2600 - Á Grandi að stjórna landinu?

Að því leyti rennur mér blóðið til skyldunnar að ég er búsettur á Akranesi. Mikið er rætt um hvort fyrirtækið Grandi, sem gleypti önnur fiskvinnslufyrirtæki, eigi að vera á Akranesi eða í Reykjavík. Af er sú tíð að sérstakt fiskvinnslufyrirtæki sé í hverju krummaskuði. Þau stærri hafa að sjálfsögðu gleypt þau minni. Slík er lífsins saga. Forstöðumenn Granda h/f hafa lýst því yfir að ekki komi til greina að vera með fiskvinnslu á báðum stöðunum. Þá gætu minni fyrirtæki farið að standa í þeim. (Gleypigangurinn altsvo.) Eftir að sementverksmiðjan hér á Akranesi lagði upp laupana er besta plássið í bænum undirlagt þessum andskota. Annars stefnir í það að Reykjavík og Akranes vaxi saman. Jafnvel frekar en Reykjavík og Suðurnesin. Samt veit ég svosem ekkert um þetta frekar en aðrir. Bollaleggingar eru þó ókeypis og þar að auki er Keflavíkurflugvöllur á Suðurnesjum.

Þessa klásúlu setti ég á fésbók, því mér fannst áríðandi að koma þessum miklvæga boðskap sem fyrst í umferð. Þeir sem eru svo langt leiddir að lesa bæði bloggið mitt og það sem ég læt frá mér fara á fésbókinni geta semsagt sleppt þessu.

Vaðlaheiðargöngin eru umdeild mjög. Ekki stendur þó til að hætta við. Allar stórframkvæmdir eru umdeildar meðan á þeim stendur. Hvalfjarðargöng voru það, sömuleiðis Borgarfjarðarbrúin, Ráðhús Reykjavíkur, Perlan og ekki má gleyma Hörpunni. Eftirá keppast allir við að lofa framkvæmdina, enda verður ekki aftur snúið. Afkomuna má alltaf laga til með bókhaldbrellum ef þörf er á.

Frjálsar fóstureyðingar eða þungunarrof. Þetta eru dæmi um mátt tungumálsins. Um að gera að taka upp „Newspeak“ ef þess er nokkur kostur. Þó er ekki rétt að ganga alla leið samstundis. Miklu máli skiptir samt að rétt tungutak sé notað hjá þeim sem um málin fjalla. Kynvilla man ég eftir að hafi verið nokkurn vegin viðurkennt orð í eina tíð. Alls ekki er svo lengur. Nú er fólk í mesta lagi samkynhneigt. Eiginlega má ekki einu sinni segja að menn séu samkynhneigðir því með því er líklega verið að gefa í skyn að umræðan sé ekki nógu „feminisk“. Allir eiga að vera „feministar“ eins og kunnugt er.

Þetta setti ég saman á gönguferðinni í morgun:

Hundarnir eru alltaf berfættir
Og vilja ganga þar sem mýkst er
Þeir sem eru vel skóaðir
Vilja ganga á sem sléttustu undirlagi
Nema þeir séu að æfa sérstaklega
„Hið íslenska þúfnagöngulag“
Eða á leiðinni að klífa fjöll.

IMG 1684Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband