeir voru hlægjandi eða a.m.k. glottandi yfir því að hafa leikið á Valgerði og Co. Nú eru allt í einu allir orðnir steinhissa á því að þessi banki hafi tekið þátt í svindlinu í sambandi við söluna á Búnaðarbankanum. Skil þetta alls ekki.
Þetta setti ég á fésbókina því það getur vel verið að það verði svolítil bið á því að ég bloggi. Ekki mátti þessi speki missa sig. Hrifnastur er ég af Afhausunarbanka-hugsuninni. Samt er þetta stolið. Man bara ekki hvar ég sá þetta. Fann sjálfur uppá þessu með hakkið.
Eiginlega er ég búinn að vera í viku sumarfríi. Bloggfrí fylgir jafnan svona fríum. Kannski fer ég aftur seinna í frí og það geta vel komið eyður í bloggið hjá mér af öðrum ástæðum líka. Samt reyni ég alltaf að fylgjast svolítið með fésbókinni, þó ég sé í rauninni á móti henni. Eyður geta komið í slíkar athafnir samt sem áður.
Eiginlega er ég ekkert hissa á því þó birt hafi verið mynd í víðlesnu dagblaði af ferðamanni að skíta. Sennilega er þetta Kínverji. Mér er nefnilega sagt að þeir séu eins og illa uppaldir hundar að þessu leyti. Skíti hvar sem er nema helst ekki í bælið sitt. Svona er ég nú fordómafullur.
Mér finnst allsekki sjálfsagt að leyfa stóriðjufyrirtækjum að komast upp með allt bara vegna þess að þau eru svo stór. Auðvitað leggja þau mjög þunga áherslu á að ná góðum samningum fyrir sig. Svo þunga að þau víla ekki fyrir sér að hafa nokkra tugi eða hundruð sérfróðra lögfræðinga á sínum snærum til þess að sjá um að svo margar undantekningar sem hugsast getur séu inni í samningunum. Pólitíkusar-rassarnir og hundtíkur þeirra sem samningana gera fyrir okkur Íslendinga er auðvelt að plata einsog margoft hefur komið í ljós.
Að enn skuli fyrirfinnast vandræði með samhæfingu rafmagns- og tölvutækja segir manni það eitt að enn er verið að berjast um aðferðir. Man vel hvað VHS og Betamax börðust hatrammlega í gamla daga og enn er barist. Núna samt mest um samhæfingu þó framleiðendur vilji helst ekki viðurkenna það. Helst þarf að ánetjast einhverjum risanum til að geta lifað og leikið sér.
Einu sinni var hljómsveit sem hér Forhúð. Eða a.m.k. vildi hún heita það. Kannski fékk hún það ekki.
Nú, af hverju ekki?
Það veit ég ekki. Kannski greri hún bara föst.
Hver þá? Forhúðin?
Já. Einmitt.
Við hvað?
Það veit ég ekki. Kannski kónginn.
Nú. Voru skákmenn í hljómsveitinni?
Kannski. Já, ætli það ekki.
En af hverju við kónginn?
Æ, þetta átti bara að vera fyndið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)