Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015

2286 - Lánasjóðurinn

Horfði í kvöld á Kastljós. Þar var lýst viðskiptum Lánasjóðs Íslenskra Námsmanna við erfingja Steingríms Hermannssonar. Fátt eða ekkert kom mér á óvart í því máli. Opinberar stjórnsýslustofnanir hafa áratugum saman stolið og reynt að stela eignum og fjármunum af fólki. Að erfingjar Steingríms skuli reyna að verja sig hefur líklega komið stjórnvaldamafíunni á óvart. Sjálfur skrifaði ég talsvert um svokallað Ásgautsstaðamál fyrir u.þ.b. ári síðan. Lögfræðingar hafa reynt að hafa áhrif á það mál en stjórnsýslan stendur fast á móti. Ef mögulegt er með lagakrókum og hugsanlega aðstoð dómsvalds að styðja málflutning stjórnvalda er það gert. Þetta vita allir sem reynt hafa. Ef formaður stjórnmálaflokks lendir í svona löguðu, þá er það bara ágætt. Hugsanlega verður hlustað á hann.

Á margan hátt er Moggabloggið skárra en fésbókin. Líklega er Twitterinn (ef maður kemur einhverntíma til með að læra á hann) verri en fésbókin. Þar er gert ráð fyrir að aðallega séu settar inn myndir og myndbönd og ef settur er texti þá á hann að vera sem allra stystur. Já, ég er að tala um fésbókarfjandann. Auðvitað er hægt að setja þar lengri texta og ýmsir gera það, en þá fer kerfið í fýlu og heimtar aukaklikk ef farið er fram yfir fáeinar línur. Og svo held ég að ekki sjái það aðrir en fésbókarvinirnir, nema einhverjum þyki það nógu merkilegt til að séra það. En ég er sko enginn fésbókarfræðingur og skil alls ekki kerfið sem þar stjórnar öllu. Aftur á móti er ég orðinn sæmilega að mér í öllu sem að Moggablogginu snýr nema ég þori helst ekki að fikta að neinu ráði í útlitinu.

Mestallt mitt fréttavit er komið úr RUV-inu, Kjarnanum, Eyjunni og Jónasi Kristjánssyni. Dévaffið og mbl.is lít ég líka stundum á. Pappírspési er ég enginn og þarf aldrei (eða a.m.k. mjög sjaldan) að setja gömul dagblöð í pappírstunnuna. Þeim mun meira þarf ég að setja þar af mjólkurfernum, auglýsingabæklinum  og þessháttar.

Vel er hægt að halda því fram að ekkert skipti meira máli en svokölluð Ukrainudeila. Fátt er eins hættulegt heimsfriðnum og deilur Rússa og Bandaríkjamanna. Um það vitnar „kalda stríðið“ svonefnda. Þegar Sovétríkin liðu undir lok um 1990 lauk því stríði án þess að uppúr syði. Vesturveldin töldu sig hafa unnið það stríð, en Rússar voru niðurlægðir. Pútín er vinsæll núna á meðal Rússa og fátt bendir til að þeir muni hætta að skipta sér af hernaði aðskilnaðarsinna í austurhluta Ukrainu. Held satt að segja að Þjóðverjum sé betur treystandi til að varðveita heimsfriðinn en Bandaríkjamönnum.

Ekki er rétt að líkja Pútín við Hitler sáluga því í stað útþenslustefnunnar virðist mér að gerðir hans stjórninst aðallega af ótta við NATO. Vissulega er hann vinsæll heimafyrir en skoðanir hans virðast við fyrstu sýn alls ekki vera eins öfgafullar og Hitlers.

Svei mér ef Víglundarmálið er ekki að lognast útaf. Enda er svo stórt samsærismál ekki beinlínis trúverðugt. Samt eru það ýmsir sem trúa öllum samsæriskenningum sem þeir heyra. Hinsvegar gæti skattskjólsmálið orðið Bjarna Ben. skeinuhætt. Það trúir honum ekki nokkur maður þegar hann segir að sér komi það ekkert við. Ég hef sagt það áður og segi enn að ef t.d. Þjóðverjar geta fundið lagalega leið til að kaupa svonalagað þá ættu snillingarnir íslensku ekki að vera í vandræðum með það.

Eiginlega trúi ég því ekki fyrr en ég tek á því að utanríkisráðherra sé svo skyni skroppinn að leggja ESB-frumvarpið fram aftur. Líklegast er að bæði það frumvarp og kvótafrumvarpið sem beðið hefur verið eftir lengi verði svæfð og ekki lögð fram.

Væri ekki ráð að hafa ráðuneytin svona 30 eða fleiri. Reyndar væri ofrausn að hafa ráðherrana svo marga, því þeir ættu að fara létt með að stjórna nokkrum ráðuneytum hver. Ómar Ragnarsson vill stofna sérstakt ferðamálaráðuneyti og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Jakob Frímann Magnússon hafa talað um sérstakt menningarráðuneyti. Stjórnmálamenn hafa verið uppteknir af þeirri firru undanfarið að sameina ráðuneyti. Tiltölulega auðvelt ætti að vera að láta slíkt ganga til baka. Vel væri hægt að stofna sérstakt efnahagsmálaráðuneyti, og landsbyggðarráðuneyti væri alveg upplagt. Þannig mætti lengi telja. Bandaríkjamenn voru a.m.k. til skamms tíma með ráðuneyti sem var skammstafað HEW og stóð sú skammstöfun fyrir health, education and welfare, en þeir eru nú svo vitlausir og elska þar að auki skammstafanir.

WP 20150113 11 38 37 ProSnjór.


2285 - Turing

Einn af mestu hugsuðum síðustu aldar var án efa Alan Mathison Turing, sem Turing-vélin svokallaða er kennd við. Segja má að hann hafi einnig unnið ómetanlegt starf fyrir bandamenn í heimsstyrjöldinni síðari með því ásamt öðrum að ráða dulmál þýskra nasista svo sem frægt varð. Einnig má með miklum sanni segja hann föður tölvutækninnar og gervigreindarinnar. Hann var samkynhneigður og leyndi því ekkert öfugt við flesta aðra sem líkt var ástatt um. Á þeim árum var samkynhneigð álitinn glæpur og meðhöndluð sem slík. Turing var dæmdur fyrir kynvillu og hugsanlega var sjálfsmorð hans árið 1954 tengt því.

Auk alls annars var Turing þekktur sem Maraþonhlaupari og tvímælalaust einn af þeim bestu. Nýlega var endurprentuð fræg ævisaga Turings eftir Andrew Hodges sem fyrst kom út árið 1983 og á henni er kvikmyndin „The Imitation game“ lauslega byggð. Þessi bók nefnist „Alan Turing: The Enigma“. Með Enigma nafninu er bæði átt við hina frægu dulmálsvél þýsku nasistanna og Alan sjálfan, en sálarlíf hans var á margan hátt ráðgáta hin mesta.

Gúgli hjálpar þeim sem lítið vita til að skrifa eins og þeir séu sérfræðingar. Þó ég hafi vitað ýmislegt um Alan Turing fyrirfram, hefði ég aldrei getað skrifað greinarstúf eins og þann hér að framan ef ekki hefði komið til aðstoðin frá honum. Bæði notaði ég Gúgla til að staðfesta ýmis atriði sem ég taldi mig þó vita og auk þess var sumt sem ég beinlínis vissi ekki fyrir sem ég fékk upplýsingar um hjá honum. Gúgli vísar mikið í Wikipediu og upplýsingar eru þar um ýmislegt. Vera þarf þó á verði fyrir því að upplýsingar á netinu geta verið rangar, því allir eða næstum því allir geta sett færslur sínar þangað. Oft er því nauðsynlegt að fá upplýsingar víðar að.

Mig minnir að það hafi verið Þórarinn Eldjárn sem fabúleraði heilmikið um Guttavísur í einhverju sem ég las fyrir löngu. Guttavísur kunni ég og sönglaði mikið þegar ég var krakki. Einkum minnir mig að hann hafi gert mikið úr orðunum ,Grettir Sig, sem þar koma fyrir. Haldið því m.a. fram að stór stafur ætti að vera þar því um mannsnafn væri að ræða. Hugmyndin er fyndin og fráleit og á margan hátt í stíl við Þórarinn sem á það til að slá fram fráleitum fullyrðingum og rökstyðja þær svo á frumlegan hátt.

Datt í hug að spyrja Gúgla um Guttavísur og ekki stóð á svarinu. Svona segir hann að Guttavísur séu og ekki ætla ég að mótmæla því:

Sögu vil ég segja stutta, sem að ég hef nýskeð frétt.
Reyndar þekkið þið hann Gutta, það er alveg rétt.
Óþekkur er ætíð anginn sá, 
út um bæinn stekkur hann og hoppar til og frá.
Mömmu sinni aldrei unir hjá,

eða gegnir pabba sínum. 
Nei, nei það er frá.
Allan daginn, út um bæinn eilíf heyrast köll í þeim:
Gutti, Gutti, Gutti, Gutti, Gutti komdu heim.

Andlitið er á þeim stutta, oft sem rennblautt moldarflag.
Mædd er orðin mamma hans Gutta, mælir oft á dag:
Hvað varst þú að gera, Gutti minn? 
Geturðu aldrei skammast þín að koma svona inn?
Réttast væri að flengja ræfilinn. 
Reifstu svona buxurnar og nýja jakkann þinn?
Þú skalt ekki þræta Gutti, það er ekki nokkur vörn. 
Almáttugur! En sú mæða að eiga svona börn.

Gutti aldrei gegnir þessu, ”grettir sig” og bara hlær,
orðinn nærri að einni klessu undir bíl í gær.
Onaf háum vegg í dag hann datt. 
Drottinn minn. Og stutta nefið það varð alveg flatt 
eins og pönnukaka. Er það satt? 
Ó, já, því er ver og miður, þetta var svo bratt.

Nú er Gutta nefið snúið,
nú má hafa það á tröll.
Nú er kvæðið næstum búið,
nú er sagan öll.

Höfundur þessara vísna er Stefán Jónsson sá hinn sami og samdi sögurnar af Hjalta litla sem voru á sínum tíma lesnar í tætlur á mínu bernskuheimili. Auðvitað vill sá sem sló þetta inn að sín sé líka getið. Ég álít aftur á móti að svo margir hafi gert það, að slíkt sé óþarfi.

Fátt fælir mig eins mikið frá fésbókinni og orðin „share to play“. Stundum langar mig til að skoða vídeó sem eru þannig merkt, en í rauninni lít ég á þessháttar sem hvern annan vírus og yfirleitt forða ég mér sem skjótast út af fésbókinni ef ég rekst á þessi hötuðu orð. Áreiðanlega gera það ekki allir því ég ímynda mér að þá fengi svonalagað enga dreifingu. Enginn hörgull virðist vera á ávirðingum á hendur fésbókinni og ætli það sé ekki nóg að hafa eitt slíkt í hverju bloggi. Þó hef ég ekkert fjallað um staðreyndasöfnun og njósnir þeirra sem eiga fésbókina.

IMG 2108Tré.


2284 - Já, fatlað fólk gleymist

Það er ekki nóg með að ég sé meðal þeirra elstu og reyndustu hér á Moggablogginu, heldur hugsa ég að það séu fáir sem tekið hafa eins miklu ástfóstri við forsíðumynd sína á fésbók og ég. Mig minnir að þessi mynd sé tekin í Danmörku árið 2008, skömmu fyrir hrun. Samt er ég orðinn gráhærður. Sumir virðast skipta reglulega um forsíðumynd þegar þeir hafa ekkert annað að gera, en ekki hann ég.

Í bréfskákum mínum hef ég fyrst og fremst gaman af áhugaverðum endatöflum. Leiðist miðtaflið og byrjanirnar. Endataflið miða ég gjarnan við að drottningarnar séu farnar af borðinu því að þá er oftast óhætt að hætta við hrókun og huga meira að peðastöðunni og þessháttar. Svo finnst mér líka hæfilegt að hafa þriggja daga umhugsunartíma og tefla svona 20 skákir í einu. Tefli sumar stöður alltof lengi. Andstæðingar mínir gera það oft líka. Sjálfshól búið.

Eina möglega ástæðan fyrir því að upplýsingar um skattsvikara verða að öllum líkindum ekki keyptar er sú að áhrifamenn í þjóðfélaginu óttast mjög um sinn hag. Ekki sú sem Bjarni Ben. og fleiri halda fram, að vafi leiki á því að slík kaup séu lögleg. Slíkur vafi hefur ekki síður verið í nágrannalöndunum.

Ég frétti fyrst af þessu með fötluðu stúlkuna sem gleymdist í bílnum í 10-fréttum sjónvarpsins á miðvikudagskvöldið. Greinilega var fréttalesari sjónvarpsins talsvert sleginn yfir þessari frétt og mátti vel vera það. Auðvitað ber fyrirtækið Strætó bs eða stjórn þess ábyrgð á þessum afglöpum og ekki síður eigendur þess fyrirtækis. Að öðru leyti vil ég ekki tjá mig um þetta hörmulega mál. Vafasamt er þó að afsögn leysi nokkurn vanda.

Hér á blogginu hef ég lagst gegn því að breyta klukkunni. Samt er ég á því að aukinn birtutími á morgnana, á kostnað birtunnar seinni hluta dags, hentaði mér betur. Þetta finnst mér a.m.k. núna. Kannski er það vegna myrkursins á morgnana, sem ég segi þetta, en það tekur enda. Ástæðan fyrir því að sumartíminn (daylight saving time) hefur ekki yfirleitt verið afnuminn í öðrum löndum kann að vera læknisfræðilegs eðlis. Ruglandinn sem af því stafar að vera sífellt að breyta klukkunni er helsta ástæðan fyrir því að ég er andvígur klukkubreytingu núna. Langt er þó síðan ákveðið var  að hafa alltaf sumartíma hér og hætta að breyta klukkunni tvisvar á ári.

IMG 2091Trjágarður.


2283 - Lykilorð o.fl.

Innskráningarnöfn, pin-númer, lykilorð og hverskonar auðkenni (þó ekki kennitala, hana er ég búinn að læra) eru að gera mig vitlausan. Kannski er því líkt farið með marga á mínum aldri. Um þetta gerði ég smávísu, sem allsekki er fullkomin frá bragfræðilegu sjónarmiði:

Lykilorðasóttin
læknar ei minn hag.
Með henni kemur óttinn
við ókominn dag.

Þegar rætt er um ókominn dag dettur mér í hug það sem enskurinn kallar „prepper, EMP“ og þessháttar. Bandaríkjamenn virðast afskaplega uppteknir af því að allt geti farið til fjandans og þá standi menn einir uppi og enginn geti hjálpað þeim nema þeir sjálfir. Kannski er það bara ég sem hef óeðlilegan áhuga á öllu sem tengist apocalypse, dystopiu  og  þvíumlíku. Orðið prepper er dregið af ensku orðunum „be prepared“ og EMP er skammstöfun fyrir electromagnetic pulse. Leiðbeiningabækur um niðursuðu matvæla og ýmislegt þessháttar höfða mjög til „preppers“, því þeir hafa mjög í heiðri skátaeinkunnarorðin gömlu: Vertu viðbúinn. Segulskotið (EMP) á að geta skemmt verulega svotil öll raftæki (og bíla) á vissu svæði á einu augnabliki. Um þetta alltsaman má endalaust fjölyrða og kannski geri ég það seinna.

Skáldsögur eru leiðindafyrirbrigði. A.m.k. þær sem hæstmóðins eru núumstundir. Þ.e.a.s. krimmar og æsingsbækur allskonar. Ævisögur og minningaþættir finnst mér skárri. Í krimmunum og flestum skáldsögum einnig snýst flest um eina hugmynd sem reynt er að teygja með fordómum og fávitahætti höfundarins á sem flestar blaðsíður. Oftast er hugmyndin í mesta lagi 10 blaðsíðna virði og það sem framyfir er, bara uppfylling. Mikið meira en helmingurinn af orkunni (höfundarins og annarra) fer síðan í svokallaða markaðssetningu. Þ.e.a.s. auglýsingar, uppáskriftir og ýmislegt annað. Vissulega eru þetta stór orð og sýna umfram allt hve indbildskur (dönskusletta) ég er.

Hef fremur lítið álit á umræðuþættinum nýja á RUV. Styrmir reynir að stjórna og taka fram fyrir hendurnar á Boga, sem heldur að hann stjórni. Þórhildur tekur ekki eftir neinu en talar bara og talar og hugsar stundum að því loknu. Að þrír stjórnendur séu að einum litlum útvarpsþætti er sennilega ofrausn. Þó hann sé í sjónvarpi.

Allt er semsagt heldur neikvætt hjá mér í þessu bloggi. Kannski ég ætti að líta svolítið jákvæðari augum á tilveruna. Sumt í náttúrpassamálinu er ekki svo galið. Þó finnst mér hugmyndin í heild ekki góð og aðrar eru svosem ekkert betri. Sjálfstæðismönnum yfirleitt ætti að lítast illa á þessa hugmynd en þó held ég að henni verði bara breytt lítilsháttar og samþykkt síðan eftir flokkslínum. Óþarfi að fara á límingunum útaf þessu. Aftur á móti held ég allt verði vitlaust ef viðræðuslitatillagan kemur fram aftur.

IMG 1986Jólaundirbúningur.


2282 - Ásdís Halla

Mikið er fjargviðrast útaf náttúrupassanum svonefnda. Ég get vel fallist á að hugmyndin sé slæm. Mest er ég þó hræddur um að framkvæmdin verði dýr og ómarkviss. Ekki held ég að þessi aðferð gagnist hugsjóninni um einka-eignarréttinn að nokkru marki. Með tímanum er hætt við að þetta ásamt mörgu öðru verði til þess að gera ferðamenn afhuga Íslandi. Hótelbyggingar yrðu þá eins og hver önnur refabú eða laxakvíar um allar sveitir. Snjór og ís eru víðar en hér á landi. Jafnvel norðurljós og eldfjöll líka.

Ásdís Halla Bragadóttir var um skeið bæjarstjóri í Garðabæ og auk þess framkvæmdastjóri Byko eitt sinn, ef ég man rétt. Sennilega er hún últra-öfga-íhaldsmaður og viðskiptablaðið hugsanlega líka. A.m.k. sá það blað fyrir nokkru ástæðu til að hampa eftirfarandi ummælum hennar: „Albanía er ljósárum á undan okkur í valfrelsi og samkeppni í heilbrigðisrekstri“.

Trúi þessu einfaldlega ekki. Hugsjón Ásdísar held ég að sé sú að heilbrigðiskerfið hér á Íslandi verði sem líkast því sem er í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þar á hún e.t.v. samleið með mörgum sjálfstæðismanninum. Ég er hinsvegar sammála Jóni Baldvini um að norræna módelið í þessu efni, eins og mörgum öðrum, henti okkur Íslendingum betur.

Þó talsvert margir lesi bloggið mitt eru athugasemdir við það í lágmarki. Kannski er það vegna þess að flestir sem lesa það eru mér að mestu sammála. A.m.k. vona ég það. Líka er hugsanlegt að það sé vegna þess að þeim finnist ekki taka því að kommenta á rausið í mér. Það vil ég helst ekki álíta svo ég held mig fremur við fyrri skýringuna. Sjálfur les ég frekar það sem ég er nokkurn veginn sammála þó auðvitað megi finna dæmi um hið gangstæða. Ekki kommenta ég samt að neinu ráði. Eða það finnst mér ekki.

Að mörgu leyti eru það alþjóðleg stórfyrirtæki sem stjórna heiminum. Við Íslendingar (í krafti núverandi ríkisstjórnar) viljum þó gjarnan að USA geri það. Alls ekki Evrópusambandið. Gallinn er bara sá að fyrirtækin stjórna báðum þessum landfræðilegu fyrirbærum ásamt fjölmörgum öðrum. Heimurinn kippir sér lítið upp við það þó stigið sé ofan á stórt og fjölmennt ríki eins og Ukrainu. Hversvegna ætti hann þá að gera það vegna okkar Íslendinga? Bandríkjamenn nenna ekki lengur að vernda okkur og hver gerir það þá?

Flesta morgna fer ég í gönguferð. Markmiðið er að annað hvort verði um að ræða klukkutíma eða 5 kílómetra. Caledosinn fylgist með því. Oft gerist ýmislegt á þessum ferðum. Gerði t.d. vísu í morgun. Hún er svona:

Krummarnir krunkast á
kannski þeim líki það.
En gæsirnar gargandi þá
geysast á nýjan stað.

Nú er ég búinn að finna uppá nýju prójekti. Er að hugsa um að hefja lestur á mínum eigin gömlu bloggum. Allavega eru þau nógu mörg. Ætli ég reyni ekki að byrja á byrjuninni. Ég var áðan að lesa gömul blogg eftir sjálfan mig og alveg er ég hissa á því hve vel þau eru skrifuð. Gott ef það er bara ekki einhvern frægur og löngu dauður rithöfundur að skrifa i gegnum mig. Annars ætti ég ekki að vera að þessu endalausa sjálfshóli. Á margan hátt lýtir það annars sæmilegt blogg. Besservisseraháttinn get ég þó ekki alveg losnað við.

IMG 1968Í Hörpunni.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband