Bloggfærslur mánaðarins, desember 2016

2558 - When hell freezes over

Þessi sífelldi gamalmennasöngur í mér hljómar eflaust hálfleiðinlega í eyrum þeirra sem ekki eru gamalmenni sjálfir. Áhrif hefur þetta eflaust ekki nein. Samt á ég í erfiðleikum með að koma mér uppúr þessum gír. Þegar drullan er svona mikil er heldur ekki víst að skiftingin komi að gagni og auki hraðann. Honum reyni ég að halda upp með því að vaða úr einu í annað.

„When hell freezes over“ er vinsælt að segja á ensku og vel mætti snúa því á íslensku þannig: Þegar allt frýs í helvíti. Gallinn er bara sá að það er víst bær í Noregi sem heitir Hell og líklega er stundum frost þar. Sá staður sem við Íslendingar kennum öðrum fremur við hita hér á jörðinni er Sahara eyðimörkin. Auðvitað er Sahara fyrst og fremst eyðimörk vegna úrkomuleysis. Þó snjóaði þar víst um daginn og elstu menn muna varla eftir öðru eins. Samt er sagt að snjóað hafi þar um slóðir árið 1979 og hver veit nema elstu menn hafi þá verið fæddir. Þar að auki er aldrei hægt að segja að veðurfar sé venjulegt og ekki er þetta til marks um að heimshlýnun af mannavöldum sé tóm ímyndun. Kannski gengur hún ekki alveg eins hratt fyrir sig og æstustu fylgismenn þeirrar kenningar halda fram, en að afneita henni með öllu er hrein fáviska. Einnig er eflaust stundum gert of mikið úr afleiðingum heimshlýnunar og mengunar. En ræðum ekki meira um þetta. Það er of neikvætt. Við eigum einmitt að vera dálítið jákvæð og nú eru það Jólin sem eiga að gera okkur sem jákvæðust.

Sennilega koma þau hvort sem okkur líkar betur eða verr. Já, ég á við Jólin. Sjálfsagt er að gera sér glaðan dag um þetta leyti, en fyrir marga er þessi tími beinlínis varhugaverður. Víst er að sumir ganga alltof langt í eyðslu um þetta leyti, en við því er ekkert að gera, eða a.m.k. lítið. Að sumu leyti hafa Jólin ekkert með trúarbrögð að gera. Skynsamlegt er fyrir okkur sem norðrið byggjum að hafa þau um þetta leyti, en fyrir aðra er það varla gáfulegt. Tímatal okkar byggist að flestu leyti á skynsemi og þó sumar trúarlegar hátíðir flakki svolítið um á það ekki við um jólin. Það flakk er eingöngu trúarbragðanna vegna, en ekki vegna skynsemisskorts.

Einu sinni rugluðust norðanmenn í ríminu og vissu ekki hvenær páskar voru eða áttu að vera. Að endingu varð það úr að sent var þvert yfir landið að Skálholti til þess að fá að vita þetta. Þaðan er orðtakið að ruglast í ríminu komið, en rím getur eins og kunnugt er einnig þýtt tímatal.

Bandaríki Norður Ameríku eru augljóslega forysturíki hins vestræna skipulags. Hið vestræna skipulag hefur sýnt sig að vera efnahagslega vel heppnað. En er víst að það taki öðrum fram á öllum sviðum? Auðvitað er efnahagsleg afkoma grundvöllur margs annars, en tæpast alls. Er ekki hugsanlegt að annað skipulag henti sumum betur. Auðlegð Vesturlanda og arðræning annarra skipulagsheilda er það sem er að fara með heiminn til fjandans. Ekki síður en hnatthlýnunin og mengunin. Lífið er aðallega samsett úr gráum tónum. Ósköp væri allt miklu auðveldara er allt væri svart eða hvítt og allir menn annaðhvort góðir eða illir.

IMG 2468Einhver mynd.


2557 - Hæ, tröllum á meðan við tórum

Fyrst þau hjá kjararáði eru svona flink í prósentureikningi væri þá ekki réttast að láta þau reikna prósentur ofan á ellilaunin og jafnvel lífeyrisgreiðslurnar úr lífeyrissjóðunum líka. Auðvitað er þetta hótfyndni en hvað annað getur maður gert, þegar ræningjar ráða öllu hér á landi. Það er ekki nóg með að þeir ráði launum okkar heldur eiga þeir víst líka að ráða því hvort við lifum eða deyjum. Ég skal útskýra þetta svolítið þó ég sé enginn Jóhannes útskýrari. Kjararáð ræður hve há laun alþingismenn og ráðherrar hafa og aðrar stéttir fara eftir því. Þessi hávaði í þingmönnum útaf því að launin þeirra séu of há er eins og hvert annað mjálm. Þeir munu taka við þessum launum með græðgisglampa í augum þegar þar að kemur og kannski eru þeir búnir að því. Eftir því sem þingmenn og aðrir menn fá hærra kaup munu þeir gera minna. Það vita allir. Þar með munu þeir ekki nenna að lagfæra heilbrigðiskerfið. Sannið til.

Vitanlega er ég svartsýnn. Hvernig er annað hægt? Hver maður sem ekki verður sósíalisti á því að kynna sér stjórnmál er heimskur. Þessa visku hafa margir eignað Georg Bernhard Shaw og kannski er það rétt. Fullyrðingin er einnig að líkindum rétt. Þó er ekki þar með sagt að þörf sé á því að eyða öllu lífinu í fýlu. Sumt getur alveg verið skemmtilegt þó annað sé leiðinlegt og sorglegt. Uppgerðarkæti er þó lítils virði. Það sem helst getur gert okkur, sem komin erum á grafarbakkann eða svotil, fært að líta glaðan dag er sú fullvissa að mannkynið sé að fara til fjandans. Fjölmiðlarnir mæla þessa glórulausu svarsýni líka upp í okkur. Veðurfarið á að vera að versna. Flóttamennirnir fremja sífellt fleiri glæpi. Heimshlýnunin og mengunin á að ganga af mannkyninu dauðu og ofan á allt saman kann unga kynslóðin ekki einu sinni að lesa. Hvar endar þetta eiginlega? Smartsímarnir fara bráðum að tala saman sín á milli án þess að mannshöndin eða mannsvitið kom þar nokkurns staðar nærri.

Nei, það eiga allir að vera jákvæðir? Jafnvel þó jákvæðnin gangi af mönnum dauðum. Helst eiga allir að vera talsvert skemmtilegir líka. Veit ekki hvernig þetta getur farið saman í brjáluðum heimi. Annars er um að gera að skemmta sér undir drep, því annars gæti það orðið of seint. Vörum okkur samt svolítið á jákvæðinni. Það er einmitt hún sem gerir starf (já,  þeir starfa stundum) ræningjanna og ríkisstjórnanna auðveldara. Meðvirknin er alltumlykjandi. Annars er ég sífellt að sjá fleiri og fleiri sannanir fyrir því að lífið sé allt saman einn stórkostlegur brandari.

Það er ekki bara hér á Íslandi sem gamalt fólk er hundelt og rænt. Var einmitt að lesa grein í áreiðanlegum fjölmiðli frá Bandaríkjunum þar sem frá því er greint að yfirvöld í því landi taki stóran hluta af ellistyrk fjölda fólks og kalli það endurgreiðslu á námslánum. Þar í landi geta yfirvöld ekki ofsótt ættingjana eftir lát viðkomandi og kalla því það sem tekið er oftast nær vexti og kostnað og gæta þess þannig að námslánaskuldin lækki ekki og hundelta fólk fram á grafarbakkann og afskrifa lánið þegar tekist hefur að koma því í gröfina.

„Icelandair“ skilst mér að sé alveg óskylt fyrirtækinu Flugfélagi Íslands. Auglýsingadeild nefnds fyrirtækis (Altsvo Icelandair) virðist af einhverjum illskiljanlegur ástæðum hafa komist að þeirri niðurstöðu að því lengri og leiðinlegri auglýsingar sem þeir birta því betri séu þær. Eflaust eru þær það frá sjónarmiði RUV eða annarra birtenda, en ekki er víst að sú sé grunnhugsunin. Kannski halda menn hjá Iclandair að því oftar sem þeir láta birta þessa vitleysu því fleiri vilji flúga með þeim. Ekki er líklegt að svo sé.

IMG 2481Einhver mynd.


2556 - Eiturlyf

Ef þingkosningar færu fram núna fljótlega (ástæðulaust að bíða fram í júní) mundi einkum verða kosið á milli þeirra lausna sem mest hafa verið í athugun að undanförnu. Það er annarsvegar stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og hinsvegar þessarar 5 flokka stjórnar sem Birgitta og Kata litla hafa verið að athuga. Auðvitað er sennilegt að möguleikarnir breyttust eitthvað en ekki á ég von á því að samstjórn íhalds og frammara mundi fá líf sitt framlengt. Allsekki er víst að þingmönnum yfirleitt hugnist þessi aðferð því óhjákvæmilega myndu einhverjir þeirra detta út. Guðna er samt trúandi til að leyfa öllum þingflokkaformönnum að spreyta sig á stjórnarmyndun fyrst.

Annars er það að verða fremur þreyttir spádómar sem fjalla um væntanlega stjórnarmyndun eða stjórnarmyndunartilraunir. Kannski fáum við nýja ríkisstjórn á þessu ári og kannski ekki fyrren á því næsta. Mér er eiginlega sléttsama.

Er lögreglan virkilega að stela? Lögreglan lagði hald á ýmislegt í sambandi við rannsókn á einhverju máli. Skartgripirnir sem haldlagðir voru finnast ekki. Finnst ykkur þetta með haldlagða skartgripi ekki alveg stórkostleg íslenska? Þetta er stóralvarlegt mál. Eiginlega má lögreglan alls ekki stela. Vonum bara að það hafi verið einhverjir aðrir.

Á í miklum vandræðum með að viðurkenna sem réttmæt rök þau sem haldið er fram af mönnum sem kunna illa stafsetningu. Greinilega fjölgar þeim mjög sem láta sig hafa það að láta ljós sitt skína án þess að hafa minnstu þekkingu á venjulegri stafsetningu. Auðvitað eru þetta fordómar. Vitanlega geta menn sem lítið kunna í stafsetningu haldið fram gildum rökum ekki síður en aðrir. Ég er bara svona illa gerður. Verða rök mín eitthvað betri þó ég sé sæmilegur í réttritun. Eflaust ekki. Datt þetta í hug núna rétt áðan þegar ég last greinina um fávitana sem ekki láta bólusetja börnin sín og viðbrögðin við henni. Vissi ekki að Donald Trump hefði haldið þessu fram. Fannst margt í grein Sifjar sem sneri að úthúðun Trumps vegna útlits hans draga heldur úr krafti greinar hennar. Veit samt að einn af veikleikum Trumps er að trúa um of á hvers kyns samsæriskenningar.

Sagt er að yfir 50 þúsund bandaríkjamenn deyji árlega af ofneyslu eiturlyfja. Held að sambærilegar tölur séu ekki fyrir hendi hér á Íslandi. Kannski eru þær það á Filippseyjum enda er slátrun fólks án dóms og laga sögð þar meiri en víðast annarsstaðar. Duterte forseti Filippseyja er sagður standa fyrir þessari slátrun og sagt er einnig að hann misnoti sjálfur Fentanyl sem er víst svona 100 sinnum öflugra en Morfín. Kannski eru þetta alltsaman þjóðsögur, en ég held samt ekki.

Það var fyrir fisk sem þessi garður var ull. Gátur af þessu tagi voru vinsælar í mínu ungdæmi. Þessi setning gæti verið svona: Það var fyrir löngu að þessi garður var lagður. Svona getur nú íslenskan verið skemmtileg.

IMG 2520Einhver mynd.


2555 - Sigurður þarf að gera Sigmund óskaðlegan

Eiginlega er ekkert spennandi að vera gamall. Jú, maður þarf ekki að fara til vinnu og getur þessvegna legið eins lengi í rúminu og manni sýnist. Þegar nýjabrumið er farið af því, sýnist manni hinsvegar ekki að vera mjög lengi þar, m.a. vegna pissuþarfar. Það er nú svoleiðis með mig að ég vakna oft um miðjar nætur og get ekki sofnað aftur. Það er ekkert spennandi. Heldur ekki að verða syfjaður og þreyttur snemma kvölds. Í það heila tekið er ævikvöldið ekkert sérstaklega spennandi. Það væru þá helst barnabörnin, sem eru að sjálfsögðu óviðjafnanleg. Gallinn er bara sá að þau fullorðnast alltof fljótt. Jákvætt er þó að þurfa ekki að bera neina ábyrgð á uppeldi þeirra. Heimurinn virðist nefnilega syndum spilltari en í gamla daga.

Svona lagaðar speglasjónir (spekúlasjónir á góðri íslensku) eru mér eiginlegar. Þarf ekkert að hafa fyrir þessu. Set bara aðra eða þriðju hverja hugsun á blað og þá er þetta komið. Bráðum þarf ég að fara uppí Melahverfi því Tinna er að koma úr skólanum. Pabbi hennar er í vinnunni og mamma hennar að taka próf. Svoleiðis er nú það. Og ekkert að því að finna.

„Og ég sem átti eftir að vaska upp.“ Sagði Lási kokkur eitt sinn þegar honum var sagt frá því að skipið sem hann var á væri að farast. Svona er þetta oft. Við fárumst yfir því sem við fáum með engu móti ráðið við, en sættum okkur við allskyns kárínur ef okkur sýnist þær koma yfirboðurum okkar til góða. Um þetta gæti ég nefnt mörg dæmi en geri ekki því einhver gæti verið svo meðvirkur með blessuðum yfirboðurunum að ég yrði kærður fyrir vikið. Ekki er ég eins frægur og Kári Stefánsson. Hann getur látið allan fjárann frá sér fara án þess að vera lögsóttur. Þannig virkar meðvirknin. Og ekkert við því að segja. Kári er svosem nógu ákveðinn en sennilega taka þeir sem það ættu að gera ekkert mark á honum.

Furðulegt að allir virðast álíta að ef bara stjórnarmyndunarviðræður yrðu formlegar þá væri eiginlega komin ríkisstjórn. Ekki álít ég svo vera. Umboð það sem forseti Íslands veitir er líka einskis virði. Hver sem er getur myndað ríkisstjórn, sitji hann á þingi. Að vísu mundi hann þurfa að láta forsetann vita að meirihluti væri fyrir hendi.

Margt er skrýtið í kýrhaus íslenskra stjórnmála en líklega er VG skrýtnasti flokkurinn. Ekki virðist hann hafa hugmynd um hvort hann vill í ríkisstjórn eða ekki. Hinir flokkarnir virðast flestir vilja fara í ríkisstjórn. Enginn vill samt vera með Framsóknarflokknum þó hann sé orðinn hundrað ára, eða kannski er það einmitt vegna þess.

Ætli Sigurður forsætis sé sá kraftaverkamaður sem beðið hefur verið eftir. Líklegast er að Guðni láti hann næst fá umboðið og að hann verði snöggur að fá kerfisflokkana (Sjálfstæðis og græningjana) til fylgilags við sig. Kannski þarf hann að gera Sigmund óskaðlegan fyrst. Eiginlega truflar hann málin töluvert. Enginn trúir á nýja Framsókn meðan hann er innanborðs og ekki með öllu óskaðlegur.

IMG 2573Einhver mynd.


2554 - Falskar fréttir og fleira

“Unga fólkið í dag lifir langt umfram efni. Það situr á kaffihúsum og veitingastöðum og neytir matar og drykkjar á milli tíma í skólum. Fer á milli í einkabílum, klæðist nýjustu tísku og neytir eins og fullorðið fólk með góðar tekjur. Vorkenni ekki þeim sem kvarta undan slæmum fjárhag. Þau ættu að fara með nesti í skólann í strætó og almennt velta hverri krónu á milli handanna. Þá fyrst færi ég að hlusta af alvöru á kvartanir þeirra.”

Þessi klausa er úr fréttabréfinu hans Eiríks Jónssonar, sem staðsett er á fésbókinni og ég hlýt  einhverntíma að hafa slysast til gerast áskrifandi að. Er unga fólkið virkilega svona? Ég held ekki. Kannski eru einhverjir það og sumir þeirra eru eflaust ungir að árum. Þó ég hafi ekki haft döngun í mér til að hætta að fá þetta árans fréttabréf, er því ekki að leyna að fundvís á ýmsar fréttir er hann Eiríkur og hefur ágætis sambönd. Eyðileggur þó kannski eitthvað fyrir öðrum slúðurblöðum með því að hafa þetta ókeypis.

Kári er beittur. Það má hann eiga. Nú tekur hann Bjarna Benediktsson og alþingi íslendinga til bæna og lætur hvína í. Það hefur verið margsýnt framá það að mikill meirihluti Íslendinga vill gjarnan láta heilbrigðiskerfið vera í langfyrsta sætinu á forgangslistanum þegar kemur að því að skipta þeim peningum milli manna, sem Bjarni sjálfur segir og gefur í skyn með ýmsum hætti að séu heilmiklir. Af hverju í fjandanum gerir maðurinn það ekki?

Skelfing eru þessar Ólafíur orðnar margar. Maður fylgist varla með þessu öllu saman. Ólafía er golfsnillingurinn. Tölum ekki meira um hana. Ólafía er annar húðflúrarinn sem var sprengdur í loft upp af samkeppnisfyrirtækjum eftir því sem einhverjir sögðu. Og sá sem fór að gráta útaf því að hann vann ekki á Olympíuleikunum ætlaði endilega að gera það fyrir Ólafíu sína. Eða það minnir mig a.m.k. Ekki er nú frumleikanum fyrir að fara hjá landanum. Svona er þetta bara. Bið allar Ólafíur landsins afsökunar á þessu tuði.

Falskar fréttir eru mörgum til ama. Okkur fullorðna fólkinu hættir til að álíta alla sem hafa ekki kosningarétt einn hóp. Börnin sjálf gera skýran greinarmun á börnum, smábörnum, krökkum, unglingum og táningum. Spyrjið bara kennara. Þessi munur er ekki alltaf eins og það getur valdið vissum vandræðum. Ég nefndi líka falskar fréttir hérna fyrr í þessari málsgrein. Já, þetta tengist. Kennarar eiga í vaxandi erfiðleikum með að kenna ungu fólki og börnum að skilja muninn á fölskum fréttum og sönnum. Allt fer þetta eftir uppruna þeirra og trausti viðkomandi á uppsprettunni. Okkur finnst auðvelt að gera greinarmun á Baggalútsfréttum og raunverulegum fréttum. En kannski finnst ekki öllum það. Og þessar fölsku fréttir eru ekki alltaf vitund fyndnar. Beinlínis hræðilegar stundum. Og það er vel hugsanlegt að þær hafi áhrif á einhverja.

Vissulega er það spurning hvort við verðum bara þrælar þeirra uppfinninga í félagslegum miðlum sem tröllríða nú hinum vestræna heimi eða hvort okkur tekst að ná valdi á þeim. Internetið og snjallsímarnir eru langt komnir með að gjörbreyta heiminum. Auðvitað ógnuðu Presley og Bítlarnir öllum gildum á sínum tíma. En er ekki hætta á að Netið, símarnir og tölvuleikirnir geri það núna? Tölvubyltingin sem nú á sér stað er hugsanlega gagntækari en iðnbyltingin svonefnda eða aðrar smábyltingar sem dunið hafa á okkur á undaförnum öldum.

IMG 2590Einhver mynd.


2553 - Verður Birgitta forsætis?

Þetta sem hér fer á eftir skrifaði ég og setti á bloggið mitt þann 10. Desember 2013. Gjörið svo vel:

Það var síðastliðið sumar sem um það var rætt að gera Ásgautsstaðamálið opinbert. Ekki svo að skilja að ekki hafi verið rætt um það fyrr. Aldrei hefur samt orðið neitt úr því að opinberlega væri um málið fjallað. Bloggið mitt er í þeim skilningi opinbert að þónokkuð margir eru vanir að lesa það. Jafnvel væri hægt að kalla það fjölmiðil af einhverju tagi, ef löngun væri til.

Eftir talsverðar rökræður var mér falið að kanna hvort fjölmiðlar hefðu e.t.v. áhuga á málinu. Meðal annars sendi ég fyrrverandi vinnufélaga mínum bréf um þetta. Svarið frá honum var á þá leið að þó helstu fjölmiðlar hefðu hugsanlega ekki áhuga á þessu væri tvímælalaust rétt að gera það opinbert. Þetta var í júlí í sumar. Af ýmsum ástæðum varð ekki úr neinum framkvæmdum þá. Ég tók samt saman helstu staðreyndir málisins í örstuttu máli.

Konan mín og systkini hennar eru erfingjar að níunda hluta jarðarinnar Ásgautsstaðir við Stokkseyri. Lögfræðingur í Reykjavík hefur verið með mál í gangi í mörg ár útaf misnotkun sveitarfélagsins Árborgar (og áður Stokkseyrar) á jörðinni. Fulltrúar sveitarfélagsins virðast leggja áherslu á að tefja þetta mál eftir megni. Það er ekki útaf vantrausti á lögfræðingnum sem ég birti þetta. Þarna er um sakamál að ræða sem á sér langa sögu og tengist húsbyggingum á Stokkseyri, sýslumannsembættinu á Selfossi og Bæjarstjórn Árborgar. Um er að ræða óheimila notkun lands, ólöglegar byggingar, skjalafals og hugsanlega ýmislegt annað.

Lögfræðingurinn hefur kært þetta mál til sérstaks saksóknara en mér skilst að hann telji þetta vera einkamál. Ég tel hinsvegar að skjalafals opinbers embættismanns geti ekki verið það.

Þau systkinin vilja gjarnan fá að vita hvers vegna sýslumaðurinn á Selfossi svarar ekki bréfum sem til hans eru sannanlega send. Þarna á ég við bréf sem lögfræðingur meginhluta erfingjanna að jörðinni hefur sent honum. Svo virðist sem málið sé strand hjá sýslumanni núna og hafi verið það alllengi.

Álit mitt á lesendum þessa bloggs er mikið og ein af helstu ástæðum þess að ég skrifa um málið hér og nú er sú að ég vil gjarnan fá ráðleggingar um æskilegt framhald þess.

Allar þær fullyrðingar sem fram koma í þessari bloggfærslu er hægt að færa fullkomnar sönnur á með ljósritum og staðfestum afritum úr embættisbókum.

 

Svo mörg voru þau orð og mér finnst alveg vera kominn tími til að endurtaka þetta.

IMG 2592Einhver mynd.


2552 - Bergur Ebbi

Eiginlega er varla hægt að komast hjá því að minnast á afrek Ólafíu Þórunnar. Golfari er ég samt enginn. Kom á óvart að hún þurfti að borga milli 6 og 700 þúsund dollara í þátttökugjöld til að komast þetta langt. Eiginlega veitti henni alls ekki af því að fá hálfa milljón í verðlaun.

Ríkisstjórnarlaus verðum við sennilega um þessi jól og það ætti að vera í lagi. Betra er samt að þingmenn geti komið sér saman um eitthvað. Vissulega eru Framsóknarmenn í tapstöðu en samt kann að vera svo að ekki verði mynduð stjórn án þeirra afskipta. Auðvelt ætti að vera að draga Sigmund Davíð frá þingstyrk þeirra, en kannski eru menn hræddir við að áhrif hans virki á fleiri en Gunnar Braga.

Langbesti penninn í Fréttablaðinu er Bergur Ebbi. Ég les hann alltaf (held ég) og hann bregst aldrei. Heimspeki hans er heimspeki mín. Hann hittir bókstaflega alltaf naglann á höfuðið. Prófið bara að lesa hann. Þið verðið sko ekki svikin. Að sumu leyti er þetta auðvelt. Vera bara á móti viðteknum skoðunum og rökstyðja það vel. Annars skiptir rökstuðingurinn öllu máli. Án hans væri þetta einskisvert. Og svo er að finna það sem ekki er of erfitt að rökstyðja. Þar að auki skrifar hann ekki daglega í Fréttablaðið. Eða það held ég ekki. Nægilega oft samt fyrir mig.

Flýði núna áðan frá sjónvarpinu því þar var einhver lesbískur erótískur mandarínuþáttur (mér er alvara - þetta var kynnt svona.) Ég er nefnilega ekki í stuði fyrir svoleiðis þætti. Samt þykir mér mandarínur nokkuð góðar eða voru það annars klementínur. Heyrði í sjónvarpinu áðan að Birgitta telur svona 90 % líkur á að sér takist að mynda ríkisstjórn. Efast um að allir séu svona bjartsýnir.

Auðvitað vill Jón Steinar að Markús hæstaréttarforseti segi af sér. Upplýsingarnar gætu sem best verið frá honum ættaðar. Annars er ég eiginlega alveg sammála Jóni Steinari þarna. Það er alls ekki nóg að framámenn í þjóðfélaginu grípi jafnan í það hálmstrá að það sem þeir hafi gert sé ekki brot á lögum. Jafnvel heimskustu undirmálsmenn vita að lög eru ófullkomin. Þó dómarar og pólitíkusar sveigi sínar aðgerðir með hundakúnstum undir lagabálka sem þeir hafa sjálfir samið eða starfsmenn þeirra fundið eftir langa leit verða þjófnaðir þeirra og svik ekkert afsakanlegri við það. Við vitum mætavel um afbrot þeirra og sérgæsku samt sem áður.

Reyndar skammast maður sín oft fyrir að vera karlmaður. Kvikmyndin „Síðast tangó í París“ er ekkert lélegri en margar aðrar sem fá lofið aðeins vegna fyrri frægðar leikstjóra og aðalleikara. Mér finnst ekki skipta öllu máli hvort um raunverulega nauðgun hafi þarna verið að ræða eða ekki. Þó hallast ég að því að þetta hafi verið samantekin ráð saurlífisseggjanna sem öllu réðu. Kannski er þetta fyrsta eða síðasta raunverulega nauðgunin á hvíta tjaldinu. Samt sem áður þykir mér matur bestur sé hann steiktur upp úr smjöri.

IMG 2600Einhver mynd.


2551 - Pisa

Ég held við ættum að hætta að taka þátt í þessum Pisa-rannsóknum. Við erum hvort eð er alltaf neðst þar eftir því sem fréttir herma. Það er ekki vani að halda á lofti rannsóknum á þáttum sem við erum ekki best í svo það ætti eiginlega að vera sjálfhætt í þessum ósköpum. A.m.k. birta það ekki með svo áberandi hætti sem gert hefur verið.

Orðalag í helstu fjölmiðlum landsins er oft fyrir neðan allar hellur. A.m.k. hefur Eiður Guðnason nóg að gera við leiðréttingar sem þó virðast með öllu tilgangslausar. Sama er að segja um fésbókaraðfinnslur. Ekkert virðist hrína á þeim sem ákveðnir eru í því að misþyrma málinu. Þó margt og mikið mætti tína til sem mér finnst ámælisvert í sambandi við góða íslensku þá reyni ég að stilla mig því ég veit, eða þykist vita, að fáir hafi til lengdar þolinmæði gagnvart sífelldum leiðréttinum. Svo er ekki einu sinni víst að ég hafi alltaf á réttu að standa. Ef maður er í vandræðum með eitthvað má næstum alltaf orða hlutina öðruvísi.

Þá er búið að setja alþingi og gekk það stórslysalaust. Steingrímur var kosinn forseti eins og hann langaði víst til. Ekki er samt ennþá búið að mynda ríkisstjórn, en Birgitta segist fremur vongóð um að það takist í þetta sinn. Annars fær Sigurður forsætis umboðið. Hann ætti nú að vera fljótur því enginn vill vera með Framsókn. Þar á eftir kemur röðin víst að Benedikt í Viðreisn og líklega verður hann fljótur að hlaupa í fangið á Bjarna Ben.. Ekki er ég frá því að þangað hafi hann alltaf langað. Þó er klofningurinn skrýtinn ef þessi verður raunin.

Markúsarmálið sem Kastljósið setti á flot virðist ætla að koðna niður. Fjölmiðlar hafa kannski ekki haft neitt til að fylgja því eftir með og hver veit nema ábendingar þeirra hafi frá upphafi byggt á röngum upplýsingum. Kannski er Krúsi greyið saklaus af þeim ávirðingum sem gefnar voru í skyn í Kastljósþættinum. Þar með hefur Kastljósfólkið sennilega kastað frá sér þeim „kudos“ sem það fékk af Brúneggjamálinu. Kannski þau taki fyrir Ásgautsstaðamálið næst. Segi bara svona. Annars finnst mér þetta mál með þeim athyglisverðari sem fram hafa komið að undanförnu. Valdsvið fjölmiðla er ekki síður hér undir en persónuvernd dómara. Gallinn við margt af því sem fram kemur í fjölmiðlum um þessar mundir er að það fær ekki þá umfjöllun sem það ætti skilið.

Eiginlega er ég mest hissa á veðrinu. Í morgun þegar ég fór út að ganga sagði síminn minn að hitinn væri 9 stig. Sennilega var það alveg rétt hjá honum. En mikið assgoti er birtutíminn stuttur um þessar mundir. Ætli veðrið verði ekki svolítið verra í febrúar og mars. Kannski hefnist okkur fyrir að fá svona gott veður núna. Annars held ég að það sé ekkert víst.

Það er að æra óstöðugan að minnast á stjórnarmyndun hérna. Held að það sé raunverulega stjórnarkreppa hér og hún leysist ekki nema með endurteknum kosningum. Bráðurm fer Guðni að hóta því að skipa utanþingsstjórn. Aðalhlutverk hennar gæti verið að finna réttan tíma fyrir næstu kosningar. Hugsanlega lagast vinnubrögðin á alþingi við þetta. Sárt er að sjá þingmenn stinga í vasana góðu kaupi fyrir ekki neitt. Þeir viðurkenna jafnvel sjálfir að framkoma þeirra sé fyrir neðan allar hellur. Sennilega væri til bóta að svipta þá kjörgengi alla sem einn.

loftsteinnEinhver mynd.


2550 - Stjórnarmyndun II og III

Af hverju er fjallað meira um það í fjölmiðlum ef Trump bjargar eitt þúsund störfum en ef Obama útvegar 16 milljónum ný störf. Að þessu spyrja stuðningsmenn Obama og skilja þetta ekki. Sannleikurinn er einfaldlega sá að Trump kann bara á fjölmiðla en Obama ekki. Þó hann sé á margan hátt frábær ræðumaður. Fjölmiðlar geta haft eins marga Jakobi Bjarnar Grétarssyni í sinni þjónustu og þá lystir til að neita því að þeir hafi nokkur áhrif, en það breytir engu og er bara ekki svo. Mér finnst eðlilegt að kenna fjölmiðlum um allt sem miður fer. Hvort sem það er hérna á Íslandi eða einhversstaðar annars staðar í heiminum. Auðvitað væru áhrif þeirra ekki svona augljós ef þeir skrifuð eingöngu fyrir sér gáfaðra fólk. Það gæti þá myndað sér skoðun án þeirra hjálpar. Svo er samt alls ekki. Mér finnst áhrif þeirra vera svo augljós. T.d. má benda á brúneggin sem hæst ber um þessar mundir. Meðan þónokkuð margir vissu af þessu m.a. vegna vinnu sinnar gerðist ekki neitt. En um leið og þetta komst í hámæli hjá fjömiðlinum Kastljósi var fjandinn laus og ég er viss um að þetta fyrirtæki á sér ekki viðreisnar von. Og hænurnar ekki heldur.

Annars nenni ég ekki að fjölyrða um þetta brúneggjamál, mér finnst það of ómerkilegt til þess. Frekar vil ég tala um veðurfarið sem er alveg einstakt. Eða jafnvel stjórnarmyndunina sem fáir þreytast á að fjölyrða um. Kannski Birgittu takist það sem engum hefur tekist hingað til. En það er að fá Benedikt og Ótarr til að dansa á sitt hvorri línunni. Útkoman úr þessu ástarsambandi þeirra er óþrjótandi neikvæðni. Þeir eru bara á móti öllu. Ef annar hvor þeirra er á móti einhverju þá finnst hinum að hann verði að vera það líka. Þannig skapast neikvæðnin hjá þeim og þegar hún bætist við neikvæðni þriggja annarra flokka er ekki von á góðu. Annars ætla ég ekki að fjölyrða mikið um stjórnarmyndun. Hún virðist ekki vera á döfinni. Gott ef þetta endar ekki með ósköpum. Ég meina það. Ætla þessir blessuðu þingmenn ekki að halda uppá jólin, eða hvað.

Er ég „introvert“? Kannski. Eiginlega ættu introvertar að vera ennþá betri skrifarar en extrovertar. Þeir þykjast a.m.k. geta gert allt sjálfir. En er að marka það? Eru þeir ekki bara að kalla á hjálp? Mér finnst að allir ættu að vera annaðhvort introvertar eða extrovertar. Bara mismunandi mikið sem þeir sækja í aðra hvora áttina. Allir sem ekki er introvertar ættu samkvæmt því að vera extrovertar. Kannski er þetta tóm vitleysa hjá mér.

Nú eru allir uppfullir af hlutabréfunum Magnúsar. Eiginlega er það afar illa gert að eyðileggja traust manns á hæstarétti. Það hefur hingað til verið síðasta haldreipið, hvað sem Jón Steinar hefur sagt. Ef allt er rétt sem áðan var sagt í Kastljósi er svo sannarlega kominn tími til að hugsa sinn gang.

Get ekki að því gert að mér þykir of langt gengið þegar fólk er að séra minningar sem fésbókarfávitinn heldur að fólki. Sjálfur reyni ég að forðast slíkt.

Sá á gönguferðinni áðan eina 4 vita. Bæði var nefnilega léttskýjað og ég á ferðinni einmitt í dögun. Fjallasýn í austri var ágæt. Fer bæði hægar yfir og styttri vegalengd en í fyrra en samt munar alveg um þetta og ég held svolítið í þetta með klukkutímann.

IMG 2631Einhver mynd.


2549 - Birgitta

Ekki er fráleitt að álykta að Píratar og þá sérstaklega Birgitta vilji verða "Kingmaker“. Og hver á þá að verða kóngur. Nú, auðvitað Kata, Hún á nefnilega að verða forsætis. Píratar og Samfylking eiga bara að vera á hliðarlínunni og þeir sem segjast vera miðjuflokkar verða neyddir til að sameinast. Allt snýst þetta um völd og peninga. Málefnin skipta engu. Kata verður forsætis, Birgitta forseti alþingis, Benedikt fjármála og Óttarr utanríkis. Meira veit ég ekki í bili. Spilastokkurinn laskaðist.

Eftir þessu verður þetta þriggja flokka minnihlutastjórn. Er það nokkuð verra en hvað annað? Held að þetta geti bara orðið ágætt.

Jæja. Nú er ég hættur að spá. Er samt ekki sannfærður um að þetta fari í marga hringi ennþá. Takist ekki eitthvað svona þá hugsa ég að forsetinn sé tilbúinn meða utanflokkastjórn. Veit samt ekki hverjir verða ráðherrar þar.

Hundurinn er steinsofandi. Er búinn að fara einu sinni út með hann. Fer kannski aftur á eftir. Og án þess að nokkur segði mér það, vissi ég að skógurinn var steingerður orðinn af biðinni. Ég vissi það alltaf. Svona nokkuð er stórhættulegt. Maður gæti verið kærður. En ég óttast það ekki. Það er ekki von að þú fylgist með þessu hugsunarhætti, ég geri það varla sjálfur. En einhvern vegin verður þessu að ljúka.

Ertu að tala um þetta blogg? Því lýkur aldrei. Kannski skiptist það í kafla en því lýkur aldrei. Rétt er að færa aðra hverja eða þriðju hverja hugsun í orð. Með því má láta þetta líta út fyrir að vera gáfulegt.

Veturinn og þar með snjórinn lætur bíða eftir sér. A.m.k. er það þannig hér á sunnarverðu Vesturlandinu. Ekki nokkur minnsti snjór. Veit ekki hvar þetta endar. Hnatthlýnunin lætur ekki á sér standa. Og ekki Ólafur heldur. Er hann annars ekki yfirsnjókarl ennþá, þó Guðni sé búinn að taka yfir sumar skyldur hans?

Eftir hverju er verið að bíða? Á ekki að drífa sig í bað fyrir áramótin? Einu sinni var karl sem sagði „Ég fer nú í bað einu sinni á ári, hvort sem ég þarf þess eða ekki.“ Kannski það hafi verið jólabað. Skyldu bara brúnar hænur verpa brúnum eggjum? Nú er víst kominn inná jarðsprengjusvæði. Skrifaði samt ekki Brúnegg. Þ.e.a.s. ekki fyrren núna. Mér finnst það of takmarkandi að skrifa bara sögur o.þ.h. hér á bloggið. Þar að auki er ég farinn að ruglast dálítið í því hvað ég er búinn að skrifa hérna. Enda er það engin furða miðað við hve oft ég hef bloggað. Kannski er bara best að hætta áður en ég tala af mér.

IMG 2715Einhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband