2551 - Pisa

Ég held við ættum að hætta að taka þátt í þessum Pisa-rannsóknum. Við erum hvort eð er alltaf neðst þar eftir því sem fréttir herma. Það er ekki vani að halda á lofti rannsóknum á þáttum sem við erum ekki best í svo það ætti eiginlega að vera sjálfhætt í þessum ósköpum. A.m.k. birta það ekki með svo áberandi hætti sem gert hefur verið.

Orðalag í helstu fjölmiðlum landsins er oft fyrir neðan allar hellur. A.m.k. hefur Eiður Guðnason nóg að gera við leiðréttingar sem þó virðast með öllu tilgangslausar. Sama er að segja um fésbókaraðfinnslur. Ekkert virðist hrína á þeim sem ákveðnir eru í því að misþyrma málinu. Þó margt og mikið mætti tína til sem mér finnst ámælisvert í sambandi við góða íslensku þá reyni ég að stilla mig því ég veit, eða þykist vita, að fáir hafi til lengdar þolinmæði gagnvart sífelldum leiðréttinum. Svo er ekki einu sinni víst að ég hafi alltaf á réttu að standa. Ef maður er í vandræðum með eitthvað má næstum alltaf orða hlutina öðruvísi.

Þá er búið að setja alþingi og gekk það stórslysalaust. Steingrímur var kosinn forseti eins og hann langaði víst til. Ekki er samt ennþá búið að mynda ríkisstjórn, en Birgitta segist fremur vongóð um að það takist í þetta sinn. Annars fær Sigurður forsætis umboðið. Hann ætti nú að vera fljótur því enginn vill vera með Framsókn. Þar á eftir kemur röðin víst að Benedikt í Viðreisn og líklega verður hann fljótur að hlaupa í fangið á Bjarna Ben.. Ekki er ég frá því að þangað hafi hann alltaf langað. Þó er klofningurinn skrýtinn ef þessi verður raunin.

Markúsarmálið sem Kastljósið setti á flot virðist ætla að koðna niður. Fjölmiðlar hafa kannski ekki haft neitt til að fylgja því eftir með og hver veit nema ábendingar þeirra hafi frá upphafi byggt á röngum upplýsingum. Kannski er Krúsi greyið saklaus af þeim ávirðingum sem gefnar voru í skyn í Kastljósþættinum. Þar með hefur Kastljósfólkið sennilega kastað frá sér þeim „kudos“ sem það fékk af Brúneggjamálinu. Kannski þau taki fyrir Ásgautsstaðamálið næst. Segi bara svona. Annars finnst mér þetta mál með þeim athyglisverðari sem fram hafa komið að undanförnu. Valdsvið fjölmiðla er ekki síður hér undir en persónuvernd dómara. Gallinn við margt af því sem fram kemur í fjölmiðlum um þessar mundir er að það fær ekki þá umfjöllun sem það ætti skilið.

Eiginlega er ég mest hissa á veðrinu. Í morgun þegar ég fór út að ganga sagði síminn minn að hitinn væri 9 stig. Sennilega var það alveg rétt hjá honum. En mikið assgoti er birtutíminn stuttur um þessar mundir. Ætli veðrið verði ekki svolítið verra í febrúar og mars. Kannski hefnist okkur fyrir að fá svona gott veður núna. Annars held ég að það sé ekkert víst.

Það er að æra óstöðugan að minnast á stjórnarmyndun hérna. Held að það sé raunverulega stjórnarkreppa hér og hún leysist ekki nema með endurteknum kosningum. Bráðurm fer Guðni að hóta því að skipa utanþingsstjórn. Aðalhlutverk hennar gæti verið að finna réttan tíma fyrir næstu kosningar. Hugsanlega lagast vinnubrögðin á alþingi við þetta. Sárt er að sjá þingmenn stinga í vasana góðu kaupi fyrir ekki neitt. Þeir viðurkenna jafnvel sjálfir að framkoma þeirra sé fyrir neðan allar hellur. Sennilega væri til bóta að svipta þá kjörgengi alla sem einn.

loftsteinnEinhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Hverjir hóta óupplýstum og varnarlausum þingmönnum til að þiggja fjölmiðla-fjaðrafoks-þöggunar-kauphækkunum? Hvaða lögmannanna-dómstóll dæmir eða ver þingmenn löggjafavalds Íslands?

Fjölmiðlum ber skylda til að starfa samkvæmt siðmenntaðra réttarríkja lögmannaverjandi leikreglum?

Refsigleðina mætti leggja til hliðar, ásamt vanþroska öfundinni illgjörnu. Því það að myndi minka mengunina hugafarslegu og heilsu-skaðlegu á allan annan hátt.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 8.12.2016 kl. 16:24

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Og svo er rétt að gera grín að pissukeppni karlaveldis-ráðamanna í þessari ójöfnu og marklausu pólitísku PÍSA könnun, (eins og hún er kölluð í áróðursfjölmiðlunum ábyrgðarlausu).

Gleymdi því bara áðan, að velta pissukeppninni valstjórnarkarlastýrðu uppá umræðugrundvöllinn.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 8.12.2016 kl. 17:44

3 identicon

Reykjavíkurborg hætti að vera með í þjónustukönnunum. Leiðinlegt að vera alltaf neðst.

GB 8.12.2016 kl. 19:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband