2514 - Pólitík og endalausar kosningar

Ekki nennti ég að vaka frameftir um daginn til að hlusta á kappræður Clintons og Trumps. Svo forfallinn er ég nú ekki. Kannski er ég bara svo gamall að ég nenni ekki að vaka frameftir. Finnst miklu betra að fara snemma á fætur. Auðvitað er líka hægt að gera hvorttveggja að fara snemma að sofa og seint á fætur.

Þó Tromparinn sé fremur óvinsæll hjá Evrópubúum er hætt við að hann fái talsvert mörg atkvæði í Bandaríkjunum. Íbúarnir þar eru nefnilega mjög íhaldssamir og hægrisinnaðir ef gamli hægri vinstri kvarðinn er notaður. Kannski er réttara að kalla menn frekar opingáttarmenn og einangrunarsinna eins og mig minnir að Þorvaldur Gylfason hafi einhverntíma gert. Sé það gert, er að því er mér virðist einboðið að kalla Donald Trump einangrunarsinna en að Hillary Clinton tilheyri fremur opingáttarmönnum. Sumum finnst reyndar rangt að kalla Trump einangrunarsinna því venjan er að umsvifamiklir kaupsýslumenn séu hlynntir opinni gátt, en paradoxar eru algengir í stjórnmálum og ekkert við þeim að segja.

Hiklaust má segja að kosningabaráttan í Bandaríkjunum veki meiri athygli í þetta skipti en oftast áður bæði hér á Íslandi, Bandaríkjunum og miklu víðar. Ekki veit ég hvers vegna það er, en Trump á áreiðanlega þátt í því. Og þau bæði reyndar.

Held að þriðjudagskvöldið hafi verið undirlagt af pólitík a.m.k hjá sumum. Sjálfum finnst mér heldur óspennandi að fylgjast með stjórnmálum. Þetta er allt sama tóbakið. Loforð á loforð ofan. Næstum því jafnóspennandi og norðurljósavællinn. Hverjum þykir sinn fugl fagur og á margan hátt eru stjórnmálaflokkarnir orðnir einsog knattspyrnulið. Tvö lið berjast venjulega á alþingi og kalla sig stjórn og stjórnarandstöðu og þó tilheyri að vera á móti öllu sem frá hinu liðinu kemur eru umræðurnar fremur óspennandi og í litlu samræmi við aðgerðir.

Vigdís Hauksdóttir er ekki nærri eins vitlaus og sumir telja hana vera. Til dæmis er það alveg rétt sem hún segir um Vaðlaheiðargöngin og framkvæmdirnar á Bakka. Grímulausara kjördæmapot hefur vala sést hér á Íslandi. Í mínum augum er fyrrverandi fjármálaráðherra meistari í slíku. Ekki er að sjá annað en hann hafi allt sitt á þurru þó nefndar framkvæmdir komi til með að draga á eftir sér langan slóða vandræða. Annars er ég ekki vel til þess fallinn að fjölyrða um þetta.

Í pólitíkinni virðast allir vilja bæta heilbrigðiskerfið og hlúa að öldruðum og öryrkjum. Efndir verða samt litlar, ef að líkum lætur. Því sem þjóðin hefur sagt á undanförnum árum er lítið sinnt. Reynt er með öllum ráðum að koma í veg fyrir að þjóðin láti álit sitt í ljósi og ef einhverju er breytt eru hagsmunir stjórnmálaflokkanna öllu ofar. Kjósendur eru bara spurðir um einskisverð mál eða ekkert mark á þeim tekið. Icesave var undantekning og ekki er líklegt að annar eins afleikur verði endurtekinn bráð.

Íslendingar hljóta að vera kleinuhringjaóðir. Samkvæmt nýjustu fréttum er fjöldi kleinuhingjarisanna í Reykjavík að tvöfaldast á næstunni. Kannski það séu samt einhverjir aðrir sem eru kleinuhringjaóðari en Íslendingar. Hugsanlegt er að Bandaríkjamenn séu þeir kleinuhringjaóðustu í veröldinni. Get bara ekki ógrátandi minnst á allan þann sykur sem fer forgörðum í svona steypu.

IMG 3426Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband