Bloggfærslur mánaðarins, júní 2015

2341 - Að blogga

„Hvers vegna sjá eigendur Árvakurs - Guðbjörg Matthíasdóttir, Þorsteinn Már Baldvinsson, Kaupfélag Skagfirðinga, Gunnþór Ingvason, Ólafur Marteinsson, Sigurbjörn Magnússon og fleiri, sem eru eigendur ýmist af sjálfsdáðum eða fyrir hönd annarra - ekki að þeir eru að skaða heilbrigði íslensks samfélags með því að hafa ritstjóra í vinnu sem hefur hag af og hikar ekki við að reyna markvisst að villa um fyrir lesendum sínum í eiginhagsmunaskyni?" Sömu spurningu má svo einnig beina til starfsfólks Morgunblaðsins.

Þetta rakst ég á rétt áðan og er svosem alveg sammála því. Vonandi á þetta þó ekki við um „Moggabloggara“. Tel mig engan stuðningsmann Davíðs Oddssonar þó hann hafi gert ýmislegt gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Man samt vel eftir því að ég missti endanlega trúna á hann þegar hann hélt því fram að ÓRG væri vanhæfur til einhvers vegna þess að dóttir hans vann hjá einhverjum sem honum var illa við. Að forsætisráðherra skyldi geta látið annað eins bull útúr sér ofbauð mér algjörlega.

Held að Grikkir verði gjaldþrota í alvörunni á næstunni. Einnig að núverandi ríkisstjórn heykist á því að halda áfram. Óvinsældir hennar aukast líka í sífellu. Þjóðhátíðarbaulið á ekki eftir að valda neinum straumhvörfum eins og Guðni Th. vill meina. Vitanlega er það svolítið óviðeigandi, en vorkunn er þeim samt sem umfram allt vilja koma hremmingum sínum á framfæri. Sennilega er það ekki í mannlegu valdi að skapa réttlátt þjóðfélag fyrir alla meðlimi þess.

Er alls ekki að draga úr því að mér finnst hafa vorað bæði seint og illa undanfarið. Get samt ekki annað en spurt: Erum við ekki bara svo góðu vön? Undanfarin ár hafa nefnilega verið óvenju góð að þessu leyti. Annars er það úrkoman sem mér finnst versti óvinurinn. A.m.k. er það svo á gönguferðum. Kulda er auðvelt að klæða af sér. Verra með skúrirnar (skúrana) þær koma oftast á óvart.

Eiginlega líkar mér alveg stórvel að búa hér á Akranesi. Lyftan klikkar aldrei (7-9-13) og allt í toppstandi. Hef lítil orðið var við nágrannana. Einangrun er orðin svo svakalega góð í nýlegum fjölbylishúsum. Hef afar fás að sakna úr Kópavoginum. Húsið var eldgamalt og svolítið farið að láta á sjá. Þessi blokk er hinsvegar ný byggð og í toppstandi. Svo er maður mun nær krökkunum sínum hérna (þó ekki öllum) og það er stutt að fara á milli. Kannski förum við á Suðurlandið fljótlega. Þar þekkjum við líka fjölmarga.

Það er alveg ágætt að blogga sem sjaldnast. A.m.k. ef maður hefur ekkert að segja. Mér finnst ekki taka því að blogga mikið þessa dagana. Kannski breytist þetta einhverntíma, en eins og er finnst mér þetta ágætt. Það er engin ástæða til þess að blogga bara til þess að blogga. Það gerði ég samt einu sinni. Þá fannst mér tilheyra að blogga á hverjum degi. Vona að ég taki ekki uppá þeirri vitleysu aftur. Auðvitað mætti einnhvað á milli vera. Mér finnst langt síðan ég bloggaði síðast. Hef samt sett einhverja speki á blað og er nú að hugsa um að losna við það.

Finn enga mynd til að setja í þetta blogg. Sennilega er bættur skaðinn. Hef þetta blogg bara myndlaust.


2340 - Um verkföll og fl.

Ég spái því í einlægni að Píratar auki enn við fylgi sitt í næstu skoðanakönnun og fylgi ríkisstjórnarinnar muni minnka. Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson þekkja greinilega ekki sinn vitjunartíma. Þeir hefðu getað snúið af rangri braut núna en gerðu það ekki. Valt er að treysta á gullfiskaminni kjósenda. Fyrirlitning þeirra á samtökum launafólks leynir sér ekki. Framsóknarflokkurinn mun eflaust reyna að spila út þjóðrembu- og innflytjendahræðslu spilunum í næstu kosningum en líklegast er að með því fæli þeir í burtu góða og gegna framsóknarmenn sem hingað til hafa kosið flokkinn af gömlum vana. Sjálfstæðismenn hafa bara aðra lífsskoðun en fjöldinn og eru að einangrast.

Þó margir hafi verið sammála ríkisstjórninni í því sem gert var í sambandi við gjaldeyrishöftin núllar það ekki út mistök hennar í verkfallsmálum. Þegar frá líður skipta einstök mál samt ekki mestu máli í pólitíkinni heldur hver aðalstefnan er. Mér finnst hún vera í átt að ameríska (eða réttara sagt bandaríska) módelinu. Sjálfum finnst mér nær að stefna í átt að því Skandinavíska. 

Ef ég væri sjö ára gutti núna og ætti að velja mér kennara þá mundi ég sennilega velja þau Hildi Lilliendahl (veit ekki til þess að hún sé kennari en sjálfsagt endar hún þar), Snorra í Betel og Pál Vilhjálmsson. Þau öfl í þjóðfélaginu sem öllu vilja ráða reyna eftir megni að fá þá kennara sem hugsa til að hætta. Kennsla ungu kynslóðarinnar í skólum landsins verður sífellt mikilvægari. Á eftir foreldrunum verða kennararnir börnunum minnisstæðastir. Kennarastarfið er mikilvægara en flest annað. Samt verða kennarar að fá að tjá sig opinberlega um stjórnmálaleg efni.

Vinstri stefna mín í stjórnmálum er alltaf að aukast. Þó er aðgreiningin í vinstri og hægri sífellt að verða óljósari. Umgengnin við náttúruna er kannski það mikilvægasta. Mörgum hættir samt til að álíta peninga það allra nauðsynlegasta. Auðvitað eru þeir afl þeirra hluta sem gera skal. Iðjuleysi er samt það sem mestu máli skiptir.  

Fésbókin, síminn og allt sem nútímatækni fylgir og fylgja ber, stjórnar flestu í nútímaþjóðfélagi. Hvernig forfeður okkar komust af án þess að geta haft samband svotil hindrunarlaust við hvern sem er, hvenær sem er, það er nánast óskiljanlegt. Bylting sú sem tölvuvæðingin og farsímarnir hafa valdið er næstum áþreifanleg. Samt eru margir einmana í þessu allsnægtaþjóðfélagi okkar. Skömm okkar er mikil þess vegna. Hvernig Íslendingar komust frá örbirgð til allsnægta er mikið ævintýri. Sú kynslóð sem nú er að hverfa átti mikinn þátt í því.

WP 20150605 14 48 32 ProFjallasýn á Akranesi.


2339 - Angela og Páll

Er að hugsa um að blogga smá núna. Það er svo assgoti langt síðan ég gerði það síðast. Ég má eiginlega ekki alveg týna þessu niður. Aðrir hafa sennilega ekkert gaman af því en ég get ekki án þess verið. Tölvan er að vísu svolítið hæg hjá mér, en það er ekkert til vandræða. Mislyndið er verst. Stundum er hún í hrikalegu óstuði og afskaplega hægfara, en þess á milli næstum eðlileg.

Kannski er Angela Merkel einhver merkasti stjórnmálamaður samtímans. Þó er öll persónudýrkun hættuleg. Oft hefur farið illa ef hún hefur orðið of ríkjandi. Nú um stundir er það helst Grikklandsmálið sem veldur mikilli Þórðargleði hjá andstæðingum ESB. Samt er það enginn vafi að hættulegast heimsfriðnum er Ukraínudeilan. Þar er barist og hæglega geta þeir bardagar breiðst út.

Vafasamt er hvort rétt er að kalla yfirgang Rússa þar yfirgang, því eflaust finnst þeim mörgum sem þeir hafi verið niðurlægðir á undanförnum árum. Þjóðernislegur metnaður er allri pólitík líklegri til að valda vandræðum í samskiptum þjóða. Ágreiningur í þeim efnum getur hvenær sem er blossað upp og ef siðir og venjur eru mjög ólíkar má alltaf búast við átökum. Hið góða í manninum hefur samt unnið á síðan seinni hálfleik heimsstyrjaldarinnar á síðustu öld lauk.

Nú er ráðist á Pál greyið Vilhjálmsson fyrir að rökræða orðið „nauðgun“ á blogginu sínu. Eftir blaðagreinum sem ég hef lesið er Páll þessi, auk þess að vera bloggari sem sjálfur Davíð Oddsson vitnar í, kennari í Garðabæ. Á sama hátt og ég studdi Snorra í Betel í máli sínu gegn Akureyrabæ finnst mér að Páll ætti í þessu efni að mega hafa skoðanir sínar í friði. Samt er ég mjög á móti ýmsum pólitískum skoðunum hans og minnir að ég hafi látið það í ljós hér á blogginu mínu.

Persónulegar og pólitískar skoðanir kennara finnst mér alls ekki að eigi að reyna að nota gegn þeim. Páll er það sem ég vil kalla „últra-íhaldsseggur“ en samt finnst mér að hann eigi að njóta málfrelsis. Á sama hátt er ekki annað að sjá á málflutningi Snorra í Betel en að hann trúi eins og nýju neti öllu sem stendur í Biblíuni. Pólitísk rétthugsun á þessu sviði er mjög hættuleg.

WP 20150531 17 25 38 ProGegnum grindverkið.


2338 - Hinar gírugu stéttir

Ég held að talsverð og jafnvel veruleg hætta sé á að verðbólgan fari af stað ef samningar þeir við hrægammana sem boðaðir hafa verið verða ekki alveg sérlega hagstæðir okkur Íslendingum. Auðvitað verður „gírugum verkalýðsstéttum“ kennt um verðbólguna og líklega allt heila havaríið ef ástandið fer úr böndunum og ekki er hægt að útiloka uppþot og óeirðir fari allt á versta veg. Furða er hve rólega fólk tekur því neyðarástandi sem vissulega ríkir hér á Íslandi. Alþingi er að mestu leyti óstarfhæft og stjórnvöld öll trausti rúin. Ekkert bendir til annars en ríkisstjórnin vilji helst stjórna með tilskipunum einum. Að sjálfsögðu yrði þá allt sem ríkisstjórnin leggur til gott og fallegt í sjálfu sér. Líklegt er þó að flest yrði við slíkar aðstæður einkum ætlað til að auka völd hennar (ríkisstjórnarinnar). Svona lít ég bara á málin og get ekkert að því gert.

„Swatting“ er það kallað þegar lögregla og einkum víkingasveitir hverskonar eru plataðar til að fara á einhvern ákveðinn stað. Víða (t.d. í BNA) er þetta mikið vandamál því auðvelt er að leyna símanúmerum þar. Oftast eru það óharðnaðir unglingar sem fyrir þessu standa og hafa litla sem enga hugmynd um hvað þeir eru að gera. Grobba jafnvel af því. Refsingar fyrir brot af þessu tagi fara harðnandi og kostnaður sem af þessu leiðir getur í litlum samfélögum orðið tilfinnanlegur.

Eitthvað hafa myndbirtingar farið í handaskolum hjá mér að undanförnu og er hérmeð beðist velvirðingar á því. Vonandi tekst mér að ráða bót á því nú með sumarkomunni. (Loksins) Vera mín hér Akranesi ætti ekki að hafa nein áhrif á það sem ég skrifa. Fréttir flyt ég engar, en reyni þess í stað á koma með ýmsar fréttaskýringar og vera sem gáfulegastur í tali.

Hef tekið eftir því að lesendum mínum fjölgar verulega ef ég skrifa eitthvað og fækkar jafnvel meira en áður ef ég skrifa ekki neitt. Það finnst mér benda til vaxandi tölvulæsis og að menn séu meira og minna hættir að fara einhvern ákveðinn rúnt á netinu, en bíði frekar eftir því að tilkynningar komi til sín. Kannski er fésbókin hér að koma til hjálpar. Ótrúlega margir virðast líta í þá bók daglega og jafnvel oft á dag. Segja má að fésbókin sé hin nýja Biblía fjöldans.

WP 20150515 18 28 39 ProGámur losaður.


2337 - Akranes

Nei, ég er ekki dauður, en hinsvegar fluttur uppá Akranes þar sem pólitísk áhrif mín næstum því tvöfaldast. Þannig er þetta íslenska kerfi sem smíðað hefur verið með ærinni fyrirhöfn. Ég er kominn á áttræðisaldurinn og á margan hátt var það heilmikið átak að flytja búferlum úr sollinum hér fyrir sunnan og viðurkenna ber að það var ekkert áhlaupaverk. Vorkenni SDG næstum fyrir að hafa þurft að standa í þessu. Eða flutti hann ekki búferlum eitthvað austur á land fyrir skemmstu?

Fyrir allmörgum árum beið ég langtímum saman í húsi vinnuveitandasambandsins í Garðastræti eftir því að samið yrði. Þá var hallærið hjá verslunarmönnum svo mikið að ég var í samninganefnd verslunarmanna enda formaður Verslunarmannafélags Borganess þá og í órólegu deildinni meðal verslunarmanna ásamt ýmsum öðrum m.a. Kidda sleggju. Þar var beðið og beðið eftir að BHM eða einhverjir lykju samningum og svo flýttu menn sér að leggja lokahönd á málið og eltu BHM. Kannski hét það BSRB þá annars. Engar vöfflur eða neitt a.m.k. ekki fyrir óbreytta samningamenn. Svo var haldið heimleiðis, sennilega í Borgarnes, með óbragð í munninum. Seinna meir lenti ég svo á nokkrum Alþýðusambandsþingum sem fulltrúi VR og var talinn í liði með Magnúsi Sveinssyni, en hefði svikið hann umhugsunarlaust ef ástæða hefði verið til.

Þó ég hafi ekki haft sjónvarp eða netsamband alllengi er ég að hugsa um að láta alveg ógert að úttala mig um fréttir dagsins. Auðvitað er það fáránlegt fyrirtæki að láta sér detta í hug að kúga fé útúr forsætisráðherra landsins. Hins vegar er það víst fremur algengt þegar sérsveitin fer í byssuleik þá umkringi hún vitlaus hús jafnvel snarvitlaus. Þó þetta þyki merkilegar fréttin hérlendis er ekki víst að þær komist á topp 100 fréttir dagsins úti í hinum stóra heimi.

IMG 2301Við höfnina. (á Akranesi).

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband