Bloggfærslur mánaðarins, september 2016

2515 - Skrifskraf

Lengra verður ekki gengið í blammeringum en að líkja mönnum við Hitler. Skyldi Þjóðverjum ekki þykja það skemmtilegt? Gyðingum sérstaklega. Hvað skyldi vera margir Gyðingar í Þýskalandi nútímans? Annars voru flestir Gyðingar sem Hitler lét drepa í Helförinni, frá Póllandi og öðrum austantjaldsríkjum. Er það viljandi sem við Vesturlandabúar lítum svolítið niður á íbúa Varsjárbandalagsríkja? Kannski. Þó er ekki víst að við séum neitt betri sjálfir.

Svona speglasjónir eru fremur tilgangslitlar og furðulegar. Mega aðrir ekki vera í friði? Eigum við ekki nóg með okkur? Íslendingahatur er okkur flestum í blóð borðið. Hér eru forhollin smá og ekki við góðu að búast. Íslenskan á undanhaldi og flest í ólestri. Eiginlega lifum við, eins og oft er sagt, á mörkum hins byggilega heims. Jafnvel hnatthlýnunin er sagt að komi seint hingað. Norðrið er samt sagt viðkvæmt fyrir slíku og einhvernstaðar viljum við Íslendingar vera fremstir. Kannski verðum við það með tímanum hvað snertir rannsóknir á hitafari Norðursins. Þetta er annars furðulegur samsetningur og best að ég hætti þessu.

Með öndina (eða endurnar) í hálsinum bíða margir spenntir eftir því hvernig hjaðningavígin endi í Framsóknarflokkum. Kannski er þetta allt saman eitt sjónarspil sem til þess er sniðið að flokkurinn fái sem flest atkvæði. Að minnsta kosti hefur honum tekist, eins og fyrri daginn, að vera mikið í umræðunni í aðdraganda kosninga. Væntanlegar kosningar virðast þó ætla að verða með furðulegasta móti. Ríkisstjórnarmunstur gætu orðið allmörg að þeim loknum og ekki gott að sjá hverning halda á óöldinni áfram. Allir flokkarnir eru ómissandi og sannfærðir um sigur. Ekki veit það á gott. Nú jæja. Ég virðist ætla að halda spunanum áfram. Sennilega verður þetta blogg undirlagt slíkri endaleysu. Þó er ég búinn að fá flensusprautu.

Ekki veit ég hvernig ég á að hætta þessu. Þó verð ég einhverntíma að gera það. Ekki dugir að halda áfram endalaust, þó ég gæti það sennilega. Svona getur skrifnáttúran farið með mann!! Ég get ekkert að þessu gert. Orðin koma bara ósjálfrátt á pappírinn. Reyndar er það eina góða við þetta að ekki er verið að eyða neinum pappír í þessa vitleysu. Ég get ekki ímyndað mér að nokkrum detti í hug að prenta þetta út. Ekki geri ég það. Það besta við bloggið er að skrifin hverfa bara út í eterinn. Einhverjir verða samt til þess að lesa þetta og ekki má ofbjóða þeim. Þessvegna er best að hætta bara núna. Per samstundis.

IMG 3481Einhver mynd.


2514 - Pólitík og endalausar kosningar

Ekki nennti ég að vaka frameftir um daginn til að hlusta á kappræður Clintons og Trumps. Svo forfallinn er ég nú ekki. Kannski er ég bara svo gamall að ég nenni ekki að vaka frameftir. Finnst miklu betra að fara snemma á fætur. Auðvitað er líka hægt að gera hvorttveggja að fara snemma að sofa og seint á fætur.

Þó Tromparinn sé fremur óvinsæll hjá Evrópubúum er hætt við að hann fái talsvert mörg atkvæði í Bandaríkjunum. Íbúarnir þar eru nefnilega mjög íhaldssamir og hægrisinnaðir ef gamli hægri vinstri kvarðinn er notaður. Kannski er réttara að kalla menn frekar opingáttarmenn og einangrunarsinna eins og mig minnir að Þorvaldur Gylfason hafi einhverntíma gert. Sé það gert, er að því er mér virðist einboðið að kalla Donald Trump einangrunarsinna en að Hillary Clinton tilheyri fremur opingáttarmönnum. Sumum finnst reyndar rangt að kalla Trump einangrunarsinna því venjan er að umsvifamiklir kaupsýslumenn séu hlynntir opinni gátt, en paradoxar eru algengir í stjórnmálum og ekkert við þeim að segja.

Hiklaust má segja að kosningabaráttan í Bandaríkjunum veki meiri athygli í þetta skipti en oftast áður bæði hér á Íslandi, Bandaríkjunum og miklu víðar. Ekki veit ég hvers vegna það er, en Trump á áreiðanlega þátt í því. Og þau bæði reyndar.

Held að þriðjudagskvöldið hafi verið undirlagt af pólitík a.m.k hjá sumum. Sjálfum finnst mér heldur óspennandi að fylgjast með stjórnmálum. Þetta er allt sama tóbakið. Loforð á loforð ofan. Næstum því jafnóspennandi og norðurljósavællinn. Hverjum þykir sinn fugl fagur og á margan hátt eru stjórnmálaflokkarnir orðnir einsog knattspyrnulið. Tvö lið berjast venjulega á alþingi og kalla sig stjórn og stjórnarandstöðu og þó tilheyri að vera á móti öllu sem frá hinu liðinu kemur eru umræðurnar fremur óspennandi og í litlu samræmi við aðgerðir.

Vigdís Hauksdóttir er ekki nærri eins vitlaus og sumir telja hana vera. Til dæmis er það alveg rétt sem hún segir um Vaðlaheiðargöngin og framkvæmdirnar á Bakka. Grímulausara kjördæmapot hefur vala sést hér á Íslandi. Í mínum augum er fyrrverandi fjármálaráðherra meistari í slíku. Ekki er að sjá annað en hann hafi allt sitt á þurru þó nefndar framkvæmdir komi til með að draga á eftir sér langan slóða vandræða. Annars er ég ekki vel til þess fallinn að fjölyrða um þetta.

Í pólitíkinni virðast allir vilja bæta heilbrigðiskerfið og hlúa að öldruðum og öryrkjum. Efndir verða samt litlar, ef að líkum lætur. Því sem þjóðin hefur sagt á undanförnum árum er lítið sinnt. Reynt er með öllum ráðum að koma í veg fyrir að þjóðin láti álit sitt í ljósi og ef einhverju er breytt eru hagsmunir stjórnmálaflokkanna öllu ofar. Kjósendur eru bara spurðir um einskisverð mál eða ekkert mark á þeim tekið. Icesave var undantekning og ekki er líklegt að annar eins afleikur verði endurtekinn bráð.

Íslendingar hljóta að vera kleinuhringjaóðir. Samkvæmt nýjustu fréttum er fjöldi kleinuhingjarisanna í Reykjavík að tvöfaldast á næstunni. Kannski það séu samt einhverjir aðrir sem eru kleinuhringjaóðari en Íslendingar. Hugsanlegt er að Bandaríkjamenn séu þeir kleinuhringjaóðustu í veröldinni. Get bara ekki ógrátandi minnst á allan þann sykur sem fer forgörðum í svona steypu.

IMG 3426Einhver mynd.


2513 - Næstu kosningar

Sá möguleiki er alveg fyrir hendi, ef Framsóknarmönnum tekst að losa sig við SDG og vinna aftur eitthvað af fylgi sínu frá síðustu kosningum, að Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Viðreisn nái meirihluta í komandi kosningum og myndi stjórn. Ekki er þá líklegt að stjórnarstefnan breytist mikið en vafasamt er að sú stjórn hangi út allt kjörtímabilið.

Vinstri og hægri í stjórnmálum mætti sem best kalla „stjórnlyndi“ og „einstaklingsfrelsi“. Mér finnst sagan hafa kennt okkur að farsælast sé að fara bil beggja. Hvorttveggja getur gengið út í öfgar. Enginn vafi er á að stjórnlyndið gekk út í öfgar í Ráðstjórnarríkjunum sálugu og gerir það kannski ennþá í Rússlandi nútímans. Mér finnst sömuleiðis einstaklingsfrelsið í ómenguðum kapítalisma bera dauðann í sér. Bandaríkjamenn hafa tekið upp stjórnlynda stefnu í einstaka málum. Sem Evrópubúa og einkum Norðurlandabúa finnst mér þó að þeir gangi full-langt í frelsis-sóttinni og misskiptingin þar í öllum allsnægtunum getur fyrr eða síðar orðið þeim að verulegu fótakefli.

Ríkisforsjá og ríkisafskipti af atvinnulífi mega alls ekki verða of mikil. Það sýndi Hitler okkur eftirminnilega. Hugsanlega eru Kínverjar þó á réttri leið. Ég hef samt meiri trú á Skandinavísku leiðinni. Evrópusambandið, Kína og Indland eru hugsanlega að verða of stórar einingar ef ekki tekst að koma á fót alheimsstjórn þar sem þjóðríkin hefðu samt verulegt sjálfstæði. Líklega getur ekkert annað komið í veg fyrir styrjaldir milli ríkja með öllu. Borgarastyrjaldir geta alltaf blossað upp, en alheimsstjórn ætti að geta ráðið við það. Að stórveldin séu svo fá og stór sem raun ber vitni getur ekki verið til góðs fyrir heiminn allan þegar til lengdar lætur.

Frá því hefur verið sagt í fréttum að ákveðið lyf sem SÁÁ var vant að kaupa á 525 krónur hafi skyndilega hækkað í 25.000 krónur. Þetta er talsverð hækkun og silkihúfurnar keppast nú við að afsaka þetta. Ótíndur almúgamaður eins og ég freistast til að álíta þetta bara dæmi um tilraun elítunnar til að féfletta þá fátæku. Vel getur samt verið að fleira blandist í þetta og mér dettur ekki í hug að halda að svona mikil hækkun sé algeng og almenningur þurfi að vara sig á svona löguðu. Pólitík og lyfjaverðlagning almennt kunna sem best að blandast í þetta, en þó blandast mér ekki hugur um að umhyggja fyrir þeim sem varla hafa efni á lyfjum er ekki efst í huga þeirra sem þessu ráða.

Þó ég hafi gaman af að skrifa og sé jafnvel búinn að ákveða hvað ég muni kjósa í næstu kosningum sem nálgast víst óðfluga, er ég ekki að hugsa um að auka mín pólitísku skrif á næstunni. Ég hef hvort eð er mjög takmörkuð áhrif og finnst þess utan að mín skrif styðji flokkana svolítið á víxl. Auðvitað gæti ég skrifað ýmislegt fleira um mínar stjórnmálalegu skoðanir en hvort lesendur mínir (sem ekki eru ákaflega margir) mundu taka mig til fyrirmyndar er í besta falli vafasamt. Þessvegna mun ég halda áfram að skrifa bara um það sem mér dettur í hug hverju sinni.

Líklega kýs ég Píratana aftur að þessu sinni eins og síðast. Samt er ég gjörsamlega andvígur stefnu þeirra í stjórnarskrármálinu. Finnst samt að þeir hafi unnið þannig á því kjörtímabili sem nú er að líða að þeir eigi skilið fleiri þingmenn. Þar að auki er stefna þeirra í ýmsu öðru en stjórnarskrármálinu mér að skapi. Nafnið læt ég mér í léttu rúmi liggja þó það sé ákaflega misheppnað.

IMG 3510Einhver mynd.


2512 - New York Times

Ef Donald Trump vinnur í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í haust, sem hugsanlegt (en hæpið) er, þá á ég satt að segja von á að Bandaríkjamenn fari lengra í átt til einangrunarstefnu en verið hefur að undanförnu og afstaða þeirra verði meira í líkingu við það sem var fyrir síðustu heimsstyrjöld. Sáralítil hætta er á að Trump komi mestu æsingsskoðunum sínum í framkvæmd en ekki skyldi vanmeta kynþáttahyggju þá sem enn eimir eftir af í mörgum fylkjum Bandaríkjanna. Ég held satt að segja að íbúar þar meini það þegar þeir segjast vera mestir og bestir. Hjá okkur Íslendingum og fleiri er það bara meinlaus brandari. (Svona fyrir utan öll heimsmetin sem SDG setur.)

“I worry that if those of us in politics and the media don’t do a lot of soul-searching after this election, a slightly smarter Trump will succeed in the future,” said Jon Favreau Mr. Obama’s former chief speechwriter. “For some politicians and consultants, the takeaway from this election will be that they can get away with almost anything.”

Þetta er úr New York Times sem er eitt virtasta fréttablað í heimi. Hingað til hafa þeir verið talsvert á móti Donald Trump og ég lái þeim það ekki. Flestir Íslengingar skilja enskuna ágætlega svo ég nenni ekki að þýða þetta.

Annars eru stjórnmál ekki mitt helsta áhugamál. Hvað er það þá? Eiginlega veit ég það ekki. Ég hef sannarlega engan antipata á stjórnmálum. Finnst samt að peningar og fjölmiðlar hafi of mikil áhrif þar. Sennilega eru áhrif þjóðfélagslegu miðlanna (Facebook, Twitter, Snapchat o.s.frv.) mikið að aukast þessa mánuði eða misserin.

Ekki er fráleitt að frammistaða Íslendinga í liðs-íþróttum ýmisskonar sé með besta móti núna. Hvernig skyldi standa á því? Fyrir fáeinum árum var talað um að það sama ætti við um Noreg. Kannski er það aðstaðan sem þessu veldur. Hvað sem öðru líður er varla hægt að gera ráð fyrir að þetta haldi lengi áfram. En er á meðan er og engin ástæða er til að gefast upp.

Í skákinni (sem fyrst og fremst er einstaklings-íþrótt) hefur okkur Íslendingum farið aftur að undanförnu. M.a. hugsa ég að kenna megi fjölmiðlum um það. Þegar Friðrik Ólafsson var að vinna sína mestu skáksigra, var skákin forsíðuefni. Svo er alls ekki nú. Skákin hentar ekki vel sem áhorfendaíþrótt og kannski geldur hún þess. Boltaleikir eru miklu betur til slíks fallnir. Reglurnar eru einfaldar og allir geta verið sérfræðingar í þeim og fylgst vel með framvindu mála.

Satt að segja er umræðan á fésbókinni (hvers vegna uppnefni ég hana alltaf) orðin helst til pólitísk fyrir minn smekk. Kosningar þær sem boðaðar hafa verið valda þessu kannski, en eiginlega er ekkert víst að af þeim verði.

IMG 3511Einhver mynd.


2511 - Peningar

„Ósköp deyr af fólkinu eftir að útvarpið kom“, sagði kerlingin. Sennilega var það sú sama sem sagði eftir að hafa hlustað lengi á stríðsfréttir: „Það veit ég að þetta endar með því að þeir drepa einhvern“. Hvort skyldi gamalt fólk eða ungt hugsa meira um dauðann? Veit það ekki, en að mestu er það tilgangslaust. Öll deyjum við einhverntíma, a.m.k. ennþá.

Mikill hávaði er í þjóðfélaginu útaf samþykkt alþingis á búvörulögunum með aðeins 19 atkvæðum. Sumir þingmenn gera mikinn greinarmun á hjásetu, að vera ekki við (með eða án leyfis) og mótatkvæði. Aðrir gera það ekki og hefur verið skorað á forseta Íslands að skrifa ekki undir lögin. Ósennilegt er að hann verði við því og einnig er ósennilegt að mjög margir skrifi undir áskorum þessa.

Samkvæmt Fréttablaðinu á að verja 36 milljónum í að veita 100 hælisleitendum styrk til að flytja sjálfviljugir heim aftur. Með öðrum orðum, það á að reyna að múta þeim með að meðaltali 360 þúsundum per kjaft. Sjálfsagt er þetta gróðavegur fyrir einhverja en hælisleitendur voru hér á landi 384 fyrstu átta mánuðina, svo ekki fá allir svo rausnarlegan styrk og heldur er ekki víst að allir vilji það. Að vera fluttur úr landi nauðugur í lögreglufylgd er líka styrkur og jafnvel brennimerking um leið.

Enn er talað um að kvenfólk standi ekki jafnfætis karlmönnun á mörgum sviðum. Vafalaust er það rétt. Að sjálfsögðu má deila endalaust um hraða á framförum, en að um mælanlega afturför sé að ræða á afmörkuðum og mikilvægum sviðum er gjörsamlega óviðunandi og gerir lagalega mismunun réttlætanlega og fjölgar mjög feministum af báðum kynjum.

Í Fréttablaðinu, sem ég las auðvitað eftir að hafa farið í daglega heilsubótargöngu mína er því einnig haldið fram að staða Sigmundar Davíðs sé sterk. Ég leyfi mér að vera á annarri skoðun. Samt hef ég ekki haft samband við neinn framsóknarforkólf og kannski byggist þessi skoðun mín á óskhyggju aðallega, en ég get ekkert gert að því.

Allt í einu fundust hundruð milljóna undir stól borgarstjóra og nú hamast menn við að útdeila peningum sem alls ekki voru til fyrir fáeinum dögum. Að Reykjavík setjist í forystusætið í menntamálum þjóðarinnar vegna þessara peninga er þó alveg óvíst, en kemur væntanlega í ljós síðar.

IMG 3518Einhver mynd.


2510 - Enn hugleiðingar um stjórnmál

Sannir stuðningsmenn stjórnmálaflokka eru oft mjög undrandi á því að andstæðingar þeirra skuli fá nokkur einustu atkvæði. Sú hissun veldur því meðal annars hve erfitt er að koma að raunverulegum umbótum. Samt tosast flest framávið.

Pólitískar hugleiðingar mínar hér á þessu bloggi eru sennilega ekki mikils virði. Íslensk stjórnmál eru nefnilega talsvert skrýtin. Ég er satt að segja svo fjarlægur þeim pólitísku átökum sem ég er stundum að skrifa um. Samt væri kannski hægt að nota það sem ég segi sem einhverskonar meðaltal af því sem venjulegir kjósendur velta fyrir sér.

Líklega kemur fram mótframboð við SDG á flokksþingi Framsóknar sem haldið verður 1. október. Hver leggur í þann slag er ekki vitað nú. Sjálfur held ég að það verði Eygló Harðardóttir. Sterkara yrði samt að það yrði annað hvort Sigurður Ingi eða Höskuldur Þórhallsson. Prófkjör Framsóknarmann í Norð-Austur kjördæmi getur hæglega ráðið því hvernig hlutir æxlast á flokksþinginu.

Mín spá um úrslit í kosningunum í októberlok er þannig að ég á von á að stærstu flokkarnir að þeim kosningum loknum verði Sjálfstæðisflokkur og Píratar, hvor flokkur um sig með nálægt 25% fylgi. VG verði með um það bil 15 prósent, en Samfylking, Framsókn og Viðreisn skipti á milli sín svona 25 prósentum og einhverjir þeirra flokka verði með um 10%. Aðrir flokkar (Björt framtíð, Dögun, Þjóðfylking og hugsanlega fleiri) skipti síðan á milli sín þeim tíu prósentum sem eftir eru. Ekki treysti ég mér til að spá neitt um þingmannfjölda hvers flokks og allsekki um ríkisstjórnarmyndun.

Eitthvað minnir mig að ég hafi verið að fjasa um loftárásir Bandaríkjamanna í síðasta bloggi og jafnframt minnst á Norður-Kóreu. Eftir því sem hið óformlega alþjóðasamfélag (sem líklega er stjórnað af G-20 hópnum eða Bilderbergsamtökunum) segir, er ekki annað að sjá en sú þjóð gangi ansi lagt í því efni að komast í Kjarnorkuklúbbinn. Þau lönd sem þar eru opinberlega fyrir (Bandaríkin, Rússland, Bretland, Frakkland, Indland, Pakistan og Kína) vilja ekki sjá þá þar. Veit samt ekki með vissu um Kína. Meðal óopinberra klúbbríkja má næstum örugglega telja Ísrael og hugsanlega miklu fleiri,

Einu sinni óttuðust menn kjarnorkuna óskaplega, en kannski er sá ótti á undanhaldi eftir því sem Hiroshima og Nagasaki fjarlægast okkur meira. Bandaríkin eru svo öflug sem raun ber vitni í krafti kjarnorkunnar og yfirburða skipulags á flestum sviðum. Annars er þar um margar þjóðir að ræða og í rauninni heila heimsálfu. Þessvegna er þeim svona illa við ESB. Brexit sýnir í mínum augum bara að hægt er að ganga úr því sambandi en ekki geta þjóðir gengið úr USA. Evrópuþjóðir eru líka miklu ólíkari innbyrðis en þjóðirnar í USA. Menning þar er sömuleiðis miklu eldri og heimóttarskapurinn er að mestu farinn af Bandaríkjamönnum.

IMG 3538Einhver mynd.


2509 - Pókemon stjórnmál

Man vel að ég heyrði í fyrsta skipti hinn vinsæla og algenga frasa, um að við mannkynið ættum ekki jörðina heldur að við séum með hana að láni frá afkomendum okkar, hjá Maríönnu Friðjónsdóttur. Þá var hún sennilega að flytja ræðu á vegum Alþýðuflokksins sem í þá daga var til siðs að kalla krata.

Einhversstaðar las ég eða heyrði að meðalævi flestra þjóða hefði lengst um svona þrjá mánuði á ári, undanfarin ár. Sennilega nær maður samt ekki í skottið á sjálfum sér með því móti. Ef hinsvegar meðalævin mundi lengjast um svona 2 ár á ári þá gæti maður kannski gert sér vonir um það. Eða er ég að misskilja þetta alltsaman? Ódauðleiki er sennilega ágætur fyrir mann sjálfan, en ef hann væri reglan er ég hræddur um að ýmislegt væri öðruvísi. Kannski væri að litlu að keppa og a.m.k. mundi eftirlaunaaldurinn breytast talsvert. Hér á Íslandi geta þeir sem nýfæddir eru nú, a.m.k. gert sér vonir um að verða svona rúmlega 100 ára.

Í Svíþjóð held ég að sé bær sem heitir Eskilstuna. Áður fyrr setti ég þetta í samband við heljarmiklu stunu, en nú sé ég að þetta gæti eins verið samsetning úr orðinu eskil (sem vel gæti verið mannsnafn) og tuna (sem alveg gæti þýtt staður eða e-ð þess háttar) og þarmeð verður þetta strax mun skiljanlegra. „Eigi má sköpum renna“ segir máltækið. Það skildi ég áður fyrr (oftast viljandi) nokkuð dónalegum skilningi. Þannig er það með margt. Við skiljum hlutina með okkar skilningi, sem stundum er hinn mesti misskilningur.

Spilafíkn er að líkindum mikið vandamál. Einhver hefur t.d. farið í mál við ríkið fyrir að leyfa fjáröflun með þessum hætti. Sennilega tapar hann málinu. Alþingismenn eru ekki mikið fyrir að viðurkenna eigin mistök og gagnvart ný-yrðum eins og „happdrættisvélum“ glúpna þeir gjarnan. Staðreynd er samt sem áður að t.d. alkóhólismi og eiturlyfjaneysla eru til muna fínni sjúkdómar en spilafíkn.

Kannski er Sjálfstæðisflokkurinn á útleið úr íslenskum stjórnmálum. Margir hefðu eflaust fremur búist við því af Framsóknarflokknum. En kannski er hann með níu líf eins og kötturinn. Nýir flokkar spretta upp eins og mý á mykjuskán. Flestir (nema kannski Píratar) deyja þeir drottni sínum fljótlega.

Margt bendir til þess að meiri órói sé í íslenskum stjórnmálum nú en oft áður. Sennilega erum við fyrst núna að jafna okkur svolítið á hruninu. Kosningarnar í októberlok gætu vel orðið sögulegar. A.m.k. er ekki annað að sjá en miklar breytingar verði á þingliðinu. Margir virðast hafa hug á að auka áhrif sín án þess að fara á þing. En eins og Kári segir þá er Þorgerður Katrín búin að hanna nýja byrjun fyrir sig og kannski verður það Viðreisnarflokknum til bjargar. Annars finnst mér nafn þess flokks næstum eins misheppnað og Píratanna. Sjálfur er ég að hugsa um að stofa Pókemon-flokk.

Það er auðvelt að gagnrýna Bandaríkin fyrir að varpa sprengjum hist og her. Sýrland, Írak, Líbýa, Jemen, Sómalía og Afghanistan og íbúar þar verða að meira eða minna leyti að gera ráð fyrir lofárásum frá mesta herveldi Jarðarinnar. Samt er það svo að kjarnorkutilraunir Norður-Kóreumanna eru hætttulegri okkar vestræna friði og jafnvel heimsfriðnum en þær.

IMG 3565Einhver mynd.


2508 - Virkið í norðri

Má ekki segja að fostisráhan sé feitur? Ég mundi nú frekar segja að hann væri þykkur eða þrekinn. Eiginlega er hann ekkert feitur. Skelfing var leiðinlegt þegar fullorðið fólk var sífellt að tönnlast á því í gamla daga hvað maður væri stór. Nú er ég orðinn bæði stór og feitur. Ætli krökkum þyki það ekki jafnleiðinlegt nútildax þegar alltaf er verið er að kommenta á útlitið. Eiginlega skiptir það engu máli. Innrætið er allt.

Oftast nær þegar ég slysast til að hlusta (með öðru eyranu) á útvarp er verið að spila og fjalla um dægurlagagarg. Flestir sem láta ljós sitt skína þar virðast álíta það merkilegasta hlut í heimi. Sumir eru ekki spor hrifnin af þessum hávaða og vilja fremur hlusta á simfóníugaul. Svo er þriðji flokkurinn sem hvorugu ann. Einu sinni átti útvarp Saga að vera einskonar bólusetning við þeim ósköpum en þar tók ekki betra við. Sennilega skánar þetta ekkert fyrr en hver og einn verður kominn með sína eigin sjónvarps- og útvarpsstöð. Vísir að því er sú nútímatækni sem flæðir yfir allt. Skyndilega skiptir engu máli hver gæðin eru eða stefnan, fjölmiðlar verða aðallega til með fjármagni. Þ.e.a.s. peningum sem hægt er að fleyja í þá botnlausu hít sem fjölmiðlun á Íslandi er.

DV er stytting á dagblaðið Vísir. Sú var nefnilega tíðin að Dagblaðið og Vísir sameinuðust. Nafnið Vísir er þannig tilkomið að þessi ósköp áttu að vera vísir að dagblaði. Auðvitað vita flestir þetta, en kannski ekki alveg allir.

Já, ég hugsa að ég kjósi Píratana. Sumir halda að stefna þeirra snúist fyrst og fremst um höfundarréttarmál. Svo er þó ekki. Í stjórnmálum hugsa ég aðallega um það hvert stefnt er. Það sem ég hef einkum undan Sjálfstæðisflokknum að kvarta er að hann (eða forystumenn hans) virðast fyrst og fremst taka sér atriði úr Bandarísku þjóðlífi til fyrirmyndar. Mér finnst Skandinaviska módelið að flestu leyti betra. Líklega er það vegna áhrifa frá Jóni Baldvini Hannibalssyni sem ég segi þetta.

Gott hjá gráskeggnum úr Hrútafirði að taka að sér að sanna það sem allir (nema fáeinir löfræðingar) hafa alltaf vitað (skv. því sem nú er sagt) varðandi Guðmundar og Geirfinnsmálin. Man vel eftir hve mikla athygli þau mál vöktu á sinni tíð. Dagblöðin stórgræddu á þessu.

Fór á bókasafnið um daginn og fékk m.a. stríðsárabókina eftir Pál Baldvin. Víst er þetta stórvirki mikið en við fyrstu sýn virðist mér þetta einkum vera byggt á blaðaúrklippum frá þessum tíma. Auðvitað er ekki vandalaust að raða þeim rétt og velja. Myndasafnið í bókinni frá þessum tímum er óviðjafnanlegt.

IMG 3816Einhver mynd.


2507 - Kosningar og þess háttar

Hvað pólitík varðar finnst mér stjórnarskráin skipta verulegu máli því hún hefur hugsanlega áhrif á stjórarfarið allt. Ekki var mikill áhugi á að knýja fram úrslit í því máli um það bil sem síðasta kjörtímabili lauk. Nú er þessu kjörtímabili að ljúka og ekki er að sjá annað en a.m.k. Píratar, Vinstri Grænir og Samfylking hafi mestan áhuga á því að tryggja Framsóknarmönnum sem mestan árangur af stjórnarskrármálinu. Þetta segi ég vegna þess að með því að vera á móti þeim breytingum á stjórnarskránni sem þó reyndist vera hægt að ná fram á þessu kjörtímabili sýnist mér sem bara sé verið að þjóna þeim flokki.

Þeir sem lengst eru til vinstri í stjórnmálum þreytast ekki á að halda því fram að greidd hafi verið atkvæði um nýju stjórnarskrárdrögin og þau samþykkt. Svo var ekki. Það var bara samþykkt að byggja á þeim. Síðan er hægt að túlka þá þjóðaratkvæðagreiðslu eins og hverjum sýnist. Að vísu voru nokkur atriði tiltekin og samþykkt. Alþingi (eða réttara sagt sá meirihluti sem öllu ræður) hefur ákveðið, eftir vandlega athugun, að gera það ekki. Framsóknarflokkurinn virðist þó ætla að slá sér upp á stjórnarskrármálinu. Ýmislegt bendir til að staða Sjálfstæðisflokksins sé fremur þröng.

Sennilega er ekki nóg með að Árni Páll Árnason hafi drepið stjórnarskrármálinu á dreif í lok síðasta kjörtímabils heldur er ekki annað að sjá en hann hafi einnig drepið Samfylkinguna eða a.m.k. sært holundarsári í leiðinni. Vitanlega er varasamt að persónugera stjórnmálin með þessum hætti. Andstæðingar SDG og Viggu Hauks gera það samt gjarnan. Satt að segja eru stjórnmálamenn ekki öfundsverðir af hlutverki sínu. Sæmilega er samt borgað fyrir starfið núorðið en svo hefur ekki alltaf verið.

Vel getur farið svo að úrslit kosninganna sem líklegt er að verði í októberlok n.k. verði með líkum hætti og skoðanankannanir benda nú til. Eitt er víst að þær verða allspennandi. Mest spennandi af því sem gerast mun mjög fljótlega er að vita hvort SDG tekst að hanga inni sem formaður Framsóknarflokksins.

Það sem hætt er við að reynist þeim erfitt sem stjórna eru flóttamannamálin. Efnahagslegir flóttamann er nefnilega ekki öðruvísi en aðrir. Miðausturlönd og Afríka eru svo fjölmenn að Vesturveldin, sem lengi hafa haldið þessum svæðum niðri, verða nú að fara að hugsa um fleiri en sjálfa sig.

Veðrið leikur við okkur sem viljum alltaf hafa sólskin umfram allt. A.m.k. er það þannig hér á Íslandi. Ekki finnst mér hafa verið rigningasamt í sumar. Kannski er ekki vert að hrósa veðrinu of mikið. Hjátrúin er líka hættuleg. Kannski er hnatthlýnunin staðreynd.

Eiginlega hef ég alltaf haft svolítinn áhuga á landafræði. Ég get samt ekki svarað því hvers vegna Burma verður skyndilega að Myanmar, Bombey að Mumbai, Peking að Beijing eða Leningrad að Sánkti Pétursborg o.s.frv. Kannski er til lítils að vera að leggja landfræðileg nöfn á minnið og rembast við að teikna allskyns kort í huganum nú á dögum Google earth og GPS.

IMG 3885Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband